laugardagur, 31. janúar 2009

Útrýmingarherferð


Ég sá að Vaka, félag hægrisinnaðra stúdenta, var að dreifa smokkum í Háskóla Íslands í gær. Ég hef auðvitað ekkert á móti því en eru þau ekki að skjóta sig svolítið í fótinn.


Þurfa þau ekki einmitt að viðhalda stofni genetískra hægrimanna núna?


Mætum öll á Austurvöll



Ég geri orð Láru Hönnu að mínum
þar sem hún segir:

...Oft var þörf en nú er nauðsyn að mæta á Austurvöll og sýna stjórnmálamönnum að enn er LANGT í land með að kröfum og væntingum almennings sé fullnægt. Mjög langt og allar tafir vítaverðar....

Og ér sammála Hafrúnu um að ekki sé sérstök ástæða til að fagna strax:

“…mér svona finnst þetta eins og ef fótboltalið myndi ákveða að fagna Íslandsmeistaratitlinum þegar að það væri eftir að spila einn leik. Leik sem er e.t.v. á móti lélegasta liðinu í deildinni en það þarf samt að vinna hann…”

Vondur drykkur eða vondur drykkur



Ég er að reyna að átta mig á því hvort væntanleg skammtímaríksisstjórn verði ríkisstjórn Framsóknar skipuð ráðherrum úr röðum Samfylkingar og Vinstri grænna eða hvort þett verður ríkisstjórn Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna án Framsóknar.


En með tilliti til sögunnar má sennilaga ætla að það skipti engu máli hvað sett er í kokteilinn af fjórflokkunum.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Spilling, subbuskapur og svínarí


Þetta voru hræðilegar upplýsingar sem fyrrverandi Kompásfréttamaður lét þjóðinni í té í Kastljósi áðan. Á þriðja hundrað miljarða voru lánaðar út úr Kaupþingi rétt fyrir hrun bankans til góðvinar Kaupþingsmanna, fyrrverandi viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs og eiganda viðskiptaveldis sem var á fallandi fæti.


Á þriðja hundrað miljarða voru lánaðar þessum enska stjórnarmanni í Exista með litlum eða engum veðum og allt vistað á bankareikningum í skattaparadísum í einhverjum suðurhafseyjum.

Lánin voru á fárra vitorði en þó borin undir lánanefnd stjórnar.

Af þessu tilefni vil ég rifja upp þetta úr bloggi mínu fyrir þremur dögum um væntanlegan Fjárfestingarsjóð Íslands:

“75 miljarðar af eigum lífeyrissjóðanna – og þeir þurfa allir að skuldbinda sig til þátttöku – eiga að renna í þennan sjóð sem sérstaklega á “...að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett…”

Þetta eru eru lífeyrissjóðir landsmanna að bralla, með fulltingi verkalýðsforystunnar, sjóðirnir sem ekki mega við því að verðtrygging lána verði fryst því þá skaðast niðurstöðutölur efnahagsreikninga. Sjóðirnir sem ekki þola að vísitölubindingin verði stöðvuð um nokkra hríð eiga nú sjötíu og fimm miljarða fyrir fjárhagslega illa sett fyrirtæki….

…ASÍ, sem er að dikta þetta fjárhættuspil upp með atvinnurekendum, hefur Gunnar Pál Pálsson í sinni miðstjórn. Við eigum að treysta þessu fólki sem setti Gunnar sem formann VR inn í stjórn Kaupþings, þar sem staðið var að hverjum siðlausum gjörningnum á fætur öðrum. Getur ekki bróðir emírsins af Katar bara aðstoðað illa sett fyrirtæki á Íslandi?”

Ég veit ekki hve lengi fréttir af spillingu, subbuskap og svínaríi geta versnað. En hitt veit ég að ef verkalýðsfélögin reka ekki Gunnar Pál af höndum sér eru þau að heykjast á nauðsynlegri tiltekt og hreingerningu, sem er sama athæfi og varð ríkisstjórninni að falli.


mánudagur, 26. janúar 2009

Væl


Það er merkilegt að hlusta á Sjálfstæðismenn núna og það rifjast upp færsla Egisl Helgasonar sem skrifuð var fyrir nákvæmlega einu ári.


"Væl

Stundum er hægt að snúa hlutum á hvolf þannig að þeir eru nánast óþekkjanlegir.

Nú er látið eins og Ólafur F. Magnússon sé fórnarlamb. Sjálfur kemur hann í blaðaviðtöl og kvartar og kveinar undan einhverri meðferð sem hann á að hafa fengið.

Við hverju bjuggust menn? Að hann gæti sprengt samstarf við fyrrum félaga sína á stuttu síðdegi og allir færu að hrópa húrra?

Framganga Ólafs vekur ótal spurningar. Um hugarfar hans, um fyrirætlanir hans, hvað fyrir honum vakti – já og heilsufar hans.

Enn er margt í þessari atburðarás algjörlega óskiljanlegt. En það er víst að hún hefur gengið fram af flestum borgarbúum.

Og það er bara hægt að segja eitt um allt þetta tal um hina illu meðferð á Ólafi:

Þetta er væl!

(En sumt af því er reyndar spuni.)
"


Það sem við upplifum í dag, virðist vera hefðbundið ferli við samstarfsslit í pólitík.


Hjálpumst að - Nýtt lýðveldi



Eitt það versta sem getur gerst er að níunda maí verði kosið um sama gamla sístemið aftur.


Við þurfum nýja stjórnarskrá, ný kosningalög og ný upplýsingalög.

Hópur fólks hefur nú lagt á sig að safna undirskriftum á áskorun um að gerð verði ný stjórnarskrá.

Ég geri orð Einars stærðfræðings, sem hann lét falla í Silfri Egils, að mínum þar sem hann sagðist ekki þekkja þetta fólk sem að þessu stæði, væri örugglega ekki til í að vera með því öllu í flokki og hefði líklega ekki sömu pólitísku skoðanir og þau en allir ættu að geta sameinast um þetta brýna hagsmunamál þjóðarinnar.

Ég bjó til banner sem linkar á síðuna Nýtt lýðveldi og hann er hér til hliðar við bloggið. Ég skora á alla sem halda úti bloggsíðum að kópera þennan banner og setja á síðuna sína eða setja sína eigin útgáfu af link sem getur til dæmis bara verið svona: http://www.nyttlydveldi.is/

Nú eru undirskriftir orðnar nærri fimm þúsund á þremur sólarhringum, það er frábær byrjun.


laugardagur, 24. janúar 2009

Fjárfestingasjóður Íslands - Halelúja



Jæja á að fara að gambla með eigur lífeyrissjóðanna eina ferðina enn.


Það eru að sjálfsögðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sem undir einni sæng eins og elskendur á vornóttu eru að koma undir þessu fyrirbæri: Fjárfestingarsjóður Íslands.

75 miljarðar af eigum lífeyrissjóðanna – og þeir þurfa allir að skuldbinda sig til þátttöku – eiga að renna í þennan sjóð sem sérstaklega á “...að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett…”

Þetta eru eru lífeyrissjóðir landsmanna að bralla, með fulltingi verkalýðsforystunnar, sjóðirnir sem ekki mega við því að verðtrygging lána verði fryst því þá skaðast niðurstöðutölur efnahagsreikninga. Sjóðirnir sem ekki þola að vísitölubindingin verði stöðvuð um nokkra hríð eiga nú sjötíu og fimm miljarða fyrir fjárhagslega illa sett fyrirtæki.

Þarna eru lífeyrissjóðir fólksins á sama róli og Illugi Gunnarsson sem vill ekki stjórnarskipti strax því það þarf að huga að hag fyrirtækja.

Má minna þetta lið á að í 17 ár hefur fyrst og fremst og eingöngu verið hugsað um hag fyrirtækja. Það var hugsað svo vel um fyrirtækin og svigrúm þeirra, að þjóðin er að gjaldþrotum komin.

ASÍ, sem er að dikta þetta fjárhættuspil upp með atvinnurekendum, hefur Gunnar Pál Pálsson í sinni miðstjórn. Við eigum að treysta þessu fólki sem setti Gunnar sem formann VR inn í stjórn Kaupþings, þar sem staðið var að hverjum siðlausum gjörningnum á fætur öðrum. Getur ekki bróðir emírsins af Katar bara aðstoðað illa sett fyrirtæki á Íslandi?

Hvernig væri nú að hætta að aðstoða fyrirtæki og leggja fólki lið?

Hvernig væri að færa auðlindir þjóðarinnar til fólksins?

Fólk fer kannski þangað þar sem er betra að vera ef illa sett fyrirtæki rúlla, en ef auðlindir landsins verða færðar til fólksins, þá kemur fólkið aftur til landsins.


Mætum öll á Austurvöll


Ég geri orð Láru Hönnu að mínum;


Að lokum skora ég á ALLA að mæta á mótmælafundinn á Austurvelli í dag því ekkert hefur breyst. Nákvæmlega ekkert. Við verðum að halda áfram að mótmæla, skrifa, tala okkur hás og krefjast þess að óhæfir menn í valdastöðum verði látnir taka pokann sinn og aðrir hæfari taki við. Framtíðin er í húfi.

Áskorun um nýja stjórnarskrá



Nú hafa 2579 skrifað undir áskorun um nýja stjórnarskrá á einum sólarhring.


Það eru samtökin Nýtt lýðveldi undir forystu Njarðar P. Njarðvík sem sett hafa upp vefsvæði með áskoruninni.

Þar segir m. a. í grein eftir Njörð:

"Ísland er ekki lýðveldi. Ísland er flokksveldi. Íslenska þjóðin býr ekki við þingræði. Hún býr við flokksræði – þegar best lætur. Dags daglega býr hún við ráðherravald og ofríki fárra forystumanna í stjórnmálaflokkum. Og það sem verra er: íslensk þjóð er ekki lengur sjálfstæð og frjáls..."


fimmtudagur, 22. janúar 2009

Vanhæf ríkisstjórn



Það er fráleitt að fólk sætti sig við þessa ríkisstjórn fram að kosningum. Sú ríkisstjórn sem starfar fram að kosningum getur ekki verið ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þá mun ekki ríkja friður.


En við seinasta blogg er engu að bæta nema þessu;

Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!

Félagsleg hugsun forsætisráðherra



Geir Haarde opinberaði með fáheyrðum hætti félagslega hugsun sína í Íslandi í dag, í gær. Þulan spurði Geir hvort ekki væri rétt að fella niður hluta af skuldum heimilanna.


Og Geir svaraði með annarri spurning; Hvað á þá að gera fyrir þá sem ekkert skulda?

Með þessu gefur forsætisráðherrann í skyn að óréttlæti felist í því að aðstoða fólk sem er að missa heimili sín. Hægt væri að segja að þetta sé arfavitlaus afstaða en við svari Geirs eru til tvö málefnaleg svör.

Í öðru lagi má benda á að félagslegar aðgerðir mismuna alltaf fólki. Þannig er það að þegar fólk missir vinnuna þá fær það bætur vegna atvinnuleysis en þeir sem halda sinni vinnu fá engar bætur en þurfa þó að púla allan daginn. Þetta er mismunun en ekki óréttlátt. Þetta er einkenni samfélaga – þegar fólk vinnur saman að einhverju leggur það hvort öðru lið.

En í fyrsta lagi má benda á að ríkisstjórnin hefur þegar staðið að ranglátri og mismunandi aðgerð sem á enga sína líka í seinni tíð.

Þegar bankahrunið varð ákvað hún að greiða út allar innistæður Íslendinga í íslenskum bönkum.

Þessi ákvörðun hafði ekki bara þá afleiðingu að þjóðin þarf nú að taka á sig gríðarlegar álögur vegna innistæðna erlendra borgara í íslenskum bönkum erlendis, því stjórnvöld mega ekki mismuna borgurum evrópska efnahagssvæðisins, hún var líka óréttlát gagnvart skuldurum.

Ríkisstjórnin ákvað að verja allar innistæður sama hversu háar þær voru. Hafi Hannes Smárason átt 30 miljarða í íslenskum banka fékk hann þá greidda út. Í stað þess að láta það þak sem var fyrir í lögum halda og aðstoða einstaklinga félagslega með sérlögum sem fóru illa út úr hruni bankana – kaus ríkisstjórnin að tryggja fjármagnseigendur alla.

Ríkisstjórn Geirs hefur því þegar aðstoðað þá sem áttu peninga. Hún fór inn í eignasafnið en vill ekki nálægt skuldasafninu koma, það er óréttlæti. Þeir sem skulda eru nú að missa heimili sín. Þannig er félagshyggja þessarar ríkisstjórnar og þessvegna verður hún að fara. Hún skilur ekki hlutverk sitt.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Vanhæf ríkisstjórn



Fyrir einni viku var raunhæft að boða landsfund Samfylkingarinnar til að taka nýja afstöðu í landsmálunum. Það er það ekki lengur. Þolinmæði fólks er þrotin.


Fyrir nokkrum mánuðum var raunhæft fyrir ríkisstjórnina að gera einhverjar breytingar og efna loforð þar um, það er það ekki lengur. Þolinmæði þjóðarinnar er þrotin.

Það er ömurlegt að vera í þeirri stöðu að eiga engin ráð eftir önnur, en standa úti á Austurvelli og búa til hávaða. En þannig er það.

Ég óskaði eftir félagsfundi í mínu flokksfélagi í gær, svo félagar gætu ályktað um ríkisstjórnarsamstarfið.

Í dag fékk ég fundarboð á fund Framtíðarhóps Samfylkingar um umhverfis- og samgöngumál. Það er mjög brýnt umfjöllunarefni, einmitt ræðum aftur um framtíðina og samgöngumál.

Það er ekkert að stefnu Samfylkingarinnar eins og Björgvin sagði, hún er bara ónotuð.

Þeir samfylkingarfélagar sem þegja um skoðanir sínar, styðja ríkisstjórnina. Þeir kóa með spillingaröflum sem eru að koma þúsundum fjölskyldna á kaldan klaka.

Það þarf að bregðast við núna. Það er ekki trúverðugt að lýsa sig andstæðing þessa spillta samstarfs eftir að völdin hafa verið tekin af stjórninni.

Geir Haarde er jarðsambandslaus þegar hann fullyrðir að stjórnin standi traustum fótum.

Ég get ekki ímyndað mér að hægt sé að halda þingfund í þinghúsinu á morgun. Þeir sem eiga engin önnur ráð lengur en fara á torg og mótmæla verða þúsundum saman á svæðinu – þar til stjórnin fer, þar til Davíð fer, þar til bankaræningjar verða sóttir til saka, þar til auðlindir þjóðarinnar verða færðar til fólksins.


þriðjudagur, 20. janúar 2009

400 þúsund mótmæla í Frakklandi…



… nei ekki alveg. En Frakkar eru tvö hundruð sinnum fjölmennari en Íslenska þjóðin. Sá mannfjöldi sem safnast hefur við Alþingi núna á virkum vinnudegi samsvarar fjögur hundruð þúsund manna mótmælum í Frakklandi.

Það eru gríðarlega mikil mótmæli á Íslandi núna.

sunnudagur, 18. janúar 2009

Karlar tímans í Framsókn



Það hefur verið gert grín að því að eingöngu voru karlar í framboði til formanns Framsóknarflokksins, fimm karlar.




Flokkurinn hafði tækifæri til að velja sér konu sem varaformann en notaði það ekki. Þess í stað völdu þeir annan karl sem á langa sögu um að hræra í þeim spillingarkötlum sem flokkurinn sat lengi að, langt umfram það umboð sem hann hafði frá almenningi.

Birkir Jón var aðstoðarmaður félagsmálaráðherra þegar Byrginu var komið á laggirnar og þá voru þessi frómu orð eftir honum höfð „Ef starfsemi Byrgisins á alfarið að fara eftir lögum um heilbrigðisþjónustu þá mun kostnaðurinn verða margfalt hærri en nú er áætlað. "

Hann var líka formaður fjárlaganefndar þegar Grímseyjaferjuhneykslið átti sér stað, það er að sönnu smátt í sniðum ef borið er saman við þau hneyksli sem dúkka nú upp á borð daglega til dæmis úr húsakynnum flokksfélaga hans í S-hópnum en samt er það ljóst að hafi fjárlagaheimildir vantaði vegna Grímseyjaferju þá "gerðist sá partur klúðursins nefnilega á hans vakt."

Þó að Framsókn hafi kosið sér Birki Jón sem annan af körlum tímans í dag er auðvelt að vera sammála fimmtán mánaða niðurstöðu Össurar;

Birkir Jón: "so ten minutes ago"


laugardagur, 17. janúar 2009

föstudagur, 16. janúar 2009

Búktal



Jeff Dunham er frábær búktalari en þeir eru misjafnir karakterarnir sem hann hefur höndina uppi í. Enginn með snefil að sómakennd getur hugsað sér að vera í hlutverki brúðunnar og gaspra þegar togað er í spottana. Bjarni Harðar ætlaði að hafa aðstoðarmanninn sinn í þessi hlutverki, það fór ekki vel. Best er að segja sínar skoðanir sjálfur eða þegja ella, þannig var uppeldið í minni fjölskyldu.


Bragð er að þá barnið...



Ég hitti nokkra kennara í dag. Einn þeirra sagði frá reynslu sinni við kennslu sjö ára barna. Til stóð í tímanum á mánudaginn að kenna þeim ng og nk regluna. Í upphafi tímans kom í ljós að öll börnin í bekknum kunna þessa reglu.


Kennarinn ákvað því að þjálfa þau í notkun reglunnar og fá þau til að semja eigin setningar þar sem reglunni er beitt. Fyrsta setningin sem skrifuð var á töfluna fyrir kennarann var svona:

Bankinn er blankur

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Undirbúum landsfund Samfylkingar



Svo mælir jonas punktur is:
“Helmingur þeirra, sem styðja Samfylkinguna í skoðanakönnunum, styður ekki ríkisstjórnina. Þetta fólk er allt í felum. Það kemur ekki fram og segir: Burt með stjórnina. Þetta er mikilvægasta ástæða þess, að stjórnin fer ekki frá völdum. Þótt hún hafi bæði klúðrað vaktinni og aðgerðum eftir strandið…”


Þetta er að nokkru leiti rétt hjá Jónasi. Ábyrgðin er meðal annars okkar.

En Samfylkingin er í kreppu og liðast fljótlega í sundur ef heldur fram sem horfir. Formaðurinn bað um andrými. Öllum er ljóst að Ingibjörg var veik og var í aðgerðum á höfði. Mörgum fannst sjálfsagt að gefa henni svigrúm til að ná betri heilsu.

er komið í ljós að veikindi hennar eru meiri en ætlað var. Það kallar á nýjar ákvarðanir.

Ég er þeirrar skoðunar að því mikilvægara sem starfið er, því mikilvægara er að sá sem gegnir því sé heill heilsu og hafi fullan líkamsstyrk til að takast á við það. Ég hef litið á Ingibjörgu sem vin minn í áratugi og vinir ráða hver öðrum heilt. Ég óska þess heitt að hún taki sér nú veikindafrí og leggi allt sitt í að ná fullri heilsu. Okkar allra vegna óska ég þess innilega að hún nái sér sem fyrst.

Taki formaðurinn sér frí stöndum við sem viljum vera í flokki jafnaðarmanna frammi fyrir nýjum vanda. Varaformaðurinn nýtur ekki trausts. Það hefur ítrekað komið fram. Hann var ekki settur í ríkisstjórn og honum var haldið á hliðarlínunni þegar kreppan með bankahrunið gekk í garð.

Hvernig fer ákvarðanataka fram þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið landsfund sinn og tekið afstöðu til Evrópumála? Á Ingibjörg ein að taka ákvörðun um afstöðu Samfylkingar? Eða á varaformaðurinn að gera það? Eða eiga flokksfélagarnir að gera það? Er Samfylkingin lýðræðislegur flokkur?

Afstaða flokksins var mótuð við forsendur sem nú eru allar brostnar. Það er hægt að halda landsfund með sex vikna fyrirvara. Nú eiga stjórnir flokksfélaganna að vinna að því að landsfundur Samfylkingar verði haldinn strax í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Þurfum við ekki öll að vinna saman?


þriðjudagur, 13. janúar 2009

Geðveik kona, gáfuleg forysta og ráðalausir ráðherrar



Ég ákvað að far í Bónus í snjókomunni eftir vinnu og kaupa í matinn áður en ég færi á kynningarfund hjá Kennarasambandinu um hlutverk þess í kreppu.


Þegar ég stóð sjö þúsund krónum fátækari fyrir utan bílinn og var að stinga þessum tveimur innkaupapokum í aftursætið stöðvaði kona um sextugt fyrir framan mig og hvæsti á mig.

“Ég fer ekki í Bónus” og svo hélt hún áfram í gargandi raddstyrk “Réttarholtsgengið sem var hér brjótandi rúður er allt þarna inni” og skömmu síðar með meðaumkun í röddinni “Það er ekki nema von að greyið hann Jón Ásgeir sé að verða gjaldþrota, undirheimarnir grafa undan honum”

Ég horfði í forundran á konuna sem hélt á troðnum innkaupapoka úr Bónus. Hún strunsaði burt og ég hugsaði með mér að þetta hefði Fía í sveitinni kallað undurfurðulegt.

Undrin og furðurnar voru hinsvegar á fimmtíu manna fundi Kennarasambands Íslands. Þar var drjúgur tími tekinn í að skýra út fyrir fundarmönnum hvað kreppa er með barnasögu um Grýlu og Kreppu. Fundarmönnum var sagt að verðbólga hefði áhrif á verðtryggingu með þeim hætti að hækka lánin þeirra. Ég er mjög þakklátur fyrir þessar upplýsingar – ég hef nefnilega alltaf verið hálfviti.

Þetta samband verkalýðsfélaga kennara er skoðanalaust, það er ekki í menningu þess að hafa skoðanir sögðu þau.

Að vísu var fróðlegt að heyra frásögn af upplifunum forystunnar af fundum í ráðherrabústaðnum helgina fyrir bankahrun. Kjökrandi og ráðalausir stjórnarherrar virtust gjörsamlega búnir að missa tökin og vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Þessu hafa verkalýðsfélögin þagað yfir fram að þessu en Kennarasambandið fór strax í kjölfarið í samráð við ASÍ, sem er í allt annarri stöðu með félagsmenn á vinnumarkaði, um að semja um ekki neitt í kjarasamningum til tveggja ára.

Kannski var geðveika konan fyrir utan Bónus ekki geðveik, kannski er tilveran öll rugluð en ekki hún.


laugardagur, 10. janúar 2009

10 prósent bæjarbúa mættu



Að minnsta kosti 2500 manns eru nú á borgarafundi í Hafnarfirði.


Guðlaugur Þór reynir á sínu sérstaka tungumáli að útskýra fyrir almenningi að niðurskurður og einkavæðing almannaþjónustunnar sé til að viðhalda þjónustunni.

Hann segir þetta hafa verið í undirbúningi lengi í ráðuneytinu. Kreppan er þriggja mánaða. Hann ætti a.m.k. að geta rökstutt aðgerðirnar bærilega fyrst þær hafa verið í undirbúningi lengi og “fjölmargir sérfræðingahópar komið að skipulagi þeirra”

Nú þarf að draga fram þessa sérfræðingahópa. Hverjir eru þeir?

mánudagur, 5. janúar 2009

...á meðan þeir slátra börnum



Ísraelar eru að myrða börn og murka lífið úr öðrum saklausum borgurum á Gaza.


Utanríkismálenfnd Íslendinga treystir sér ekki til að álykta um málið en setur það í nefnd sem á að undirbúa þingsályktunartillögu sem verður svo rædd enn frekar þegar alþingi (jú - með litlum staf) kemur saman – einhverntíma seinna.

Á meðan er verið að drepa fjölskyldur á Gaza. Fimmtíu borgarar drepnir í dag. Á meðan ríkisstjórnir annarra Norðurlanda fordæma atburðina skjóta Íslendingar sér á bak við það að ekki sé HEFÐ fyrir því að ríkisstjórn Íslands álykti um svona lagað.

Sú var tíð að það þurfti einungis tvo flokksforingja til að ákveða að Íslendingar færu í stríð, svona bara á tröppum stjórnarráðsins – “…og helvíti er annars hvasst í dag Halldór”

Íslendingar vilja semsagt drepa og leyfa öðrum að drepa.

Guði sé lof fyrir að þessi þjóð fékk ekki sæti öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.


laugardagur, 3. janúar 2009

Hér er tvíræði


Það kom vel fram í þeim stubb af Kryddsíldinni sem sjónvarpað var hvernig stjórnarhættir eru hér. Utanríkisráðherra var spurður að því hví ekki hefðu verið gerðar uppstokkanir á ríkisstjórn fyrir áramót.


Það var einfaldlega niðurstaða okkar Geirs. Við ákváðum að gera ekki breytingar að svo stöddu. Engin önnur rök. Við ákváðum þetta bara.

Þannig er Íslandi stjórnað. Ríkisstjórn er stýrt af þessu dúói. Alþingi er afgreiðslustofnun fyrir ráðherra og ekki þarf að hlusta á kröfur almennings.

Á Íslandi er ekki lýðræði en ekki heldur einræði. Hér ríkir tvíræði þeirra Ingibjargar og Geirs.


föstudagur, 2. janúar 2009

Árangur mótmæla


Árangur mótmæla á seinasta ári var að fá látinn lausan fanga sem tekinn var höndum með ólögmætum hætti, Tryggvi Jónsson sagði af sér og Kryddsíld var slegin af.


Þessi árangur náðist í mótmælum þar sem mótmælendur héldu inn í byggingar með hávaða og látum. Friðsöm mótmæli þúsunda sem staðið hafa vikum saman hafa algjörlega verið hundsuð. Það er sorgleg staðreynd.

Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur lýst því yfir að “vissulega hafi fólk rétt á að láta skoðun sína í ljós” og í þögninni á eftir hljómar í höfði manns “en við þurfum ekki að taka mark á svoleiðis”

Þess vegna er aukinn þungi í framgangi mótmælenda á ábyrgð þeirra sem skella skollaeyrum við hógværu ákalli fjöldans um breytingar í samfélaginu.


fimmtudagur, 1. janúar 2009

Gleðilegt ár og gott skaup



Ég óska öllum gleðilegs árs og friðar, með þökk fyrir liðið ár. Skaupið var gott. Árið var ævintýri. Vonda stjúpan ræður ennþá. Nornin er með Hans og Grétu í búrinu sínu og góði veiðimaðurinn er bara á þvælingi úti í skógi. Vonandi taka Skoppa og Skrýtla við árið 2009.