fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Boltinn er hjá Samfylkingu


Samfylkingarfólk virðist sammála um það í dag að nú standi það upp á flokkinn þeirra að taka til. Ég er einn af þessu fólki, en orð mín hafa ekki þunga vigt.


Það hefur enginn kosið mig og ég er í sáralítilli aðstöðu til að beita mér. Verkstjórar flokksins og embættismenn geta auðveldlega hundsað mig og fest flokkinn í sessi sem hefðbundinn, rótgróinn spillingarflokk. Það er auðvelt, gera ekki neitt og gefa ekki út neinar yfirlýsingar.

Það stendur upp á fólkið í forystunni, ráðherra, þingmenn, starfsmenn flokksins og sveitarstjórnarfólk víða um land að láta í sér heyra og gera kröfu um tiltekt, ef ekki stjórnarslit.

Í dag hafa tveir ráðherrar flokksins gefið út skoðanir sínar um að þeir vilji efna til kosninga á næsta ári. Þetta er ekki nóg. Ef ekkert meira fylgir, eru þessar skoðanir þeirra ekki meira virði en þær skoðanir sem forsætisráðherrann Steingrímur Hermannsson gaf reglulega út um verðtrygginguna. “Ja – ég er á móti verðtryggingunni” kvað við árum saman og ekkert gerðist. Hvílíkt grín.

Nú er komið að því að þeir þingmenn flokksins sem eru búnir að fá nóg af framgangi seðlabankastjóra og yfirgangi sjálfstæðismanna láti í sér heyra. Það er gott og gilt að standa með flokksfélögum sínum í ríkisstjórn og stinga ekki félag sína í bakið með upphrópunum á ögurstund, það er drengilegt. En nú er umþóttunartíminn liðinn, nú vill fólk fá að sjá að það eigi að byggja með nýju lýðræði, ekki gömlu forpokuðu baktjaldamakki og yfirgangi.

Það er einungis með aðgerðum sem Samfylkingin fær viðhaldið því trausti sem hún hefur haft á umþóttunartímanum síðan sprengjan sprakk. En rykið er að setjast og eftir standa forneskjulegar leifar af ógeðslegu ólýðræðislegu stjórnkerfi. Samfylkingin á ekki að vera hluti af slíku kefi.

Það hefur ekki nógu mikið gildi til að kaupa tiltrú okkar, að tveir forystumenn sem veikasta hafa stöðuna innan sinna raða lýsi yfir áhuga á kosningum. Forystumennirnir þurfa allir sem einn að fylkja liði til aðgerða. Þá höldum við hin áfram að vera fótgönguliðar...

...og Samfylkingin verður samfylking

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Muna bara að þó að ISG og BGS væru að, og ættu að fjalla um bankamál síðasta árið með þeim árangri að bankakerfið hrundi þá er nóg að fara með.
"Vandinn er Sjálfstæðismanna! ISG gat ekki séð þetta fyrir! Foringinn og Björvin eru óskeikulir! Vandinn er Sjálfstæðismanna! ISG gat ekki séð þetta fyrir! Foringinn og Björvin eru óskeikulir!Vandinn er Sjálfstæðismanna! ISG gat ekki séð þetta fyrir! Foringinn og Björvin eru óskeikulir!”

Neisti