miðvikudagur, 17. desember 2008

Ó, Reykjavíkurborgin...



Var á fundi með fjármálastjórum borgarinnar fyrir stuttu þar sem leikskólafólki var gefin sparnaðarlínan. Það er gott og sjálfsagt að spara, það er kreppa.


Starfsfólk Leikskólanna fær ekki að fara saman í jólahlaðborð eins og margir hafa gert og þetta er auðvitað alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.

Það má heldur ekki kaupa að mat frá veitingamönnum til að halda kvöldmáltíð saman og það er alveg sjálfsagt, það er kreppa og það þarf að spara.


Starfsfólk leikskóla fær ekki jólagjafir frá vinnustaðnum sínum í ár, þess í stað stakk prúðbúinn fjármálastjórinn upp á að starfsfólk sem sumt hefur mánaðarlaun á bilinu 140 til 170 þúsund krónur gefi hvort öðru gjafir – bara sjálft. Og það er auðvitað alveg sjálfsagt starfsfólk leikskóla er vant að styrkja og gleðja hvert annað og nú þarf að spara, það er nefnilega kreppa. Og svei mer þá – það var bara klappað hraustlega fyrir þessari frábæru hugmynd

Í gær fengu leikskólar og grunnskólar silfurprentuð og litprentuð risaveggspjöld handa öllum nemendum frá miljóna Silfursjóði Reykjavíkurborgar. Silfursjóðurinn er til að hvetja börn til að stunda handbolta og veggspjaldið prýddi mynd af handboltamönnum með verðlaun. Það er gaman þegar finnast peningar til góðra verka þrátt fyrir kreppu og niðurskurð.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Könnumst við svona úr grunnskólunum.
Það vantar ekki að umbúðirnar eru flottar en innihaldið?
Ég hef haldið því fram að það ætti að skikka fólk að vinna eitt ár í skóla (leik,grunnskóla) þá sæi það hlutina aðeins öðruvísi.
Kveðja
Ásta Björnsdóttir

Nafnlaus sagði...

Elsku Hörður í Kreppu verður að spara og spara. Helst þeir sem hvort eð er aldrei eyddu. Og það er miklu mikilvægara að senda út fallegt myndaspjald en að verðlauna fólkið sem lét sig hafa að vinna í leikskólanum á tímum kreppunnar sem þar hefur ríkt í starfsmannamálum á tímum góðæris í samfélaginu. En ég er samt viss um að á Múlaborg og öllum hinum borgarleikskólunum mun hinn sanni jólaandi ríkja í starfsmannahópnum.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Hvað ætli þessi fjármálastjóri hafi í laun?

Nafnlaus sagði...

Flott hjá þér, Hörður frændi. Þetta er svo hógværlega orðað, að það verður margfalt beittara fyrir bragðið.

Nafnlaus sagði...

af hverju eyðir þú gagnrýni sem berst á bloggið þitt? Ég benti á að þetta væri væl í þér að væla yfir jólagjöfinni þegar fólk væri að missa vinnuna um allt land - eða fá launaLÆKKANIR - þú sem er nýbúinn að fá launaHÆKKUN! ætlarðu að eyða þessu kommenti líka?

Unknown sagði...

O.k. Mr. Nafnlaus.
Ég eyddi þessu kommenti sem þú settir inn í nótt af því að þar var farið með rangt mál. Öðrum orðum lygi, og ég nennti ekki í kvabb við þig.

Þar að auki varstu með ósmekklegar athugasemdir um heila stétt af fólki.

Ég hef aldrei fengið jólagjöf frá vinnuveitanda mínum og er ekki að væla um gjafaleysi. Þvert á móti tek ég fram að það sé sjálfsagt að draga saman.

Ég hef heldur ekki fengið hækkun launa. Samningar sem leikskólakennarar kjósa núna um fela í sér gríðarlega kjararýrnun og beina krónutölulækkun fyrir fjölmarga. Það heitir LÆKKUN launa.

Svo hvet ég þig til að setja upp þitt eigið blogg þar sem þú getur komið skoðunum þínum á framfæri undir nafni eða nafnlaust eftir hentugleikum. Það er mitt sjónarmið að ég sé ábyrgur fyrir þeim kommentum sem liggja inni á mínu bloggi.

Nafnlaus sagði...

það er ekkert ósmekklegt að segja að menn eigi að "hugsa sinn gang" eins og ég sagði um aðila kennarasambandsins. Það er hófsamt. Launalækkunin sem þú talar um augljós - allir eru að verða fyrir launalækkun vegna verðbólgu ofl. En flestir eru hinsvegar að fá beina launaLÆKKUN á launataxtann sinn - en þið eruð að semja um launaHÆKKUN - þótt það nái kannski ekki uppí kjararýrnunina. Þetta var það sem þér þótti svona viðkvæmt að birtist.

Er þetta lygi á einhvern hátt?

Bloggfærsla um jólagjafir er hjákátleg og ber vott um brenglað gildismat.

Nafnlaus sagði...

En ég skal taka undir með þér í því að prentuð montspjöld um ekkert eru kjánaleg....

Hörður Svavarsson sagði...

Ok Nafnlaus - það er akkúrat þetta karp sem ég nennti ekki í.

Samningar sem leikskólakennarar kjósa núna um fela í sér beina krónutölulækkun fyrir fjölmarga. Og það er þannig þó þú staglist á öðru.

Samstarfsmenn mínir sem margir hverjir eru á lægstu Eflingartöxtum og fá á milli 140 og 170 þúsund krónur í laun. Hafa metið það mikils að fá örlítinn og táknrænan þakklætisvott frá vinnuveitanda sínum um jólin.

Enginn þeirra hefur hinsvegar gert athugasemd við að þessi fallegi siður verði aflagður vegna kreppuástands sem aðrir voru valdir að.

Þeir sem eru dómbærir á það hvað er hið rétt og eina gildismat geta e.t.v. komist að því að það beri vott um brenglað gildismat að setja aflögn þessa siðar í samhengi við prentun á því sem þú kallar montspjöld.

Þá er það bara þannig.