föstudagur, 27. febrúar 2009

Ég tek þátt í prófkjörinuLúðvík Geirsson var að senda frá sér eftirfarandi póst:


“Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi í samfélaginu er brýnt að sameina krafta þjóðarinnar til endurreisnar í anda jafnaðar- og félagshyggju. Verkefnin sem blasa við verða bæði erfið og krefjandi og því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að það skapist fullt traust á milli þjóðar og þings.

Samfylkingin mun verða leiðandi afl í þeirri vinnu sem framundan er við að byggja upp og treysta að nýju undirstöður atvinnulífs, efnahagsmála og heimilanna í landinu og endurheimta orðspor landsins í samfélagi þjóðanna.

Fjölbreytt störf og forysta á sviði sveitarstjórnarmála í áratugi er bæði mikilvæg og dýrmæt reynsla sem ég tel að muni nýtast vel við þau störf sem nýtt Alþingi þarf að takast á við.

Ég er reiðbúinn að leggja mitt að mörkum í þeim efnum og hef því ákveðið að gefa kost á mér til að leiða framboðslista Samfylkingarinnar.”

Kannski ég taki barasta þátt í prófkjörinu og greiði Lúðvíki og Amal Tamimi atkvæði mín. Ef vel gengur fá þau kannski formennsku í einhverri nefnd.


miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Þó ég vilji Davíð burt...Ég vil Davíð burt, ég þrái nokkra góða daga án Davíðs. Það er tilfinningamál fyrir mig, ég er kannski svona klikkaður bara en ég vil að stjórnmálamaðurinn sem var potturinn og pannan í að móta grundvöll fyrir því ástandi sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar hætti að vera með puttana í því sem hugsanlega hefur áhrif á líf mitt.


Ég vil að hann fari hvort sem hann er sekur um eitthvað og hvort sem skoðanakannanir eru gerðar af Baugsmiðlum eða stofnunum kolkrabbans. Þetta er löngun mín og ég þarf ekki að færa nein rök fyrir henni. Lýðræðið er þannig að ég má hafa þessa löngun, tala um hana og básúna eins og ég vil.

En þó ég vilji þetta djúpt og innilega, vil ég ekki að subbulegum meðölum sé beitt og lýðræðið sé vanvirt við að koma Davíð frá.

Ég hef áhyggjur eins og Baldurmcqueen.com um Seðlabankafumvarpið. Sumsé um að hugmyndir sem uppi eru hjá meirihlutanum um að forsætisráðherra skipi fjóra af fimm nefndarmönnum í nýja peningastefnunefnd Seðlabankans, veiti forsætisráðherra mjög mikil völd.

Ég hef líka áhyggjur og get meir að segja tekið undir með Gísla Marteini: Um viðbrögð þeirra sem vildu fyrir skömmu auka vægi Alþingis við hiki Höskuldar. Öllum að óvörum vilja sumir nú að „alræði ráðherranna“ eigi að gilda og þingmenn eigi ekki að hafa aukið vægi, og þaðan af síður að fylgja sannfæringu sinni.

Svo finnst mér það ekki passa að ágætur ráðherra hafi þetta í flimtingum á fésbókinni sinni og beri saman þjóðfélag án þröskulda og Alþingi án Höskulda.


KreppubloggÉg fékk ekki svartar ólívur í Fjarðarkaupum. Búðarkonan sagði að þetta væri rétt að byrja. Sumar vörur koma ekkert aftur sagði hún og fólk á mjög erfitt með að sætta sig við þetta.


Í Súfistanum er ekki hægt að kaupa kaffibaunir lengur. Ekki neina tegund. Við eigum bara eitthvað smá sem við verðum að nota sjálf sagði afgreiðslustúlkan. Það er eitthvað erfitt með innflutning sagði hún.

Í Bónus kostuðu rakvélarblöðin mín 3490 krónur, átta stikki í pakka. Rakvélablað á 436 krónur!

Tómatbökuáti (með ólívum) og kaffidrykkju er sjálfhætt hér með. Ég hætti fljótlega að raka mig líka.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Leikari vill afklæðast útiEr einhver orðinn leiður á pólitískri umræðu sem er alveg eins og pólitísk umræða sem verið hefur í gangi seinustu áratugi? Fjórflokkurinn kýtir innbyrðis. Hver stingur hvern og hver er verri en hver, er rosalega þreytt umræða. Ætluðum við ekki að breyta einhverju?

Ég var þess vegna mjög glaður að lesa um leikarann sem getur ekki á heilum sér tekið vegna þess að í sumar kemst hann ekki til að fækka fötum utandyra í Suðurbæjarlauginni í Hafnarfirði.

Þessi fyrrverandi bæjarstjóri í Latabæ nennir ekki í önnur sveitarfélög til að afklæðast í útiklefum meðan sundlaugin verður lokuð vegna viðhalds.

Magnús Ólafsson stórleikari vill að laun bæjarstarfsmanna verði lækkuð svo hann megi fækka fötum utandyra í sumar eins og alltaf áður. Magnúsi er sjálfsagt ekki kunnugt um að nú þegar er búið að skera niður laun allra bæjarstarfsmanna og honum er sjálfsagt ekki kunnugt um að viðgerðir á sundlauginni verða að fara fram að sumri þegar veðurfar er skaplegt. Þrátt fyrir það er ég þakklátur Magnúsi fyrir þennan ýkta barlóm í Fréttablaðinu í dag.

Magnúsi er sérleg lagið að skemmta fólki og hann ætti endilega að taka þátt í prófkjöri flokksins sína aftur, við þurfum menn eins og Magnús sem láta engan bilbug á sér finna þrátt fyrir alheimskreppu og gleyma ekki lúxusmálum á borð við þörfina fyrir að afklæðast undir berum himni.

laugardagur, 21. febrúar 2009

Um Ara baraÞað gladdi mig að sjá að Ari Matthíasson ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri VG í Reykjavík. Við Ari unnum saman í nokkru ár og ég veit að hann er með sterka réttlætiskennd, hann er duglegur, vel menntaður og fylginn sér.


Ég vona að VG veiti Ara góða kosningu. Hann mun verða öflugur talsmaður almannahagsmuna.

Sjálfur hef ég ekki ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri sem hlýtur að teljast mjög merkilegt af því bloggið mitt er á Eyjunni, þar sem er ofboð af þingmannsefnum.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Tvennt===========

Nýr lipurlega skrifandi bloggari kom til liðs við Eyjuna í dag. Honum til sóma má segja að hann dregur enga dul á að hann birtist á þessum vettvangi í tilefni af framboði sínu í prófkjöri Sjálfstæðismanna.

Þetta er Þórlindur Kjartansson. Þórlindur segir að hann ætli að skrifa um hvaðeina sem veki áhuga hans því honum finnst skemmtilegast að lesa blogg þar sem fjallað er á frjálslegan og hispurslausan hátt um sem fjölbreyttasta þætti samfélagsins. Þrátt fyrir það gengur Þórlindur í smiðju til Björns Bjarnasonar og Gísla Marteins og hefur ekki opið fyrir komment í bloggi sínu.

============

Er Björn Jörundur hættur í dópi? Hvað táknar hún nákvæmlega yfirlýsingin um að þessi frétt eigi ekki við í dag? Ekki alveg nógu afdráttarlaust fyrir minn smekk hjá þessum skarpa orðsnillingi.


Af greindum skynjarakerfumÞetta er fræðasvið hans Kalla nágranna míns: Stafræn og ljósræn mynstursgreining, myndvinnsla, flokkun og rakning. Ljósræn tölvuhögun og algrým, hönnun stafrænna kerfa og greind skynjarakerfi.


Í dag fékk hópur undir stjórn Kalla, sem heitir reyndar Karl Sölvi Guðmundsson, nýsköpunarverðlaun forseta Íslands. Verkefnið þeirra, gönguhermir fyrir fötluð börn, er eitt af því sem gæti komið Íslandi á lappirnar á ný.

Til hamingju Kalli og co.

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Tökum fram pottanaÞað var tvennt sem skipti miklu máli að nýja rikisstjórninn afgreiddi með sóma. Raunverulegan stuðning við heimilin í landinu og stjórnlagaþing.


Undanfarna daga hefur verið að koma í ljós að ekkert á að gera af viti fyrir fjölskyldur sem sem sjá húseignir sínar fuðra upp í verðbólgurugli. Lengja í lánum... Greiða í hlutum út miljón af séreignasparnaði... Búið. Tuttugu miljóna íbúðalán hækkar um hálfa miljón á mánuði.

Nú kemur þessi frétt: "Ólíklegt að frumvarp um stjórnlagaþing nái fram að ganga fyrir kosningar"

Það er kominn tími til að taka fram góðan pott og sterka sleif. Hvað eigum við að öskra?
Flassbakkandi SteingrímurÞað er mjög skemmtilegt að lesa þetta:


“Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vill afnema verðtrygginguna. Þessu lýsti hann yfir á vel sóttum borgarfundi í Háskóalbíói í kvöld. Hann sagði að til þess að það væri gerlegt þá þyrfti að ná verðbólgunni niður.”

Þetta er eiginlega svona flassbakk. Við vorum einu sinni með forsætisráðherra sem sagði þetta alltaf. Ég er á móti verðtryggingunni, ég verða að segja það. Hann hét líka Steingrímur.

En þar fyrir utan er þetta misskilningur hjá Steingrímum. Til að ná verðtryggingu burt þarf að breyta lögum. Alveg eins og var gert þegar verðtrygging var tekin af launum.

Þegar verðtrygging var sett á voru laun verðtryggð líka. Svo afnam Alþingi verðtryggingu af launum. Það gekk fljótt í gegn. Hverjar ætli forsendurnar hafi verið fyrir því að afnema verðtryggingu af launum? Ná niður verðbólgu kannski?


Nú eru það athafnir en ekki orð sem gilda Steingrímar.


sunnudagur, 15. febrúar 2009

Stærsti flokkurinnStærsti flokkur kjósenda í seinustu skoðanakönnun um fylgi fjórflokkana er flokkur þeirra sem segist vera óákveðinn. Sá flokkur fólks er meira en helmingi stærri en sá hópur sem ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.


Í fréttum af könnun á fylgi fjórflokkana er lítið eða ekki getið um þennan risastóra hóp þó ætla megi að hann telji sextíu þúsundir kjósenda.

Annar stór hópur sem ekki er talinn með í fréttum er hópur þeirra sem ætla að skila auðu, en það eru níu prósent kjósenda. Það er stærri hópur sem segist ætla að skila auðu en gefur upp stuðning við Framsóknarflokkinn.

Í raun var það þannig að 16,8% sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk, 13,9% Samfylkingu, 13,5% VG, 8,6% Framsóknarflokk og innan við eitt prósent Frjálslundaða.

46,8% gáfu ekki upp stuðning við einn af fjórflokkunum en þeir eru ekki taldir með. Það er kominn tími til að hætta þessum dónaskap við fólk, með því að skila auðu er fólk að velja það sem því finnst vera besti kosturinn í lélegu úrvali.

Það er líka hættulegt lýðræðinu að láta að því liggja, korteri eftir byltingu, að nú sé fylgi fyrrverandi stjórnarflokka komið í 55 prósent, eins og þeim hafi bara verið fyrirgefið. Það að ætla að skila auðu eða kjósa ekki er ákveðin afstaða og það er fölsun að sigta þá frá og magna þannig upp fylgi við flokkana.


Ungir og glaðir með sínahafa einhverjir ályktað í nafni ungra jafnaðarmanna um að Samfylkingin hafi axlað ábyrgð þegar almenningur tók völdin af flokknum í Búsáhaldabyltingunni og kom í veg fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins.


Hvernig fer það fram samkomuhaldið þegar ályktað er í nafni ungra jafnaðarmanna? Er boðað til félagsfundar? Er það einróma og almenn skoðun ungra jafnaðarmanna að þannig axli flokkurinn þeirra ábyrgð?

laugardagur, 14. febrúar 2009

Í manninn en ekki málefniðÞað er merkilegt hve margir bloggarar þurfa nú að taka fram að tími Jóns Baldvins sé liðinn. Með því að beina spjótum sínum að persónu Jóns koma þeir sér hjá því að tala um málefnið, tala um þá gagnrýni sem Jón hafði fram að færa og svara þessu;


“Forysta Samfylkingarinnar yrði hins vegar að líta í eigin barm. Það yrði að skýra það hversvegna formaður flokksins eyddi mestum tíma sínum á hættuástandstímabili í ómerkilegasta flopp íslenskra utanríkismála; tilraun til að komast í öryggisráðið.

Hann nefndi annað dæmi. Formenn beggja stjórnarflokka, bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hafi síðastliðið haust skipt með sér verkum og farið til New York og Kaupmannahafnar til þess að tala máli bankaútrásarinnar. Þar hefði verið talað gegn öllum staðreyndum.


Samfylkingin hefði átt að segja sig frá stjórnarsamstarfinu fyrir löngu. Þegar hún sagðist ekki bera ábyrgð á gerðum Davíðs Oddssonar, og það var ekki tekið mark á henni, þá hefði hún daginn eftir átt að segja sig frá stjórnarsamstarfinu.


"Við látum ekki bjóða okkur svona trakteringar í nafni íslenskrar alþýðu. Það er óboðlegt. Maður hótar ekki í pólitík nema maður standi við það," sagði Jón Baldvin og hlaut fyrir lófaklapp. Forysta Samfylkingarinnar hefði ekki staðið vaktina og rof hefði myndast milli hennar og grasrótarinnar.”

Gott væri að heyra svör við þessari gagnrýni frá fótgönguliðum flokksins sem heldur að hann sé lýðræðislegur, siðvandur og stunda samræðustjórnmál.


laugardagur, 7. febrúar 2009

Elítuframboð ErnisÞau sitja í Vikulokin núna og tala um kröfuna um nýja tíma og ekki megi ráða nýjan seðlabankastjóra sem lengi hefur verið tengdur “vinstri öflunum”


Í þessum hópi situr Sigmundur Ernir sem rak Einar Má Guðmundsson, einn skeleggasta talsmann alþýðunnar, úr spjallþætti sínum eftir að Einar hafði talað umbúðalaust og opinskátt um spillingu og ranglæti.

Svo hætti Sigmundur Ernir Rúnarsson sjálfur hjá sjónvarpsstöðinni og sagist þá hafa losnað undan oki auðmanna (en þar hefur hann dvalið alla starfsævi sína).

Nú hefur Sigmundur gengið til liðs við Samfylkinguna og segir borubrattur í útvarpinu að ef ráða eigi menn pólitískt skuli stjórnvöld vita að nóg sé til af búsáhöldum.

Sigmundur var nú ekki par glaður þegar mótmælendur stöðvuðu Kryddsíldina hans en ef til vill á hann vel heima í hópi þeirra stjórnmálamanna sem segja fólki að það sé ekki þjóðin, tilfinningu hans fyrir almenningi orðaði fyrrum kollegi hans, Árni Snævar, svona:

“Sigmundur Ernir og Edda Andrésdóttir virðast ekki hafa áttað sig á því að víglínan í íslenskum stjórnmálum, er ekki nema að hluta til á milli stjórnmálaflokkanna, á milli hægri og vinstri, heldur á milli elítunnar annars vegar og fólksins hins vegar.”

Ég held samt að Sigmundur sé góður drengur og hann var ágætt ljóðskáld. Vonandi gengur honum vel í pólitíkinni og flokknum hans líka, ég hefði þó frekar viljað sjá Einar Má á framboðslista þessa flokks sem ég held að hann hafi eitt sinn stutt.


föstudagur, 6. febrúar 2009

Orð kvöldsins


Logi í beinni:


“Ísland er svo ótrúlega lítið
að allir voru einhvern vegin þar sem allir voru”Þetta verður ekki toppað - í kvöld.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Með óbragð í munniÉg hef verið með óbragð í munninum seinustu daga. Ákvað að kíkja til læknis.


Læknirinn sagði að þetta væri eðlilegt eftirbragð, súr keimur, minning um slæma máltíð.

“Það er búið að skipta um matseðil hjá ykkur” sagði hann “en þú hefur auðvitað varann á af því að ennþá er sami kokkurinn!”

Og það er einmitt rökrétt hjá honum. Það eru bara illa staddir alkahólistar sem halda að núna verði bara fínt að fá sér í glas þó seinustu þúsund skipti hafi það alltaf endað með ósköpum.

Líklega er það rétt sem læknirinn sagði. “Þú ættir ekki að borða á þessum resturant fyrr en þau hafa skipt um kokk líka, það er bara ávísun á ógleði að reyna einu sinni enn”