laugardagur, 20. desember 2008

Hvað gera konurnar?Níutíu og níu prósent allra leikskólakennara eru konur. Leikskólakennarar eru núna að greiða atkvæði um kjarasamning. Afstaða kvenna í stéttinni ræður augljóslega úrslitum.


Hér er bréf sem við Haraldur F. Gíslason (kallaður Halli) sendum til leikskólakennara í fyrradag eftir að formaður og varaformaður félagsins höfðu gefið út trúnaðarmannabréf í kjölfar á athugasemdum sem við Halli gerðum í sitthvoru lagi.

Þetta er töluverð lesning og er sett hér inn vegna heimildagildisins. Form bréfsins er stæling á áðurnefndu trúnaðarmannabréfi.


=======================================Til trúnaðarmanna FL
1. og seinasta bréf 2008

Hafnarfjörður, 17. desember 2008.


Ágæti trúnaðarmaður.► Kjarasamningur – hugleiðingar

Nú er rúm vika síðan samninganefnd FL skrifaði undir samning um framlengingu á kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga. Samningurinn fékk kynningu í bréfi til trúnaðarmanna félagsins en ekki á fundi þar sem félagsmönnum gafst kostur á ræða samninginn með lýðræðislegum hætti. Samninganefndin lýsti því reyndar yfir að hún “sæi enga ástæðu til” að halda slíkan fund.

Eftir að tveir félagsmenn létu skoðanir sínar á væntanlegum kjaraskerðingum í ljós lögðust formaður og varaformaður félagsins í bréfaskriftir til félagsmanna með einhliða áróðri fyrir því að samningurinn verði samþykktur. Með þessu verður umræðan ósanngjörn því starfsmenn félagsins hafa yfirburðaaðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri í gegnum tengslanet félagsins. Sennilega er það einsdæmi að verkalýðsfélag standi að áróðri með þessum hætti eftir að atkvæðagreiðsla er hafin um lífskjör félagsmanna.

Í bréfi sínu lýsa formaður og varaformaður þeim skoðunum sínum að samningsstaða hafi verið engin, sérstaðan engin, félagið vopnlaust og samningaviðræður kalla þær þref.

Sínu verst er þó að þær lýsa því yfir að öll stéttarfélög á vinnumarkaði séu að undirbúa samkomulag um víðtæka sátt á vinnumarkaði og það sé taktlaust að taka ekki þátt í því.

Um þetta er það að segja að samningsumboð fyrir hönd félagsmanna liggur hjá samninganefnd félagsins. Það hefur ekki verið framselt til annarra verkalýðsfélaga, aðila vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar. Til að svo megi verða þarf að fara fram umræða í félaginu og niðurstöðu þarf að bera undir félagsmenn. Það hefur ekki verið gert. Yfirlýsingar um taktleysi byggja því á skoðunum bréfritara en ekki lýðræðislegum ákvörðunum félagsmanna.

Slæmt er líka að forystan boðar nú árs samning að þessum samningi loknum með 3,5% krónutöluhækkun en forystan lætur þess ekki getið að verðbólguspá fyrir sama tímabil er margfalt hærri og þarnæsti samningur verður því samningur um 12% kaupmáttarlækkun. Svo boða Ingibjörg og Björg þriðja kjarasamninginn með 2,5% krónutöluhækkun og guð má vita hvað mikilli kjararýrnun. Þetta er vondauf verkalýðsforysta sem virðast allar Bjargir bannaðar.


► Þjóðfélagsaðstæður – hugleiðingar

Öllum er ljóst að nú er kreppuástand á Íslandi þó upplýsingum hafi verið haldið frá fólki. Hvert spillingarmálið í bankakerfinu og stjórnkerfinu hefur rekið annað. Kröfum almennings um úrbætur er í engu svarað.

Undanfarnar vikur hafa verið hávær mótmæli gagnvart stjórnvöldum sem ætla að láta almenning borga brúsann fyrir óráðsíu, spillingu og bruðl. Verkalýðsforystan hefur líka sætt miklu ámæli, hún hefur verið sökuð um að þiggja ofurlaun, taka þátt í fjárglæfraleiknum í gegnum lífeyrissjóðina og skipuleggja það með stjórnvöldum að þeir einu sem gjalda fyrir ósómann verði almennir launamenn.

Fréttamenn hafa spurt forkólfa í verkalýðshreyfingunni hvort til standi að ofurlaun þeirra lækki. Því hafa verkalýðsleiðtogarnir hafnað því slíkt gæfi slæmt fordæmi. Er þá ekki eðlilegt að spurt sé núna, á hvaða kaupi þeir verkalýðsforingjar séu sem hvetja félagsmenn til að samþykkja samninga um gríðarlega kjararýrnun?

Árið 1932 slógust menn við fundarstað bæjarstjórnar - Gúttó, þegar til stóð að lækka launin. Samningarnir núna munu færa mörgum félagsmönnum sömu niðurstöðu og menn voru að hafna þá, lækkun launa.

Bæði samninganefnd og félagsmenn ættu alltaf að vera tilbúin til að berjast fyrir lífskjörunum og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Aðstæður núna eru sennilega ekki jafn slæmar og þær voru 1932.

Fyrir 25 árum stóð Kvennalistanum til boða rískisstjórnarsamstarf. Konurnar gerðu kröfu um lög um betri kjör. Refirnir í hinum flokkunum veifuðu þá sameiginlegu áliti hagfræðinga atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um að allt frá dögum Mesópótamíu hafi fólk fengið þau laun sem það á skilið. Þetta var kallað Mesópótamíulögmálið. Í aldarfjórðung hefur þjóðfélagið verið rekið með kennisetningum þessara trúarbragða hagfræðinganna og það breytist ekkert fyrr en fólkið sjálft sækir þau laun sem það á skilið.


► Kjarasamningur – atkvæðagreiðsla

Við kjarasamningagerð hafa félagsmenn síðasta orðið. Mikilvægt er að sérhver einstaklingur noti sinn lýðræðislega rétt og greiði atkvæði í samræmi við afstöðu sem hann er tilbúinn til að standa við. Nú eru í raun lögð drög að samningum til tveggja ára. Hægt er að samþykkja samninginn, hafna honum eða skila auðu. Það er mikill ábyrgðarhlutur að hvetja fólk til að taka eina afstöðu frekar en aðra.

Þeir sem undir þetta bréf rita ætla að hafna þeirri kúgun sem á sér stað í Íslensku þjóðfélagi í dag með því nota sinn lýðræðislega rétt og segja NEI við samningnum.

Megið þið öll eiga friðsæl jól og gleðilega lífskjarabaráttu á nýju ári.

Hörður Svavarsson
leikskólakennari
Haraldur F Gíslason
leikskólakennari

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvað skal segja. Þetta eru fyrstu mótmæli sem ég sé gegn því að þessi stétt sitji við sama borð og aðrir í kjarasamningum.

Það að hún komi frá tveimur karlmönnum finnst mér umhugsunarefni.

Ef ekki var hægt að hífa laun stéttarinnar upp í góðærinu þá sé ég enga ástæðu til þess að hún taki þátt í þjóðarsátt núna.

Þar sem gengið hefur verið framhjá henni hingað til (eða hún ekki verið nógu hörð í samningum sjálf) þá segir það sig sjálft að það er ekkert svigrúm til nokkurrar skerðingar núna.

Það verður ekki framhjá því horft að þetta er gríðarlega krefjandi og mikilvægt starf. En það er hálf kaldhæðið að tækifærið til einhverrar jöfnunnar gefist fyrst í því að allir hinir taki á sig skerðingu niður á við til þeirra stétta sem setið hafa á hakanum.

Ég segi hiklaust með ykkur, það er engin ástæða til að samþykkja þessa samninga.

Kristín Kristjánsdóttir

Hörður Svavarsson sagði...

Takk Kristin

Fyirir nokkrum dögum fékk ég líka kommant sem hljóðar svona:

"Það er algjörlega út í hött ef leikskólakennarar ætla að samþykkja þennan samning, þó ekki væri nema af þeirri einföldu ástæðu að grunnskólakennarar gerðu samning um allt önnur kjör og eru enn að fá hækkanir í samræmi við þann samning.

Ef það á að gæta einhverra lágmarks sanngirnis í þessum samningum sveitarfélaganna og leikskólakennara, þá verður að sjálfsögðu að horfa til þessara tveggja samninga. það gengur ekki að leikskólakennarar semji nú um töluvert lægri laun en grunnskólakennarar. Ef það gerist þá eru leikskólakennarar í raun að greiða hluta af launum grunnskólakennara með góðmennsku sinni og það er afleit staða...."

Þetta er allt saman merkilegt og eitt enn: Leikskólakennurum var ekki boðið að sitja við sama borð og öðrum, þeir eiga að lækka launin sín.