sunnudagur, 28. desember 2008

Búmm búmm dagar



Það er eitthvað sérstakt, æsandi og spennandi við að búa til háan hvell. Sprengingu. Sprenging er partur af galdri sem kemur af stað vái og aðdáun og pínulítið trylltri gleði sem ryðst upp úr mér í notalegum víbríngi. Kannski er partur af þessum magnaða seyði sá, að hann er eingöngu framkallaður einu sinni á ári. Á búmm búmm dögunum.


Allt frá því ég var gutti var lögð vinna í að framkalla þessi undur. Þá þurfti að taka sundur flugelda og vefja nýja hólka til að magna hvellina. Stundum var kappið meira en forsjáin eins og þegar kviknaði í herberginu hans Garðars eftir að þeir Gunni bróðir voru að hjálpast að við fiktið.

Nú eru meiri hvellir seldir yfir búðarborðið og óþarfi að fara í hættulegt föndur með sprengiefnin, bara sýna aðgát. Allt frá því að strákurinn minn var lítill hef ég reynt að leiða hann í sannleikann um umgengnina við sprengiefnin í þeirri von að hann fari gætilega að þeim, þegar hann hættir að láta leiða sig. Áramótin hafa verið tími samvinnu og samstarfs okkar feðga. Gæða og gleðitími.

Svo kom prinsessan til skjalanna. Eins árs hafði hún strax mikinn áhuga á Búmm Búmm eins og hún kallar sprengingarnar, en líka nokkurn ótta. Búmm búmm dagarnir eru tími tilhlökkunar en líka nokkurs kvíða hjá henni. Hún kann vel að meta ljósin og hvellina ef þau eru í hæfilegri fjarlægð og hún í góðu skjóli pabba eða mömmu.

Ég var ánægður að sjá auglýsinguna í gær frá Landsbjörgu um að þeir gætu kallað út tvöþúsund björgunarmenn, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Það er einmitt þetta. Þeim hóflegu fjármunum sem ég læt í flugelda, er vel varið. Það er ekki verið að kasta þeim á glæ, það er verið að leggja góðu málefni lið, bjarga verðmætum og stundum mannslífum.

Ég varð jafnframt svolítið hissa áðan þegar einn af fulltrúum landsmanna á Alþingi, Jón Magnússon hvatti fólk til að kaupa ekki flugelda. Ég er ekki hissa af því að ég haldi að hann vilji taka þessa gleði af fjölskyldunni minni um áramótin. Ég er ekki hissa af því að hann sýnir þessa forsjárhyggju þrátt fyrir að vera partur af þingheimi sem gugnaði á því að skera niður eigin sjálftöku í lífeyrisréttindum en vill nú vera með forsjárhyggju gagnvart almenningi. Og allsekki er ég hissa yfir því að Jón Magnússon úr Frjálsræðisflokknum akti svona.

Ég er hissa á því að þingmaðurinn velji það að ráðast að fjáröflun hjálparsveitanna þegar hann bendir á sparnaðarleiðir. Það er af svo mörgu að taka.

Það er bruðl og peningasóun að kaupa áfengi.

Það er líka algjört rugl að reykja.

Sælgæti er alger óþarfi og óholt að auki.

Gæludýr, einkabíll, veitingastaðir, áskriftarsjónvarp og vestrænn lífsstíll er út af fyrir sig bruðl.

Ég ætla því að láta forsjárhyggju þingmannsins lönd og leið og fara með stráknum mínum eftir helgi og kaupa eina eða tvær tertur. Svo kveikjum við á þeim á Búmm búmm daginn og hrópum váááááááá.


miðvikudagur, 24. desember 2008

Tilhlökkun



Í dag er það þannig ef maður er fjögurra ára og þar að auki prinsessa, þá sprettur maður upp eins og fjöður og hrópar það er aðfangadagur, það er kominn aðfangadagur. Þegar klukkan er sex að nóttu.


Á hennar heimili verður borðað snemma í dag – jesúbarnið fílar það örugglega vel eins og prinsessan.

Spurning hverjum klukkan glymur í kvöld klukkan sex og næsta víst að það þarf vekjaraklukku til að ná eyrum þeirra heimilismanna sem urðu að taka daginn afar snemma að þessu sinni.

Gleðilega hátíð.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Að aðfanga jólakaffibaunir



Ég fór niður í miðbæ áðan að ná mér í kaffi. Lagði fyrir framan Antikbúðina hans Jónasar. Við ólumst upp í Hlíðunum við Jónas, hann er giska tveimur árum eldri en ég. Antikbúðin hans er ævintýri.


Gekk framhjá Siggu og Timo, þar keyptum við hringana fyrir sex árum og þar ætla ég að kaupa útskriftargjöf fyrir prinsessuna eftir sirka tuttugu ár.

Í jólaþorpinu var reytingur af fólki þrátt fyrir nokkuð rok. Jólaþorpið hefur það sem öðrum hefur ekki tekist að framkalla þó margir hafi reynt. Stemming.

Á Súfistanum sat Hildigunnur og maður hennar Helgi. Búin að jóla og voru að hafa það næs. Hildigunnur er systir Geirs, dóttir Bjarna sonar Geirs sem var bróðir pabba. Þeir þekktust ekki bræðurnir og ég hefði aldrei kynnst þeim systkinum ef ég hefði ekki flutt í bæinn.

Ég keypti 500 grömm af ómöluðum espresso baunum. Mér finnst þær vera toppurinn en Riddari Zivertsen er líka fínn ef Súfistinnn er uppiskroppa með espresso. Þau brenna lítið í einu svo alltaf séu þær ferskar.

Hafnarfjörður hefur það sem Hlíðarnar langar að hafa en ná ekki. Það er eitthvað hræðilega kósí við það að fara niður í litla miðbæinn, á litla kaffihúsið og kaupa sér kaffi fyrir jólin. Stemming.


mánudagur, 22. desember 2008

Skýr skilaboð


Leikskólakennarar greiddu atkvæði um kjarasamning undanfarna daga. Í orði var um samskonar samning að ræða og Launanefnd sveitarfélaga gerði við fjölmörg önnur stéttarfélög. Skammtímasamningur og tuttugu þúsunda krónutöluhækkun.


Á borði er niðurstaða samningsins sú að fjölmargir leikskólakennarar verða með lægri laun eða fá í besta falli enga hækkun. Skýringin er að yfirvinna sem greidd hefur verið fyrir að kennarar matist með börnunum í neysluhléi sínu er ekki inni í samningnum og nú hyggjast sveitarfélögin hætta að greiða fyrir þetta álag.

Hart var sótt að kennurunum að samþykkja samningin af hálfu samninganefndar og stjórnar. Leikskólakennarar urðu við óskum formanns síns sem nýtur almenns trausts og virðingar í stéttinni. Þeir samþykktu samninginn en mjótt var á munum.

Ekkert þeirra félaga sem gert hafa samning við launanefnd sveitarfélaga hefur samþykkt samninginn með svo litlum mun. Í niðurstöðunni liggja skýr skilaboð til samninganefndar og stjórnar. Félagsmenn eru ekki sáttir. Næstu samningar eru eftir níu mánuði. Gerið betur!
































Ps. Hvers vegna krefjast verkalýðsforingar ekki verðtryggingar á laun? Þeir standa alveg saman um að verja verðtryggingu á lánum.



sunnudagur, 21. desember 2008

Skötuveisla á Sjávarbarnum


Ég fékk eftirfarandi fyrirskipun í meili frá góðkunnum veitingamnanni á Grandanum.


"Hræsnaðu og segðu frá frábæri skötuveislu á Sjávarbarnum, þessu ljúfmeti..."

Það er hér með gert.




















Til að upplýsa þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í lókalhúmor mín og kokksins skal þess getið að ég hef aldei borðað skötu og mun aldrei gera það.


laugardagur, 20. desember 2008

Hvað gera konurnar?



Níutíu og níu prósent allra leikskólakennara eru konur. Leikskólakennarar eru núna að greiða atkvæði um kjarasamning. Afstaða kvenna í stéttinni ræður augljóslega úrslitum.


Hér er bréf sem við Haraldur F. Gíslason (kallaður Halli) sendum til leikskólakennara í fyrradag eftir að formaður og varaformaður félagsins höfðu gefið út trúnaðarmannabréf í kjölfar á athugasemdum sem við Halli gerðum í sitthvoru lagi.

Þetta er töluverð lesning og er sett hér inn vegna heimildagildisins. Form bréfsins er stæling á áðurnefndu trúnaðarmannabréfi.


=======================================



Til trúnaðarmanna FL
1. og seinasta bréf 2008

Hafnarfjörður, 17. desember 2008.


Ágæti trúnaðarmaður.



► Kjarasamningur – hugleiðingar

Nú er rúm vika síðan samninganefnd FL skrifaði undir samning um framlengingu á kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga. Samningurinn fékk kynningu í bréfi til trúnaðarmanna félagsins en ekki á fundi þar sem félagsmönnum gafst kostur á ræða samninginn með lýðræðislegum hætti. Samninganefndin lýsti því reyndar yfir að hún “sæi enga ástæðu til” að halda slíkan fund.

Eftir að tveir félagsmenn létu skoðanir sínar á væntanlegum kjaraskerðingum í ljós lögðust formaður og varaformaður félagsins í bréfaskriftir til félagsmanna með einhliða áróðri fyrir því að samningurinn verði samþykktur. Með þessu verður umræðan ósanngjörn því starfsmenn félagsins hafa yfirburðaaðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum tengslanet félagsins. Sennilega er það einsdæmi að verkalýðsfélag standi að áróðri með þessum hætti eftir að atkvæðagreiðsla er hafin um lífskjör félagsmanna.

Í bréfi sínu lýsa formaður og varaformaður þeim skoðunum sínum að samningsstaða hafi verið engin, sérstaðan engin, félagið vopnlaust og samningaviðræður kalla þær þref.

Sínu verst er þó að þær lýsa því yfir að öll stéttarfélög á vinnumarkaði séu að undirbúa samkomulag um víðtæka sátt á vinnumarkaði og það sé taktlaust að taka ekki þátt í því.

Um þetta er það að segja að samningsumboð fyrir hönd félagsmanna liggur hjá samninganefnd félagsins. Það hefur ekki verið framselt til annarra verkalýðsfélaga, aðila vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar. Til að svo megi verða þarf að fara fram umræða í félaginu og niðurstöðu þarf að bera undir félagsmenn. Það hefur ekki verið gert. Yfirlýsingar um taktleysi byggja því á skoðunum bréfritara en ekki lýðræðislegum ákvörðunum félagsmanna.

Slæmt er líka að forystan boðar nú árs samning að þessum samningi loknum með 3,5% krónutöluhækkun en forystan lætur þess ekki getið að verðbólguspá fyrir sama tímabil er margfalt hærri og þarnæsti samningur verður því samningur um 12% kaupmáttarlækkun. Svo boða Ingibjörg og Björg þriðja kjarasamninginn með 2,5% krónutöluhækkun og guð má vita hvað mikilli kjararýrnun. Þetta er vondauf verkalýðsforysta sem virðast allar Bjargir bannaðar.


► Þjóðfélagsaðstæður – hugleiðingar

Öllum er ljóst að nú er kreppuástand á Íslandi þó upplýsingum hafi verið haldið frá fólki. Hvert spillingarmálið í bankakerfinu og stjórnkerfinu hefur rekið annað. Kröfum almennings um úrbætur er í engu svarað.

Undanfarnar vikur hafa verið hávær mótmæli gagnvart stjórnvöldum sem ætla að láta almenning borga brúsann fyrir óráðsíu, spillingu og bruðl. Verkalýðsforystan hefur líka sætt miklu ámæli, hún hefur verið sökuð um að þiggja ofurlaun, taka þátt í fjárglæfraleiknum í gegnum lífeyrissjóðina og skipuleggja það með stjórnvöldum að þeir einu sem gjalda fyrir ósómann verði almennir launamenn.

Fréttamenn hafa spurt forkólfa í verkalýðshreyfingunni hvort til standi að ofurlaun þeirra lækki. Því hafa verkalýðsleiðtogarnir hafnað því slíkt gæfi slæmt fordæmi. Er þá ekki eðlilegt að spurt sé núna, á hvaða kaupi þeir verkalýðsforingjar séu sem hvetja félagsmenn til að samþykkja samninga um gríðarlega kjararýrnun?

Árið 1932 slógust menn við fundarstað bæjarstjórnar - Gúttó, þegar til stóð að lækka launin. Samningarnir núna munu færa mörgum félagsmönnum sömu niðurstöðu og menn voru að hafna þá, lækkun launa.

Bæði samninganefnd og félagsmenn ættu alltaf að vera tilbúin til að berjast fyrir lífskjörunum og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Aðstæður núna eru sennilega ekki jafn slæmar og þær voru 1932.

Fyrir 25 árum stóð Kvennalistanum til boða rískisstjórnarsamstarf. Konurnar gerðu kröfu um lög um betri kjör. Refirnir í hinum flokkunum veifuðu þá sameiginlegu áliti hagfræðinga atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um að allt frá dögum Mesópótamíu hafi fólk fengið þau laun sem það á skilið. Þetta var kallað Mesópótamíulögmálið. Í aldarfjórðung hefur þjóðfélagið verið rekið með kennisetningum þessara trúarbragða hagfræðinganna og það breytist ekkert fyrr en fólkið sjálft sækir þau laun sem það á skilið.


► Kjarasamningur – atkvæðagreiðsla

Við kjarasamningagerð hafa félagsmenn síðasta orðið. Mikilvægt er að sérhver einstaklingur noti sinn lýðræðislega rétt og greiði atkvæði í samræmi við afstöðu sem hann er tilbúinn til að standa við. Nú eru í raun lögð drög að samningum til tveggja ára. Hægt er að samþykkja samninginn, hafna honum eða skila auðu. Það er mikill ábyrgðarhlutur að hvetja fólk til að taka eina afstöðu frekar en aðra.

Þeir sem undir þetta bréf rita ætla að hafna þeirri kúgun sem á sér stað í Íslensku þjóðfélagi í dag með því nota sinn lýðræðislega rétt og segja NEI við samningnum.

Megið þið öll eiga friðsæl jól og gleðilega lífskjarabaráttu á nýju ári.

Hörður Svavarsson
leikskólakennari
Haraldur F Gíslason
leikskólakennari

miðvikudagur, 17. desember 2008

Ó, Reykjavíkurborgin...



Var á fundi með fjármálastjórum borgarinnar fyrir stuttu þar sem leikskólafólki var gefin sparnaðarlínan. Það er gott og sjálfsagt að spara, það er kreppa.


Starfsfólk Leikskólanna fær ekki að fara saman í jólahlaðborð eins og margir hafa gert og þetta er auðvitað alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.

Það má heldur ekki kaupa að mat frá veitingamönnum til að halda kvöldmáltíð saman og það er alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.


Starfsfólk leikskóla fær ekki jólagjafir frá vinnustaðnum sínum í ár, þess í stað stakk prúðbúinn fjármálastjórinn upp á að starfsfólk sem sumt hefur mánaðarlaun á bilinu 140 til 170 þúsund krónur gefi hvort öðru gjafir – bara sjálft. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt starfsfólk leikskóla er vant að styrkja og gleðja hvert annað og nú þarf að spara, það er nefnilega kreppa. Og svei mer þá – það var bara klappað hraustlega fyrir þessari frábæru hugmynd

Í gær fengu leikskólar og grunnskólar silfurprentuð og litprentuð risaveggspjöld handa öllum nemendum frá miljóna Silfursjóði Reykjavíkurborgar. Silfursjóðurinn er til að hvetja börn til að stunda handbolta og veggspjaldið prýddi mynd af handboltamönnum með verðlaun. Það er gaman þegar finnast peningar til góðra verka þrátt fyrir kreppu og niðurskurð.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Góð tilfinning


Það er góð tilfinning, þetta andartak, þegar hægt er að nota sinn formlega lýðræðislega rétt.

Það var svona andartak í morgun.











mánudagur, 15. desember 2008

Segjum NEI



Í gærkvöldi skrifaði ég bréf til leikskólakennara og í dag er ég búinn að pósta því í nokkur hundruð eintökum. Það hljóðar svona:

Íslenskur almenningur stendur nú frammi fyrir miklum niðurskurði á kjörum sínum.
Leikskólakennarar, sem eru dæmigerð kvennastétt og hafa átt undir högg að sækja í launamálum áratugum saman, eru þar engin undantekning.

Í seinustu viku skrifaði samninganefnd leikskólakennara undir kjarasamning nauðug viljug. Um samninginn segir formaður leikskólakennara þetta í fréttum: ,,Þetta eru neyðarsamningar og í rauninni ekki neinar samningar. Þetta er einhliða ákvörðun launanefndar sveitarfélaga sem við neyðumst til að skrifa undir,"

Verðbólga hefur verið gríðarleg undanfarið ár og spár um verðbólgu næsta árs eru að hún verði jafn mikil. Verðgildi launa minna hefur rýrnað um 56.000 krónur á þessu ári og miðað við verðbólguspá Seðlabanka verður kaupmáttarrýrnun næsta árs með svipuðum hætti.

Eitt hundrað og tíu þúsund króna kaupmáttarrýrnun á nú að bæta upp með samningi sem gefur tuttugu þúsund og þrjú hundruð króna launahækkun. Og þá er ótalið að sum sveitarfélög haf verið að plokka af viðbótargreiðslur sem standa utan kjarasamninga og viðbúið er að öll önnur sveitarfélög sigli í kjölfarið.

Við þetta bætist að boðaðar hafa verið hækkanir á tekjuskatti upp á eitt prósent, vextir eru þeir hæstu í heimi og verðtrygging er á skuldum almennings.

Samningurinn sem Félag Leikskólakennara neyddist til að skrifa undir í seinustu viku er til nærri árs en með honum fylgir undirskrifuð yfirlýsing um að til ársins 2010 verði gerður kjarasamningur í samfloti með öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Skuldbindandi loforð um svokallaða þjóðarsátt.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir: “Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta” Þetta endurmat fór ekki fram í góðærinu og þenslunni. Nú á heldur ekki að gera endurmat. Það eru aldrei réttar aðstæður til að styrkja undirstöður samfélagsins. Nú eiga allir að draga saman og almennt launafólk á að borga fyrir spillingu og bruðl.

Ég hef ekki geð í mér til að greiða samningi sem er einhliða ákvarðaður af atvinnurekandanum atkvæði mitt. Ég er ósáttur við kjarasamning um gríðarlega kjararýrnun. Mér finnst óeðlilegt að skrifa blindandi upp á bindandi loforð um næsta kjarasamning og ég er viss um að stéttin fær ekki það endurmat sem hún á skilið nema krefjast þess sjálf.

Þess vegna hafna ég samningnum þegar hann verður borinn undir atkvæði og vonast til að sem flestir geri slíkt hið sama.




sunnudagur, 14. desember 2008

Leikskólakennarar felli kjarasamning



Á morgun ætla ég að senda eins mörgum leikskólakennurum og ég get bréf í tilefni af því að daginn eftir fer af stað atkvæðagreiðsla um kjarasamning þeirra til tveggja ára.


Í bréfinu ætla ég að gera grein fyrir atkvæði mínu en það er aðallega þessi litla frétt sem verður til þess að ég leggst í þessar bréfaskriftir. Það er óþolandi þegar tveir aðilar semja, að þá séu kröfur annars aðilans algjörlega hundsaðar og hann þvingaður til að skrifa undir einhliða ákvörðun viðsemjanda síns.

Að auki hef ég ekki verið sannfærður um að mér beri að taka á mig þá kjaraskerðingu sem felst í samningnum. Ekkert sem stjórnvöld hafa gert bendir til þess að fara eigi að kröfum almennings en fólki er þvert á móti sagt að það sé ekki þjóðin.

Ég ætla því að nota lýðræðislegan rétt minn í þessari atkvæðagreiðslu og reyna þannig að halda reisn.

Ég vona að flestir leikskólakennarar geri slíkt hið sama.

laugardagur, 13. desember 2008

Mikil ánægja með ummæli Ingibjargar



Gríðarleg ánægja er á mínu heimili með ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.


Nú er ég að leita að disknum sem gefinn var út í kosningabaráttu R-listans þar sem Ingibjörg tekur lagið.

Ég er sannfærður um að ef athafnir fylgja orðum mun skapast grundvöllur til sátta í samfélaginu á næstunni.

Og ekki verður slæmt ef ég get kosið flokkinn minn áfram.


mánudagur, 8. desember 2008

Elskumst á pöllunum


Þetta var dagurinn sem sumum þótti tímabært að mótmæla með látum. Á dánardægri félaga Lennon. En ég skil fólk vel.


Lennon trúði á friðsamleg mótmæli og í meðfylgjandi myndbandi bendir hann einmitt á að enginn haf reynt þau til fulls. Gandhi prófaði og Martin Luther King líka, en þeir voru skotnir segir hann. Kaldhæðnislegt.

Orð eru til alls fyrst. Nú er búið að tala svolítið mikið. Það á greinilega ekki að hlusta á fólkið á fundunum. Þessvegna fækkar núna í desember meðan jólastemmingin gengur yfir. Svo kemur veruleikinn í fangið á okkur og uppsagnirnar fara að taka gildi. Þá hefjast mótmælin.

Þangað til ættum við að elskast á pöllunum.







Svo kemur janúar 2009.

Sérlíf í nefndum


Það er svolítið sérstakt að Alþingi hafi af störfum nefnd við að kanna hvort leysa megi aðsteðjandi vanda heimilanna með því að gefa einstaklingum kost á að leysa út séreignalífeyrissparnað sinn.


Stjórnvöld hafa nefnilega kokgleypt rök um að ekki megi frysta verðtryggingu lána vegna þess að hagsmunir lífeyrissjóða eru svo miklir. Það skiptir svo miklu máli að rýra ekki framtíðarlífeyri fólks. Með þessu sama koki á svo að gubba upp einhverjum tillögum um að gera megi séreignalífeyri fólks að engu, með því að leysa hann út og henda honum í verðtryggingarsvartholið.

Þar fyrir utan er vert að hafa í huga að greiðslur úr séreignalífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Áunninn sparnaður er ekki einusinni skattlagður eins og fjármagnstekjur. Ef séreignalífeyrir verður leystur út í stórum stíl munu því skatttekjur ríkisins aukast um tugi miljarða, sem er merkilegt í samhenginu við miljarðana báða sem ríkið hefur sett í aðstoð við heimilin í landinu.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Örvæntingarbragð


Þegar menn eru komnir í þá stöðu að vera farnir grípa til þeirra örþrifaráða að beita hótunum eru þeir líklega búnir að átta sig á að það er að fjara undan þeim. Báturinn er farinn að rugga og allt er sennilega að fara fjandans til í þeirra tilveru.


Þá er ekki mikið eftir. Það er fínt.

I'll be back

þriðjudagur, 2. desember 2008

Niðurskurður íþróttastyrkja


Nú eru sveitarfélög í óða önn að leggja drög að fjárhagsáætlunum sem gera ráð fyrir um það bil 10% niðurskurði.


Ég var boðaður á fund í dag í minni sveit þar sem kynnt voru drög að áætlun til fjárhags félags- og íþróttamála. Vinnan við þessar áætlanir er á svo viðkvæmu stigi að fulltrúum í nefndum og ráðum bæjarins voru ekki afhent nein gögn. Tölur voru eingöngu til skoðunar á sýningartjaldi.

Í mínum huga er þó ljóst að nú þarf að koma til verulegs niðurskurðar á framlögum til íþróttahreyfingarinnar.

Það liggur fyrir að styrkir vegna félagslegra aðstæðna eiga eftir að hækka verulega á næsta ári. Enginn treystir sér til að spá um hve mikið, en ljóst er að hækkanir verða verulegar.

Við þær aðstæður tekur engu tali að framlög til íþróttamála séu tvöföld framlög til félagsþjónustu þar með talið barnaverndar og framfærslustyrkja til illa staddra.

Það má líka velta því fyrir sér nú þegar hugmyndir eru á lofti um að hækka útsvar, hvernig hægt sé að réttlæta að framlög til íþrótta séu 15% af rekstri sveitarfélags.


mánudagur, 1. desember 2008

Hvert fór Hitaveita Suðurnesja?


Nú er búið að skipta Hitaveitu Suðurnesja upp.


Hverjir eru það nú aftur sem eiga Hitaveitu Suðurnesja með Reykjavík og Reykjanesbæ Árna Sigfússonar?

Var það ekki Hannes Smárason og einhverjir aðrir sem eru tæknilega gjaldþrota vegna þess að þeir eru fastir með allt sitt inni í gamla Glitni.

Hvað táknar það þegar Árni Sigfússon segir að hreinlegast hafi verið gagnvart öllum sem að hitaveitunni koma að skipta henni upp? Hverjum er hann að hjálpa? Og hvernig? Hvað á almenningur nú í þessum félögum sem stofnað var til með almannahagsmuni að leiðarljósi?

Geta einhverjir duglegir fréttamenn eða Gunnar Axel garfað í þessu fyrir okkur?


fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Strákarnir í verkalýðshreyfingunni



Þeir eru að tala saman strákarnir í verkalýðsfélögunum.


Þeir hittust reyndar hjá ríkisstjórninni helgina áður en bankarnir hrundu. Og eftir það gerði ríkisstjórnin leynisamning við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Eftir japl og jaml var upplýst um leynisamninginn mörgum vikum síðar en þá reyndist bráðnauðsynlegt að bera hann undir hið niðurlægða Alþingi.

Í samningnum kom fram að; "Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi". Þetta er ekki hægt að skilja með neinum öðrum hætti en verkalýðshreyfingin hafi gert samkomulag við ríkisvaldið um hvernig næstu samningum verði háttað. Ella er verið að blekkja alþjóðasjóðinn.

Skömmu eftir að verkalýðsleiðtogarnir funduðu með ríkisstjórninni greindi a.m.k. einn þeirra frá því að “ASÍ hafi lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að standa við gerða kjarasamninga til ársins 2010, þ.e. að nýta sér ekki uppsagnarákvæði samningsins að því gefnu að aðrir launþegar semji á svipuðum nótum við sína viðsemjendur.”

Þessa yfirlýsingu er reyndar ekki að finna á vef ASÍ svo reikna má með að forystumenn þar hafi lýst þessu yfir við forystumenn í öðrum launþegasamtökum – og kannski ríkisstjórnina sína.

Á vef ASÍ er reyndar yfirlýsing landsfundar samtakanna um að til að tryggja stöðugleika sé; “…afar mikilvægt að lækka vexti eins hratt og mögulegt er” en eftir þá yfirlýsingu voru vextir einmitt hækkaðir um 50% úr 12 í 18. Það vill til að verkalýðsleiðtogar eru auðvaldi hollir og virðast ætla að standa við sinn hlut af samkomulaginu. Þessir góðu menn.

Nú eru þeir semsagt að spjalla saman strákarnir og bjóða okkur upp á þetta sjónarspil um að þeir geti hugsanlega náð samkomulagi um það sem þeir munu segja okkur næstu daga að nauðsynlegt sé að ná samkomulagi um. Kröfugerð í kjarasamningum með litlum sem engum kjarabótum.

Í gær kom frá þeim yfirlýsing þar sem þeir lýsa eindregnum vilja að hefja sameiginlega viðræður við viðsemjendur sína um þróun kjaramála á komandi misserum.

Þetta eru mennirnir sem eru svo hrifnir af verðtryggingu lána. Þetta eru mennirnir sem krefjast þess að vísitölutryggingu lána verði við haldið. Þetta eru mennirinir sem vilja ekki að sjóðirnir tapi á niðurfellingu (jafnvel ekki tímabundinni) vísitölutryggingar.

Dettur einhverjum í hug að þeir muni, fyrir hönd launafólksins sem þeir eiga að vernda, óska eftir verðtryggingu launa?

Þetta eru mennirnir sem með þátttöku sinni í stjórnum fjármálastofnana og hegðun sinni á hlutabréfamarkaði hafa aukið á þensluna og falsað raunverulegt gengi gjaldmiðilsins. Þessir menn munu nú fara fram á hóflegar kjarabætur og þeim virðist finnast sjálfsagt að launafólk borgi brúsann fyrir óráðsíuna.

Gylfi Arnbjörnsson æðsti prestur alþýðu á Íslandi var í forsvari fyrir sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar sem lagði það til að verðtrygging lána héldist en boðið væri upp á greiðslujöfnunarleið sem er þó dýrari kostur fyrir skuldara heldur en að breyta engu. Þannig getur maður hugsað sér að gráðugir innheimtulögfræðingar hagi sér – ekki verkalýðsleiðtogar.

Eftir Gylfa þessum höfðu sjónvarpsfréttir í gær að nauðsynlegt væri núna að menn snéru bökum saman.

Sorry Gylfi en það er ekki hægt að ráðleggja neinum að snúa óvörðum afturendanum að ykkur.


miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Verðbólgusprengja og gengisfall hugtaka


Nú nota menn hver um annan þveran hið gildishlaðna hugtak; verðbólguskot.

Það má nefnilega búast við “verðbólguskoti” í næstu viku þegar lán frá alþjóðasjóðum berast og genginu verður sleppt lausu.

Þetta hugtak hefur fallið hraustlega í verði að undanförnu og væntanlegu í jöfnu hlutfalli við traust almennings á verkalýðsforystu og öðrum ráðamönnum.

Um mitt ár 2004 talaði hagfræðingur ASÍ um verðbólguskot sem ógnaði kjarasamningum, þá var verðbólga komin í 3,2%

Tveimur árum seinna talaði forsætisráðherrann Halldór um að verðbólguskot væri staðreynd, hún mældist þá 7%

Nú er verðbólgan 17% og samkvæmt spá seðlabanka verður hún á bilinu 23 til 30% í janúar. Er það VERÐBÓLGUSKOT?

Hvern er verið að reyna að sefa og svæfa?

Kræst. Kallið hlutina sínum réttu nöfnum. Verðbólgusprengja er væntanleg.

En sprengja er það sem molar sundur, tætir, splundrar sundrar og tvístrar. Það er verðbólga sem hefur svoleiðis afleiðingar sem mun springa í andlitið á okkur á næstu vikum.

Verðbólgusprengja.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Ólöglegar handtökur


Sumir hafa orðið til þess að fordæma ákall um frelsi ungs manns sem handtekinn var ólöglega í fyrradag.


Um handtökuna segir Ragnar Aðalsteinsson lögmaður á mbl.is í dag:

“…að ekki sé heimild í lögum fyrir handtöku á þessum forsendum. Hver maður sjái hversu hættulegt það væri að heimila stjórnvöldum, lögreglu eða dómsmálaráðuneyti, slíkar aðferðir því þá gætu þau margskipt refsingum og hagað því þannig að hinn seki vissi aldrei hvenær hann gæti búist við refsingu og hvenær hann yrði settur inn. Slíkt sé óbærilegt og standist ekki í réttarríki.

Ragnar segir að tilkynna hefði þurft manninum með þriggja vikna fyrirvara að hann þyrfti að hefja afplánun að nýju…”

Svo víkur Ragnar að því að svona handtökur séu víða stundaðar. Það er rétt.

Fyrir fjörutíu árum var mótmælandinn Jhon Sinclair handtekinn í Bandaríkjunum og dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að gefa lögreglumanni í dulargervi tvær jónur, sem á Morgunblaðsísku heita örugglega kanabisvindlingar.

Lýðræðissinninn og mótmælandinn John Lennon var einn af þeim sem mótmælti. Við erum fjörutíu árum á eftir könum í mótmælum og réttarfari.


laugardagur, 22. nóvember 2008

INGIBJÖRG


Nú vill fólk ákveða sjálft hvað eru hagsmunir þess. Það eru hagsmunir fólksins að fá að ákveða það sjálft. Það heitir lýðræði.


Það er eitthvað annað þegar ein manneskja ákveður hverjir hagsmunir fólksins eru

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Boltinn er hjá Samfylkingu


Samfylkingarfólk virðist sammála um það í dag að nú standi það upp á flokkinn þeirra að taka til. Ég er einn af þessu fólki, en orð mín hafa ekki þunga vigt.


Það hefur enginn kosið mig og ég er í sáralítilli aðstöðu til að beita mér. Verkstjórar flokksins og embættismenn geta auðveldlega hundsað mig og fest flokkinn í sessi sem hefðbundinn, rótgróinn spillingarflokk. Það er auðvelt, gera ekki neitt og gefa ekki út neinar yfirlýsingar.

Það stendur upp á fólkið í forystunni, ráðherra, þingmenn, starfsmenn flokksins og sveitarstjórnarfólk víða um land að láta í sér heyra og gera kröfu um tiltekt, ef ekki stjórnarslit.

Í dag hafa tveir ráðherrar flokksins gefið út skoðanir sínar um að þeir vilji efna til kosninga á næsta ári. Þetta er ekki nóg. Ef ekkert meira fylgir, eru þessar skoðanir þeirra ekki meira virði en þær skoðanir sem forsætisráðherrann Steingrímur Hermannsson gaf reglulega út um verðtrygginguna. “Ja – ég er á móti verðtryggingunni” kvað við árum saman og ekkert gerðist. Hvílíkt grín.

Nú er komið að því að þeir þingmenn flokksins sem eru búnir að fá nóg af framgangi seðlabankastjóra og yfirgangi sjálfstæðismanna láti í sér heyra. Það er gott og gilt að standa með flokksfélögum sínum í ríkisstjórn og stinga ekki félag sína í bakið með upphrópunum á ögurstund, það er drengilegt. En nú er umþóttunartíminn liðinn, nú vill fólk fá að sjá að það eigi að byggja með nýju lýðræði, ekki gömlu forpokuðu baktjaldamakki og yfirgangi.

Það er einungis með aðgerðum sem Samfylkingin fær viðhaldið því trausti sem hún hefur haft á umþóttunartímanum síðan sprengjan sprakk. En rykið er að setjast og eftir standa forneskjulegar leifar af ógeðslegu ólýðræðislegu stjórnkerfi. Samfylkingin á ekki að vera hluti af slíku kefi.

Það hefur ekki nógu mikið gildi til að kaupa tiltrú okkar, að tveir forystumenn sem veikasta hafa stöðuna innan sinna raða lýsi yfir áhuga á kosningum. Forystumennirnir þurfa allir sem einn að fylkja liði til aðgerða. Þá höldum við hin áfram að vera fótgönguliðar...

...og Samfylkingin verður samfylking

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Hrognamál



Nú er búið að samþykkja lög um greiðslujöfnun.


Lögin taka gildi nú þegar, en koma til framkvæmda um næstu mánaðamót.
Það er þó ekki fyrr en um áramót sem Hagstofan fer að reikna út greiðslujöfnunarvísitölu sem er forsenda greiðslujöfnunar. Greiðslujöfnun geta einstaklingar fengir fyrsta desember en þó ekki fyrr enn fyrsta janúar. Skrítið.

Þó er útreikningur greiðslujöfnunarvísitölu enþá skrítnari;

“6. gr. laganna orðast svo:
Með greiðslujöfnunarvísitölu sem beitt er við framreikning greiðslumarks, sbr. 5. gr., er átt við sérstaka vísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir mánaðarlega.

Skal hún vera samsett af launavísitölu, sbr. lög um launavísitölu, sem vegin er með atvinnustigi. Við útreikning greiðslujöfnunarvísitölu skal launavísitala sú sem Hagstofan birtir í mánuði hverjum vegin með atvinnustigi sama mánaðar og skal hún gilda við útreikning greiðslumarks lána.

Með atvinnustigi í mánuði er átt við hlutfall sem miðast við 100% að frádregnu atvinnuleysi í hlutfalli af vinnuafli í viðkomandi mánuði samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar.”

Hvernig er þetta sagt a íslensku?


þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Lög með óbragði


Hvernig ætli þeim líði strákunum í Sjálfgræðisflokknum sem supu hveljur þegar reykingar voru bannaðar á veitingahúsum? Strákarnir sem endilega vilja að vímuefnið alkahól sé selt í matvöruverslunum, allt vegna hins bráðnauðsynlega frelsis einstaklingsins.


Hvernig ætli þeim líði núna þessum strákum þegar Alþingi hefur sett lög sem banna að farið sé í mál við fjármálafyrirtæki sem hlotið hefur greiðslustöðvun? En það ku vera brot á stjórnarskrá.

En óbragðið hverfur sjálfsagt fljótt ef þulið er nógu oft:

“Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir! Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir! Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir! Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir! Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir! Vandinn er innfluttur! Enginn gat séð þetta fyrir! Foringinn og varaforinginn eru óskeikulir!”


IMF: loksins, loksins Iceland...

...og meir að segja á undan Togo. Ekkert smá heiður !

mánudagur, 17. nóvember 2008

Verkalýðshreyfingin og stjórnin sátt


Verkalýðshreyfingin sem getur ekki hugsað sér að verðtrygging lána verði afnumin ætlar sé ekki að gera kröfu um verðtryggingu launa. Hún hefur hinsvegar gert samkomulag við ríkisstjórnina um hvernig haga beri kjarasamningum.

Í leyniplagginu um samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem nú hefur verið gert opinbert kemur þetta fram:

"Stefna í kjaramálum.
23. Mikilvægt er að ná þjóðarsátt sem er samrýmanleg við þjóðhagsleg áform þessarar áætlunar. Sagan sýnir að stefnan í kjaramálum hér á landi hefur verið mjög skilvirk. Fyrri kjarasamningar hafa stutt þjóðhagslega aðlögun þegar þess hefur verið þörf. Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi."


Var einhver hissa á því að verkalýðsfélög hafa ekki stutt þau mótmæli sem almenningur hefur staðið fyrir að undanfarið?


IMF: Ekkert Iceland, enn og aftur


Í nótt var lögð fram dagskrá stjórnar IMF fram á mánudag í næstu viku.

Togo er á dagskránni en ekki Iceland, þrátt fyrir samkomulag um Iceslave reikningana.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Konan sem kenndi mér að lesa…


…fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag, á degi íslenskrar tungu. Og ég sem var að hugsa um að blogga um dag Íslenskrar tuggu. Nú kann ég ekki við það.


Mér finnst mjög vænt um Herdísi og hefur alla tíð þótt. Ekki bara vegna þess að hún kenndi mér að lesa og skrifa og reikna heldur vegna þess hvernig manneskja hún er. Hvergi í skóla hefur mér liðið betur.

Við kvöddumst þegar ég var átta ára og þrjátíu árum síðar mætti ég henni á göngu. Hún staldraði við og sagði “Bíddu nú við er þetta ekki gamall nemandi minn?”

Allt sem ég hef lært síðan hún var kennarinn minn er byggt á undirstöðunni sem ég fékk í stofu 2 í Ísaksskóla.

Ég gæti ekki hugsað mér verðlaunahafa sem á þessa viðurkenningu meira skilið.

laugardagur, 15. nóvember 2008

Sómi vor, sverð og skjöldur


Gylfi Arnbjörnsson forseti sambands alþýðunnar á Íslandi var kallaður til í sjónvarpsfréttum í gær og látinn segja álit sitt á gagnslausum greiðslujöfnunartillögum ríkisvaldsins.


Gylfi var hrifinn, sem ekki er undarlegt því hann er formaður sérfræðinganefndar ríkisvaldsins sem lagði til að þessi leið, sem eykur heildargreiðslur heimilanna, yrði farin.

Gylfi hefur dásamað verðtrygginguna í fjölmiðlum og lýst því yfir að ekki sé vegur að afnema hana. Ætla mætti að Gylfa þætti það hlutverk sitt að verja hagsmuni alþýðunnar og krefjast verðtryggingar á launin líka. Það gerir Gylfi ekki.

Gylfi Arnbjörnsson forkólfur verkalýsðsstéttarinnar og málsvari alþýðu er nefnilega að verja hagsmuni lífeyrissjóða. Það er hans dásamlega og mikilsverða hlutverk.

Gylfi er þar komin í sömu stöðu og Gunnar Páll Pálsson formaður VR sem vildi allt til vinna að verja gríðarlega hagsmuni lífeyrissjóða sem stjórnarmaður í Kaupþingi. Og Gylfi er rétt nýorðinn forseti ASÍ.

Þess má geta að Edda Rós Karlsdóttir Greiningardeildarséni er með Gylfa í sérfræðinganefndinni. Við berum mikið traust til hennar líka.


Pissaðu bara í skóinn elskan


Það er alveg gasalegt úrræðaleysið sem almenningi er boðið uppá. Daginn fyrir útifund kynnir ríkisstjórn tillögur sem fela í sér að greiðslubyrði af húsnæðislánum geti lækkað um 10%. Og 20% eftir ár.


Kannski halda stjórnvöld að almenningur sé heimskur. Verðbólgan hleypur á tugum prósenta. Gengið var 100% hærra í ársbyrjun, mest munar um lækkun seinustu vikna. Þetta gengisfall er nú farið að koma fram í vöruverði á innfluttum vörum. Þegar þessar verðhækkanir mælast í vísitölunni hækka húsnæðislánin – og þau hæakka gífurlega. Samfara þessum hækkunum er spáð allt að 50% lækkun á húsnæðisverði.

Nú er það svo að gott getur verið að lækka greiðslubyrðina ef tímabundnir erfiðleikar steðja að. En erfiðleikarnir eru ekki tímabundnir, þessi leið sem kynnt var í gær felur í sér að við borgum minna núna og meira seinna.

Og ekki nóg með það. Í dag komu fram nánari skýringar á greiðslujöfnunarleiðinni. Þar segir: “Sérstök athygli skal vakin á því að greiðslujöfnun mun í raun leiða til aukins kostnaðar fyrir lántaka þegar upp er staðið í formi vaxta og verðbóta.”

Í gær voru kynntar hugmyndir sem eru álíka mikils virði og að pissa í skóinn sinn ef manni er kallt. Það kólnar fljótt aftur og vandinn er orðinn verri.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Minna núna - meira seinna


“Með þessu móti frestast hluti af verðbótum þar til síðar á lánstímanum.”


Aðgerðir ríksstjórnar duga ekki til. Ef ekki er hægt að taka vísitölutryggingu lána úr sambandi hlýtur krafan að vera um vísitölutryggingu á öll laun. Rökin um vísitölutryggingu og verðgildi krónunnar hljóta að eiga jafnt við fyrir launafólk eins og fjármagnseigendur.

Aðgerðir sem fresta greisðlum hafa ekkert gildi ef eignir landsmanna verða hvort eð er teknar af þeim.

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Skipbrot einkarekinnar heilbrigðisþjónustu II



Ég skrifaði í fyrradag pistil um skipbrot heilbrigðisstarfsemi SÁÁ og Stígamóta en það eru fleiri heilbrigðisfyrirtæki sem sinna grunnþjónustu fyrir almenning í vanda og nú er Heilsuverndarstöðin gjaldþrota.


Það má segja að Heilsuverndarstöðin hafi að nokkru leiti verið óskabarn sjálfstæðismanna og nýrrar sýnar þeirra á heilbrigðiskerfi. Fjölmargar lagabreytingar sem Sjálfstæðismenn létu gera á undrastuttum tíma í heilbrigðisráðherratíð sinni voru m.a. til þess fallnar að auðvelda að almannaþjónusta væri færð á hendur einkafyrirtækis á borð við Heilsuverndarstöðina.

Og vissulega voru sumir þættir grunnþjónustunnar færðir til Heilsuverndarstöðvarinnar og sumir gjörningarnir orkuðu kannski tvímælis. Þannig var samningur um þjónustu fyrir heilabilaða færður frá lægstbjóðanda, sem treysti sér ekki til að standa við tilboðið, til Heilsuverndarstöðvarinnar án útboðs. Einnig vakti mikla umræðu í sumar þegar tilboði Heilsuverndarstöðvarinnar um þjónustu fyrir fíkla var tekið þrátt fyrir að það væri þriðjungi hærra en lægsta boð. Stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum voru þá sakaðir um að eiga hagsmuna að gæta og hafa ekki þvegið hendur sínar sómasamlega af þeim ásökunum.

Ýmis plön voru greinilega um að auka við starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar og ráð fyrir því gert að sambærileg þjónusta á hendi ríkisins legðist af samfara því. Þannig var skammtímavistun fyrir aldraða, sem í daglegu tali aðstandenda aldraðra er kölluð hvíldarinnlögn, komin í faðm Heilsuverndarstöðvarinnar en sambærilega þjónusta í Mekka öldrunarþjónustu ríkisins, Landakoti, lögð niður. Jafnvel voru plön um að hjartaþræðingar færu fram inni á gólfi í Heilsuverndarstöðinni.

Hámark í áætlanagerð Sjálfstæðismanna um að einkarekna heilbrigðiskerfið var svo í sumar þegar manifestosamningur ráðuneytis og félags lækna var gerður en hann virtist útsettur sem undirstaða fyrir ýmsa aukna starfsemi í Heilsuverndarstöðinni hf.

En nú er Heilsuverndarstöðin semsagt gjaldþrota og augljóst mál að ekki leggst öldruð móðir mín í hvíldarinnlögn hjá Heilsuverndarstöðinni. Við ættingjarnir sinnum þá áfram þessari nauðsynlegu grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

Eignast þjóðin húsið?

Það er augljóst að gríðarsterkir fjármagnseigendur hafa verið bakhjarlar Heilsuverndarstöðvarinnar. Á heimasíðu fyrirtækisins eru talinn upp stór starfsmannahópur og mikla fjármuni hefur þurft til kaupa húseignina Barónsstíg 47 sem er ein glæsilegasta afurð arkitektúrs síðustu aldar og hefur gengið undir nafninu Heilsuverndarstöðin meðal landsmanna.

Í fréttum af gladþrotinu segja aðstandendur Heilsuverndarstöðvarinnar: ,,Í byrjun september var bjart útlit fyrir því að nýtt fjármagn kæmi inn í félagið til að styrkja það á þann hátt að félagið kæmist yfir þann hjalla sem hafði myndast. Nú er hins vegar ástand fjármálamarkaðarins þess eðlis að fullreynt er að fá nýtt fjármagn að félaginu."

Samkvæmt mínum heimildum hvíla á húseign Heilsuverndarstöðvarinnar veð sem eru tryggingarbréf í eigu Landsbankans. Tryggingabréf eru þeirrar gerðar að af þeim eru engar afborganir en eigandi þeirra getur leyst til sín veðið ef honum sýnist svo. Af þessu má geta sér til um það að Björgólfur Guðmundsson hafi verið eigandi húseignarinnar en annar maður leppað fyrir hann. Þetta eru auðvitað getgátur en þær geta skýrt tilurð þessara tryggingabréfa og eignarhald á þeim.

Það kann því svo að fara að skilanefnd Landsbanka leysi til sín húseignina og hún verði aftur í almannaeign eins og hún á að vera. Tilvalið er að setja upp í húsinu nokkurskonar stríðsminjasafn þar sem komandi kynslóðir verða fræddar um hvernig setja má þjóð á hausinn og rústa innfrastrúktúr hennar á örfáum misserum með trúarbrögðum frjálshyggjunnar.




Björgólfur: Vandinn tvíþættur


Samkvæmt Björgólfi í Kastljósi núna er vandi íslendinga tengdur Landsbankanum tvíþættur.


Landsbankinn átti nægar krónur til að borga skuldir. En fékk ekki gjaldeyri því Seðlabanki Íslands átti ekki gjaldeyri, til að skipta út fyrir þær Íslensku krónur sem Landsbanki átti nóg af.

Og neyðarlögin sem Alþingi Íslendinga setti mismunaði borgurum Evrópusambandsins og misbauð siðuðum þjóðum.

Við vitum að a.m.k. þetta tvennt er rétt hjá Björgólfi.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Skipbrot einkarekinnar heilbrigðisþjónustu



Eins og kunnugt er, tóku sjálfstæðismenn við ráðuneyti heilbrigðismála þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð. Það var gengið rösklega til verks og á undrastuttum tíma voru samþykkt ný Lög um heilbrigðisþjónustu, ný Lög um landlækni, ný Lög um almannatryggingar, ný Lög um sjúkratryggingar og felld voru úr gildi Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.


Með þessum lagabreytingum var m.a. stjórnsýslan straumlínulöguð í þá veru að auðveldara er að koma fyrir einkarekstri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi á kostnað ríkisins. Margir gætu haldið að þetta væri hluti af trúboði frjálshyggjumanna um frelsi einstaklingsins og markaðarins en aðrir fengu það á tilfinninguna að einhverjir ætluðu að skara eld að eigin köku og um það spratt nokkur umræða í vor.

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu þarf ekki að vera af hinu slæma. Um það eru ágæt dæmi á Íslandi að einkaaðilar hafi sinnt nær eingöngu ákveðnum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og gert það með ágætum. Dæmin sem eru skýrust og þekktust eru SÁÁ og Stígamót. SÁÁ hefur um þriggja áratuga skeið sinnt lögboðinni heilbrigðisþjónustu fyrir áfengissjúka og Stígamót sinna sálgæslu og meðferð fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis.

Í báðum þessum stofnunum er ómetanleg sérfræðiþekking og fagmennska með þeim hætti að vakið hefur athygli víða um heim. Forsvarsmenn þessara stofnana Þórarinn Tyrfingsson hjá SÁÁ og Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum eru heimskunn í sínum málaflokkum og eftirsóttir talsmenn út um allar álfur.

Félögin hafa verið fjármögnuð mestan part af ríki enda veita þau þjónustu sem ríkið yrði annars að veita lögum samkvæmt. En sveitarfélög og einkafyrirtæki hafa lagt rekstrinum drjúgt til á síðustu árum.

Nú kreppir hins vegar að, sveitarfélög draga í land, kostunaraðilar draga að sér hendurnar eða hverfa af sjónarsviðinu og ríkið hefur minna á milli sinna visnu handa. Við bæði Stígamótum og SÁÁ blasir gríðarlegur samdráttur og niðurskurður á nauðsynlegri grunnþjónustu fyrir almenning.

Þessi væntanlegi niðurskurður er sárgrætilegri en ella vegna þess að það liggur fyrir að þegar kreppir að eykst áfengisneysla og harmar hennar vegna og kynferðisofbeldi eykst líka á krepputímum. Þetta hefur verið sýnt fram á og því augljóst að nú þarf að efla Stígamót og SÁÁ.

Við þessum einkareknu heilbrigðisfélögum blasir hinsvegar skipbrot starfseminnar við.


mánudagur, 10. nóvember 2008

IMF: Iceland ekki á dagskrá næstu vikuna


Nú liggur fyrir dagskrá stjórnar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fram á mánudag í næstu viku.

Ráðgjöf og aðstoð við El salvador, Sesileyjar, Líbanon og Armeníu er á dagskrá en ekki Ísland.


sunnudagur, 9. nóvember 2008

VARÚÐ, VARÚÐ - HALLA Í HÆTTU


Dómsmálaráðherra dregur í efa trúverðugleika þingfréttaritara Morgunblaðsins, Höllu Gunnarsdóttur, af því hún var “stóryrtur” ræðumaður á borgarafundi í Iðnó.


Svo kemur kaldastríðshótunin;
"Í dagbókarfærslu í gær velti ég fyrir mér, hvort unnt væri að treysta á óhlutdrægni fjölmiðlafólks í þessari orrahríð allri. Ég hef fengið ábendingar um, að fleiri velti þessu fyrir sér."

Ég hef fengið ábendingar um, að fleiri velti þessu fyrir sér.

…að fleiri velti þessu fyrir sér!!!

Ó – við erum svo hrædd! Hvað ætli verði gert við Höllu? Ætli það sé löggan sem veltir þessu fyrir sér? Kanski Ríksilögreglustjóri! Á maður kannski að segja Herra Ríkislögreglustjóri? Hei – hann ræður líka yfir öllum hæstaréttardómurunum manstu. Dísös!

Halla, það eru fleiri að velta þessu fyrir sér! Vissir u ða?

En annars, hverjum er ekki nákvæmlega sama hvað þessi klíka er að pæla núna?

Kaupþing - Ný sönnunargögn


"Ákvörðun sem Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, stóð að á vettvangi stjórnar Kaupþings í september síðastliðnum byggði hann á hagsmunum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verzlunarmanna..." Segir í yfirlýsingu trúnaðarmanna VR.


Nú hafa komið í ljós ný sönnunargögn um hvað gekk á hjá stjórn Kaupþings seinustu dagana. Myndbandið er sagt tekið upp með leynd.



laugardagur, 8. nóvember 2008

Dúó Schütz og Johansen


1974 var þýskur rannsóknarforingi á eftirlaunum, Karl Schütz, fenginn til að stýra rannsókn Geirfinnsmálsins sem þá var í miklum hnút. Ekki verður séð hvers vegna óupplýst mannshvörf hér á landi gátu talist verðugt verkefni fyrir þýskan lögreglumann á eftirlaunum sem einkum hefur sérhæft sig í málum er varða öryggi ríkisins, en eftir að dómur var fallinn hér á Íslandi í málinu lýsti hann því yfir að meðferð sakborninga hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni.


Nú eru ráðherrar aftur í vanda og forsætisráðherra fundar með krísuhópi daglega og hefur ráðið Norskan hernaðarsérfræðing til að annast upplýsingaflæði um ástandið, Bjorn Richard Johansen. Afhverju þarf hernaðarsérfræðing?

Alkunna er að þegar þjóðir eiga í átökum eða stríði vilja ráðmenn stjórna fréttaflutningi, takmarka upplýsingar til almennings og gefa rangar og villandi upplýsingar. Ljúga með öðrum orðum að fólkinu. Er þetta hlutverk Bjorns Richards?

Eða ætli Norskur hernaðrsérfræðingur sem ekki talar Íslensku sé bara besti fáanlegi gaurinn til að skrifa fréttatilkynningar til fjölmiðla. Alveg eins og fyrir þrjátíu árum rúmum var Þýskur rannsóknarforingi sem ekki talaði íslensku best fallinn til að rannsaka það sem varð að mesta réttarfarsklúðri seinustu aldar.


föstudagur, 7. nóvember 2008

Virðing og réttlæti


Af vef VR
:
"Ákvörðun sem Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, stóð að á vettvangi stjórnar Kaupþings í september síðastliðnum byggði hann á hagsmunum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verzlunarmanna... ...Ljóst er að draga má þá ákvörðun í efa"

"...
Fundurinn styður störf hans sem formanns VR, en leggur jafnframt til að boðað verði til almenns félagsfundar svo fljótt sem auðið er."

Semsagt: Trúnaðarmenn VR styðja Gunnar í störfum sem formann en ekki sem hagsmunagæslumann lífeyrissjóðs inni í Kaupþingi og vilja kalla til félagsfundar til að taka þá óhjákvæmilegu ákvörðun sem þeir treysta sér ekki í sjálfir.




Og frá Vísi:
Sjálfur sér Gunnar ekkert athugavert við að hann sem verkalýðsforingi sé með laun sem slaga upp í laun forseta Íslands og berjist gegn ofurlaunum í samfélaginu. Hann var með um 550 þúsund krónur á mánuði fyrir að sitja fáeina fundi fyrir VR hjá Kaupþingi og 1700 þúsund í laun sem verkalýðsforingi.

...you really got me...








Tvennt í stöðunni


Geir og bankamálaráðherrann gáfu út yfirlýsingar þegar bankakreppan skall á að innistæður Íslendinga í Íslenskum bönkum væru ríkistryggðar að fullu.

Með þeim yfirlýsingum var borgurum á sameiginlegu evrópsku efnahagssvæði mismunað. Það er óheimilt samkvæmt samningum sem gerðir hafa verið.

Nú er einungis tvennt í stöðunni. Tryggja innistæður Breta og Hollendinga í íslenskum bönkum eða afturkalla yfirlýsingar um fullar ábyrgðir á innstæðum íslenskra ríkisborgara sérstaklega.

Þá getur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn afgreitt beiðni um neyðarlán til Íslands.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Ekkert Ísland á dagskrá


IMF Executive Board Calendar:


November 6, 2008

Country: Hungary
Title: Request for Stand-By Arrangement


November 12, 2008
Country: El Salvador
Title: 2008 Article IV Consultation

November 14, 2008
Country: Seychelles
Title: 2008 Article IV Consultation and Request for a Stand-By Arrangement

Country: Lebanon
Title: Use of Fund Resources—Request for Emergency Post-Conflict Assistance


miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó.


Á Gunnar Páll að segja af sér formennsku í VR og miðstjórn ASÍ af því hann stóð að þeim vafasama gjörningi í stjórn Kaupþings að afskrifa lán til helstu stjórnenda bankans?


Var Gunnar Páll ekki bara að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna sem áttu miklar eignir bundnar í hlutum í Kaupþingi? Er heppilegt að verkalýðsforingjar hafi það hlutverk að gæta hagsmuna lýðsins en um leið lífeyrissjóða sem eru mestu fjármagnseigendur í landinu? Eru þau hlutverk samrýmanleg?

Hafi Gunnar Páll verið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna er augljóst að honum mistókst það ætlunarverk sitt. Ætti hann þá að segja af sér af því að hann stóð að siðferðilega vafasömum og líklega ólöglegum gjörningi eða af því honum mistókst ætlunarverk sitt?

Hvað ætli margir álíka vafasamir gjörningar hafi verið framdir á undanförnum árum. Gjörningar sem enginn gerði athugasemd við af því þeir mistókust ekki? Er Gunnar Páll ekki bara tannhjól í þessari vítisvél sem hér hefur verið keyrð í 17 ár?


Fórnarlambið


Gunnar Páll formaður VR og fráfarandi stjórnarmaður í Kaupþingi í Kastljós núna;

Við felldum niður persónulegar ábyrgðir stjórnenda bankans því ef þeir hefðu lent í veðkalli hefðu þeir þurft að selja hlut sinn I Kaupþingi og slík sala væri tilkynningarskylt til Kauphallar. Þá hefðu aðrir farið að selja og gengið fallið.

Já Gunnar tilkynningarskyldan er einmitt til að gæta jafnræðis meðal hluthafa. En stjórn Kauðþings ákveður að falsa stöðuna svo hluthafa fái ekki upplýsingar.

Þarna talaði formaður verkalýðsfélags sem reyndi að setja sig í hlutverk fórnarlambs eða píslarvotts.

“Ef ég ber ábyrgð á fármálakreppunni í heiminum þá…..”


Bandura, Bobo, buff og bilunin í okkur


Buffið og vettlingarnir urðu eftir heima og ég ók þessum nauðsynlega hlífðarfatnaði út í leikskóla fyrir prinsessuna.


Ég er ekki vanur að aka þangað og þegar ég er að renna inn í botnlangann framhjá gatnamótum á hægri hönd, sem ég hélt að væri biðskylda við, fatta ég að svo er ekki þegar bíllinn sem kemur frá hægri flautar á mig. Ég flautaði á móti og mér fannst ég vera voða fyndinn.

Ég var greinilega ekki neitt fyndinn því hinn bíllinn elti mig inn í botnlangann og þegar ég stíg út úr bílnum með buff og vettlinga stendur yfir mér gremjulegur maður.

“Ég ætla bara að láta þig vita að það er til nokkuð sem heitir hægri réttur” sagði hann frekar hátt og ákveðið.

“Já ég veit það svaraði ég” og hann svaraði að bragði “Ég flautaði á þig og þú flautaðir á móti!” sagði hann afar hátt.

“Já – og ert þú einhver lögga?” spurði ég og fannst ég vera frekar fyndinn, sem var ekki vanþörf á. Ég hafði ekki upplifað leiðbeiningar með þessum hætti síðan ég var nemandi í Hlíðaskóla forðum.

“Þú skalt bara drullast til að læra reglurnar þarna fávitinn þinn” Öskraði hann og fór inn í bílinn sinn.

Ég hef hugsað um þetta svolítið síðan. Ég braut auðvitað á garminum þegar ég fattaði ekki hægri réttinn hans. Svo var ég með bjánalegan derring þegar ég flautaði til baka. Það breytir þó ekki því að tilfinningaviðbrögð gaursins vor mjög ýkt.

Þegar ég set þessa upplifun í samhengi við það sem Egill og Margrét Hugrún skrifuðu í gær og fyrradag um pirring í samfélaginu, velti ég því fyrir mér hvort álagið á fólk sé að koma fram í almennri gremju og pirringi. Samfélagið sé ekki bara að verða fátækara, það sé að verða verra.

Um miðja seinustu öld gerði Albert Bandura tilraunir með félagsmótun barna. Hann leifði börnum að horfa á video af konu að berja dúkkuna Bobo og svo fengu þau að leika sér í herbergi þar sem dúkkan var inni. Börnin lærðu af því sem fyrir þeim var haft.

Þessar tilraunir, sem sennilega fengist ekki heimild til að framkvæma í dag, voru undirstaða að félagsmótunarkenningu Bandura sem hefur haft víðtæk áhrif á skólaumræðu og menntun kennara allt til okkar daga.

Hér er sætt videó um börn sem læra af fullorðnum og svo Bandura sjálfur og Bobo.







mánudagur, 3. nóvember 2008

Hver bauð?


Óskað hefur verið eftir gjaldþrotaskiptum á B.T.


"Vonir standa til að hægt sé að koma BT aftur í rekstur og hafa viðræður um slíkt verið í gangi. Fyrir liggur undirritað kauptilboð í rekstur BT verslana sem þó er háð samþykki skiptastjóra..."

Hver hefur þessar vonir? Eru þær bara svona almennar eða á fréttastofu RÚV? Og hver gerði kauptilboð korteri fyrir gjaldþrot? Einhver sem þekkir reksturinn væntanlega, eða hvað? Kannski bara að strákarnir sem keyra kókbílinn hafi sett saman tilboð.


sunnudagur, 2. nóvember 2008

Þær komu bara



Það er svo ægilega stutt síðan þær komu bara. Svo fóru þær bara.
Aukakrónurnar...





Nú eru þær í sjóði minninganna, um firringuna.


Hvar er Habba?


Hafrún Kristjánsdóttir var skelegg fyrri hluta ársins í að aðferðafræða okkur um niðustöður skoðanakannana. Nú hellast yfir kannanir með óvenjulegum niðurstöðum. Ég sakna fræðilegrar umræðu Höbbu.


Kannski kæmi í ljós eftir rýni hennar að stuðningur við Davíð er ekki 10% heldur 14,3% það væri nú aldeilis fengur að svoleiðis fyrir suma.

Nei í alvöru - bloggið hennar Hafrúnar var gott. Kemur hún ekki aftur?


Hvað á að skattleggja


Íslendingar eru sú þjóð sem mátt hefur þola langmestar skattahækkanir af öllum þjóðum innan Efnahags- og framfarastofnuninnar, OECD, á síðasta áratug. Er nú svo komið að Ísland er komið á topp tíu listann yfir þau ríki sem þyngsta skattbyrði leggja á þegna sína.


Ríkissjóður sér fram á gríðarlegan hallarekstur á næsta ári og við því þarf að bregðast. Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu telja líklegt að skattar hækki meira.

Og hvaða skattar ætli verði nú hækkaðir í þessari skattapardís, skattheimtumanna?

Ætli verði sett á auðlindagjald?
Ætli verði sett á orkugjald til stóriðju?
Ætli verði settur á hátekjuskatur?
Æti kvótinn verði innkallaður og arður af leigðum kvóta settur í þjóðarsjóð?
Ætli fjármagnstekjuskattur verði jafnaður við tekjuskatt launamanna?
Ætli verði settir grænir skattar?


Nýtt Ísland?

NEI ALLS EKKI! Sjálfstæðisflokkur lætur almennt launafólk borga.


föstudagur, 31. október 2008

Myntkörfufrysting - ólögleg mismunun


Hvernig er það?


Ríkisstjórn gefur bönkum í sinni eigu skipun um að frysta íbúðalán tekin í erlendri mynt og lofar að kaupa upp lánin á upphaflegum kjörum.

Ekkert bólar á aðstoð við þá sem eru að borga af lánum teknum í íslenskum krónum og ákalli um að taka vísitölutryggingu úr sambandi er svarað með því að skipa nefnd undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar sem hefur lýst því yfir að það sé ekki hægt að taka vísitölutryggingu úr sambandi. Hann er að gæta hagsmuna sjóða.

Með þessari mismunun stendur ríkisstjórnin fyrir eignatilfærslu þar sem tekið er fé frá almenningi til að greiða fyrir einum hópi fólks meðan annar blæðir. Þetta er ólögleg mismunun og stjórnarskrárbrot.

Og hvernig er það?
Er það ráðherrann minn og málsvari almennings sem stendur fyrir þessu, Jóhanna Sigurðardóttir, sem sá ástæðu til þess í dag að senda bankastjórnum ríkisbankanna áminningu um að virða jafnréttislög? ! !


fimmtudagur, 30. október 2008

Ekki þó mér væri borgað fyrir að þyggja hann...



Hún Lilja hringdi í mig í gær og bauð mér Morgunblaðið frítt.


Tveimur dögum eftir að Agnes Bragadóttir tók viðtal við Bjögga í blaðinu hans og korteri eftir að konan var í sjónvarpi stöðvar tvö að gaspra eitthvað.

Ég sagði nei takk við Lilju.



miðvikudagur, 29. október 2008

Ingibjörg, Ingibjörg



Mér dettur ekki í hug að hald því fram að Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafi knésett bankana eða ætlað sér það. Það er bara súrrealískt að halda slíku fram. Geir var þess vegna trúverðugur og næstum brjóstumkennanlegur þegar hann benti á í kvöldfréttum að auðvitað hefðu þeir Davíð ekki staðið þannig að verki.


Það skiptir bara ekki máli núna. Við værum ekki í þessari stöðu ef þeir félagar hefðu ekki haldið uppi þessari ónýtu peningamálastefnu. Við værum ekki í þessari stöðu ef þeir hefðu ekki einangrað hagkerfið með þessum dvergvaxna gjaldmiðli sem nú er rúinn trausti.

Engum dylst að undir forystu Davíðs og Geirs höfum við ekið þessa stefnu til glötunar. Það er ekki ásættanlegt að Samfylkingin kói með þessu lið lengur, nú á að hætta þessu bulli Ingibjörg.



Ingibjörg!




INGIBJÖRG!!!







þriðjudagur, 28. október 2008

Vísitöluskrímslið æðir áfram


Nú verða menn að taka vísitölutryggingu lána úr sambandi. Það verður að afnema hana með lögum. Þetta er séríslenskt fyrirbæri og er að drepa fólk.


Ég get skilið að það þurfi að hafa háa stýrivexti, tímabundið, meðan gjalddagar gríðarlegra upphæða í jöklabréfum eru að ganga yfir. En ég lifi vísitölutrygginguna ekki af.

Vísitala neysluverðs mældist seinast 16% samkvæmt Seðlabanka. Í raun er hinsvegar gengisfallið sem mest áhrif hefur á vísitöluna. Vörur eru keyptar til landsins með erlendum gjaldeyri og fall krónunnar myndar því verðlag og sem mælt er með vísitölu.

Gengisvísitalan hefur nú hækkað um 70% frá áramótum. Enginn veit hvort sú skráning Seðlabanka er rétt, en allir erlendir bankar virðast vera á því að krónan sé mun veikari en svo. Hver getur borið lán með 7% vöxtum, 18% vaxtaálagi og 70% verðbótum eins og blasir við núna?

Það þarf að huga að fleirum en þeim sem tekið hafa lán í erlendri mynt. Það ætti t.d. að vera hlutverk forseta ASÍ að huga að hagsmunum almennra launamanna. Það gerir hann ekki. Hans fyrsta verk sem nýkjörinn formaður er að verja vísitölubindingu lána, vegna þess að lífeyrissjóðirnir muni tapa – n.b. til skamms tíma – svei þér Gylfi Arnbjörnsson.

Er það ekki ásættanlegra fyrir stjórnvöld að afnema vísitölutryggingu lána með lagasetningu, fremur enn að kaupa upp öll húsnæðislán í landinu. Það er ekki til fjármagn til að í að kaupa öll húsnæðislán landsmanna og það bjargar í raun engu fyrir fólk ef gert er eins og lofað var, að kaupa þau upp á upphaflegum kjörum. Vísitöluskrímslið æðir áfram – það mun samt drepa okkur öll.


laugardagur, 25. október 2008

Í fréttum var þetta helst


Bæjarstjórinn í Kópavogi skilur ekki að bankastjórn Seðlabankans hefur ekkert með peningamálastefnuna að gera. Bankastjórnin ber ábyrgð á rekstri bankans. Lítil vörn fyrir vini Davíðs að þessum stuðningi.


Svo kom konan sem eitt sinn var sökuð um að sparka í lögguna í viðtal og sagði að ekki mætti sparka í borgina. Þarna stóð hún á horni Mangarastrætis og vill að við föðmum þessar götur og verðum eitt með þeim. Fyndið.


föstudagur, 24. október 2008

Gott hjónaband


Þegar ég kom heim í kvöld sagði konan mér að hún hefði sótt um tíu miljóna lán í bankanum.


Og hvað ætlarðu að gera við þessa peninga?

Já sko fólkið í næsta húsi skuldar orðið svo mikið sagði hún.

En finnst þér að við eigum að borga fyrir þau?

Nei við borgum auðvitað ekki meira en lög gera ráð fyrir en nú er gerð krafa um að við borgum og það er líka mikilvægt að koma starfseminni og mannlífinu aftur af stað hérna í götunni, sagði hún.

En fólkið í næsta húsi fékk ráð frá fjármálaráðgjafa niðir í bæ, finnst þér ekki eðlilegt að þau segi honum upp áður en við förum að borga fyrir þau?

Nei sko – samningur við fjármálaráðgjafann er á ábyrgð mannsins í kjallaranum og ég get ekki gert neina slíka kröfu á hann eða krafist þess að hann taki slíkar ákvarðanir, sagði hún.

Hvernig eru skilmálarnir og á hvaða kjörum er þetta lán sem við erum að fara að taka?

Ja þú verður að skilja það, sagði konan mín, að ég ræddi við útibússtjórann sem á eftir að bera þetta lán undir útlánanefnd og stjórn bankans, ég verð auðvitað að virða trúnað við þetta fólk og get því ekki sagt þér neitt um þetta næstu daga.

Já ástin mín, varstu búin að kaupa í matinn?

Það verður nú örugglega lítið í matinn á næstunni, fólkið í næsta er náttúrulega búið að fara soldið illa með okkur, sagði hún.
Já ástin mín, ég skil, þú ert góð kona og þetta er gott hjónaband.


fimmtudagur, 23. október 2008

Skilaboð frá Kerry


Félagi Kerry var að senda mér póst um nýjasta trixið hjá McCain í kosningabaráttunni, sem er að láta maskínur hringja í almenning og spila hljóðritaðan óhróður um okkar einu von - Obama. Dæmi;


“Hello. I’m calling for John McCain and the RNC because you need to know that Barack Obama has worked closely with domestic terrorist Bill Ayers…”

Hér má hlusta á dæmi um þessi símtöl af vefnum Truth Fights Back. Skebbtilegt

Svo segir í bréfinu frá Kerry:
“The calls are so bad, even some Republicans have come out against them. Republican Senator Gordon Smith's spokesman said, "Senator Smith does not condone these sort of calls."

Susan Collins "urges the McCain campaign to stop these calls immediately." Even Norm Coleman in Minnesota has distanced himself from the calls.”

Skebbtilegt… skebbtilegt…


Ps. þegar þetta er skrifað eru 11 dagar, 1 klukkustund og 44 mínútur til kosninga.



miðvikudagur, 22. október 2008

Verum viðbúin


Í kommúnistaávarpinu sem nú er að koma út aftur segir:


“Í kreppunum gýs upp þjóðfélagsleg farsótt, er öllum fyrri öldum hefði virzt ganga brjálæði næst – farsótt offramleiðslunnar. Þjóðfélagið er snögglega hrapað aftur niður á villimennskustig um stundar sakir”.

Á FRAM FJÖLNIR ?

Hefði það ekki verið lausnin?

þriðjudagur, 21. október 2008

Rós í myrkrinu


Í morgun þegar ég hélt til vinnu heyrði ég þennan söng í garðinum mínum.


Rós er rós er rós.

Þarna var hún (nei ekki Gertrude) og blómstraði í október, þrátt fyrir gjörningaveður vindstiga og vístölu.

Ég sneri við og sótti myndavélina.


föstudagur, 17. október 2008

Jarðvegur illgresis


Hér má hlíða á Dag B. Eggertsson í seinustu Kilju segja frá uppáhaldsbók afa síns, Gunnars Steingrímssonar. Bókin er Veröld sem var eftir Stefan Zweig þar sem höfundur verður vitni að uppgangi nasismans, fasismans og kommúnismans. Honum finnst þó þjóðernishyggjan verst því hún er tæki allra hinna hreyfinganna til að ná framgangi.


Mér finnst þetta umhugsunarvert núna þegar kynt er undir Íslenskri þjóðernishyggju. Þegar búið er að riðlast á almenningi er hrópað stöndum saman, sýnum samstöðu. Við höfum eignast sameiginlegan óvin og eigum að tromma saman á torgum samstöðunni til dýrðar. Bensínstöðvar og aðrir mangarar flagga íslenska fánanum og drífum okkur svo á landsleikinn!!

Til hvers? Svo við herðum sultarólina stoltari? Svo við borgum saman? Af því það er svo æðislegt að vera Íslendingur, hvað sem það nú táknar.


miðvikudagur, 15. október 2008

Hún vann hjá Glitni


97 var sagt upp hjá Glitni í dag.

Ein þeirra sem fékk uppsagnarbréfið er 57 ára gömul einstæð kona sem hefur þjónað bankanum alla sína starfsævi.


Nítján ára fór hún að vinna hjá forvera þessa Glitnis sem nú þarf ekki lengur á henni að halda og hún hefur aldrei unnið annarsstaðar.

Við lesum um að aðallega fái fólk í verðbréfadeildunum uppsagnir og ósjálfrátt hugsar maður að þetta uppalið sem hefur komið okkur í þessa stöðu þurfi nú bara að bíta í það súra. En svo persónugerist þetta svona fyrir framan mann.

Nú ríður á að þjóðin standi saman, sýni samstöðu og allir taki á saman og það er örugglega mikils viði fyrir þetta sameiginlega átak að þessari konu var sagt upp. Og ef það er erfitt að feisa þetta þá er nú svo gott að hugsa til þess að allir nýju bankastjórarnir eru konur. Nú stjórna konurnar, frábært.


Það sem Kjartan meinti


Nú liggur fyrir hvern Kjartan átti við á fundinum í Valhöll.
Hann var að tala um ömmu Davíðs Oddssonar.




Viðtalið við Davíð er hér.

sunnudagur, 12. október 2008

Það er búið


Mér finnst svolítið viðlíka stemming núna og 1984 í stóra BSRB verkfallinu. Þá var upplausnarástand. Við Austurvöll var haldinn baráttufundur og þessi mynd var tekin úr turni Hótel Borgar af útsendara Valhallar.



Myndin varð fræg og daginn eftir var fluttur þessi kveðskapur á baráttufundi opinberra starfsmanna í Austurbæjarbíói.

Við dómkirkjuhornið er dulítið skjól
og dolfallinn maður í skjólinu hjarir
með opið í hálsinn í októbersól,
uppglennta skjáina og titrandi varir,
hrollandi í bitru á helfrosnum tám,
hnýttur af kulda með rennsli úr nefi,
dofinn í krikum og dofinn í hnjám,
djúpt oní vösum er krókloppinn hnefi.

Það gustar um Hannes H. Gissurarson
á gægjum við hornið að snapa eftir fréttum.
Í svip hans er spurning og veikburða von
um Valhallarsigur á Béserrbé-stéttum.
Hann leynist í skugga, hann vokir, hann veit
það er vissast að taka ekki áhættu neina
svo fjarri öllum vinum í frjálshyggjusveit,
þeim Friedman og Hayek og Davíð og Steina.

Úr bókviti malar hans krambúðarkvörn
í kapítalistanna gullpyngjur digrar,
en gott er að hafa af guðshúsi vörn
ef gerast þau ósköp að jafnréttið sigrar.
En Hannes minn Hólmsteinn þótt kenning sé klár
mun Kristur ei taka neitt mark á þeim orðum,
og uppi þú verður jafn einmana og smár
og eitt sinn á dómkirkjuhorninu forðum.

Aftur er október, þó liðin séu 24 ár. Í þessu verkfalli breyttist heimsmynd okkar nokkurra ungmenna og óhætt að segja að trúin á félagshyggjuna, samstöðuna og verkalýðsbaráttuna hafi yfirgefið okkur mörg.

Þegar eldri dóttir mín, sem þá var þriggja ára sá þessa mynd varð henni að orði;
“Er hann búinn að kúka á sig?”

Ég held að núna megi segja að kúkurinn sé kominn.

laugardagur, 11. október 2008

Fólkið í Flokksráðinu



Þessi frétt er ekki merkileg vegna ekkifréttarinnar sem hún fjallar um, en það er gaman að fá mynd af fólkinu í flokksráðinu.




fimmtudagur, 9. október 2008

Brunalið með bensínslöngu


Ég hef verið þeirrar skoðunar að rétt sé að ölduganginn lægi áður en seðlabankastjóra sé skipt út. Þessi skaðvaldur með bensínslönguna við stórbálið gerir það þó ekki endasleppt.


Í fréttablaðinu í dag segir:
“Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósþætti, að erlendir kröfuhafar fengju ekki nema "þetta fimm, tíu, fimmtán prósent upp í sínar kröfur."
Heimildir innan stjórnvalda herma að ummæli Davíðs hafi valdið titringi hjá Bretum.”

Og í kjölfarið komst Kaupþing þrot. Um það er sagt á Mbl.
Kaupþingsmenn eru sannfærðir um að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hafi í máli sínu í gærmorgun verið að vísa til orða Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld, þegar hann greindi frá því að Íslendingar ætluðu ekki að borga. „They are not going to pay!“ sagði ráðherrann. Telja þeir að þessi túlkun fjármálaráðherrans á orðum seðlabankastjóra, með skírskotun til tryggingagreiðslna vegna Icesave-innlánsreikninganna, hafi riðið baggamuninn og allt traust erlendra lánardrottna hafi beinlínis gufað upp á augabragði.

Vonbrigði forsvarsmanna Kaupþings eru gífurleg. „Við vorum ekki í vanskilum, vorum með nægt laust fé og góða eignastöðu. En fyrirtækið var tekið af okkur með valdi í Bretlandi og við gátum ekkert gert,“

Nú er ekki hægt að réttlæta það lengur að bíða með að víkja Davíð burt!