mánudagur, 15. desember 2008

Segjum NEIÍ gærkvöldi skrifaði ég bréf til leikskólakennara og í dag er ég búinn að pósta því í nokkur hundruð eintökum. Það hljóðar svona:

Íslenskur almenningur stendur nú frammi fyrir miklum niðurskurði á kjörum sínum.
Leikskólakennarar, sem eru dæmigerð kvennastétt og hafa átt undir högg að sækja í launamálum áratugum saman, eru þar engin undantekning.

Í seinustu viku skrifaði samninganefnd leikskólakennara undir kjarasamning nauðug viljug. Um samninginn segir formaður leikskólakennara þetta í fréttum: ,,Þetta eru neyðarsamningar og í rauninni ekki neinar samningar. Þetta er einhliða ákvörðun launanefndar sveitarfélaga sem við neyðumst til að skrifa undir,"

Verðbólga hefur verið gríðarleg undanfarið ár og spár um verðbólgu næsta árs eru að hún verði jafn mikil. Verðgildi launa minna hefur rýrnað um 56.000 krónur á þessu ári og miðað við verðbólguspá Seðlabanka verður kaupmáttarrýrnun næsta árs með svipuðum hætti.

Eitt hundrað og tíu þúsund króna kaupmáttarrýrnun á nú að bæta upp með samningi sem gefur tuttugu þúsund og þrjú hundruð króna launahækkun. Og þá er ótalið að sum sveitarfélög haf verið að plokka af viðbótargreiðslur sem standa utan kjarasamninga og viðbúið er að öll önnur sveitarfélög sigli í kjölfarið.

Við þetta bætist að boðaðar hafa verið hækkanir á tekjuskatti upp á eitt prósent, vextir eru þeir hæstu í heimi og verðtrygging er á skuldum almennings.

Samningurinn sem Félag Leikskólakennara neyddist til að skrifa undir í seinustu viku er til nærri árs en með honum fylgir undirskrifuð yfirlýsing um að til ársins 2010 verði gerður kjarasamningur í samfloti með öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Skuldbindandi loforð um svokallaða þjóðarsátt.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir: “Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta” Þetta endurmat fór ekki fram í góðærinu og þenslunni. Nú á heldur ekki að gera endurmat. Það eru aldrei réttar aðstæður til að styrkja undirstöður samfélagsins. Nú eiga allir að draga saman og almennt launafólk á að borga fyrir spillingu og bruðl.

Ég hef ekki geð í mér til að greiða samningi sem er einhliða ákvarðaður af atvinnurekandanum atkvæði mitt. Ég er ósáttur við kjarasamning um gríðarlega kjararýrnun. Mér finnst óeðlilegt að skrifa blindandi upp á bindandi loforð um næsta kjarasamning og ég er viss um að stéttin fær ekki það endurmat sem hún á skilið nema krefjast þess sjálf.

Þess vegna hafna ég samningnum þegar hann verður borinn undir atkvæði og vonast til að sem flestir geri slíkt hið sama.
1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ertu að grínast? þú ert ekki í neinum tengslum við hvað er að gerast í landinu greinilega... vertu bara feginn að halda vinnunni þinni - það eru margir sem eru tilbúnir að vinna fyrir þau laun sem þú færð - laaaang flestir fá launaLÆKKUN þessa dagana - og þú vælir yfir því að fá yfir 20 þús HÆKKUN! wake up and smell the coffie!