miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Verðbólgusprengja og gengisfall hugtaka


Nú nota menn hver um annan þveran hið gildishlaðna hugtak; verðbólguskot.

Það má nefnilega búast við “verðbólguskoti” í næstu viku þegar lán frá alþjóðasjóðum berast og genginu verður sleppt lausu.

Þetta hugtak hefur fallið hraustlega í verði að undanförnu og væntanlegu í jöfnu hlutfalli við traust almennings á verkalýðsforystu og öðrum ráðamönnum.

Um mitt ár 2004 talaði hagfræðingur ASÍ um verðbólguskot sem ógnaði kjarasamningum, þá var verðbólga komin í 3,2%

Tveimur árum seinna talaði forsætisráðherrann Halldór um að verðbólguskot væri staðreynd, hún mældist þá 7%

Nú er verðbólgan 17% og samkvæmt spá seðlabanka verður hún á bilinu 23 til 30% í janúar. Er það VERÐBÓLGUSKOT?

Hvern er verið að reyna að sefa og svæfa?

Kræst. Kallið hlutina sínum réttu nöfnum. Verðbólgusprengja er væntanleg.

En sprengja er það sem molar sundur, tætir, splundrar sundrar og tvístrar. Það er verðbólga sem hefur svoleiðis afleiðingar sem mun springa í andlitið á okkur á næstu vikum.

Verðbólgusprengja.

Engin ummæli: