sunnudagur, 14. ágúst 2011

Þau ætla í verkfall


Deila sveitarfélaga og leikskólakennara snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að þeir drógust aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% í samhengi þá eru þau u.þ.b. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatta og gjöld. Það er um ein ferð í Bónus. Ekkert annað; og eiginlega eru hógværar kröfur leikskólakennara skammarlega litlar.


Yfirleitt finnst fólki það sjálfsagt og eðlilegt að kennarar í leikskólum og grunnskólum sem hafa jafn mikla menntun að baki njóti sömu launakjara. Þegar ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn eru þeir algjörlega sammála þessu sjónarmiði – en hafa hinsvegar engar skýringar á því afhverju þetta réttlætismál er ekki í höfn.


Sveitarstjórnarmenn sem kosnir eru af íbúum sveitarfélaganna til að stjórna bæjum og borgum milli kosninga hafa framselt umboðið til að semja um laun við starfsfólk sveitarfélaganna til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Almennir sveitarstjórnarmenn hafa því heimild til að vera alveg undrandi yfir óréttlætinu í launakjörum leikskólakennara og það er skiljanlegt að þeir skilji ekkert í því og það sé ekkert hægt að ræða við þá um þessi mál. Þeir kunna þennan leik svo vel og eru stikkfrí eins og í eltingaleik á skólalóðinni í gamla daga “Ég er stikk, ég er stikk” af því þeir haf hlaupið inn í ósýnilegan reit þar sem ekki má ná þeim.


Þegar kjaradeila kemst á það stig að verkfall skellur á verður hún mjög persónuleg fyrir hvern og einn sem í daglegu tali flokkast undir það krád sem er kallað launamenn. Það er mjög alvarlegur vandi sem blasir við hverjum og einum þegar honum finnst svo á sér brotið að hann leggur niður störf og hættir að gera það sem á að afla honum lífsviðurværis.


Það er mjög persónulegur vandi sem blasir við einstaklingum þegar ógreiddir reikningar hlaðast upp, húsnæðislán fara í vanskil og endurskoða þarf matarinnkaup vegna þess að viðkomandi er tekjulaus í verkfalli. Það er þess vegna óþolandi að þeir sem sitja gegnt leikskólakennurum við samningaborðið séu andlitslausir og stikkfrí.


Það er stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer með kjaramálin, mótar stefnuna og leggur samninganefnd á sínum vegum línur. Það er þessi stjórn sem ákveður að koma ekki til móts við kröfur leikskólakennara og er því ábyrg fyrir því að verkfall skellur á eftir eina viku.
Það er merkilegt að sjá hvaða fólk sameinast þarna í einni skoðun. Þarna sitja fulltrúar gömlu vonlausu valdaklíkunnar, fjórflokkurinn eins og hann leggur sig og einn fyrrverandi pönkari. Það er engin bylting í því og ekkert pönk að skríða upp í hjá þessu liði til þess eins að hafa smávægilegar kjarabætur af kennurum.


Þetta eru sex karlar og fimm kerlingar sem bera ábyrgðina á því að nú verður verkfall eftir viku í leikskólum. Þetta er fólkið sem vill ekki semja – þau ætla í verkfall.

Þegar þar að kemur skulum við láta þau vita hvað okkur finnst.