laugardagur, 28. nóvember 2009

Köttum þetta af krökkunum


Ríkisstjórnin hefur fallið frá áformum sínum um að skerða greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Í staðinn verður foreldrum gert að geyma einn mánuð orlofsins þar til síðar. Síðar - hvað er það? Er það þegar kreppan er liðin hjá?


Semsagt - í stað þess að lækka greiðslur til foreldra eru foreldarnir teknir frá börnunum mánuði fyrr.

Sparnaður ríkisins verður sá sami – börnin blæða á línuna.

Eru ekki allir hagsmunahópar ánægðir með það?

mánudagur, 2. nóvember 2009

Er þetta sjálfstæði?



Menn hafa svolítið verið að súpa hveljur yfir því að Lilja Mósesdóttir segist ekki ætla að styðja Icesavefrumvarp ef það kemur óbreytt til afgreiðslu Alþingis. Ég hlustaði á hana í Silfri Egils og mér fannst mun merkilegri yfirlýsingin hennar um að erlendir kröfuhafar bankanna komi í veg fyrir að hægt sé að afskrifa skuldir heimilanna.


Ég hef ekki heyrt það staðfest áður að erlendir kröfuhafar séu sá kraftur sem enginn mannlegur máttur fær ráðið við og því sé ekki hægt að afskrifa skuldir heimilanna.


Mér finnst það raunar umhugsunarvert að nú er lagt kapp á að erlendir kröfuhafar bankanna yfirtaki þá. Þar með eignast þessir nafnlausu kröfuhafar allt bankakerfið, en fá jafnframt eignarhald á skuldum heimilanna og þar að auki eignarhald á helming íslenskra fyrirtækja en þau heyra nú undir eignarhaldsfélög bankanna.


Ég hef ekkert á móti útlendingum, ég held raunar að ekki væri betra að allt hagkerfið væri komið í hendur innlendra kröfuhafa bankanna. En ég sé ekki að hægt sé að halda því fram að þjóðin sé sjálfstæð þegar bankakerfið, heimilin og fyrirtækin í landinu eru öll komin á einhverjar nafnlausar hendur erlendra kröfuhafa bankanna. Er hægt að tala um lýðræði við slíkt skipulag?


Er ekki bara betra að send bréf til Norge eða DK og óska eftir vinveittri yfirtöku lýðræðisríkis, sem kann að hugsa um hagsmuni þegnanna?