fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Skipbrot einkarekinnar heilbrigðisþjónustu II



Ég skrifaði í fyrradag pistil um skipbrot heilbrigðisstarfsemi SÁÁ og Stígamóta en það eru fleiri heilbrigðisfyrirtæki sem sinna grunnþjónustu fyrir almenning í vanda og nú er Heilsuverndarstöðin gjaldþrota.


Það má segja að Heilsuverndarstöðin hafi að nokkru leiti verið óskabarn sjálfstæðismanna og nýrrar sýnar þeirra á heilbrigðiskerfi. Fjölmargar lagabreytingar sem Sjálfstæðismenn létu gera á undrastuttum tíma í heilbrigðisráðherratíð sinni voru m.a. til þess fallnar að auðvelda að almannaþjónusta væri færð á hendur einkafyrirtækis á borð við Heilsuverndarstöðina.

Og vissulega voru sumir þættir grunnþjónustunnar færðir til Heilsuverndarstöðvarinnar og sumir gjörningarnir orkuðu kannski tvímælis. Þannig var samningur um þjónustu fyrir heilabilaða færður frá lægstbjóðanda, sem treysti sér ekki til að standa við tilboðið, til Heilsuverndarstöðvarinnar án útboðs. Einnig vakti mikla umræðu í sumar þegar tilboði Heilsuverndarstöðvarinnar um þjónustu fyrir fíkla var tekið þrátt fyrir að það væri þriðjungi hærra en lægsta boð. Stjórnmálamenn í Sjálfstæðisflokknum voru þá sakaðir um að eiga hagsmuna að gæta og hafa ekki þvegið hendur sínar sómasamlega af þeim ásökunum.

Ýmis plön voru greinilega um að auka við starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar og ráð fyrir því gert að sambærileg þjónusta á hendi ríkisins legðist af samfara því. Þannig var skammtímavistun fyrir aldraða, sem í daglegu tali aðstandenda aldraðra er kölluð hvíldarinnlögn, komin í faðm Heilsuverndarstöðvarinnar en sambærilega þjónusta í Mekka öldrunarþjónustu ríkisins, Landakoti, lögð niður. Jafnvel voru plön um að hjartaþræðingar færu fram inni á gólfi í Heilsuverndarstöðinni.

Hámark í áætlanagerð Sjálfstæðismanna um að einkarekna heilbrigðiskerfið var svo í sumar þegar manifestosamningur ráðuneytis og félags lækna var gerður en hann virtist útsettur sem undirstaða fyrir ýmsa aukna starfsemi í Heilsuverndarstöðinni hf.

En nú er Heilsuverndarstöðin semsagt gjaldþrota og augljóst mál að ekki leggst öldruð móðir mín í hvíldarinnlögn hjá Heilsuverndarstöðinni. Við ættingjarnir sinnum þá áfram þessari nauðsynlegu grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

Eignast þjóðin húsið?

Það er augljóst að gríðarsterkir fjármagnseigendur hafa verið bakhjarlar Heilsuverndarstöðvarinnar. Á heimasíðu fyrirtækisins eru talinn upp stór starfsmannahópur og mikla fjármuni hefur þurft til kaupa húseignina Barónsstíg 47 sem er ein glæsilegasta afurð arkitektúrs síðustu aldar og hefur gengið undir nafninu Heilsuverndarstöðin meðal landsmanna.

Í fréttum af gladþrotinu segja aðstandendur Heilsuverndarstöðvarinnar: ,,Í byrjun september var bjart útlit fyrir því að nýtt fjármagn kæmi inn í félagið til að styrkja það á þann hátt að félagið kæmist yfir þann hjalla sem hafði myndast. Nú er hins vegar ástand fjármálamarkaðarins þess eðlis að fullreynt er að fá nýtt fjármagn að félaginu."

Samkvæmt mínum heimildum hvíla á húseign Heilsuverndarstöðvarinnar veð sem eru tryggingarbréf í eigu Landsbankans. Tryggingabréf eru þeirrar gerðar að af þeim eru engar afborganir en eigandi þeirra getur leyst til sín veðið ef honum sýnist svo. Af þessu má geta sér til um það að Björgólfur Guðmundsson hafi verið eigandi húseignarinnar en annar maður leppað fyrir hann. Þetta eru auðvitað getgátur en þær geta skýrt tilurð þessara tryggingabréfa og eignarhald á þeim.

Það kann því svo að fara að skilanefnd Landsbanka leysi til sín húseignina og hún verði aftur í almannaeign eins og hún á að vera. Tilvalið er að setja upp í húsinu nokkurskonar stríðsminjasafn þar sem komandi kynslóðir verða fræddar um hvernig setja má þjóð á hausinn og rústa innfrastrúktúr hennar á örfáum misserum með trúarbrögðum frjálshyggjunnar.




5 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Góður póstur hjá þér. Minnti mig á þennan fyrirlestur sem ég rakst á fyrir nokkru. Forvitnilegt að setja Ísland inn í þessa jöfnu:

http://www.energybulletin.net/node/23259

Nafnlaus sagði...

Þú tekur of stórt upp í þig, þbí einkarekin heilbrigðisþjónusta hefur staðið sig með prýðilega hér á landi. Það er ekki hægt að alhæfa útfrá einhverju amstri í nokkrum gæðingum sjálfstæðisflokksins. Læknamiðstöðin í Mjódd, Heilsugæslan Salahverfi og Læknavaktin eru dæmi um einkrekstur sem gerður er á grundvelli fagmennsku.
Einkarekstur á sér grundvöll hér á landi en það verður að gerast á grundvelli útboða og faglegs álits, en ekki í formi þeirrar spillingar sem þú lýsir hér að ofan. Þetta eru eins og rónarnir sem koma óorði á vínið.
Kveðja
Magnús

Skorrdal sagði...

Ég er sammála þér - góð færsla. Auðvitað á Heilsugæslan að vera í eigu okkar allra; þetta er fallegt hús, innan og utan, með merkilega sögu. Ég vona að hugmyndir þínar fái einhverjar viðtökur, þótt svo í breyttri mynd. Þetta hús væri ágætis safn og rannsóknarstöð.

Nafnlaus sagði...

Góður pitill og mjög þarfur ...

kv, GHs

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus; Ég hef ekkert verið að alhæfa. Í fyrri pistli mínum segir "Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu þarf ekki að vera af hinu slæma. Um það eru ágæt dæmi á Íslandi að einkaaðilar hafi sinnt nær eingöngu ákveðnum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og gert það með ágætum"

Þannig að erum við ekki bara sammála?