fimmtudagur, 31. júlí 2008

Nýr stíllÉg kann ekki við þá nýju blaðamennsku á Eyjunni að skrifa Íslenskar fyrirsagnir og linka svo á erlendar greinar.


Ég get svosem lesið þetta dót á ensku en finnst miðillinn taka skref niður á við, verða einhverskonar linkasafn, get þá alveg eins googlað eða blaðað í BBC og þessu dóti.

Ég gæti ekki kraflað mig í gegnum franskar, þýskar, ítalskar og spænskar greinar. Er ekki von á þeim í kjölfarið?

Ég skil vel að það sé erfitt að halda úti góðu vefriti með lítilli ritstjórn og litlum tekjum væntanlega en ég er ekki viss um að þetta bæti Eyjuna. Er þetta ný ritstjórnarstefna sem er komin til að vera? Er Hallgrímur enn að deita fiskinn?


miðvikudagur, 30. júlí 2008

Bætur fyrir börnÁ morgun verða skattskrár lagðar fram. Þá hefst í árlega umræða um greiðendur hæstu skatta og hástökkvara ársins. Hæsta bóndann, hæsta lækninn, hæsta bankamanninn og þar fram eftir götunum.


Þá fara líka fram árleg viðtöl við stuttbuxnaherdeildir Davíðsæskunnar sem steðja fram að venju, merktar Heimdalli í bak og fyrir, til að mótmæla því að borgararnir fái upplýsingar um hvað aðrir einstaklingar leggja til samfélagsins. Allt undir merkjum mannréttinda.

Jafnframt álagningarseðlum fáum við barnafólk upplýsingar um barnabætur og hvort við erum innan tekjumarka barnabótaauka. Barnabætur verða sjaldan tilefni til fréttaumfjöllunar.

En hverslags þjóðfélag er það sem gerir börn og barneignir að andlagi bóta? Hverslags þjóðfélag er það sem greiðir bætur þeim sem ala börn?

Hversvegna njóta ekki börn persónuafsláttar eins og aðrir einstaklingar sem eru hluti af samfélagi okkar? Persónuafsláttar sem forráðamenn gætu nýtt sér eins og hægt er að nýta sér persónuafslátt maka.

Eru það mannréttindi að börn njóti ekki persónuafsláttar eins og annað fólk en samfélagið greiði þess í stað bætur þeirra vegna?


mánudagur, 28. júlí 2008

Hús, bús og launalús


Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Hanna Birna sé sammála borgarstjóra um að vera á móti tillögum að listaháskóla við Laug
arveg. Þetta Borgarstjórnarsamstarf er myndað utan um verndun 19. Aldar götumyndar Laugavegar og flugvallar í hlaðvarpanum.

Verð að vera sammála þeim. Þetta er forljótt kubbismahús sem getur vel haft sitt stolt eða reisn eða hvað hann sagði gæinn í Kastljósi, það passar bara ekki í umhverfið sem það er teiknað í.

Meðfylgjandi áróðursmynd breytir ekki skoðunum mínum á því. Undarlegt hvað allir eru dökkir og drungalegir fyrir framan gömlu húsin sem varpa skuggum sýnum í aðra átt en listaskólabyggingin sem ljómar af.======

Bloggaði um Þórsmerkurljóð versus Baggalút á föstudag, Guðmundur gerir það núna en notar frekar gróft orðalag. Guðmundur, ég vil þú biðjist afsökunar!!!

Annars er þessi drykkju, svall og sexmæring popplaga í besta falli þreytt og subbuleg – eins og útihátíðir. Feministakellingin Hjálmar má eiga það, að hann hefur nokkuð til síns máls.

=====

Og aftur að verndun 19. aldar götumyndar.

Kostuðu ekki húsakaup borgarstjóra á Laugavegi 9 og 11 einn miljarð? Eða var það bara fimmhundruð miljónir. Ef hann pínir 160 leiðbeinendur í vinnuskólanum nógu mikið niður I launum fær hann eitthvað upp í kostnaðinn við húsakaupin.

Leiðbeinendurnir segja að þeir séu snuðaðir um 30.000 hver og einn miðað við sambærilega leiðbeinendur í félagsmiðstöðvum. Það er með góðu móti hægt að spara 15 millur á að kjaraklípa þetta unga fólk í sumarvinnunni sinni.

Sem táknar að eftir 70 ár verður Óli F. kominn með fyrir húsunum á Laugavegi sem hann og Hanna splæstu í. Góður leikur!föstudagur, 25. júlí 2008

Feministi og Baggalútur í hár saman


Hjálmar Sigmarsson sem kallar sig ráðskonu karlahóps feminista var að hneikslast á nýju lagi Baggalúts, eða öllu heldur texta þess. Baggalútur tekur þessu illa upp og krefst afsökunarbeiðni.


Um þetta má lesa hér. Þar segir m.a. "Baggalútsmenn telja nauðgun viðurstyggilegt athæfi og fara fram á að ráðskonan (Hjálmar) biðjist opinberlega afsökunar á því að hafa logið því upp á höfunda og flytjendur lagsins að þeir hvetji til nauðgana. Hún væri maður að meiri fyrir vikið."

Hér má hlusta á nýtt lag Baggalúts, en synd væri að segja að það toppi hið grófyrta "Troddu þér inn í tjaldið hjá mér María María"

Hún Hjálmar á næsta leik.


fimmtudagur, 24. júlí 2008

Samhjálp í USA - en ekki hér.


Bandaríkjaþing leggur nú drög að því að húsnæðiseigendur í greiðsluerfiðleikum geti fengið ríkistryggð endurfjármögnunarlán. Jafnframt á ríkissjóður BNA að hafa svigrúm til ótakmarkaðra lánveitinga til tveggja stærstu íbúðalánasjóðanna auk heimildar til hlutafjárkaupa í þeim.

Á íslandi er beðið eftir staðfestingu frá Eftirliststofnun Efta um að ríkisstyrkir til Íbúðalánasjóðs brjóti gegn reglum EES. Fjármálaráðherra hefur boðað veigamiklar breytingar á Íbúðalánasjóði með haustinu. Sjálfsagt verður sjóðurinn lagður af í núverandi mynd.

Á Ísland er samt hugsanlegt að ríkisstyðja við einkabankana sem farið hafa offari í lántökum. Hummm.

Villa?

Hálft í hvoru finnst mér það viðeigandi að sleppa Té-inu úr þessari fyrirsögn;
Kraftlyfingar á Kvíabryggju
þriðjudagur, 22. júlí 2008

Sér hún ekki betur?


Afhverju sit ég svona hátt en þú ekki? spyr þriggja ára prinsessan í aftursætinu.

Af því að þú ert í barnabílstól svo þú sért örugg.
Já en afhverju er ég hátt uppi en þú ekki? ítrekar hún spurninguna.
Það er líklega svo þú sjáir betur út.
Svo ég sjái betur út. Ég sé girðingu, sérð þú hana?
Já ég sé þessa girðingu.
Þá sjáum við það sama.

mánudagur, 21. júlí 2008

Ó pólitískir listamenn


Skil ekkert í Bubba að dissa Björku þó hún hafi stutt náttúruvernd en honum finnist meiri þörf á að ræða fátækt.

Skil ekkert í Bubba að vilja ræða fátækt þegar það er miklu meiri þörf á að tala um langveik börn.

Skil ekkert í Kristjáni Jóhanns að syngja fyrir langveik börn þegar það er miklu meiri þörf á að ráðast gegn fíkniefnavandanum.

Skil ekkert í K.K. að styðja SÁÁ í baráttunni gegn fíkniefnavandanum þegar það er meiri þörf á “að taka á atvinnumálunum og búa til álbræðslu”.

Skil ekkert í Bjögga og Leiló koma fram á áróðurssamkomum álversins í Straumsvík þegar meiri þörf er á að leggja öðrum hægrimönnum lið.

Skil ekkert í Stebba Hilmars að syngja í veislu hægriöfgamannsins Sigurðar Kára þegar meiri þörf er á að styðja réttindabaráttu samkynhneigðra.

Skil ekkert í Páli Óskara að…

Og ég skil ekkert í vefstjóra Bubba Mortens að halda því fram að Bubbi sé eini pólitíski tónlistarmaðurinn á Íslandi. Það er pólitískt að vera til.

föstudagur, 18. júlí 2008

illt


Það er sagt að Jesú hafi boðað fyrirgefninguna. Það er líka sagt að gyðingar hafi krossfest hann.


Sextíu árum eftir að stríðsglæpamanninum Aribert Heim var sleppt úr Bandarísku fangelsi er hin Ísraelska Wiesenthal stofnun á höttunum eftir honum.

Það er lífseigt hatrið. Eða er þetta bara bíssness?


fimmtudagur, 17. júlí 2008

Lax, lax, lax og aftur...


Er það Gúrka þegar því er komið fjórum sinnum fyrir í sömu frásögninni í kvöldfréttum sjónvarps að stundum sé seldur innfluttur lax frá Færeyjum af því framboð á íslenskum laxi annar ekki eftirspurn?


Eða er það Gúrka að svoleiðis frásögn verði að frétt í aðla fréttatíma ríkissjónvarpsins?

Eða er lax bara góður fréttamatur?

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Verði ljós


Það er þannig að ljósmæður eru kvennastétt sem þjónar konum eingöngu. Ljósmæður eru lægra launaðar en allar aðrar stéttir með sambærilega menntun.

Í stjórnarsáttmála segir:
“Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta”

Ef fjármálaráðherra kveikir á perunni sér hann kannski að nú er tækifæri til að koma til móts við þær væntingar sem gerðar eru til þessarar ríkisstjórnar og það sem samið var um í stjórnarsáttmála.
Ps. Þar fyrir utan er ég viss um að Jesú frá Nasaret er á bandamaður Ljósmæðra.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Einfalt mál


Þeir voru í morgunútvarpinu að flækja umræðununa um upptöku evru og drepa henni á dreif. Þetta gerðu þeir undir þeim formerkjum að umræðan væri flækt, fólk illa upplýst, og einfaldar skýringar skorti á “venjulegri íslensku”.

Það er einföld grundvallarregla að taka ekki lán í gjaldmiðli sem þú hefur ekki tekjur í.

Þeir sem keyptu bíl á erlendu mynntkörfuláni hafa skilning á þessar einföldu varaúðarráðstöfun.

Ef almenningur á Íslandi á að komast undan þrælahaldi vísitölubindingar og ofurvaxta þarf hann að fá tekjur í öðrum gjaldmiðli. Þá verður fólki frjálst að taka lán í þeim sama gjaldmiðli án gífurlegrar gengisáhættu.

Evran er sameiginlegur gjaldmiðill fjölmargra sjálfstæðra ríkja. Það að draga dollar, Matadorpeninga eða norska krónu inn í umræðuna er að drepa henni á dreif og tefja nauðsynlega þróun. Hvaða hagsmuni liggja að baki slíkum málatilbúnaði?

Samanburður á Evru og dollar verður ekki betur orðaður en hjá Hallgrími.
Munurinn á að taka upp dollar eða Evru er eins og munurinn á að selja sig eða gifta.

Er þetta ekki þokkalega einfalt?


fimmtudagur, 3. júlí 2008

Segir þingmaðurinn ósatt - er fólk fífl ?Fyrir nokkrum árum þegar olíufélögin voru uppvís að ógeðslegu samráði sínu rataði tölvupóstur fyrir sjónir almennings sem fór afar mikið fyrir brjóstið á landsmönnum. Það var “Fólk er fífl” póstur Tómasar Möller. En Tómas var innvígður í samráðinu og eins og sagt hefur verið; Á einfaldri íslensku þýddu þessi orð Tómasar;


"það er hægt að plata þennan lýð upp úr skónum og engin mun átta sig á neinu."

Þetta er rifjað upp hér því þessi Tómas er bróðir Ástu Möller alþingismanns og formanns heilbrigðisnefndar og sat með henni í stjórn fyrirtækisins Liðsinnis og var prókúruhafi þar. En Ásta hefur legið undir ámæli ásamt Jórunni Frímannsdóttur borgarfulltrúa fyrir að tengjast (í gegnum Liðsinni) fyrirtæki sem bauð hæst í þjónustu við vímuefnaneytendur en var engu að síður valið til að annast verkefnið af Velferðarráði Reykjavíkur sem borgarfulltrúinn Jórunn stýrir.

Það er ekki algengt að stjórnmálamenn snúist til varna inni í kommentakerfum í bloggheimum en það hafa þær Jórunn og Ásta báðar gert eftir að hart var að þeim sótt. Á bloggi Jóns Steinars segir Ásta t.d.

“…Haustið 2005 þegar ég tók sæti á Alþingi á ný hætti ég og maður minn afskiptum af fyrirtækinu Liðsinni og seldum öðrum eigendum hlut okkar í félaginu… …Því er það rangt sem haldið er fram í færslunni að viðskiptatengsl hafi verið milli mín og fyrrum eigenda doktor.is annars vegar og milli mín og eigenda Inpró hins vegar…”

Í kjölfarið hafa einstaklingar ritað í kommentakerfin og efast um sannleiksgildi orða Ástu og fleiri. Þannig hefur Álfgrímur Jónsson kommentað hér í þetta blogg en ég skrifaði um stöðu Innri Endurskoðunar Reykjavíkur gagnvart yfirmanni sínum Jórunni Frímannsdóttur. Álfgrímur segir:

“Af hverju er Ásta Möller að segja ósatt um aðkomu sína að þessu máli? Af hverju er Ármann Kr. Ólafsson orðinn uppvís að ósannindum í þessu máli? Af hverju er Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen að segja ósatt í þessu máli? Af hverju er Anna Sigrún Baldursdóttir (eiginkona aðstoðarmanns viðskiptaráðherra) að segja ósatt í þessu máli?

Það er vegna peningalegra hagsmuna og þess að þau hafa óhreint mél í pokahorninu. Þetta ósannindafólk hefur þar með gert sig óhæft til að sinna opinberum störfum og að fjalla um þessi mál. Eða er öllum sama?”

Nú má halda því fram að sá sem heldur úti bloggi beri einhverja ábyrgð á kommentum sem inn á það eru rituð. Ég get að nokkru tekið undir það og stundum hef ég hent kommentum sem mér finnast innihalda ósæmilegar árásir á nafngreint fólk.

Athugasemdir Álfgríms standa, því ég hef ástæðu til að ætla að hann hafi eitthvað til síns máls.


miðvikudagur, 2. júlí 2008

Krónýt óna...


…eða ónýt króna.

Ég hygg (spámannslegt) að í framtíðinni verði brúkað hér orðatiltækið:

“Þetta er ónýtt eins og krónan.”

Mun sá stóridómur um hlut verða til þess að þeir fara beint á haugan!


þriðjudagur, 1. júlí 2008

Ál er prjál

Heimir Már Pétursson bar saman epli og kjötbollur þegar hann vóg álbræðsluiðnaðinn á móti ferðamannabransanum í sjónvarpi í gær.

Í þættinum í Vikulokinn kynnti Andri Snær Magnason útreikninga sína á því hvað verður eftir af þeim tekjum sem hampað er þegar því er haldið fram að áliðnaðurinn sé starri enn t.d. sjávarútvegur eða heimsóknir ferðamanna.

Megnið af tekjunum fer beint í erlenda vasa eigenda álbræðslanna. Af þeim 80 sem fást í “útflutningstekjur” standa um 2 milljarðar eftir í launum til starfsmanna og um sex milljarðar fyrir orkusölu. Tekjur af orkusölu halda svo beina leið úr landi til að greiða niður lá Landsvirkjunar vegna virkjanaframkvæmda.


Tekjur sem standa eftir eru því tveir milljarðar - húrra fyrir því.