mánudagur, 31. mars 2008

Bensínmótmælabull


Þau eru út í hött þessi mótmæli vörubílstjóra gegn bensínverði.


Í fyrsta lagi bitna mótmælin á almenningi sem hefur ekkert með verðlagningu á bensíni að gera.

Í öðru lagi er óljóst hvers vörubílstjórar krefjast. Á ríkið t.d. að lækka bensíngjald? Álögur ríkisins hafa ekki hækkað undanfarið, þær eru bundnar við fasta krónutölu. Á að skerða tekjur ríkissjóðs svo olíufurstar geti haldið áfram að græða jafn mikið? Tekjulækkun ríkissjóðs bitnar á þjónustu við almenning – t.d. vegagerð.

Í þriðja lagi er engin ástæða til að bensín, sá ónáttúruvæni orkugjafi, sé ódýrara hér en í löndunum í kring um okkur.

Í fjórða lagi er flest annað að á Íslandi en bensínverð. T. d. vísitölubinding lána, ofurtollar á matvæli, hár virðisaukaskattur á öllu sem launamenn kaupa, hár tekjuskattur, stimpilgjöld og gjaldmiðill sem heldur okkur í þrælsböndum fjármálastofnana sem okra á okkur.

Í fimmta lagi gætum við verslað þetta bensín án þess að kveinka okkur ef þetta ástand væri ekki svona eins og t.d. Danir gera, sem borga meira fyrir bensínið en við.

Og svo segjast vörubílstjórar njóta gífurlegs stuðnings almennings. Hvílíkt bull.

sunnudagur, 30. mars 2008

Byr fleginn á Barnalandi

Þær hafa flestar munninn fyrir neðan nefið stelpurnar á Barnalandi sem núna heitir er.is. Í dag hafa komið til umræðu ofsóknir sparisjóðsins Byrs gegn konum.

Bregður þá svo við að mannauðsstjóri Byrs tekur til varna með fullu samþykki yfirmanna sinna að því er hún segir.
Skemmst er frá því að greina að mannauðsstjórinn (hver býr til svona orð) fer frekar halloka í viðureign sinni við Barnalandskellur.

Eftir að mannauðsstjórinn hefur vikið sé undan að svara hver er meðalaldur kvennanna sem sagt var upp og hve mörgum karlmönnum hefur verið sagt upp á sama tíma gefur ein barnalandsstúlkan út þennan dóm:

Þær spurningar sem ég spurði þig eru mjög almennar. Það eina sem þú vilt tjá þig um hérna er hvað þið eruð í rauninni góð.

Ef þið væruð svona "góð" þá gætirðu hæglega svarað spurningunum mínum. Ég var ekki að biðja um neinar trúnaðarupplýsingar heldur almennar upplýsingar. Ástæðan fyrir því að þú vilt ekki svara þessu er af því að það kemur illa út fyrir ykkur.

Mér fannst þetta lélegt hjá ykkur en eftir að hafa lesið þín svör hérna þá finnst mér þetta skítlélegt hjá ykkur.

Ég get lofað þér því að ég mun aldrei og þá meina ég aldrei stunda viðskipti við ykkur og ég vona að fólk sýni samstöðu gegn svona vinnubrögðum með því að færa viðskipti sín annað.

Skrifin um Byr hafa staðið á Barnalandi síðan klukkan tvö í dag og innleggin eru komin vel á annað hundraðið.

föstudagur, 28. mars 2008

Er hann bróðir þinn dáinn?


Ég man vel eftir þessum degi fyrir þrjátíu árum. Ég var að vinna í hljómplötufyrirtækinu sem ég ólst upp í þegar síminn hringdi í bítið. Það var kærastan mín sem var í símanum, stödd í símaklefa á Lækjartorgi og var mikið niðri fyrir.


Hún hafði farið í erindum Framkvæmdastofnunar Ríkisins eftir ritföngum í Pennann við Hafnarstræti og þar heyrði hún á hávært tal afgreiðslukvenna sem töluðu fjálglega um það að hann "Villi Vill" hefði dáið um nóttina. Hann hefði ekið á tré úti í Lúxemborg. “Ég trúi þessu varla enn” hafði hún eftir annarri afgreiðslukonunni. Ég trúði þessu ekki heldur.

Seinna um morguninn kom útgefandinn í kompaníið sitt og það var fremur þungt yfir honum. Hann sagði mér að snemma um morguninn hefðu þau hjónin verið ræst með símhringingu. Í símanum var maður sem kynnti sig sem blaðamann á Dagblaðinu og svo hefði hann spurt Ellýu umbúðalaust hvort það væri rétt að bróðir hennar væri dáinn.

Við fundum enga sárabót í því að plöturnar hans Vilhjálms fóru að seljast betur eftir þetta, en það er ánægjulegt að hann höfðar til fólks enn þann dag í dag.

sunnudagur, 23. mars 2008

Páskaljóð og pítsusneið


Það má ramba á ýmislegt ef googlað er páskaljóð. Til dæmis það að Einar Már sé eins og pítsa – alltaf góður líka þegar hann er ekki fullkominn.


Þá er líka vís leiðin að Leshúsi Þorgeirs heitins Þorgeirsonar. !997 birti hann Páskaljóð sem lifir ennþá í bloggi hans. Það er svona:

Ecce homo
páskaljóð

Við getum þekkt hann á því
að hann gengur á vatni
vekur upp látna
og lætur blinda fá sýn

En hann er víst hvorki
hér eða nú
eða þar eða þá
þó hann léti blindan mann sjá
og í borginni Kana breytti hann vatni í vín
að viðstöddum fjölda manna
sem fannst þetta gott
og gerjunin flott
og fengu sér aftur í staupin
en sumir drukku eins og svín

Hann er semsé óskhyggja þín
átvagl og drykkjusvoli
dálítill stóðlífsfoli
í metum hjá oss
þó margir telji hann glanna

Og nú ætla þeir að negla hann upp á kross

Óráð


Það var einhver í kommentakerfinu hjá Agli að velta fyrir sér af hverju það er svona eftirsóknarvert fyrir Ísland að eignast sæti í Öryggisráðinu?


Þetta er góð spurning. Það er örugglega ekkert sérstakt keppikefli hjá almennu Samfylkingarfólki að Íslendingar hreppi stól þar, sem skiptimynt í einhverja bitlingapólitík, eins og Egill bendir á og því síður að hafa formann sinn alltaf í útlöndum.

Ég held að ástæðan fyrir því að suma blóðlangar svona í öryggisráðið sé svipuð og ástæðan sem parið hafði fyrir því að brjótast inn í kirkjuna til að elskast. Spennandi og svolítið kinkí.

laugardagur, 22. mars 2008

Svikin vara, þessi læknir


Prinsessan, þriggja ára, hefur verið kvalin af verkjum undanfarna daga. Við fórum á læknavaktina í fyrradag og hittum lækni sem gerði minna en ekki neitt og áfram héldu kvalirnar.


Prinsessan var ekki tilbúinn til að fara aftur til læknis eftir þessa reynslu en féllst á það þegar henni var sagt að nú færum við til barnalæknis. Í morgun fórum við því til Geirs barnalæknis sem læknaði sjúklinginn með töfrabrögðum læknisfræðinnar á klukkutíma.


Hamingjusamur yfir að prinsessunni væri batnað spurði pabbinn glaður í bragði á leið út í bíl hvort hún væri ekki ánægð með þennan lækni.


“Nei þetta var enginn barnalæknir” svaraði sú stutta frekar snúin.


“Nú, er það ekki?”

“Nei! hann var ekki eins árs – hann var bara fullorðinn!!”


fimmtudagur, 20. mars 2008

þriðjudagur, 18. mars 2008

Slæmur fjárfestingakostur

Dópskútan og allt það magn örvandi vímuefna sem tekið var á Fáskrúðsfirði í október virðist ekki hafa nein áhrif á markaðinn með ólögleg vímuefni.

Nú hafa verið birtar tölur hjá SÁÁ um verð á ólöglegum vímuefnum síðustu mánuði og þar sést að engin marktæk breyting er á verði þessara efna fyrir og eftir að þetta mál kom upp.

Athyglisvert er að verð á amfetamíni og kókaíni er nánast það sama og það var fyrir átta árum þegar þessar mælingar á verði efnanna hófust. Þetta táknar að kókaín og amfetamín er slæmur fjárfestingarkostur séu efnin keypt á markaði hér innanlands, þó þau séu kanski skárri til fjárfestinga en hlutur í FL grúpp.

sunnudagur, 9. mars 2008

Loka göngudeildir SÁÁ?


20. desember var skrifað undir samning milli SÁÁ og ríkisins um rekstur sjúkrahússins Vogs.

4. febrúar gengu sömu aðilar frá samningi um meðferð fyrir áfengissjúka á Vík og Staðarfelli. Þar með var búið að ráðstafa því fé sem úthlutað var á fjárlögum til SÁÁ.

Eftir stendur að ekki hefur verið samið um rekstur göngudeilda SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri. Um þetta segir Arnþór Jónsson varaformaður SÁÁ á vef samtakanna:

“…Peningar í fjárlögum hrukku ekki lengra. Í raun er því alger óvissa um áframhaldandi göngudeildarþjónustu SÁÁ í Reykjavík og á Akureyri.”

Það er því viðbúið að skera þurfi niður í þessari starfsemi.

laugardagur, 8. mars 2008

Fjögurra tíma bið verður tveggja tíma bið


Í byrjun desember bloggaði ég um langa bið á Slysavarðstofu og komst að þessari niðurstöðu:

“Það er örugglega mismikið að gera á Bráðamóttökunni og einhver forgangsröð á verkum. En fjögurra tíma bið á Bráðamóttöku fyrir fjölda fólks segir manni annaðhvort að biðstofan sé full af fólki sem ætti að vera einhversstaðar annarsstaðar, eða að Bráðamóttakan er of lítil og undirmönnuð.”

Nú hefur starfsfólk bráðamóttökunnar einsett sér að stytta biðina um helming. Frábært.


Í tilefni dagsins


Ársskýrsla Stígamóta kom út í gær.


Þar kemur fram að 46% þeirra sem leita sér aðstoðar hjá Stígamótum vegna kynferðislegs ofbeldis voru á aldrinum 0 til 10 ára þegar þau voru beitt ofbeldinu.


fimmtudagur, 6. mars 2008

Mitt skítlega eðli


Veistu hvað ég gerði í gær? Spurði samstarfskona mín í kaffitímanum í dag og áður en mér gafst tóm til að svara sagðist hún hafa lesið bloggið mitt. Og það stóð ekkert skemmtilegt þar, fullyrti hún.


Svo sneri hún sér að stöllum sínum sem áttu í djúpum samræðum um það hvernig best væri að skrásetja hægðir.

Ég vinn með mörgum þroskaþjálfum og ég hef sannfærst um að í námi þeirra er sérstakur áfangi sem heitir “Kóðun saurs 203”

Bloggið mitt á auðvitað ekki séns í svoleiðis sérfræðinga.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Risastækkun Hafnarfjarðar


Skömmu eftir að ég flutti í Hafnarfjörð fyrir nærri sex árum náði bæjarfélagið tuttugu þúsund manna stærð.


Í dag var tuttugu og fimm þúsundasta bæjarbúanum fagnað.

Þetta hundrað ára samfélag hefur því stækkað um fjórðung á rúmum fimm árum. Ekki svo undarlegt að engra vaxtarverkja gætir, því jafnaðarmenn hafa notið trausts bæjarbúa til að vera við stjórnvölinn þennan tíma.

Það var hinn ungi Kristófer Máni Sveinsson, sem tók þá skynsamlegu ákvörðun að fylgja foreldrum sínum þegar þau fluttu úr Garðabæ til Hafnarfjarðar og varð um leið Hafnfirðingur númer 25.000

Til hamingju Hafnarfjörður, Kristófer og Lúðvík.

mánudagur, 3. mars 2008

Verður hollt að búa í Kópavogi?


Forvarnarnefnd Kópavogs, undir forystu hinnar knáu Unu Maríu Óskarsdóttur, hefur nú í undirbúningi að boðið verði upp á ókeypis ávexti og grænmeti í nestistímum fyrir alla nemendur í skólum í Kópavogi.


Ég á nú alveg eftir að sjá að Gunnar I. Birgisson fari að gefa bæjarbúum mat.

sunnudagur, 2. mars 2008

Flóttinn staðfestur


Ég hef heyrt margar frásagnir af kennaraflótta úr grunnskólunum í vetur. Sögur á borð við þá að 15 kennara vantaði til starf í einn skóla í haust þegar skólastarf var að hefjast, eða frásögn af sex ára börnum sem hafa haft fjóra umsjónarkennara það sem af er vetri.


Það hafa verið margar fréttir sem styðja við þessar frásagnir. Við sem erum foreldar ungra barna höfum auðvitað áhyggjur af ástandinu. En ég hef líka velt því fyrir mér hvað er að marka þessar fréttir og frásagnir.

Það var farið illa með kennara í seinustu kjarasamningum og ég hef svosem spurt mig hvort þessar sögusagnir séu hluti af áróðursherferð kennara vegna væntanlegra kjarasamninga. Nú hef ég fengið svör.

Nú hefur Hagstofan greint frá því að brottfall úr kennarastétt er meira en áður hefur mælst. Alls hafði 871 starfsmaður við kennslu í október 2006 hætt eða fengið leyfi frá störfum í október 2007, og er brottfallið 17,5%. Brottfall kennara hefur stöðugt verið að aukast síðan 2005.


Ekkert grín


sjálfsögðu vísar Dagur B. Eggertsson, því á bug að meirihlutaskiptin í október skýri það hvers vegna fáir treysti borgarstjórn samkvæmt könnun núna í febrúar. Og það er ekkert grín í því.


Afhverju ættum við að treysta fólki sem treystir ekki hvort öðru? Spyr Kristín Dýrfjörð, og segir svo:

“Hverju ætli fólk vantreysti? Spreð í gæluverkefni? Illa ígrunduðum ákvörðunum? Blóðugum innbyrðis skylmingum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins?

Það gefst ekki vel í pólitík þegar kjósendum finnst verið sé að að hafa þá að háði og spotti. Fundurinn í Valhöll þar sem flótti barst í liðið og enginn treysti sér til að styðja við bakið á oddvitanum gaf borgarbúum flokkslínuna. Af hverju ættu borgarbúar að treysta borgarstjórnarmeirihluta sem treystir ekki eigin fólki?”