laugardagur, 31. desember 2011

Halli ársins

Halli ársins er verkalýsðforingi. Og sennilega eini verkalýðsforinginn sem stóð undir nafi sem slíkur árið 2011 - og svo lengi sem elstu menn muna.
Halli heitir Haraldur F. Gíslason þegar hann er formlegur, sem hann er sem betur fer mjög sjaldan. Hann orðaði kröfur leikskólakennara a mannamáli og það náði til þjóðarinnar.
"Deila sveitarfélaga og leikskólakennara snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að þeir drógust aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% í samhengi þá eru þau u.þ.b. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatta og gjöld. Það er um ein ferð í Bónus"
Þessa einföldu framsetningu skildi fólk og tók afstöðu með kennurunum hans Halla. Leikskólakennarar gerðu flottan díl, sem sumir reyna svo að plokka af þeim - að sjálfsögðu. Voru þeir ekki kosnir til þess?



föstudagur, 30. desember 2011

Loforð ársins



Loforð ársins var reyndar ekki gefið á árinu, heldur á seinasta degi ársins 2010.


"...Á nýju ári þurfum við einnig að leiða til lykta áratuga deilur um auðlindamál. Við þurfum að ná sátt um nýjan grunn að sjálfbærri og sanngjarnri stefnu varðandi dýrmætustu auðlindir þjóðarinnar, meðal annars um fiskveiðistjórnunarkerfið. Auðlindir sjávar, orkan í iðrum jarðar og þau verðmæti sem fólgin eru í vatninu, jafnt heitu sem köldu eiga að vera sameign þjóðarinnar og þannig þarf að ganga frá málum að arðurinn renni með sanngjarnari hætti en verið hefur til allra Íslendinga."


Samkvæmt slúðri í fréttatímum á að stíga stór skref í áttina að því að efna þetta loforð á ríkisráðsfundi 365 dögum eftir að loforðið var gefið. Það lýsir stefnufestu og er gott.



fimmtudagur, 29. desember 2011

Jólakort ársins


Það er orðið til siðs að senda ekki jólakort úr pappír. Ég tók upp þá hefð en mundi bara ekki fyrr en í dag að ég á blogg. Hér er jólakortið 2011 til vina og vandamanna.


sunnudagur, 18. september 2011

Eignarétturinn


Mér finnst það merkilegt að í þeirri frasakenndu umræðu um afnám skólaskyldu sem farið hefur fram undanfarna daga þá þykja það tæk rök að foreldrar eigi að fá að velja fyrir barnið SITT hvort það fari í skóla og hvað það læri.


Enginn gerir athugasemd við þennan meinta eignarétt foreldra á öðru fólki. Umræðan sem eltir illa rökstuddar upphrópanir um að afnema beri skólaskyldu snýst um hvort dönsk eða amerísk markaðshugsun sé heppileg sem fyrirmynd og hvort óhætt sé að heimila kennslu í sköpunarsögunni eða hvort betra sé að vera ligeglad í heimakennslu eins og danskurinn. En það er í sjálfu sér ekki dregið í efa að foreldrar hafi þennan eignarrétt á börnum og hafi rétt til að velja.


Stundum er sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Á Íslandi er þorpið búið að koma sér saman um að tryggja öllum börnum þann rétt að fá uppeldi og menntun við hæfi í skólum sem reknir eru af samfélaginu. Það er merkilegt að sumum finnst réttur foreldra til að velja fyrir börn sem þeir hafa eignarétt á vera sterkari en réttur barnanna til náms við hæfi.


Það fer reyndar þannig þegar reynt er að kryfja til mergjar hugmyndirnar um afnám þessara grundvallarréttinda að fátt er dregið fram til að vinna þeim fylgi og því jafnvel borið við að þessu hafi nú bara verið kastað svona fram til að vekja athygli.


Það væri sannarlega til að kveikja viðbrögð og hreyfa við hugsun ef frjóir anarkistar og fyrrverandi sósíalistar myndu halda fram hugmyndum um afnám eignaréttarins. Umræða um svoleiðis hugmyndir gæti haft raunveruleg áhrif á samfélagið enda væri djarflegt að halda þeim fram.



fimmtudagur, 8. september 2011

Brot á jafnræðisreglunni !


Af hverju fá útlendingar ekki að kaupa lóð undir hótel en svo geta þeir keypt heilt bæjarfélag?



mánudagur, 5. september 2011

Bestu sætin


Pabbi minn var hálfgerður innanhússmaður í Austurbæjarbíói á sjöunda áratugnum og það gerðist oft eftir annasama daga hjá okkur í útgáfubrasanum að hann skellti sér með okkur bræðurna á bíó þar. Mér finnst að það hafi verið nánast vikulega sem við bönkuðum upp á hjá konunum í miðasöluskúrnum sem var fyrir miðju anddyrinu og þær gáfu okkur miða sem undantekningarlaust voru merktir: Bestu sæti. Í Austurbæjarbíói voru allir miðar merktir bestu sætum.


Um tíma átti útgáfan okkar hljóðver og í um eitt ár var Björgvin Gíslason hálfgerður innanhússmaður þar. Hann var ekki bara að taka upp plötu, hann var að semja sína fyrstu sólóplötu þarna í stúdíóinu Tóntækni við Ármúla. Björgvin var góður drengur og mikill snillingur og honum fylgdu oft allskonar fírar eins og títt er í kring um snillinga. Einn þessara gaura var blaðamaður á Þjóðviljanum sem kom oft að forvitnast um framgang meistaraverksins tilvonandi og reglulega mátti lesa um væntanlega plötu á poppsíðum Þjóðviljans.


Heldur færðist fjör í skrif Þjóðviljamannsins sem líka var ágætur teiknari þegar hugmyndir komu upp um að hann tæki að sér hönnun á umslagi plötunnar sem átti að bera nafnið Öræfarokk. Þá var skrifað í Þjóðviljann að ekki einasta yrði tónlistin frábær heldur væri þess að vænta að umslagið yrði sérlega flott.


Svo kom að því að Þjóðviljapilturin drátthagi skilaði inn tillögum sínum. Þetta var útlínuteikning af Björgvini með gítarinn standandi á hól eða hæð og fram hjá liðaðist á eða lækur. Á teikningunni mátti greinilega sjá persónueinkenni Björgvins, framstæð hakan í miklum fíling en hann var fremur kubbslegur og líkari sér á teikningunni eins og hann er í dag en ekki þá. Hugmyndin var að í prentverki yrði höndlað þannig með teikninguna að fletir milli svartra útlínanna væru fylltir flötum litatónum eins og í Andrésblaði.


Eftir að hafa velt teikningunni fyrir sér kom Björgvin til útgefandans og sagðist ekki fíla það að vera eins og skrípókall utan á umslagi að verki sem væri búið að vinna að í rúmt ár. Útgefandinn hafði skilning á þessari afstöðu enda vissi hann að það væri ekkert annað að gera en þóknast miklum listamönnum. Það var því brugðið á það ráð að hafna teikningu þjóðviljablaðamannsins og leita til Alfreðs Flóka eftir mynd á umslagið. Öræfarokk varð betra verk fyrir vikið.


Svo kom að því að meistaraverkið var gefið út. Þá var það nýjasta krafa tímans að halda blaðamannafundi um allt og boðað var til fundar með poppblaðamönnum í stúdíóinu vegna útgáfunnar á Öræfarokki. Kóki, appelsíni, einnota glösum og súkkulaðifingrum frá Cadbury var raðað á borð, græjum stillt upp og Siggi Árna kveikti á reykelsum.


Ásgeir Tómasson frá Dagblaðinu mætti og einhver frá Tímanum. Við hlustuðum á meistaraverkið við kjöraðstæður og bruddum súkkulaðifingur. Meistaraverkið var dásamlegt. Pilturinn frá Tímanum þurfti að fara snemma. Þjóðviljablaðamaðurinn kom ekki og það var ekki skrifað um nýja plötu Björgvins Gíslasonar í blaðið hans.


Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sat í bestu sætum með syni mínum í Austurbæjarbíói í kvöld. Ég var á 14. bekk fyrir miðju sem var gríðarlega flottur staður til að hlusta á afmælistónleika Björgvins Gíslasonar. Ég trúi reyndar að öll sæti hafi verið góð í Austurbæjarbíói í kvöld. Öræfarokkið beint í æð á tónleikum sem verða ógleymanlegir. Takk Bjöggi.



laugardagur, 3. september 2011

Heyri ekki neitt, sé ekki neitt.... og þarf ekki að gera neitt


Árin 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 hlustaði ég á Þórainn Tyrfingsson vara við því að einmitt þetta mundi gerast, það kæmi upp HIV-faraldur hjá sprautufíklum. Hann vísaði til dreifingar á lifrarbólgu C innan hóps sprautufíkla og sagðist hugsa til þess með skelfingu hvað færi í gang þegar HIV kæmi inn í þennan hóp. Þessi varnaðarorð lét Þórarinn m.a. falla á stórri alþjóðlegri ráðstefnu árið 2007.


Það er eins og það þurfi aldrei að hlusta á sérfræðinga á Íslandi. Það liggja örugglega einhver annarleg sjónarmið eða hagsmunapot að baki því sem þeir segja. Líklega eru þeir að reyna að væla út meiri peninga.


sunnudagur, 14. ágúst 2011

Þau ætla í verkfall


Deila sveitarfélaga og leikskólakennara snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að þeir drógust aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% í samhengi þá eru þau u.þ.b. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatta og gjöld. Það er um ein ferð í Bónus. Ekkert annað; og eiginlega eru hógværar kröfur leikskólakennara skammarlega litlar.


Yfirleitt finnst fólki það sjálfsagt og eðlilegt að kennarar í leikskólum og grunnskólum sem hafa jafn mikla menntun að baki njóti sömu launakjara. Þegar ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn eru þeir algjörlega sammála þessu sjónarmiði – en hafa hinsvegar engar skýringar á því afhverju þetta réttlætismál er ekki í höfn.


Sveitarstjórnarmenn sem kosnir eru af íbúum sveitarfélaganna til að stjórna bæjum og borgum milli kosninga hafa framselt umboðið til að semja um laun við starfsfólk sveitarfélaganna til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Almennir sveitarstjórnarmenn hafa því heimild til að vera alveg undrandi yfir óréttlætinu í launakjörum leikskólakennara og það er skiljanlegt að þeir skilji ekkert í því og það sé ekkert hægt að ræða við þá um þessi mál. Þeir kunna þennan leik svo vel og eru stikkfrí eins og í eltingaleik á skólalóðinni í gamla daga “Ég er stikk, ég er stikk” af því þeir haf hlaupið inn í ósýnilegan reit þar sem ekki má ná þeim.


Þegar kjaradeila kemst á það stig að verkfall skellur á verður hún mjög persónuleg fyrir hvern og einn sem í daglegu tali flokkast undir það krád sem er kallað launamenn. Það er mjög alvarlegur vandi sem blasir við hverjum og einum þegar honum finnst svo á sér brotið að hann leggur niður störf og hættir að gera það sem á að afla honum lífsviðurværis.


Það er mjög persónulegur vandi sem blasir við einstaklingum þegar ógreiddir reikningar hlaðast upp, húsnæðislán fara í vanskil og endurskoða þarf matarinnkaup vegna þess að viðkomandi er tekjulaus í verkfalli. Það er þess vegna óþolandi að þeir sem sitja gegnt leikskólakennurum við samningaborðið séu andlitslausir og stikkfrí.


Það er stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer með kjaramálin, mótar stefnuna og leggur samninganefnd á sínum vegum línur. Það er þessi stjórn sem ákveður að koma ekki til móts við kröfur leikskólakennara og er því ábyrg fyrir því að verkfall skellur á eftir eina viku.
Það er merkilegt að sjá hvaða fólk sameinast þarna í einni skoðun. Þarna sitja fulltrúar gömlu vonlausu valdaklíkunnar, fjórflokkurinn eins og hann leggur sig og einn fyrrverandi pönkari. Það er engin bylting í því og ekkert pönk að skríða upp í hjá þessu liði til þess eins að hafa smávægilegar kjarabætur af kennurum.


Þetta eru sex karlar og fimm kerlingar sem bera ábyrgðina á því að nú verður verkfall eftir viku í leikskólum. Þetta er fólkið sem vill ekki semja – þau ætla í verkfall.

Þegar þar að kemur skulum við láta þau vita hvað okkur finnst.




sunnudagur, 26. júní 2011

Skrúfstykki


Allt frá æskuárum mínum að Stafni í Reykjadal hef ég vitað að ég þarf að eiga skrúfstykki.


Í fjörutíu ár hef ég reynt að gera allskonar hluti án þess að eiga skrúfstykki. Það hefu gengið misvel og stundum seint og jafnvel illa. Ég hef þó átt auðvelt með að hafa skoðanir á ýmsum fyrirbærum þrátt fyrir þessa vöntun. Mér finnst vísitölutryggingin galin, kjördæmakerfið óréttlátt og kvótabraskið svínarí. Það er samt einhvernvegin þannig að sá sem ekki á skrúfstykki er bara hálfpartinn hálfur maður og skoðanir hans því næsta lítils virði.


Ég hef það til dæmis fyrr satt að á Siglufirði eigi allir menn skrúfstykki, séu menn með mönnum og í þingkosningum vega atkvæði þeirra tvöfalt á við mitt.


Um seinustu helgi smíðaði ég mér voldugt vinnuborð í kjallaranum og það kom mér á óvart hvað efniskostnaðurinn var lítill. Í gær setti ég upp hillur fyrir ofan vinnuborðið og raðaði í þær öllum handverkfærunum mínum. Ég var sæll og glaður en samt eins og pínulítið hálfur, það blasti við að borðið góða getur borið skrúfstykki en svoleiðis var ekki til á heimilinu.


Það er þannig að ef Hafnfirðingar ætla að kaupa eitthvað annað en matvöru á sunnudegi þurfa þeir að sækja í aðrar sveitir og ég fór í kaupstaðarferð á Smáratorg í dag. Geng ég þá ekki fram á skrúfstykki í hillumetravís á verði sem er síðan fyrir kreppu og sennilega síðan fyrir hlýnun jarðar og líklega síðan fyrir ísöld. Það var ekki aftur snúið í skrúfstykkjaleysið.


Nú get ég á heilum mér tekið, horfi með bjartsýni æskuáranna fram á veginn og lýsi því stoltur yfir að ég á skrúfstykki og það er mark á mér takandi.



sunnudagur, 15. maí 2011

Hvað gera konurnar?


Í könnun Capacent sem greint er frá í Fréttablaðinu kemur fram að meirihluti stjórnenda í fyrirtækjum er ekki andvígur lögum um kynjakvóta i stjórnum fyrirtækja.


Þetta segir þó ekki alla söguna því 54% karla i stjórnendahópnum eru andvígir kynjakvótunum en einungis 28% kvenna. Konurnar eru semsagt mun sáttari við það en karlar að jafnt hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja sé tryggt með lögum.


Stjórnendur í leikskólum eru konur. Enginn karlkyns leikskólakennari er skólastjóri í leikskóla. Um 1% félagsmanna í félagi stjórnenda í leikskólum eru karlar.


Aðalfundur félags stjórnenda í leikskólum fer fram næsta þriðjudag. Fyrir fundinum liggur lagabreytingartillaga um að þegar stjórnarmenn eru af báðum kynjum skal þess gætt við val á varaformanni að hann sé ekki af sama kyni og formaður félagsins. Fyrirmyndin að þessari tillögu er meðal annars sótt í reglur sem Stjórnlagaráð setti sér og lög um hlutafélög þar sem fyrirtækjum er gert skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum.


Það verður gaman að fylgjast með því hvernig leikskólastjórar afgreiða þessa tillögu um kynjakvóta í sínum röðum.



laugardagur, 14. maí 2011

Tóm læti


Það var mikið við haft þegar haldin var opnunarhátíð tónlistarhússins Hörpu. Sjóv í beinni útsendingu í sjónvarpi eins og þegar opnunarhátíð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var varpað yfir þjóðina við mikinn fögnuð ráðamanna árið 1987.


Ég man vel eftir því þegar flugstöðin var vígð. Halldór Ásgrímsson var svo glaður og það var búið að hengja litla flugvél upp í rjáfur í arkitektúrnum sem var ekki beint molbúalegur. Ný, góð og glæsileg umgjörð um útrás og innrás allskonar. Aðlögunarferli sem allaballar áttuðu sig ekki á.


Og nú er búið að byggja nýtt hús. Tónlistin sem býr innra með okkur öllum er orðin fullorðin og hefur fengið sitt eigið heimili. Við höldum hátíð og vonum að hún sé ekki að eilífu flutt. Í kvöld verður júróvision og það verður gaman. It dont´t mean a thing if it aint´t got that swing.


Reisn okkar er mikil þegar við byggjum svona miklar umgjarðir og auðvitað er tilefni til að gleðjast. Við eigum að segja takk. Okkur er kennt að vera þakklát og þakka það sem okkur er fært sagði borgarstjórinn. Það er rétt. Það er gott fyrir beyglaða þjóðarsál þegar okkur er lyft svona upp og við komumst á hærra menningarplan. Svona mikilmennska getur vökvað þjóðerniskenndina og við getum þjappað okkur betur saman gegn allskonar aðlögunarferlum.


Ameríski herinn borgaði fyrir flugstöðina en her útlenskra lánadrottna tapar eigum sínum í Hörpu. En við ætluðum að fá hana lánaða af því þetta er mikilvægt verkefni. Ég veit ekki hvort það er heppni eða óheppni að við fórum á hausinn og þurfum ekki að borga útlendingum sem glötuðu tugum miljarða. Enda skiptir engu máli hvað mér finnst, þjóðin á nú þetta glæsilega hús.


Sumir hafa mótmælt. Sumir eiga ekki fyrir mat og mótmæla því að eiga ekki neitt að borða. Sumir setja upp biðröð fyrir þá sem eiga ekki að borða og aðrir mótmæla því að þeir sem eru svangir séu settir í biðröð. Sumir setjast í nefnd til að skoða biðraðir. Sumir bjóða hungruðum ókeypis klippingu og sumir gefa atvinnulausum ókeypis í sund. Enginn spilar þó tónlist fyrir þá sem standa svangir í biðröðum.


Sumir mótmæla arðráninu. Sumir mótmæla því að almenningur borgi hrunið. Sumir mótmæla skjaldborg um fjármálafyrirtækin. Sumir mótmæla upplausn heimila, niðurskurði á leikskólum, uppskurði á grunnskólum, samdrætti í heilbrigðisþjónustu og útflutningi lækna. Sumir mótmæla því að það sé mótmælt. Verið ekki alltaf svona reið segja þeir. Við komumst ekkert áfram. Við komumst ekki á hærra plan.


Sumir segjast vera meðmælt mótmælum en bara ekki við tónlistarhús. Mér finnst tónlist frábær segja sumir, það passar ekki að mótmæla við tónlistarhús. En það er auðvitað ekki verið að mótmæla tónlistinni. Það er enginn á móti swinginu.


Og nú er reyndar allt komið á bullandi swing aftur. Það stóð til að byggja 30 hæða hótel á hafnarbakkanum vestan við hús tónlistarinnar og nú eru þær áætlanir aftur teknar upp eftir hrun. Það eina sem hefur komið í veg fyrir að bygging á húsi sem gnæfir yfir Hörpu er hafin, er sú undarlega staðreynd að ekki hefur fundist útlendingur sem vill lána okkur fyrir byggingunni.


Tunnurnar sem kæfðu lágreist mótmæli almennings við Alþingishúsið í vetur eiga auðvitað heima í tónlistarhúsinu. Það er nauðsynlegt að hafa undirspil þegar maðurinn sem hampaði ofurhugunum tekur við miða frá konu sem segist ekki eiga fyrir mat. Það er viðeigandi að dramatískur tónninn hljómi þegar maðurinn sem vill ekki aðlögun við útlönd vappar inn í musterið og það fer vel saman að slegin sé tunna í takt við hjörtu borgarfulltrúanna sem segja upp sextíu konum í leikskólunum en margfalda framlag borgarinnar til tónlistarhúss. Undirleikurinn við taktfast göngulag elítunnar á rauða dreglinum er smart og kúl.


Mikið hefði nú líka verið smart að velja fólk af handahófi úr þjóðskrá og bjóða þeim í veisluna og engum öðrum, nema kannski erlendum lánadrottnum.


Og mikið væri smart að reisa styttu af manni með tunnu austan undir Hörpu, í þeirri átt sem dagsbrúnin sést fyrst. Fyrir vestan verður svo turninn. Tónlist, tunna og turn eru ágætar táknmyndir fyrir nýtt skjaldarmerki. Það má setja spegilgler í tunnubotnana til að gæta samræmis.



sunnudagur, 1. maí 2011

Silfrið


Ég leit við í heimabankanum til að borga reikninga heimilisins.
Sá að Ríkisféhirðir hefur greitt mér þrjátíu silfurpeninga.


sunnudagur, 6. mars 2011

Líður að Smára

Andstaðan við niðurskurðaráform Reykvíkurborgar á leikskólakerfinu er svo almenn að búast má við að fljótlega fari Gunnar Smári að mæla með aðgerðunum...

mánudagur, 14. febrúar 2011

Dýr verður brandarinn allur...




Þegar valið stendur á milli þess að rífa af sér fótinn
eða slíta úr sér hjartað,
þá tætir maður auðvitað hjartað úr sér.


laugardagur, 12. febrúar 2011

A.. a.. ekki má, formaður Menntaráðs!



Formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar hefur verið í áróðursstellingum í þessari viku og gengið vel að boða hugmyndir sínar gegn leikskólum og grunnskólum í borginni. Áróðurinn gengur betur en samráðið enda er kappræðan sérgrein pólitíkusa, í áróðri eru þeir á heimavelli.


1. Því er haldið fram að boðaðar uppskurðarhugmyndir á skólakerfinu séu í fullu samræmi við lög. Þetta er ekki rétt hjá formanni Menntaráðs.


2. Því er haldið fram að ný lög um leikskólann hafi verið sett (með samkomulagi allra flokka) til að auka möguleika á endurskipulagningu skólastarfs út frá hagkvæmni. Þetta er ekki rétt hjá formanninum.


3. Því er haldið fram að valið standi á milli boðaðra niðurskurðahugmynda eða þess að lækka lægstu launin, þetta er ekki rétt hjá formanni Menntaráðs.

1.


Í lögum um leikskóla og grunnskóla eru ákvæði sem heimila samrekstur stofnana á mismunandi skólastigum. Í umræðum á Alþingi kom skýrt fram að rétt þótti að gefa þetta svigrúm fyrir lítil sveitarfélög sem geta illa ráðið við að reka þrjár aðskildar stofnanir. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur skýrt fram að þetta svigrúm sé “ekki til samreksturs stórra fjölmennra skóla né heldur sameiningar margra skóla undir einum skólastjóra.”

Engin umræða fór fram á Alþingi eða í samfélaginu um að sameina stóra leikskóla grunnskólum í stórum sveitarfélögum. Fullvíst er að ólga hefði orðið í röðum fagfólks og foreldra ef löggjafinn hefði dúkkað upp með slíkar hugmyndir.

Í barnaverndarlögum er ákvæði um að þeir skuli sæta fangelsisvist sem beita barn refsingum, hótunum eða ógnunum ef ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega. Engum dettur þó í huga að þetta ákvæði barnaverndarlaga sé heimild til að misþyrma börnum svo fremi að ekki verði sýnt fram á andlegan eða líkamlegan skaða.


Vera má að í orðanna hljóðan felist svigrúm í lagatextum um leikskóla fyrir formann Menntaráðs Reykjavíkurborgar til að vinna skemmdarverk á skólastarfi með þeim hætti að sameina leikskóla og grunnskóla. Það er hæpið og ef það er ekki ólöglegt er það að minnsta kosti siðlaust að fara þannig á svig við lögin.


2.


Það er ekki rétt að markmið með lögum um leikskóla séu að auka möguleika á endurskipulagningu skólastarfs út frá hagkvæmni, þetta er jafn rangt og rangt getur orðið.


Ég er ekki löglærður en ég er læs. Í markmiðsgrein laga um leikskóla segir: “Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta.” Að lokinni þessari yfirlýsingu eru talin upp markmið með kennslu í leikskólum í fimm liðum. Ekki er orð um svigrúm til aukinnar hagkvæmni og endurskipulagningar.


3.


Það er ekki rétt að valið standi á milli þess að fara í uppskurð á skólakerfinu eða afnema yfirvinnugreiðslur til leikskólastarfsmanna fyrir að vinna í matartímanum sínum. Það sýnir vandann sem stjórnmálamaðurinn er kominn í að þessu skuli haldið fram og ber vott um slæma ráðgjöf.


Hvert er markmiðið með svona fullyrðingu? Er verið að reyna að skapa innbyrðis togstreitu meðal starfsfólks leikskóla? Annað hvort rekum við yfirmennina eða lækkum launin. Er eitthvað val?


Það má stórlega draga í efa að formaður Menntaráðs geti afnumið hálftíma yfirvinnugreiðslu á dag vegna vinnu starfsfólks í matartíma sínum. Í tíð þess ágæta borgarstjóra Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur (enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur) var búið svo um hnútana í Reykjavík að segja þarf upp þessu eðlilega endurgjaldi með formlegum hætti. Í því ástandi sem nú ríkir kemst formaður Menntaráðs ekki upp með slíka launalækkun gagnvart lægst launuðu starfsmönnum borgarinnar.


Það sem formaður Menntaráðs er að verja með því að skipuleggja uppsagnir á einu millistjórnendastétt borgarinnar þar sem konur eru í meirihluta, er allt annað en eðlilegar yfirvinnugreiðslur.

  • Með uppskurðinum á skólakerfinu er varin skólavist í níu klukkustundir á dag fyrir lítil börn frá tæplega tveggja ára aldri.
  • Það er varinn vinnudagur fyrir lítil börn sem felur í sér lengri viðveru en lögbundin vinnuvika er fyrir fullorðna og fullfríska einstaklinga.
  • Varin er sú heimild foreldra í fæðingarorlofi að hafa önnur börn sín í leikskóla í níu klukkutíma.
  • Varið er það svigrúm fólks sem ekki er á vinnumarkaði að hafa börn sín í leikskóla í níu klukkutíma á dag og stundum meira.


Þetta vill formaður Menntaráðs verja með því að fara í aðgerðir sem gefist hafa illa í öðrum löndum og aðrar þjóðir hafa lagt af.

Að lokum.


Formaður Menntaráðs hefur staðið sig vel að undanförnu í áróðri sínum í fjölmiðlum. Rödd formannsins hefur ýmist hljómað ein eða hann mætt andmælum pólitíkusa sem ekki hafa önnur ráð, en það er ástæðulaust að draga dul á að sumt sem formaðurinn hefur gert er snjallt.


Formaðurinn stillti sér upp milli tveggja leikskóla á sömu lóð sem voru sameinaðir á seinasta ári og lét í veðri vak að gegn slíkri sameiningu væri barist. Svo er auðvitað ekki enda hefur enginn mótmælt þeirri sameiningu.

Formaður Menntaráðs hefur vísað til þess að skólar hafi verið sameinaðir í öðrum sveitarfélögum og þá hafi ekki verið mótmælt. Það er rétt. Í Hafnarfirði var 28 barna leikskóli sameinaður öðrum fyrir nokkrum vikum. Í litla skólanum starfaði stjórnunarteymi eins og í stærri skólum. Slíkt er auðvitað óhagkvæmt ef ekki bruðl. Það mótmælir enginn slíkum sameiningarráðstöfunum.

Starfsfólk og foreldrar í leikskólum hafa látið margt yfir sig ganga í hagræðingarskyni eftir fjármálahrunið á Íslandi. Það lýsir miklum samstarfsvilja. Það er hægt að ná samstarfi og raunverulegu samráði um skynsamlegar breytingar sem auðvelt er að rökstyðja. En það verður aldrei samþykkt að hnoða leikskólum saman við grunnskóla og fletja út starfsemina í eitthvað moð sem ekki er í anda laga um leikskóla- og grunnskóla. Því þrátt fyrir allt og þröngan kost hefur verið sátt í samfélaginu um starfsemi þessara mikilvægu stofnana.


Formaður Menntaráðs: Ekki rjúfa þessa sátt.





sunnudagur, 6. febrúar 2011

Þetta er ekki í boði !


Sumir stjórnmálaflokkar hafa látið sem svo að þeir vilji gera umbætur í starfi sínu eftir siðrofið sem varð á seinasta áratug. Ummyndanir, uppstokkanir umbætur, umbótanefndir, umræður og umbótafundir eru inn. Allt upp á borðum gagnsæi og samráð skal í hávegum haft. Halelúja.


Þetta er gott og blessað og í einhverju bjartsýniskasti gæti velviljaður borgari eins og ég farið að trúa því að atvinnustjórnmálamennirnir sem koma með hvítþvegnar hendurnar allar upp á borðið, ætli sér virkilega að gera umbætur.


Fyrir einu og hálfu ári voru starfsmenn í leikskólum í Reykjavík farnir að vera uggandi vegna áforma um niðurskurð sem voru þvert á loforð sem gefin höfðu verið af sveitarfélögunum við undirritun svokallaðs Stöðugleikasáttmála nokkrum mánuðum áður. Í bréfi sem sent var þáverandi meirihluta í Leikskólaráði var kvartað yfir að fyrirhugaðar aðgerðir væru á skjön við loforð, náins samráðs var krafist og áhersla lögð á að allar aðgerðir sem farið yrði í væru skýrt skilgreindar sem tímabundnar aðgerðir.

Þetta erindi virðist hafa borið þann árangur að ákveðið var að fara í felur með undirbúning að niðurskurði í skólakerfinu eins og kemur fram í frétt á visi.is frá því í desember 2009, þar sem segir að leikskólastjórar hafi verið múlbundnir og þeim meinað að áframsenda á stjórnir foreldrafélaga upplýsingar og fundarboð.


Það sem vakti athygli sumra var, að þegar reynt var að vekja áhuga þáverandi borgarstjórnarminnihluta í Reykjavík á því sem var að gerast, kveikti það ekki nein viðbrögð. Hanna Birna borgarstjóri boðaði samrekstur skólastofnana en Oddný og Dagur (úr hinum flokknum) hummuðu út í loftið.

Á opnum fundi um leikskólann með fulltrúum pólitísku flokkana í Norræna húsinu, fyrir seinustu sveitarstjórnarkosningar, var merkilegur samhljómur meðal þeirra allra. Enginn fulltrúi reykvísku framboðanna taldi unt að skera meira niður í leikskólunum. Fulltrúarnir forðuðust jafnframt að svara spurningum um nefnd eða vinnuhóp á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ætlað var að útfæra og samhæfa undirbúning að samrekstri skólastofnana (þvert á skólastig?).


Ég er einn af þeim sem batt vonir við að eitthvað nýtt væri að gerast þegar Besti flokkurinn kom fram á sjónarsviðið. Þegar pönkrjóminn og aðrir mannelskandi anarkistar safnast í hóp til að hafa áhrif á stjórnmál má búast við einhverju nýju. Ég gladdist. Það var gott að hafa tilefni til að gleðjast. En Pétur var ekki lengi í Paradís, nú er að koma á daginn hvað fæðist þegar Besti hefur makað sig með gömlu sambræðslunni.


Skólastjórum bárust í liðinni viku bréf þar sem segir frá væntanlegri sameiningu skólastofnana þvers og kruss á skólastefnur og skólastig. Sumt af því sem fyrirhugað er virðist svo fráleitt að það hljómar eins og fólk væri að tala um það í fullri alvöru að sameina hljómsveitirnar Dr. Spock og Sinfóníuhljómsveitina.


Sett hefur verið á fót sýndarsamráð þar sem valið er í rýnihópa með slembiúrtaki en engu skeytt um lög um þær stofnanir sem fjallað er um. Í lögum um leikskóla segir “Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.”


Það hentar bara ekki að fara að lögum, hið eiginlega samráð hefur þegar farið fram á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar hefur allt verið ákveðið og útfært. Gervisamráðið er til að kasta ryki í augu fólks og pólitíkusarnir, hvar í flokki sem þeir eru, dansa með því ef þeir eru ekki “enn að læra” eru þeir búnir að læra það að þeir hafa engar aðrar lausnir og vita ekki sitt rjúkandi ráð.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga (sem ætti að heita Samráð íslenskra stjórnmálamanna) er því hampað að vegna yfirvofandi aðgerða í Reykjavík hafi verið sendur út fjöldinn allur af bréfum. Það er nú aldeilis mikils virði. Formaður Menntaráðs neitar nefnilega að gefa upp opinberlega hvað stendur til að gera. Þess í stað eru skólastjórum send bréf þar sem segir t.d. að skólinn þeirra verði kannski lagður niður eða sameinaður skóla á öðru skólastigi. Þetta sáir ótta í huga skólafólks og viðbúið er, eins og einn skólastjórinn bendir á, að skólafólk fari að berjast innbyrðis til að verja sitt.

Ef til vill er verið að leika þann leik að boða meiri og harðari aðgerðir en á að fara í. Svoleiðis sést stundum. Þá er t.d. boðað að skera eigi niður heilbrigðisstofnanir um 35% og allir verða þá vitanlega glaðir ef aðeins er skorið niður um 20%. Ef þetta er raunin nú þá er þetta ljótur leikur og við honum er bara eitt að segja: Oddný! Þetta er ekki í boði.


Og ekki bara Oddný. Hvar kemur Besti með hljómsveitarstjóra Dr. Spock inn í þetta? Við hlustuðum á Óttar Proppé í þættinum Í vikulokin. Honum finnst það frekar mikið flókið að vera í samráði því það er ekki búið að ákveða endanlega hvað á að gera. Það er líklega best að fara í samráðið þegar ekki er um neitt að ræða meira.


Þrátt fyrir sýndarsamráðið og óráð í eitt og hálf ár hefur ekkert breyst. Enn er haldið í þær hugmyndir sem Hanna Birna kynnti og það eina sem var skoðað rúmaðist í þeim þrönga kassa. Engu skiptir þó byggt sé á hæpnum lagalegum forsendum, engu skiptir þó lög séu brotin, engu skiptir þó fólkið sem á að vinna störfin vilji ekki að skorið sé undan því og engu skiptir hvað flokkurinn heitir.

Engu skiptir hvort krumlan á pólitíkinni er blá hönd náhirðarinnar (lífs eða liðinnar), hvort hún er klædd gulum gúmmíhanska pönkarans eða hvort hún er hvítþvegin umbótahönd. Ég veit ekki hvort mér finnst verra að fólk sem ég hélt að væri vel meinandi í pólitík virkar ekki, eða hvort það er sárara að grínið er búið og pönkið er dautt.


En eitt er víst. Kjarasamningar eru lausir og leikskólakennarar nötra af reiði.

miðvikudagur, 26. janúar 2011

(Þrí)skipting valdsins


"Garðar Gíslason var skipaður dómari í desember 1991. Þorsteinn Pálsson var þá nýlega orðinn dómsmálaráðherra. Þorsteinn skipaði svo Gunnlaug Claessen 1994. Svo kom Sólveig Pétursdóttir í ráðuneytið ...og skipaði Árna Kolbeinsson haustið 2000. Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður af Geir H. Haarde 15. október 2004 og Páll Hreinsson var skipaður af Birni Bjarnasyni 1. september 2007."

Eru þetta ekki allt sjálfstæðismenn skipaðir af sjálfstæðismönnum?

Hæstiréttur er sannarlega Sjálfstæður!


sunnudagur, 9. janúar 2011

Sjúklega ólétt


Vonandi verður Viktoría frísk fljótlega
og vonandi hættir fólk að tala um það sem sjúkleika
að konur verði barnshafandi.


sunnudagur, 2. janúar 2011

Sieg heil


Ég fæ stundum póst frá félagi sem heitir Sterkara Ísland, af því ég ritaði á undirskriftalista fyrir tveimur árum. Þetta félag hefur ágæt markmið en nafnið er þannig í laginu að það vekur eitthvað óbragð. Það er svo mikill keimur af þjóðernishyggju í því að mann langar ekkert að vera með.



laugardagur, 1. janúar 2011

Frábært ár!


Ég held að árið 2011 muni ég léttast, ég verð duglegur að hreyfa mig, hætti að borða sælgæti, vaska alltaf strax upp eftir matinn, skuldir heimilisins lækka og – auðlindir hafsins verða færðar til þjóðarinnar.


Einmitt.