sunnudagur, 2. september 2012

Hátíðir með og án nauðgana


Í gær lauk Ljósanótt í Reykjanesbæ. Um tuttugu þúsund manns voru á hátíðinni og samkvæmt fréttum fór allt vel fram, engar fréttir af nauðgunum.

Um miðjan ágúst skemmtu þúsundir sér á Fiskideginum mikla á Dalvík. Samkvæmt fréttum fór hátíðin vel fram, hlýtt var í veðri og gestur skemmtu sér fram undir morgun. Þaðan bárust ekki fréttir af nauðgunum.

Hinsegin dagar voru haldnir hátiðlegir aðra helgina í ágúst. Þúsundir tóku þátt í skemmtanahaldi, meðal annars gleðigöngu. Veður var með verra móti en allt fór vel fram samkvæmt fréttum og engar fréttir bárust af nauðgunum.

Svokölluð Menningarnótt var haldin hátíðleg í Reykjavík þann 18. ágúst. Talið er að um áttatíu þúsund manns hafi verið saman komnir í miðbænum þegar hæst stóð. Hátíðn fór vel fram og ekki bárust fregnir af nauðgunum.

Um verslunarmannahelgina var Þjóðhátíð haldin í Vestmannaeyjum. Um fjórtán þúsund manns voru þar saman komnir. Hátíðin fór vel fram samkvæmt fréttum að öðru leiti en því að þar var nokkuð um nauðganir eins venjulega. Að þessu sinni fréttist af þremur nauðgunum, þar af var einni stúlku á barnsaldri nauðgað.

Nauðganir virðast ekki vera óhjákvæmilegur fylgifiskur hátíðahalda á Íslandi samkvæmt þessu. Það er gott.