sunnudagur, 16. júní 2013

Tvísaga og þrísaga


Allt frá því að Ólafur Ragnar Grímsson varð fyrst forseti og vogaði sér að láta í ljós þá skoðun sína að vegir til Vestfjarða væru slæmir hefur hann verið skammaður fyrir að tjá sig um það sem honum kemur ekki við.

Stóra synd Bills Clintons fyrrverandi forseta Bandaríkjanna var ekki að hafa átt í kynferðislegu sambandi við konu í starfsþjálfun í Hvíta húsinu. Það sem þjóð og þing átti erfitt með að fyrirgefa honum var að segja ekki satt um sambandið.

Í gær var greint frá því að Dorrit eiginkona forseta Íslands hafi flutt lögheimili sitt frá Íslandi og sagði hún ástæðuna að þetta hafi verið gert þegar horfur voru á að maður hennar yrði ekki lengur forseti (sem þó var frágengið í kosningum meira en ári áður). Seinna um daginn sagðist hún þurfa að taka við rekstri foreldra sinna í London og í gærkvöldi var loks fullyrt að flutningurinn væri vegna skattalaga í Bretlandi.

Þetta mál er vandræðalegt.

Mín vegna geta herra Ólafur Ragnar, fjölskylda hans og embættið tjáð sig um hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Ég hef meira að segja frekar gaman af því þegar hann tjáir sig og unun hef ég af því hvernig hann gerir það. En það á alltaf að segja satt, mamma segir það.laugardagur, 8. júní 2013

Nýr ferill


Ég hef ákveðið að gerast listamaður.

Ég ætla eingöngu að éta peninga í heila viku eða kannski út júní, svo ætla ég að hella rauðri málningu niður úr Hallgrímskirkju og láta hana leka niður eftir turninum, að lokum ætla ég ganga um Fossvogskirkjugarð þrjár helgar í röð (og alltaf á fimmtudögum) og hrækja á leiði allra sem höfðu nafn sem byrjaði á joð...