föstudagur, 30. maí 2008

Frábært Þorgerður Katrín


Í Gærkvöldi klukkan 21:14 voru samþykkt á Alþingi lög um menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með þeim lögum var starfsheiti leikskólakennara lögverndað. Í því felst viðurkenning sem marga hefur dreymt um í áratugi.


Það er óhætt að þakka Þorgerði Katrínu og óska henni til hamingju með þá lagabálka sem hún fékk samþykkta í gær. Það þurfti til þess festu, einurð og kjark. Menntamálaráðherra efndi til víðtæks samráðs í undirbúningi frumvarpanna og það var örugglega þetta samráð sem fleytti málunum í gegn.

Það er ekki víst að allir geri sér ljóst á hvaða krossgötum menntamálin standa á í dag en það á eftir að koma vel í ljós á næstu árum hvaða umbreyting er að verða.

Á mínum vinnustað var fagnað og aðstoðarskólastjórinn fór og keypti tvö kíló af Makkintosi til hátíðabrigða.

fimmtudagur, 29. maí 2008

Tjáðu þig til heilbrigðisvitundar


Nú er búið að samþykkja ný lög um leikskóla. Þetta er mikið framfaramál og ástæða til að óska þjóðinni til hamingju. Á lögunum eru þó hnökrar.


Starfshættir leikskóla skulu mótast af kristilegri arfleið okkar. Þetta er merkingarlaust.

Í markmiðum með uppeldisstarfinu var orðinu umburðarlyndi vikið burt í meðförum Menntamálanefndar. En því bætt við að markmið sé að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að efla heilbrigðisvitund þeirra, (af því börn eru orðin svo feit eins og segir í nefndaráliti).

Nú þurfa leikskólakennarar að leggjast yfir það hvernig tjáningar og sköpunarhæfileikar eru ræktaðir svo heilbrigðisvitund eflist.


Sæskrímslið farið


Hafnarfjörður í gærOg Hafnarfjörður í morgun

þriðjudagur, 27. maí 2008

Nú getum við


Það var sagt frá því fyrir stuttu að virkir sprautufíklar væru orðnir um 700 talsins á Íslandi og fjölgar svo ört að Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir á Landspítala talar um faraldur í þessu samhengi.


Í hópi sprautufíkla eru ungmenni og barnshafandi konur.

Vímuefnaneysla ungs fólks varðar landsmenn alla. Það er dýrmætt fyrir þjóðfélagið í heild sinni ef tekst að koma í veg fyrir að sá hópur sem leitar til unglingadeildar SÁÁ nær að hætta vímuefnaneyslu og halda áfram að mennta sig og verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Undir því er lífshamingja þeirra komin og allra þeirra nánustu.

Nú erum við svo heppin að geta gert eitthvað í málinu. Frá og með fimmtudegi og næstu daga þar á eftir selur SÁÁ Álfinn sinn til stuðnings ungu fólki í vímuefnavanda um leið og athygli er vakin á starfseminni og þeim sem í vanda eiga og aðstandendum þeirra er bent á úrræði.

Kúl.

Skarpgreindir snillipinnar


Mikil gæfa er að eiga þá að, strákana í greinigardeildunum.

Þessi segir þetta um áhrif lækkandi íbúðaverðs:

"…Ingólfur segir áhrifin af verðlækkuninni birtast þannig að þeir sem eiga íbúðir sitji uppi með verðminni eign í árslok."

mánudagur, 26. maí 2008

Lagfæring, launin mín - og Kobba


Auglýsingin um golfnámskeið leikskólastjóra sem var svo ósmekklega myndskreytt eins og kom fram á blogginu mínu á föstudag, var lagfærð í dag. Þeir sem eiga aðgang að innri vef Reykjavíkurborgar geta nú séð auglýsinguna án myndar.


Í dag fékk ég líka skilaboð um að vinnuveitandinn minn, sem er vel að merkja Reykjavíkurborg, ætli sér ekki að meta starfsreynslu mína frá öðrum vinnuveitendum til launa. Þrátt fyrir afdráttarlaus heimildarákvæði í kjarasamningi er það niðurstaða vinnuveitandans að greiða mér ekki þessa fjóra launaflokka sem ég óskaði eftir.

Niðurstaðan sem barst mér í dag er semsagt sú að ég verð sem millistjórnandi hjá Reykjavíkurborg með laun sem nema um þriðjungi af launum Jakobs Magnússonar. Það er nú aldeilis munur þegar menn hafa orð á sér fyrir að vera röskir og snöggir til verka eins og Kobbi.

Svo vil ég bara taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að þrátt fyrir að ég hafi skopast af frammistöðu Hönnu Birnu hér nýverið á blogginu mínu og gagnrýnt ósmekklega myndskreytingu á vef borgarinnar er mér ómögulegt að setja það í pólitiskt samhengi að ég fæ niðurstöðu í dag við þessu ríflega þriggja mánaða gamla erindi mínu.

Menn eru auðvitað bara að láta verkin tala og vinna í þágu almannahagsmuna - eða þannig.

laugardagur, 24. maí 2008

Til hamingju Ísland


Í dag var flugdagur og svo er líka bíllaus dagur, eða öllu heldur bíllaust kvöld. Það sést aldrei bíll á götunum þegar Júróvisíon er í sjónvarpinu. Svo var afmæli í dag.


Það voru ekki mörg kaffihúsin í Reykjavík þegar ég var strákur, eiginlega bara þrjú sem ég vissi af.

Á árunum ´65 til ´70 fórum við bræðurnir vikulega á bíó með pabba og toppuðum svo daginn með því að kíkja á kaffihús

Það var helst að víð færum á Laugaveg 28, sem var eiginlega kaffitería. Skammturinn var alltaf eins, súkkulaði með rjóma og rúnnstykki með smjöri og osti. Um sali, sem voru tveir, sigldu þéttvaxnar þjónustukonur á ljósbrúnum nælonsloppum fyrir innan skjannahvítar blúndubriddaðar svuntur sem hvelfdust yfir barminn þannig að þær urðu áþekkar briggskipum í bíómynd. Þær söfnuðu saman leirtaui á bakka sem þær stungu inn um lúgu á veggnum, væntanlega inn í eldhús.

Mér fannst æðislegt þetta gat á veggnum, en er enn þann dag í dag fyrirmunað að skilja hvar þær fiskuðu upp allt þetta leirtau til að stinga í gatið, því það var yfirleitt ekki margt um manninn á Laugavegi 28. Einn gestur var þó alltaf þar, gráhærður síðskeggjaður öldungur sem las á útlensk blöð. Fyrrverandi fjármálaráðgjafi ríkisstjórnar Ísland og seinna sagði Jón Baldvin hann gáfaðasta mann landsins.

Ef okkur líkaði ekki selskapurinn á Laugavegi 28 snerum við stundum við og fórum á Fjarkann, sem var hvorki fugl né fiskur. Ekkert stabílt þar og hann varð fórnarlamb grillhúsamenningarinnar skömmu síðar. Þórarinn gerði Fjarkann eilífan í ljóðinu um Rósu sem heldur heim af vaktinni, styttir sér leið í gegnum Ísafoldarhúsið og sér að dönsku blöðin eru komin. Ég brenndi mig illa á súkkulaðinu í Fjarkanum, sem reyndist svo vera kakó en ekki súkkulað.

Á Mokka fórum við sjaldnar en það var alltaf upplifun, en reykurinn hentaði okkur ekki. Þegar ég var unglingur bar ég lotningu gagnvart Mokka og man eftir að hafa hlustað á speki Dags Sigurðarsonar á næsta borði. Dagur var, eins og margir sem koma á Mokka, þeirrar gerðar sem eftirminnileg er.

Guðmund hitti ég áratugum seinna í níræðisafmæli systur hans. Það varð úr þegar veisluhaldi lauk að ég æki honum og Guðnýju konu hans heim. Hann var glæsilegt séntilmenni, hrokalaus en tígulegur. Ég man vel eftir samræðunum á leið okkur gegnum Hlíðarnar og niður á Skólavörðustíg.

Hann hefur verið um áttrætt en hafði allt á tæru og vissi nokk um nýbyggingarnar við Skógarhlíð. Og svo sagði hann mér hvað þetta væri sniðugt með internetið, það væri nefnilega vefmyndavél í Hallgrímskirkju og strákurinn sinn sem væri úti í Frakklandi gæti séð hvort það væri snjór á Skólavörðustígnum eða ekki.

Það fór vel á með okkur og ég aftók auðvitað með öllu að þiggja borgun fyrir farið sem honum þótti við hæfi að bjóða í lok ferðar. Þá tók höfðinginn upp veski sitt, dróg úr því skrautprentað kort, sótti penna með skrúfuðu loki í innri vasa jakkans og ritaði nafnið sitt undir kortið. Þetta var ávísun á kaffi og veitingar fyrir tvo á Mokka.

Ég leysti ekki út þetta gullfallega kort og á það ennþá. Þó að kaffið og veitingarnar væru á Mokka er kortið meira virði en svo. Það er minning um genginn sjentilmann og vísbending um að eitthvað sé til í okkar samfélagi sem er lífseigara en yfirborðsmennskan. Þannig er Mokka líka - og það er merkilegt í landi þar sem ekkert nema Júróvisíon fær okkur til að leggja bílana til hliðar.

föstudagur, 23. maí 2008

Sjóvbíssness?


Í gær var ég viðstaddur hátíðlega athöfn þegar skrifað var undir samstarfssamning um þróunarverkefnið; Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.


Nú var ég að vafra um innri vef Reykjavíkurborgar. Þar eru starfræktir 80 leikskólar, allir leikskólastjórar eru konur. Nú hefur Leikskólasviðið ákveðið að standa fyrir golfnámskeiði fyrir leikskólastjórana. Undir fyrirsögninni Golfnámskeið leikskólastjóra er auglýsing sem myndskreytt er með þessari mynd:
Má ég biðja lesendur um að hugsa sér einhverja starfsgrein þar sem stjórnendur eru allir karlmenn. Má ég svo biðja lesendur um að hugsa sér að þessir karlar myndu auglýsa golfnámskeiðið sitt með mynd þar sem fáklædd kona liggur undir klofi á karlmanni, hafandi boltana í munninum og á bringunni.

Hvaða viðbrögð fengi slík auglýsing, hjá femínistum, hjá konum, hjá stéttum sem nær eingöngu eru skipaðar konum?

Er þátttaka í þóunarverkefni um jafnréttisfræðslu kannski bara sýndarmennska?


fimmtudagur, 22. maí 2008

Meistari trúverðugleikans

Birkir Jón Jónsson bloggar á heimasíðu sinni og segir m.a:
"Ríkisstjórnin hefur nú náð nýjum hæðum í því að skerða trúverðugleika sinn. Ég held að þetta heimsmet verði seint toppað..."

Er þetta ekki sami Birkir Jón og sagði við embættismenn Félagsmálaráðuneytis þegar hann var aðstoðarmaður ráðherra;
"Ef starfsemi Byrgisins á alfarið að fara eftir lögum um heilbrigðisþjónustu þá mun kostnaðurinn verða margalt hærri en nú er áætlað." ???


þriðjudagur, 20. maí 2008

Aftur og nýbúin... Önnur herferð ÁTVR?


Hún er fyrir löngu orðin þekkt herferð Vínbúðanna; "Ekki drekka eins og svín..."

Ég hef það fyrir satt að ÁTVR hafi látið taka aðra forvarnarauglýsingu. Kjörorð hennar ku vera: “Ekki dópa eins og asni, dópaðu eins og heiðursmaður”


GDUB, Greiningardeild Uno blogg, tókst að næla í eintak af auglýsingunni sem er nú á lokavinnslustigi. Við frumsýnum auglýsinguna hér og munið:

Ekki dópa eins og asni, dópaðu eins og heiðursmaður.


mánudagur, 19. maí 2008

Leikskólar mótist af kristinni arfleið


Nú er búið að útbýta þingskjali 1012 sem er við 287. mál á 135. löggjafarþingi Íslendinga með breytingartillögum Menntamálanefndar við frumvarp Þorgerðar Katrínar um leikskóla. Þar er meðal annars kveðið á um að;


“Starfshættir leikskóla skulu mótast af… kristinni arfleið íslenskrar menningar.”

Hummm. Hefur þetta einhverja þýðingu?


sunnudagur, 18. maí 2008

Hanna Birna á mannamáli


Á morgun þegar nýtt Mannamál, sem sjónvarpað var í kvöld, verður komið inn á vefTV Vísis ætla ég að telja hversu oft Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði að samstarfið í meirhluta borgarstjórnar væri gott, hversu oft hún sagði að hún væri stolt af borginni og fólkinu og hversu oft hún sagðist vinna að málefnum.


Svo ætla ég að reyna að hlusta eftir þessum málefnum. Það eina sem ég náði I kvöld var að hún vill auka valkosti í leikskólum og tryggja að þar fari einhver menntun fram. Sic.

Hvað táknar eiginlega þetta “fjölga valkostum í leikskólaúræðum” er það ekki annað orð yfir aukinn einkarekstur. Ef svo er, hvað um grunnskólana?

Hófsemd í óhófi


Nú eru samninganefndir BSRB og ríkis að funda um það sem Ögmundur samdi um við ríkisstjórnina á tveimur fundum í síðustu viku. Um samningafundinn núna segir Ögmundur á mbl.is:

“Ögmundur segir þó ekkert liggja fyrir um upphæðir eða samningstíma en að fulltrúar BRSB leggja áherslu á að ná fram samkomulagi á svipuðum forsendum og náðst hafi á almennum vinnumarkaði að undanförnu.”
Hverslags eiginlega verkalýðsforingi leggur áherslu á að gera samning eins og þann sem var svo innihaldsríkur að allar kjarabætur í honum voru upp urnar viku eftir að félagsmenn höfðu greitt atkvæði um hann?

Samkvæmt launakönnun eru taxtar opinberra starfsmanna 30% undir því sem gerist a almennum vinnumarkaði fyrir sambærileg störf. Kannski er orðið of langt siðan Ögmundur þurfti að lifa af töxtum sem BSRB semur um.


DREKKTU!


ÁTVR, áfengis og tóbakseinkasala ríkisins stendur sig vel. Þeir selja vín. Þeir standa sig svo vel að þegar lagt var fram fáránlegt frumvarp á Alþingi í haust um að selja áfengi í matvöruverslunum, voru sterkustu rök talsmanna frumvarpsins að það myndi engu breyta, ÁTVR væri svo víða og áfengi svo aðgengilegt nú þegar.


Frumvarpið fer ekki úr nefnd á þessu þingi. Allir málsmetandi sérfræðingar og stofnanir mótmæltu því, að hjáróma hagsmunarödd Félags stórkaupmanna undanskilinni. ÁTVR mun því annast áfengissöluna enn um sinn.

Nú hafa Vínbúðirnar, sem eru vörumerki ÁTVR, hrundið af stað einhverskonar forvarnarherferð. Tilgangurinn vafalaust einlægur. Á vef Vínbúðanna stendur:

“Vínbúðirnar hafa nú sett í loftið nýja auglýsingaherferð þar sem lykilsetningin er: Láttu ekki vín breyta þér í svín, drekktu eins og manneskja. Markmiðið er að minna fólk á að umgangast áfengi af ábyrgðartilfinningu og sóma.

Bent er á að þegar fólk drekkur of mikið gerir það stundum hluti sem það annars gerir ekki. Til þess að koma þessari hugmynd til skila er fólk sem hegðar sér ósæmilega við aðstæður sem almenningur þekkir og mislíkar sýnt með svínsandlit. Auglýsingarnar eiga að höfða á áhrifaríkan hátt til þeirra sem eru orðnir þreyttir á drykkjulátum en einnig að vera þörf ábending til þeirra sem fyrir þeim standa.”

Gott og blessað, sérstaklega ef einhver heldur að svona auglýsingar geti fengið þá sem drekka of mikið til að hugsa sinn gang. Það er bara þessi hluti áminningarinnar sem stingur einhversstaðar í mig;
“…drekktu eins og manneskja.”

Í fyrsta lagi læðist að mér sá grunur að þarna sé í raun verið að auglýsa áfengi. Segja fólki að drekka. Að því sé ýjað að til sé einhver sósíal drykkja sem er kúltiveruð og fín, einhver miðjarðarhafsdrykkjumenning, sem dómsmálaráðherra gerði lítið úr í haust í eftirminnilegri færslu. En ÁTVR sé að hvetja til slíkrar drykkju.

En burt séð frá þeirri hugmynd minni, sem vel kann að vera óþarfa paranoja, þá verður því ekki á móti mælt að Vínbúðirnar segja fólki að drekka og það í auglýsingu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru bannaðar.

Það má reikna með því að frumvarp um sölu áfengis í matvörubúðum verði lagt fyrir aftur. Þá munu talsmenn aukins aðgengis að áfengi aftur grípa til hvaða vopna sem þeim hentar. Mun þá ekki þessi hvatning Vínbúðanna reynast vatn á millu kölska?laugardagur, 17. maí 2008

fimmtudagur, 15. maí 2008

Ögmundur semur við ríkisstjórnina


Á vef SFR segir frá því að samningamenn BSRB hafi átt kjarasamningafund með ráðherrum ríkisstjórnarinnar í dag. Þetta er annar fundurinn sem Ögmundur og Árni Stefán eiga með ráðherrunum á einni viku. En Ögmundur kallaði eftir beinu samstarfi við ríkisstjórnina eftir árangurslausa fundi samninganefnda 2. Maí

Þetta er haft eftir Ögmundi um fundinn í dag: “"Aðilar voru sammála um að hafa allt undir í viðræðunum, innihald kjarasamningsins og lengd samningstímans. Markmiðin eru þau sömu og í samningum á almenna vinnumarkaðinum að mikilvægast sé að ná niður verðbólgunni. Þá viljum við að samið verði um krónutöluhækkun en hún gagnast best lágtekju og miðlungstekjufólki,"

Formsins vegna munu nú samninganefndir hittast og semja um það sem samið var um í dag. Það vekur því athygli að engum sögum fer af umræðum á fundinum í dag af því sem segir í ríkisstjórnarsáttmálanum um að “endurmeta beri sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.” Ætli það sé áhyggjuefni?


mánudagur, 12. maí 2008

Kristilegt siðgæði aftur í skólalög?


boðar Sigurður Kári Kristjánsson, sem merkilegt nokk er formaður Menntamálanefndar Alþingis, breytingartillögur á frumvörpum menntamálaráðherra til laga um grunnskóla, leikskóla og framhaldsskóla “…meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.


Það er m.a. merkilegt við þessi ágætu frumvörp Menntamálaráðherra að Þorgerður vann þau í sátt við fagstéttirnar sem vinna eiga samkvæmt væntanlegum lögum.

Kristín Dýrfjörð vakti athygli á tilkynningu Sigurðar Kára í gær og í viðbrögðum við bloggi hennar segir Matthías Ásgeirsson m.a: “Ef þetta gerist, sé ég ekki annað í stöðunni en að menntamálaráðherra víki. Hún getur ekki lagt fram lagafrumvarp sem hún hefur áður ítrekað sagt að stangist á við alþjóðalög og mannréttindasáttmála.”

Ég þarf hinsvegar að pósta á þingmanninn minn í nefndinni og krefja hann svara. Á ég að trúa því að Katrín Júlíusdóttir háttvirtur 5. Þingmaður Suðvesturkjördæmis standi að þessum tillögum með Sigurði Kára?

miðvikudagur, 7. maí 2008

Óli góði - og allt hans fólk


Þeir prentuðu seinasta bloggið mitt í 24 stundum í morgun. Mér finnst það mikill heiður, sem ég er ekki vanur. Ég finn allur hvernig ég mildast og mýkist í afstöðu minni til hægriöfgamannsins og ritstjóra 24. stunda, Ólafs Þ. Stephensen, verðandi ritstjóra Morgunblaðsins.


mánudagur, 5. maí 2008

Kynferðisbrotadeild Þjóðkirkjunnar?

Ég hef verið að velta því fyrir mér, í tilefni af fréttum, hvort það sé Þjóðkirkjunni til hróss eða hnjóðs að reka sérstakt fagráð um meðferð kynferðisbrota.

Er nokkurstaðar hjá stofnunum samfélagsins þörf fyrir svoleiðis fyrirbæri? Reka stéttarfélög, stofnanir eða sveitarfélög slíkar kynferðisbrotadeildir? Eða er það bara Þjóðkirkjan?

Er ég tryggður?


Þetta var nokkuð einfalt hjá Guðlaugi heilbrigðisráðherra í Silfrinu áðan (kvöldendursýningin). Hann er bara að kostnaðargreina til að geta gert upp við sig af hverjum hann ætlar að kaupa þjónustuna. Fínt.


Hann naut líka bakkupps frá Björgvini viðskiptaráðherra vorum, sem aftók með öllu að eitthvað væri verið að einkavæða. Sannfærandi.

Það á semsagt bara að nýta fjármuni skattborgarana betur. Koma á fót innkaupastofnun sem ákveður hvaða heilbrigðisþjónustu á að kaupa fyrir fólkið. Af hverjum á að kaupa hana og hversu mikið á að kaupa af henni. Fínt.

Til áréttingar því að ekki væri verið að bylta kerfinu spurði Björgvin hvort nokkuð ætti að heimila fjársterkum einstaklingum að kaupa sig framfyrir á biðlistum – og svaraði því svo sjálfur og afdráttarlaust neitandi. Sannfærandi.

En það er þetta með biðlistana og hversu mikið á kaupa af heilbrigðisþjónustunni sem verður að setja spurningarmerki við.

Þegar ákvörðunin um hvaða líkn á að veita er komin úr höndum lækna í sérstaka stofnun. Hvað gerist þá? Hvaða rétt á ég á þjónustu? Hefur það verið skilgreint? Hvaða trygging felst í þátttöku minni í almannatryggingakerfinu?

Hver ætlar að sjá til þess að það verði skilgreint hvað almannatryggingarnar mínar tryggja mér? Svarið er ekki VG, XD, Framsókn eða Jafnaðarmenn og hvað hann heitir fimmti flokkurinn. En auðvita þarf þetta að vera á hreinu svo vér kvíðnir, getum gert upp við okkur hvort rétt sé að fjárfesta í viðbótarsjúkratryggingu eins og í USA.

Fram að því má hanga í því að Evrópusambandið tryggir okkur gegnum EES samninga að við getum fengið þjónustuna erlendis, á kostnað Íslenska ríkisins.

laugardagur, 3. maí 2008

Um fylgistap


Guðfríður Lilja, hin glaðbeitta skákkona, hélt því fram í Kastljósi í gær að mælt fylgistap Samfylkingar réðist af því að meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar sé félagshyggjufólk (og þar með óánægt). Þetta er vitlaus niðurstaða hjá Guðfríði.


Sennilega er það þó rétt að meirihluti kjósendanna séu félagshyggjumenn. En í mælingu Gallup kom einmitt mjög skýrt fram að Jóhanna Sigurðardóttir er sá ráðherra sem nýtur mest stuðnings og eins og ráðherrann Jóhanna benti á í fréttum í gær hefur engin ríkisstjórn gert jafn mikið á jafn stuttum tíma í félagslegum úrbótum og sú sem Jóhanna situr í.

Óánægja okkar stafar af öðru.

Á sama tíma og ráðherravaldið sýnist öflugt og snöggt í höndum Sjálfstæðismanna eru vopnin deig og slíðruð eða töpuð í búðum Samfylkingar. Þar er viðkvæðið ég get ekki, ég má ekki eða ég ætla – seinna.

Menntamálaráðherrann hefur lagt fram viðamikil lagafrumvörp um leikskóla, grunnskóla og menntun kennara. Hún hefur fagstéttirnar með sér, slær ekkert af og kemur viðamiklum stefnumálum þar með í framkvæmd. Guðlaugur er að gera uppstokkun í heilbrigðiskerfinu, ræður og rekur og þarf ekki að svara neinum til um það hvert hann er að fara. Og ekki er fyrr kominn upp kvittur um fjármálavanda í lögregluembætti Suðurnesja en dómsmálaráðherrann skellir á borðið frumvarpi til að taka á vandanum.

Á meðan sjáum við Samfylkingarfólk ráðherrana okkar í einhverskonar flumbrugangi og ráðaleysi. Samgönguráðherrann getur ekki tjáð sig um skoðanir sínar, eins og á Sundabraut, af því að hann þarf kannski að úrskurða um þau mál seinna. Umhverfisráðherrann getur svo bara tjáð sig um skoðanir sínar - en getur ekki úrskurðað. Hefur greinilega engin völd og engin áhrif. Okkur finnst því blasa við að nú bætist við þrjú álver og olíuhreinsistöð á sjálfum Vestfjörðum.

Við sem héldum að við værum að kjósa flokk sem kæmi á styrkjum til framhaldsnáms eins og tíðkast almennt í vestrænum ríkjum, heyrum nú málpípu Sjálfstæðismanna leggja inn hugmyndir um skólagjöld og ráðherra Samfylkingar vill bara skoða málið jákvæður og fordómalaus. Skamm, Össur. Og ég ætla ekkert að minnast á það að ekki má betur sjá en Ingibjörg sé að koma á fót her. Ég minnsit ekki á það.

Það er af þessum sökum, Guðfríður, sem fylgi kvarnast af flokknum mínum núna. Ekki út af því sem Jóhanna hefur þó verið að framkvæma.

Og sýnist nú lítið eftir annað en halda bara kúlinu.

föstudagur, 2. maí 2008

Hjólahól


Þeir voru að minna á það í gær að hjólin væru komin á göturnar – mótorhjólin. Smart auglýsing í tíví og hópakstur hjá þeim líka.


Hann minnti mig á auglýsinguna títuprjónshausinn í baksýnisspeglinum mínum áðan. Ég kom akandi úr Kópavogi í átt að Garðabæ. Leit í spegilinn og sá hann byrtast, títuprjónshausinn sem stækkaði með ógnarhraða og kom upp að mér á andartaksbroti.
Svo hvarf han úr speglinum en þaut framhjá mér með sándi sem Steven Spielberg væri stoltur af að framkalla með öllu sínu THXi á nokkrum vikum. Mér fannst þetta soldið töff.

Á leiðinni inn í Garðabæ og út úr honum hinumegin mættum við, ég og undanfarinn minn, nokkrum hjólamönnum sem óku í gagnstæða átt. Allir lyftu þeir hendi í kveðjuskyni og Undanfari heilsaði á móti. Þetta var hófleg kveðja, vinstri hönd var rétt lyft af stýri, mesta lagi 50 sentimetra. Svona – sæll félagi. Staðfesting á því að þeir væru í sama liði, hluti af því að tilheyra. Mér fannst þetta töff og heilsaði líka. Áður en við komum inn í Hafnarfjörð hafði ég heilsað fjórum mótorhjólagörpum. Þeir heilsuðu ekki, sáu mig sjálfsagt ekki. Ég er ekki einn af þeim.

Ég skil þessa tilfinningu vel, frelsið. Að eiga hjól, finna vindinn taka í og kraftinn. En ég tilheyri annarskonar liði. Ég er reyndar með kenningu um að fjölskyldumenn eins og ég eigi ekki að fá sér hjól. Bæði er það að ég hef einhverja hugmynd um að slysatíðni sé há og þeir sem eigi fyrir fjölskyldu að sjá skuli ekki taka slíka áhættu. Og svo er það hitt.

Ímyndin mín af hjólamanni er einhvernveginn eins og af nútímakúreka. Hann beislar gæðinginn, sjálfstæður og heldur inn í sólarlagið með vindinn í hárinu – einn. Kenningin er raunar sú, að fjölskyldumenn sem kaupa sér hjól – hjóli oftar en ekki út úr sambandinu. Þeir aka á brott og fara að tilheyra öðru. Síðan við Ármann pípari töluðum okkur inn á þessa kenningu fyrir sex árum (kannski til að sætta okkur við það fá okkur ekki hjól) hef ég safnað mörgum dæmum um það að hugsanlega getur hún staðist.

Veit ekki um það. Veit bara að á morgun beisla ég fjölskylduvæna skutbílinn og ek norður í land þar sem prinsessan á heimilinu og mamma hennar eru búnar að vera í faðmi stórfjölskyldunnar í þrjá daga. Og þegar við hittumst læt ég ekki duga að lyfta vinstri hendi um hálfan meter. Við höfum annan hátt á, við að tjá hverjum við tilheyrum.

fimmtudagur, 1. maí 2008

Þjóðarsátt úr réttri átt


Ingibjörg Sólrún var að biðja um þjóðarsátt í dag. Frábært. Við erum samherjar þó ég hafi aldrei vanist því að kalla hana Sollu og aldrei vanist því almennilega heldur, þegar hún er við stjórnvölinn.


En ég er til í sátt. Ég yrði svaka sáttur ef skorið yrði á vísitölubindingu lána, krónunni yrði skipt út fyrir alvöru gjaldmiðil, stimpilgjöld yrðu aflögð og tekjuskattur væri lækkaður eða afnuminn eins og sýnt hefur verið fram á að hægt er að gera. Ég yrði svo sáttur að á móti væri ég til í að lækka launin mín. T.d. um tvo launaflokka eða svo.

Ekki væri verra ef farið væri í þá táknrænu aðgerða að lagfæra eftirlaunalögjöf ráðamanna. Þá væri einstaklingurinn ég, svo sáttur að það mætti hreinlega kalla það þjóðarsátt. En til þess að ná þeirri þjóðarsátt þurfa þeir sem sitja við stjórnvölinn að hafa eitthvað frumkvæði – gera eitthvað til að sætta fólk.

Svoleiðis frumkvæði hefur forystusveit kennara og launanefnd sveitarfélaga sýnt með óvæntum hætti. Það er óvænt og ánægjulegt þegar kennarar ná góðum samningi. Og það er gleðilegt þegar það gerist snirtilega og hávaðalaust. Allt of oft hafa skapast róstur í kring um kjarabaráttu kennara sem hefur ekki skilað þeim velvilja eða sáttri þjóð.

Nú hefur þetta tekist vel hjá kennurum undir öruggri handleiðslu Ólafs Loftssonar formanns Félags grunnskólakennara. Kannski er kominn í Ólafi verðandi formaður Kennarasambandsins, hver veit.

Hvað um það, ég mæli með Ólafi Loftssyni í þjóðarsáttina og auðvitað Ingibjörgu.


1. mai - upp úr sófanum


Ég er óttalega anarkískur inn við beinið. Það fara glóa sumar taugar þega kemur að einhverjum yfirvöldum, boðum og bönnum. En öll barátta og mótmæli eru eitthvað svo kjánaleg og tilgangslaus nú orðið. Ég er vinur Kína og mótmæli ekki stjórnarfari þar. Ég fer hjá mér þegar kemur að mótmælum atvinnurekendanna á vörubílunum – þvílíkur bjánagangur. Það er helst að grínmótmæli barna á götuhornum undanfarið höfði til mín.


Undanfarna daga hefði ég þó fílað að vera skurð- eða svæfingarhjúkrunarfræðingur. Þeir eru hetjur, hugsandi og djarfir heilbrigðisstarfsmenn sem stöðvuðu með samtakamætti ofbeldið á Landspítalanum.

En nú er tvöfaldur frídagur uppstigningar- og 1. maí. Baráttudagur.

Best ég standi upp úr sófanum og þrífi bílinn.