sunnudagur, 15. maí 2011

Hvað gera konurnar?


Í könnun Capacent sem greint er frá í Fréttablaðinu kemur fram að meirihluti stjórnenda í fyrirtækjum er ekki andvígur lögum um kynjakvóta i stjórnum fyrirtækja.


Þetta segir þó ekki alla söguna því 54% karla i stjórnendahópnum eru andvígir kynjakvótunum en einungis 28% kvenna. Konurnar eru semsagt mun sáttari við það en karlar að jafnt hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja sé tryggt með lögum.


Stjórnendur í leikskólum eru konur. Enginn karlkyns leikskólakennari er skólastjóri í leikskóla. Um 1% félagsmanna í félagi stjórnenda í leikskólum eru karlar.


Aðalfundur félags stjórnenda í leikskólum fer fram næsta þriðjudag. Fyrir fundinum liggur lagabreytingartillaga um að þegar stjórnarmenn eru af báðum kynjum skal þess gætt við val á varaformanni að hann sé ekki af sama kyni og formaður félagsins. Fyrirmyndin að þessari tillögu er meðal annars sótt í reglur sem Stjórnlagaráð setti sér og lög um hlutafélög þar sem fyrirtækjum er gert skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum.


Það verður gaman að fylgjast með því hvernig leikskólastjórar afgreiða þessa tillögu um kynjakvóta í sínum röðum.laugardagur, 14. maí 2011

Tóm læti


Það var mikið við haft þegar haldin var opnunarhátíð tónlistarhússins Hörpu. Sjóv í beinni útsendingu í sjónvarpi eins og þegar opnunarhátíð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var varpað yfir þjóðina við mikinn fögnuð ráðamanna árið 1987.


Ég man vel eftir því þegar flugstöðin var vígð. Halldór Ásgrímsson var svo glaður og það var búið að hengja litla flugvél upp í rjáfur í arkitektúrnum sem var ekki beint molbúalegur. Ný, góð og glæsileg umgjörð um útrás og innrás allskonar. Aðlögunarferli sem allaballar áttuðu sig ekki á.


Og nú er búið að byggja nýtt hús. Tónlistin sem býr innra með okkur öllum er orðin fullorðin og hefur fengið sitt eigið heimili. Við höldum hátíð og vonum að hún sé ekki að eilífu flutt. Í kvöld verður júróvision og það verður gaman. It dont´t mean a thing if it aint´t got that swing.


Reisn okkar er mikil þegar við byggjum svona miklar umgjarðir og auðvitað er tilefni til að gleðjast. Við eigum að segja takk. Okkur er kennt að vera þakklát og þakka það sem okkur er fært sagði borgarstjórinn. Það er rétt. Það er gott fyrir beyglaða þjóðarsál þegar okkur er lyft svona upp og við komumst á hærra menningarplan. Svona mikilmennska getur vökvað þjóðerniskenndina og við getum þjappað okkur betur saman gegn allskonar aðlögunarferlum.


Ameríski herinn borgaði fyrir flugstöðina en her útlenskra lánadrottna tapar eigum sínum í Hörpu. En við ætluðum að fá hana lánaða af því þetta er mikilvægt verkefni. Ég veit ekki hvort það er heppni eða óheppni að við fórum á hausinn og þurfum ekki að borga útlendingum sem glötuðu tugum miljarða. Enda skiptir engu máli hvað mér finnst, þjóðin á nú þetta glæsilega hús.


Sumir hafa mótmælt. Sumir eiga ekki fyrir mat og mótmæla því að eiga ekki neitt að borða. Sumir setja upp biðröð fyrir þá sem eiga ekki að borða og aðrir mótmæla því að þeir sem eru svangir séu settir í biðröð. Sumir setjast í nefnd til að skoða biðraðir. Sumir bjóða hungruðum ókeypis klippingu og sumir gefa atvinnulausum ókeypis í sund. Enginn spilar þó tónlist fyrir þá sem standa svangir í biðröðum.


Sumir mótmæla arðráninu. Sumir mótmæla því að almenningur borgi hrunið. Sumir mótmæla skjaldborg um fjármálafyrirtækin. Sumir mótmæla upplausn heimila, niðurskurði á leikskólum, uppskurði á grunnskólum, samdrætti í heilbrigðisþjónustu og útflutningi lækna. Sumir mótmæla því að það sé mótmælt. Verið ekki alltaf svona reið segja þeir. Við komumst ekkert áfram. Við komumst ekki á hærra plan.


Sumir segjast vera meðmælt mótmælum en bara ekki við tónlistarhús. Mér finnst tónlist frábær segja sumir, það passar ekki að mótmæla við tónlistarhús. En það er auðvitað ekki verið að mótmæla tónlistinni. Það er enginn á móti swinginu.


Og nú er reyndar allt komið á bullandi swing aftur. Það stóð til að byggja 30 hæða hótel á hafnarbakkanum vestan við hús tónlistarinnar og nú eru þær áætlanir aftur teknar upp eftir hrun. Það eina sem hefur komið í veg fyrir að bygging á húsi sem gnæfir yfir Hörpu er hafin, er sú undarlega staðreynd að ekki hefur fundist útlendingur sem vill lána okkur fyrir byggingunni.


Tunnurnar sem kæfðu lágreist mótmæli almennings við Alþingishúsið í vetur eiga auðvitað heima í tónlistarhúsinu. Það er nauðsynlegt að hafa undirspil þegar maðurinn sem hampaði ofurhugunum tekur við miða frá konu sem segist ekki eiga fyrir mat. Það er viðeigandi að dramatískur tónninn hljómi þegar maðurinn sem vill ekki aðlögun við útlönd vappar inn í musterið og það fer vel saman að slegin sé tunna í takt við hjörtu borgarfulltrúanna sem segja upp sextíu konum í leikskólunum en margfalda framlag borgarinnar til tónlistarhúss. Undirleikurinn við taktfast göngulag elítunnar á rauða dreglinum er smart og kúl.


Mikið hefði nú líka verið smart að velja fólk af handahófi úr þjóðskrá og bjóða þeim í veisluna og engum öðrum, nema kannski erlendum lánadrottnum.


Og mikið væri smart að reisa styttu af manni með tunnu austan undir Hörpu, í þeirri átt sem dagsbrúnin sést fyrst. Fyrir vestan verður svo turninn. Tónlist, tunna og turn eru ágætar táknmyndir fyrir nýtt skjaldarmerki. Það má setja spegilgler í tunnubotnana til að gæta samræmis.sunnudagur, 1. maí 2011

Silfrið


Ég leit við í heimabankanum til að borga reikninga heimilisins.
Sá að Ríkisféhirðir hefur greitt mér þrjátíu silfurpeninga.