mánudagur, 26. desember 2016

Jólasagan


Fallegasta jólasagan er fréttin um ungu konuna sem kaus að vera lokuð inni á bensínstöð um jólin. Það er eitthvað harmrænt en líka fallegt við þetta, einhver HC Andersen, sem lætur okkur sem getum notið aðfangadagskvölds með öðrum finna til einhvers samviskubits og samkenndar, gæti jafnvel gert okkur að betri manneskjum og betri hvort við annað.

Svo var tekið fram að stúlkan væri í annarlegu ástandi. Auðvitað er ástandið annarlegt þegar besti kosturinn á mestu fjölskylduhátíð ársins er að loka sig inni á læstri bensínstöð. Hugmyndafræði skaðaminnkunar myndi leggja til að þessi kona fengi fríar sprautunálar. En sem betur fer er samfélagið okkar ennþá þannig að henni stendur líka raunveruleg hjálp til boða. Og gleðileg jól kæru vinir.





miðvikudagur, 12. ágúst 2015

Loforðið



Í apótekinu í gær hitti ég mann sem bað mig um að fara að blogga aftur.
Ég lofaði að gera það.


laugardagur, 18. júlí 2015

Þetta helst


Það stendur upp úr í fréttum vikunnar að ferðamenn kúka ekki í klósett og það er íslensku þjóðinni að kenna af því hún skaffar ekki klósett. Ferðamenn borga auðvitað fyrir þjónustu segir ferðaþjónustan. Þeir þrá að borga, elska að endurgjalda þjónustu með péníngum segir ferðaþjónustan.

Svo kemur upp úr dúrnum að það eru 54 klósett á Þingvöllum sem túristar tíma ekki að borga fyrir að nota. Kúka frekar á kjarrivöxnum leiðum þjóðskálda og koma glottandi út úr runnanum. Skítaglott fær nýja merkingu.

Ekki þarf að hafa áhyggjur af heilbrigðiskerfi. Af ráðafólki að dæma hefur verið veitt góð þjónusta þrátt fyrir neikvæðar fyrirsagnir blaða. Þegar hjúkrunarfræðingar fara verður þjónustan veitt með öðrum hætti, það verður ekki vandamál. Vandinn er bara fyrirsagnir í blöðum.


Svona var þessi vika í fréttunum. Skítsæmileg barasta.


sunnudagur, 19. apríl 2015

Guðrúnartorg



Í sumar eru eitt hundrað ár liðin síðan konur og vinnumenn fengu kosningarétt. Því er auðvitað fagnað víða. Væntanlega verður líka fagnað eftir tuttugu ár þegar hundrað ár eru liðin frá því bótaþegar félagsþjónustu fengu kosningarétt. Mannréttindaáföngum ber auðvitað að fagna.

Ég held að það sé alkunna að kynjahlutfall á þingi og í sveitarstjórnum fór ekki að breytast að marki við kosningaréttinn. Það voru fyrst og fremst rauðsokkurnar, Samtök um kvennalista og Kvennalistinn sem höfðu þau áhrif og svo auðvitað nýfeministahreyfingi núna seinast.

Þannig var þetta t.d. í Hafnarfirði. Þar varð engin veruleg breyting á þátttöku kvenna í sveitarstjórn fyrr en áratugum eftir að konur (og vinnumenn) öðluðust kosningarétt. Þetta er merkilegt. Og það er líka merkilegt að það liðu 97 ár frá því konur öðluðust kosningarétta þangað til kona varð bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Það var á miðju kjörtímabili árið 2012, sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók við bæjarstjórahlutverkinu í Hafnarfirði og ríkti hún út kjörtímabilið eða til ársins 2014.

Þetta er merkilegt og þessu ber að fagna og þess á að minnast. Mér finnst rétt að minnast þessa viðburðar með táknrænum hætti, eða symbólískum eins og einhver myndi orða það, þann 19. júní næstkomandi á eitt hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna og vinnumanna.

Ég get séð fyrir mér að eitthvað kennileiti eða gata eða jafnvel hringtorg verði nefnt í höfuðið á Guðrúnu. Í því felst auðvitað enginn dómur um störf bæjarstjórans fyrrverandi, síður en svo. Þetta er bara hugmynd um að minnast merkisviðburðar með táknrænum hætti.


Það er merkilegt að þegar Guðrún tók við bæjarstjórastarfinu var hún kona. Það er bara þannig.


sunnudagur, 5. apríl 2015

...en börnin?


Það er auðvitað ekkert að því að þráspyrja Katrínu Jakobsdóttur í útvarpsviðtali hvort hún sjá ekki eftir að hafa ekki meiri tíma í fjölskylduna og börnin út af pólitíkinni.

En mikið verður allt eðlilegra, þegar Sigmundur Davíð og hinir strákarnir í pólitíkinni fá þessar spurningar líka.


fimmtudagur, 12. mars 2015

Alveg svakalega sama



Það er hægt að koma svo mörgu góðu til leiðar í pólitík ef manni er sama um það hver fær heiðurinn. Það er bara þannig.

Þeir sem bjóða sig fram til starfa í póltík, í stjórnmálum á þingi eða í sveitarstjórnum eru fyrst og fremst að gera það af því þeir vilja láta gott af sér leiða. Leggja öðrum lið við að bæta samfélagið. Þetta er reynsla mín af fólki sem gefur sig í þannig störf  og það er undantekning ef ég upplifi eitthvað annað.

Enda hlýtur einhver hugsjón að vera það sem drífur fólk áfram til pólitískra starfa, því þau eru yfirleitt illa launuð, tímafrek og valda miklu áreiti.

Í Hafnarfirði hefur ýmislegt verið reynt til að sameina fólk í stjórnmálum til góðar verka. Strax eftir kosningar var reynt að fá alla að sameiginlegu borði og skipa meirihluta með fulltrúum allra flokka sem eiga kjörna fulltrúa.

Þegar það tókst ekki var fámennari hlutanum í bæjarstjórn boðið að eiga varaformennsku í öllum ráðum og nefndum til að tryggja samstöðu um undirbúning og dagskrá funda, en ekki síst til að láta samstarfsvilja í ljós með táknrænum hætti. Þetta gekk ekki eftir, en engu að síður hafa fjölmargar tillögur frá þeim sem skilgreina sig í minnihluta í bæjarstjórn verið samþykktar.

Tillögur sem bornar voru upp af minnihluta nokkrum klukkutímum fyrir afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember fengu jafnvel efnislega meðferð inni í nefndum og voru sumar samþykktar í kjölfarið. Sama má segja um Markaðsstofu Hafnarfjarðar sem samþykkt hefur verið að stofna, en núverandi minnihluti í bæjarstjórn vann að því að samþykkja tillögu um slíka stofnun allt seinasta kjörtímabil.

Það skiptir nefnilega ekki máli hvaðan gott kemur (svona yfirleitt, er öllum svakalega sama um það). Þeir sem af heilindum bjóða sig fram til stjórnmálastarfa, til að vinna að góðum verkum, geta ekki sett það fyrir sig að fólk í öðru félagi hafi stungið upp á góðri hugmynd. Stjórnmál eru ekki keppnisíþrótt.

Einn ágætur fyrrverandi fjölmiðlamaður og glöggur þjóðfélagsrýnir sagði á Facebooksíðunni sinni fyrir nokkrum dögum: “...venjulegt fólk slekkur á eyrunum þegar það heyrir stjórnmálamenn metast um hver fékk hvaða hugmynd fyrst.” Ég held að þetta sé rétt hjá honum og að við séum flest svo venjuleg að okkur finnist fátt leiðinlegra en svoleiðis þras. 


_____________
Greinin birtist fyrst í Fjarðarpóstinum 12. mars 2015.


sunnudagur, 8. mars 2015

1 prósent er æði



Formaður samtaka iðnaðarins var í útvarpsþætti rétt í þessu og hélt því fram að e.t.v. væri hægt að semja um 4 til 7 prósent launahækkun sem væri verulega mikil hækkun. Sjáið þið til sagði hún, Danir voru að semja um launahækkun núna upp á 1 prósent.

Það er eins og formaðurinn viti ekki að launa og skuldir almennings í Danmörku eru yfirleitt í sama gjaldmiðli.

Á Íslandi fær almenningur greitt í óverðtryggðri krónu en skuldir eru almennt verðtryggðar.

Alveg væri ég til í að semja um 1 prósent kauphækkun og verðtryggingu á laun.

Verðtrygging á laun er í raun eina færa leiðin til að taka verðbólguhvatann úr höndum fjármagnseigenda (bankar, lífeyrissjóðir og allir vondu kallarnir i feðraveldinu, eða þannig), fyrst menn treysta sér ekki til að legga verðtryggingu af.