miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Bandura, Bobo, buff og bilunin í okkur


Buffið og vettlingarnir urðu eftir heima og ég ók þessum nauðsynlega hlífðarfatnaði út í leikskóla fyrir prinsessuna.


Ég er ekki vanur að aka þangað og þegar ég er að renna inn í botnlangann framhjá gatnamótum á hægri hönd, sem ég hélt að væri biðskylda við, fatta ég að svo er ekki þegar bíllinn sem kemur frá hægri flautar á mig. Ég flautaði á móti og mér fannst ég vera voða fyndinn.

Ég var greinilega ekki neitt fyndinn því hinn bíllinn elti mig inn í botnlangann og þegar ég stíg út úr bílnum með buff og vettlinga stendur yfir mér gremjulegur maður.

“Ég ætla bara að láta þig vita að það er til nokkuð sem heitir hægri réttur” sagði hann frekar hátt og ákveðið.

“Já ég veit það svaraði ég” og hann svaraði að bragði “Ég flautaði á þig og þú flautaðir á móti!” sagði hann afar hátt.

“Já – og ert þú einhver lögga?” spurði ég og fannst ég vera frekar fyndinn, sem var ekki vanþörf á. Ég hafði ekki upplifað leiðbeiningar með þessum hætti síðan ég var nemandi í Hlíðaskóla forðum.

“Þú skalt bara drullast til að læra reglurnar þarna fávitinn þinn” Öskraði hann og fór inn í bílinn sinn.

Ég hef hugsað um þetta svolítið síðan. Ég braut auðvitað á garminum þegar ég fattaði ekki hægri réttinn hans. Svo var ég með bjánalegan derring þegar ég flautaði til baka. Það breytir þó ekki því að tilfinningaviðbrögð gaursins vor mjög ýkt.

Þegar ég set þessa upplifun í samhengi við það sem Egill og Margrét Hugrún skrifuðu í gær og fyrradag um pirring í samfélaginu, velti ég því fyrir mér hvort álagið á fólk sé að koma fram í almennri gremju og pirringi. Samfélagið sé ekki bara að verða fátækara, það sé að verða verra.

Um miðja seinustu öld gerði Albert Bandura tilraunir með félagsmótun barna. Hann leifði börnum að horfa á video af konu að berja dúkkuna Bobo og svo fengu þau að leika sér í herbergi þar sem dúkkan var inni. Börnin lærðu af því sem fyrir þeim var haft.

Þessar tilraunir, sem sennilega fengist ekki heimild til að framkvæma í dag, voru undirstaða að félagsmótunarkenningu Bandura sem hefur haft víðtæk áhrif á skólaumræðu og menntun kennara allt til okkar daga.

Hér er sætt videó um börn sem læra af fullorðnum og svo Bandura sjálfur og Bobo.2 ummæli:

Unknown sagði...

Svona menn hafa verið í umferðinni mjög lengi, held það hafi ekkert að gera með ástandið í þjóðfélaginu.

Sverrir sagði...

Iss þetta er ekki neitt. Það var einhver jeppaplebbi á Laugaveginum sem gólaði út um gluggann á upphækkaða typpastækkaranum sínum að hann skyldi sko valta yfir mig (og væntanlega barnavagninn líka) því ég þurfti að labba á götunni smá spotta. Ég sagði honum mjög skýrt að hann skyldi éta skít. Væntanlega hefur hann gert það því ég hef ekki séð hann síðan.