sunnudagur, 27. apríl 2008

Ættleiðingar, auglýsingar og 24 stundir


Ég skrifaði hér um auglýsingu frá grænmetiskörlum og aulahúmor um ættleiðingar í gær. Ég fékk sterk viðbrögð við þessum skrifum, gríðarlega margar heimsóknir á bloggið, nokkur viðbrögð í kommentakerfið og þó nokkuð af emailum.


En það eru fleiri sem fengu viðbrögð. Nú hef ég það frá næst-fyrstu hendi að framkvæmdastjóri Sölufélags Garðyrkjumanna sem lét framleiða auglýsinguna haf fengið fremur neikvæð viðbrögð við henni þegar hún birtist í fyrra skiptið.

Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélagsins, sem notar vörumerkið Íslenskt Grænmeti, brást þannig við að hann létt afturkalla birtingaráætlun fyrir þessa auglýsingu og bannaði að hún yrði birt aftur.

Þessi ósmekklega auglýsing birtist í 24 stundum í gær og það liggur því beint viða að álykta að fyrst hún er þar ekki að beiðni sölufélagsins sé hún þar á ábyrgð ritstjóra 24 stunda Ólafs Þ. Stephensen, verðandi ritstjóra Morgunblaðsins. Eða hver er það sem raðar auglýsingum sem ekki eiga að birtast inn í blaðið?


laugardagur, 26. apríl 2008

Grínkarlar miklir


“Ég var ættleiddur af því ég þótti ekki nóg sætur” segir Íslenskur grænmetisiðnaður í fyrirsögn í heilsíðuauglýsingu í dag og tala þar fyrir hönd tómats.


Sjálfsagt finnst sumum þetta fyndið. Og sjálfsagt þætti sumum það fyndið ef grænmetiskarlar segðu “Mér var nauðgað af því ég var svo ljót” eða “Ég fékk ekki ís af því ég er fatlaður”

Það er aldrei gamanmál að vera í þeirri stöðu að þurfa á ættleiðingu að halda. Þeir sem eru ættleiddir búa við það að hafa verið yfirgefnir. Oftast vegna einhverrar neyðar eða eymdar af einhverjum ástæðum. Hugsanir um þetta og vangaveltur hrærast með þessum einstaklingum allt þeirra líf. Og oft sækja á þá þær áleitnu spurningar hvers vegna þetta henti þá. Og hvernig lífið hefði verið ef þeir hefðu ekki verið ættleiddir.

Það eru um sexhundruð einstaklingar á Íslandi sem hafa verið ættleiddir erlendis frá og nokkur fjöldi fólks sem hefur verið ættleitt innanlands. Stærstur hluti þeirra sem ættleiddir eru erlendis frá, aðallega frá Indlandi, Kólumbíu og Kína, eru enn á barnsaldir – en ekki endilega ólæsir. Grænmetisiðnaðarkarlar auðga nú hugsanir þeirra með hallærislegum húmor sínum.

Ég held því ekki fram hér að ættleiðingar séu ávísun á eilífan harm og fólk eigi að hanga í einhverjum ímynduðum harmi allt sitt líf, af því að einu sinni á árum áður kom eitthvað slæmt fyrir. Flestum ættleiddum gengur bærilega, vel eða ágætlega. En mér finnst engin ástæða til að gera grín að ættleiðingum eða gefa þeirri hugmynd undir fótinn að sumir séu ættleiddir af því það er eitthvað að þeim sjálfum. Það eru oftast smábörn sem eru ættleidd, smábörn sem aldrei hafa haft neitt með aðstæður sínar að gera.

Sumum finnst svo sjálfsagt fyndið að grínast með ættleiðingar á þennan hátt. Og sjálfsagt þætti sumum það fyndið ef grænmetiskarlar segðu “Mér var nauðgað af því ég var svo ljót” eða “Ég fékk ekki ís af því ég er fatlaður” - þeir hlægja þá með grænmetiskörlunum núna.


föstudagur, 18. apríl 2008

Dagur um 5 ára bekki: “…í sparnaðarskyni…”


Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sagði í dag að hugmyndir borgarstjórnarmeirihlutans um væntanlega fimm ára bekki væru m.a. í sparnaðarskyni.


Leiksksólasvið Reykjavíkur hélt í dag ráðstefnuna; Rödd barnsins. Þar var Dagur einn frummælenda. Hann sagði að ákjósanlegt væri að grunnskólinn teygði sig í átt að leikskólanum en leikskólinn reyndi ekki að gerast grunnskóli þar sem væri einn kennari með 30 börn sem væri m.a. í sparnaðarskyni.

Dagur fór á kostum í erindi sínu en við þessa yfirlýsingu uppskar hann feiknamikið lófaklapp og gleðihróp frá þeim 324 konum og 8 körlum sem sátu ráðstefnuna auk Dags.

Það má skilja Dag þannig að Leikskólaráð Reykjavíkur undir forystu Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, sem lagt hefur mikla áherslu á að koma á fót fimm ára deildum við grunnskóla borgarinnar, sé að reyna að létta á starfsmannahaldi og kostnaði við það, með þessum hugmyndum.

mánudagur, 14. apríl 2008

Bambi fer í leikhús


Prinsessan horfði á Bamba 2 frá honum Disney í gærkvöldi. Þetta er tilfinningarík saga feðga, sem hafði mikil áhrif á þriggja ára prinsessu. Í morgun svaraði hún ekki nafninu sínu ef á hana var yrt, hún vaknaði sem Bambi.


Á hádegi fóru foreldrarnir og Bambi í þjóðleikarahúsið til Skoppu og Skrýtlu. Í leikhúsinu tók leikstjórinn Þórhallur Sigurðsson við miðunum og pabbinn benti prinsessunni á að þessi maður talar alveg eins og Bangsimon. En sá bangsi er líka frá Disney og það er ekki hægt að hugsa sér betri talsetningu fyrir hann á Íslensku en þá sem Þórhallur hefur aðstoðað hann við.

Skoppa og Skrýtla eru vinir prinsessunnar. Fyrir þeirra tilstilli hefur hún farið fjórum sinnum í leikhús á sinni stuttu ævi. Þrisvar til vinkvenna sinns og einusinni á Gosa, en þangað fór hún svo ung eingöngu vegna mikillar reynslu af áhorfendapöllunum hjá Skoppu og Skrýtlu. Ég er ekki viss um að leikhúsfólk geri sér grein fyrir hve mikið markaðsstarf þær stöllur eru að vinna fyrir leikhús á Íslandi.

Skoppa, Skrýtla, Bambi og Bangsimon eiga það öll sameiginlegt að flytja litlum börnum leikverk í heimsklassa á ljúfan og yndislegan hátt, sem hæfir litlum börnum. Það er fáum gefið að gera þetta eða það eru fáir sem nenna að gera þetta.

Í þessu samhengi rifjast upp eina vísan sem ég kann úr Disneyrímum Þórarins:

Stöðugt færist nær og nær
Neyslu – drauma – smiðjan.
Hvar landamærin lágu í gær
liggur núna miðjan.

Ég var yngri þegar ég las þetta og lærði. Þá hugsaði ég um helvítis heimsvaldasinnana í Amríku. Tæplega tvítugum fannst mér það við hæfi, þó ég hafi tárast sex ára gamall er ég fregnaði andlát Disneys og ekki tekið gleði mína aftur fyrr en ég frétti að hann hafði verið frystur. Seinna gætu þeir þiðið hann og Disney gæti búið til fleiri Andrésblöð.

Nú velti ég því fyrir mér hvort Íslensk menning og Disneysk sé orðin eitt, eða hvort ég hafi sjálfur haldið áfram að breytast. Það er a.m.k. ekki svo að klísturhveljan uppfylli öll okkar vit, Amríski herinn er farinn, kókdrykkja minnkar og í sjálfu sér er bara bjánalegt að óttast Disney.

Þessi nýja sýning hjá Skoppu og Skrýtlu hefur fengið misjafna dóma var sagt í þættinum hjá Sigmundi Erni í kvöld. En Gerður Kristný og Sigmundur gáfu sýningunni mjög fína umsögn enda vita þau eins og allir sem eru foreldrar þriggja ára barna að Skoppa og Skrýtla heilla börn.

Það má segja að þessi nýja sýningin sé einskonar framhaldssýning, hún höfðar ekki til alveg jafn ungra barna og fyrri sýningar þeirra Skoppu og Skrýtlu, en ævintýrið og leikgleðin er enn til staðar.

Þegar sýningu lauk fékk Bambi sem var ekki lengur Bambi heldur prinsessan, veggspjald frá þeim stöllum og faðmlag. Við versluðum svo auðvitað bol með mynd af þeim og nýju bókina þeirra með hljóðdisknum. Fyrir eigum við einn CD disk og þrjá DVD diska eða allan katalókinn eins og Máni bróðir myndi orða það. Neyslu – drauma – hvað?

Við fáum aldrei nóg af Skoppu og Skrýtlu, því eins og prinsessan orðar það; “Þær eru vinkonur mínar og líka þín mamma og þín pabbi”

sunnudagur, 13. apríl 2008

Það sem ég ekki nenni...

…að blogga um. 1.

Það er t.d pólitíkin og efnahagsástandið. Það er bara svo leiðinlegt.
Það er t.d. svo leiðinlegt þegar menn skammast yfir því að krónan sé töluð niður og tala hana svo niður.


Það var ekki sölumannslegt þegar forsætisráðherra svaraði því til á heimsfrægum sjónvarpsfréttastöðvum að það væri eðlilegt að krónan hefði fallið mikið – hún var nefnilega of há skilurðu? Auðvitað féll krónan í kjölfarið, enda skiljanlegt þegar yfirsölustjórinn segir við heimsbyggðina að þessi vara hafi verið of hátt verðlögð fram að því.

Eða þá flokksforinginn í seðlabankanum sem skammaðist austur og vestur yfir því að menn væru að tala krónuna niður og ættu að hafa vit á því sóma síns vegna að gera það ekki.

Hvað gerist svo? Þessi banki lætur frá sér fara spá um að fasteignir muni hrapa í verði á næstunni. Ekkert minna ern 30% fall er ásættanlegt. Í hverju er megnið af eignasafni bankanna á Íslandi bundið? Er það ekki fyrst og fremst bundið í fasteignum landsmanna? Er ekki verið að spá hruni á innlendu eignasafni bankanna? Mun það ekki hafa áhrif á krónuna? Er krónan kannski bara veik fyrir því þegar ábyrgir stjórnmálamenn óska eftir stöðugleika í efnahagslífinu með því innleiða evru?

En þetta er eins og ég segi, svo leiðinlegt að ég nenni ekki að blogga um það.

miðvikudagur, 9. apríl 2008

mánudagur, 7. apríl 2008

Sammála sjálfstæðismanni !

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í dag að það detti engum ábyrgum stjórnmálamanni í hug að taka mark á ólöglegum aðgerðum.

Ég er yfirleitt ekki sammála Sjálfstæðismönnum – einhverra hluta vegna. En nú erum við Geir algjörlega sammála.

Nú gæti meira að segja verið komið til skjalanna alvöru verkefni fyrir jaðaríþróttahóp Björns Bjarnasonar, hina Íslensku Víkingasveit. Geta þeir ekki fjarlægt lögbrjótana?

Það er að minnsta kosti aumt lögreglulið sem lætur nokkra jarðvinnuverktaka, gröfueigendur og flutningabílstjóra hertaka höfuðborgina dag eftir dag.