laugardagur, 9. febrúar 2013

Leggjum löggu lið


Ég man þegar Eva Joliy kom hér árið 2009, skömmu eftir að embætti sérstaks saksóknara í fjármálaglæpum hafði verið stofnað.

Þá höfðu birst fréttir af einmana saksóknaranum nýkrýndum í skrifstofukytru með einhversslags tómar lagerhillur á bak við sig og það var akkúrat ekkert trúverðugt við það að raunverulegur vilji væri til þess af hálfu stjórnvalda að standa vel að rannsóknum og upprætingu á fjármálaglæpum.

Eva kom og gagnrýndi uppbygginguna, aðstöðuna og fjármagnið sem var sett í verkefnið og það stóð ekki á viðbrögðum. Sjálfur forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir,  sagði á Alþingi strax daginn eftir; “Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja viðunandi starfsaðstöðu Evu Joly hér á landi og þess fólks sem hún kemur með til þess að vinna að rannsókninni. Það er grundvallaratriði og ég tel hverri einustu krónu vel varið sem varið er til þess að efla það að hún hafi þá starfsaðstöðu sem hún telur sig þurfa. Það er fullkomin samstaða í ríkisstjórninni um að tryggja Evu Joly þá starfsaðstöðu.”

Og svo setti ríkisstjórnin hundrað milljónir strax til viðbótar í verkefnið og bætti svo um betur síðar eins og alþjóð veit og árangurinn er jafnt og þétt að koma í ljós.

Það er got að sjá þegar stjórnvöld bregðast við af einurð við flóknum verkefnum og gera það jafnvel þó þau komi ófyrirséð í fangið á þeim.

Þannig hljóta bændur og aðrir íbúar við Kolgrafafjörð að gleðjast yfir því í dag að setja á milljónir í að rannsaka þann mikla sýldardauða sem orðið hefur í firðinum þeirra í tvígang nýverið. Það er gott, það vill enginn láta kolgrafa fjörðinn sinn í úldinni sýld og mikilvægt að rannsaka hvernig hægt er að hindra slík ósköp.

Þegar við blasa slík dæmi um festu og snögg viðbrögð stjórnvalda í erfiðum málum eru ástæða til að vera bjartsýnn hvað önnur erfið málefni varðar.

Undanfarnar vikur hafa dunið á þjóðinni fréttir af kynferðisglæpum og misnotkun á börnum í svo miklum mæli að flestum er ómótt. Frábær umfjöllun í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum í kjölfarið hefur svipt lokinu af ormagryfju sem er dýpri og ógeðslegri en nokkurn mann hefur órað fyrir.

Í kjölfarið hafa kærur til lögreglu vegna kynferðisafbrota og misnotkunar á börnum fjölgað svo að um tíma sögðu fulltrúar lögreglunnar að þeir hefðu ekki tölu á kærunum vegna fjölda.

Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið standi saman um senda þau skilaboð til kynferðisafbrotamanna og fórnarlamba þeirra að þessir glæpir séu ólíðandi og við ætlum okkur að gera allt sem hægt er tila að útrýma þessum glæpum.

Í gær greindi Ríkisútvarpið frá því að meira en 120 kynferðisafbrotamál séu nú í rannsókn og þar af hafi 97 mál borist lögreglu á þessu nýbyrjaða ári.
Allir vita að lögreglan á Íslandi er vanbúin á margan hátt og mannfá, en það á sér m.a. skýringar ú fjármálahruninu árið 2008 og afleiðingum þess. Allir vita að lögreglumenn hafa kvartað sáran undanfarin misseri um álag og að geta ekki sinnt störfum sínum svo sem vera ber.

Aðstaða lögreglunnar og yfirlýsingar um að fjöldi kynferðisafbrotamála sé svo mikill að rannsóknarmenn hafa ekki lengur yfirsýn eru ekki til þess fallin að hvetja fórnarlömb afbrota til að kæra glæpi eða auka trú þeirra á að hægt sé að koma böndum á viðbjóðinn.

Ég veit ekki almennilega hvort Árni Páll er núna búinn að gera Jóhönnu umboðslausa eða hvernig málum er almennt háttað þessa dagana á hinu svokallað stjórnarheimili. En það skiptir ekki máli. Þvert á alla pólitík og flokkadrætti ættu allir að geta sameinast um það að setja nú kraft í að hjálpa þeim sem sinna þessum málaflokkum.

Það þarf að leggja þeim lið sem aðstoða fórnarlömb kynferðisafbrota og það þarf að setja kraft í að komast til botns í þeim glæpum sem kærðir hafa verið til lögreglu. Og þetta þarf að gera strax.