sunnudagur, 12. október 2008

Það er búið


Mér finnst svolítið viðlíka stemming núna og 1984 í stóra BSRB verkfallinu. Þá var upplausnarástand. Við Austurvöll var haldinn baráttufundur og þessi mynd var tekin úr turni Hótel Borgar af útsendara Valhallar.



Myndin varð fræg og daginn eftir var fluttur þessi kveðskapur á baráttufundi opinberra starfsmanna í Austurbæjarbíói.

Við dómkirkjuhornið er dulítið skjól
og dolfallinn maður í skjólinu hjarir
með opið í hálsinn í októbersól,
uppglennta skjáina og titrandi varir,
hrollandi í bitru á helfrosnum tám,
hnýttur af kulda með rennsli úr nefi,
dofinn í krikum og dofinn í hnjám,
djúpt oní vösum er krókloppinn hnefi.

Það gustar um Hannes H. Gissurarson
á gægjum við hornið að snapa eftir fréttum.
Í svip hans er spurning og veikburða von
um Valhallarsigur á Béserrbé-stéttum.
Hann leynist í skugga, hann vokir, hann veit
það er vissast að taka ekki áhættu neina
svo fjarri öllum vinum í frjálshyggjusveit,
þeim Friedman og Hayek og Davíð og Steina.

Úr bókviti malar hans krambúðarkvörn
í kapítalistanna gullpyngjur digrar,
en gott er að hafa af guðshúsi vörn
ef gerast þau ósköp að jafnréttið sigrar.
En Hannes minn Hólmsteinn þótt kenning sé klár
mun Kristur ei taka neitt mark á þeim orðum,
og uppi þú verður jafn einmana og smár
og eitt sinn á dómkirkjuhorninu forðum.

Aftur er október, þó liðin séu 24 ár. Í þessu verkfalli breyttist heimsmynd okkar nokkurra ungmenna og óhætt að segja að trúin á félagshyggjuna, samstöðuna og verkalýðsbaráttuna hafi yfirgefið okkur mörg.

Þegar eldri dóttir mín, sem þá var þriggja ára sá þessa mynd varð henni að orði;
“Er hann búinn að kúka á sig?”

Ég held að núna megi segja að kúkurinn sé kominn.

2 ummæli:

Pétur Gunnarsson sagði...

snilld, hver orti?

Unknown sagði...

Ljóðið var sagt eftir góðkunnan útvarpsmann.

Þá var bara eitt útvarp en í því voru margir góðkunnir.