mánudagur, 29. júní 2009

Um bið eftir ættleiðingumÍ tilefni af fréttaflutningi um bið eftir ættleiðingum sendir ég sem formaður félagsins Íslensk ættleiðing frá mér eftirfarandi tilkynningu í morgun:


Samkvæmt tölum frá Unesco er 8,4% allra barna í heiminum munaðarlaus og yfirgefin. Meðan ástandið er þannig fækkar ættleiðingum til Íslands um tvo þriðju.

Eftir dómsmálaráðherra er haft að vandamálið sé ekki séríslenskt.

Það er ekki allskostar rétt að vandinn sé samskonar á Íslandi og í öðrum löndum. Íslensk ættleiðing hefur óskað eftir því við ráðuneytið, í samstarfi við önnur félög á ættleiðingavettvangi, að innlendum hindrunum sé rutt úr vegi en þær hindranir felast í innlendum lögum, reglugerðum og vinnulagi.

Á meðan biðtími eftir ættleiðingum erlendis frá lengist, eru aldurstakmörk þannig á Íslandi að þrjátíu hjón sem eru á biðlista eftir ættleiðingu munu falla út af listunum á næstunni.

Íslenskar reglur koma í veg fyrir að fólk geti verið á biðlista eftir ættleiðingu í fleiri en einu landi.

Samskipti við erlend ríki eru kostnaðarsöm og íslensk ættleiðingarfélög eru afar lítil og fjárvana. Ef stjórnvöld hafa áhuga á að heimilislaus börn eignist íslenskar fjölskyldur þurfa þau að leggja mun meira til ættleiðingamála en þau gera nú.

Til að ættleiðingafélög geti myndað sambönd við tengiliði í erlendum ríkjum þarf miðstjórnarvald á Íslandi að mynda tengsl um ættleiðingar við miðstjórnarvald í viðkomandi erlendu ríki. Því miður virðist framleiðni í Dómsmálaráðuneytinu vera lítil og starfsemin hægvirk.

Sumt af því sem þarf að lagfæra á Íslandi stendur upp á ráðherra að breyta með einfaldri ákvörðun, Alþingi hefur falið ráðherra það vald. Flestar þær ákvarðanir sem þarf að taka hafa engan kostnað í för með sér.

Á meðan 143 milljónir barna í heiminum eru munaðarlaus og yfirgefin stendur til þess brýn nauðsyn að ryðja innlendum hindrunum fyrir ættleiðingum úr vegi. Sumum kann jafnvel að finnast það ásættanlegt að kostnaður ríkisins aukist eitthvað út af því.

laugardagur, 20. júní 2009

Ósæmilegt af landlækniLandlæknir sendi frá sér merkilegt plagg þann 15. Júní síðastliðinn. Plaggið er ekki einungis merkilegt fyrir þær sakir að það er ekki til birtingar á heimasíðu landlæknisembættisins heldur á síðu þeirra sem lögleyfa vilja kanbisnotkun á Íslandi, kannabis.net.


Plaggið er merkilegt fyrir það að landlæknir klæðir umfjöllun sína í faglegan búning vitnar til fjölda fræðimanna og tilgreinir langan lista heimilda en um leið notar hann ritsmíð sína til að vega að kollega sínum, öðrum lækni, með ómaklegum og órökstuddum hætti.

Tilefni skrifa landlæknis er að Ólafur Skorrdal, kunnur baráttumaður fyrir lögleyfingu kanabisnotkunar, ritaði landlækni opið bréf í mars og gerði athugasemdir vegna frétta mbl.is af tölfræði og staðhæfingum SÁÁ.

Landlæknir hefur greinilega lagt á sig mikla vinnu við að setja saman svar til Ólafs, lesið margar rannsóknir og fræðirit sem hann grundvallar skoðanir sínar á og er það vel. Með þessu sýnir landlæknir að hann gerir ekki mannamun og allir eiga skilið faglega afgreiðslu hjá embættinu. Það er ekki langt síðna menn í stöðu Ólafs Skorrdal hefðu verið afgreiddir sem rugludallar eða dópistar. Sá tími er sem betur fer liðinn.

Vegna þess hve svar landlæknis er ítarlegt og rökstutt er líka alvarlegra þegar hann fer yfir strikið og vegur að forstöðulækni SÁÁ með órökstuddum dylgjum.

Í öðrum kafla ritsmíðar sinnar tekur landlæknir til umfjöllunar þá fullyrðingu Ólafs Skorrdals að “Yfirlýsingar yfirlæknis Vogs, Þórarins Tyrfingssonar, eru alls ekki studdar neinum vísindalegum rökum, heldur notar hann einungis tölfræði SÁÁ/Vogs, sem, hið minnsta, er lituð fjárhagshagsmunum hans sjálfs...”

Í svari sínu lætur landlæknir undir höfuð leggjast að geta þessa að þau vísindi sem læknisfræðin byggir almennt á notast við aðferðir megindlegrar aðferafræði og eru því ekkert nema tölfræði og góðir siðir, en umkvörtun Ólafs fjallar einmitt um að siðferði forstöðulæknis SÁÁ sé litað af fjárhagslegum hagsmunum hans og tölfræði hans sé ekki vísindi.

Í stað þess að lýsa því yfir að tölfræði SÁÁ sé hafin yfir vafa segir landlæknir að hann hafi ekki efast um hana og tekur að því búnu undir gagnrýni Ólafs um siðferði Þórarins Tyrfingssonar með aðferðum sem ekki eru sæmandi fagmanni, kollega eða embættismanni í stöðu landlæknis.

Landlæknir segir “Óvenjulegt er að formaður samtakanna er jafnframt yfirlæknir, sem setur hann í aðra aðstöðu en flesta aðra yfirlækna. Umræðan um SÁÁ er oft tengd fjárhagsvanda samtakanna og ekki óeðlilegt að yfirlæknirinn sem formaður samtakanna þurfi að beita sér í þeim efnum. Þetta samtvinnaða hlutverk hefur bæði kosti og galla. Þórarinn hefur mikla reynslu af meðferð fíkla og hefur unnið mikið og gott starf á því sviði. Reynsla hans vegur þungt, en stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”

Með þessum málflutningi blandar landlæknir saman tveimur aðskildum málum, annarsvegar umræðu um fjármögnun sjúkrastarfsemi SÁÁ og hinsvegar framlagi samtakanna til vísindanna.

Það eru nýmæli í sjálfu sér ef landlækni finnst félög sem þurfa fjármagn til starfsemi sinnar verða með einhverjum hætti ótrúverðug og spyrja má í kjölfar þessara vangaveltna landlæknis hvort rétt sé að hafa fyrirvara á því sem Krabbameinsfélagið og Hjartavernd leggja til umræðu um krabbamein og hjartasjúkdóma svo nefnd séu dæmi um tvö félög sem stunda öflugar fjáraflanir til starfsemi sinnar.

Það sem er þó alvarlegt og hlýtur að vera ámælisvert er að þegar ummæli landlæknis eru lesin í samhengi við umkvörtunarefni Ólafs eru vísindastörf SÁÁ dregin í efa og það er gert með einkar ómálefnalegum hætti.

“...stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”

Landlæknir tíundar ekki heimildir fyrir þessum ummælum sem hann hefur stundum heyrt. Ekki er ljóst hvort hann heyrði þessi ummæli stundum í heita pottinum í sundlaugunum eða á einhverjum viðmóta stað en víst er að ekki er hægt að finna nein ummæli í þessa veru með leitarvélum internetsins.

Landlæknir er yfirvald, sérfræðingur á sínu sviði og verður því að teljast traust heimild. Hvort sem fótur er fyrir því eða ekki að ofangreind gagnrýni hafi einhvern tíma átt sér stað eða stundum heyrst, er hún nú staðreynd - og hún er frá landlækni komin. Héðan í frá má efast um öll vísindastörf SÁÁ með þeim fyrirvara að landlæknir hafi haldið því fram (að aðrir hafi haldið því fram) að óljóst sé hvort stofnunin sé að upplýsa um læknisfræði eða stunda óróður.

Það er óþarfi að kynna Þórarinn Tyrfingsson fyrir landsmönnum. Í tæpan aldarfjórðung hefur honum verið trúað fyrir forystuhlutverki hjá SÁÁ og þeir sem til þekkja eru sannfærðir um að samtökin og sjúkrastofnanir þeirra væru ekki til í dag ef Þórarins hefði ekki notið við.

Vegna framsýni Þórarins og atorku hefur verið haldið utan um sjúklingabókhald SÁÁ með þeim hætti að nú er þar til gagnasafn sem er einstakt í sinni röð í heiminum. Þetta vita þeir vísindamenn sem gerst þekkja til vímuefnarannsókna í heiminum og eru áfjáðir í samstarf við Þórarinn Tyrfingsson og SÁÁ.

Tvö undanfarin ár hafa sendiboðar frá National institutes of health og Nida - National Institute on Drug Abuse í bandríkjunum komið gagngert til Íslands til að vinna að samstarfi með SÁÁ. Þessar stofnanir leggja til um 85% af öllu fjármagni sem rennur til vímuefnarannsókna í heiminum og þær starfa undir gríðarlega ströngum faglegum og siðferðilegum stöðlum.

Fyrir tæpu ári kom hingað Dr. Nora Volkow en tímaritið Time útnefndi hana nýlega eina af 100 áhrifamestu einstaklingum í heiminum. Nora sem er forstjóri Nida sagði í þessari heimsókn að íslenskir vísindamenn geti lagt mikið af mörkum í því augnamiði NIDA að bæta meðferðarúrræði vímuefnaneytenda og skilja betur hvernig og af hverju fólk ánetjast fíkniefnum. Hér á landi sé einstakt tækifæri til að fylgjast með hvaða áhrif meðferð hefur á fólk og einnig hefur hún hrifist af þeim gagnagrunnum sem Íslendingar búa yfir.

Þetta fólk treystir tölfræði Þórarins Tyrfingssonar og gögnum SÁÁ en íslenski landlæknirinn sér ástæðu til að hampa því að einhversstaðar hafi hann stundum heyrt að Þórarinn stundi áróður.
Edit 21.06.09 kl: 15:17
Ég hef fengið ábendingu um að eftir að ég leitaði að svari landlæknis á heimasíðu embættisins hefur efnið verið sett þar inn. Það má finna hér.

Ég bið einnig landlækni, Matthías Halldórsson, afsökunar á fyrirsögninni “Ósæmilegur landlæknir” það eru e.t.v. stór orð af einstöku tilefni. Ég hef leiðrétt fyrirsögnina.


miðvikudagur, 17. júní 2009

Guðrún Jóns og Guðrún Jóns og Guðrún Jóns og fálkaorðurÞeir sem vilja fá fálkaorðu virðst eiga mikinn sjéns ef þeir heita Guðrún Jónsdóttir. Undanfarin fjögur ár hafa eftirtaldar Guðrúnar Jónsdætur fengið fálkaorður:


2006: Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Reykjavík, riddarakross, fyrir störf að velferð og réttindum kvenna
2007: Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi, Selfossi, riddarakross fyrir frumherjastörf í félagsráðgjöf og framlag til réttindabaráttu
2009: Guðrún Jónsdóttir bóndi, Arnbjargarlæk, riddarakross fyrir störf á vettvangi félags- og velferðarmála.

Auk þessara Guðrúna hafa þessar Guðrúnar líka fengið fálkaorðu á þessari öld:

Guðrún Margrét Páldóttir, Guðrún Nielsen, Guðrún Agnarsdóttir og Guðrún Kvaran

Til hamingju Guðrúnar.

föstudagur, 12. júní 2009

Framkvæmdastjóri og mannréttindafrömuðurÞannig hófust fréttir klukkan 17 á RÚV.

“Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flokksins....”

Ekki þurfti að taka fram hvaða flokk er um að ræða og líklega hefur texti þular verið skrifaður með stóru F og L

Nú er Jóndi semsagt orðinn framkvæmdastjóri FLokksins.

En þetta toppar þó ekki yfirlýsingu vikunnar,sem er frá mannréttindafrömuðinum Andrési. Hún er svona:

“Ég virði rétt fólks til að standa utan fésbókar.”

Gott hjá þér Andrés!

Kannski er það hugmynd að stofna fésbókarsíðu stuðningsmanna við rétt þeirra sem vilja standa utan fésbókar. Ha?

miðvikudagur, 10. júní 2009

StraxÞað er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verði kynntar á föstudag, þar sem engu verður undan vikið, nema við fáum jafnframt fréttir af því að þeir sem hafa komið okkur í þennan skít verði eltir uppi.


Þess vegna er ekki annað hægt en fara að tillögum Evu Joly strax.

Þetta er sannarleg flott tímasetning hjá henni.

þriðjudagur, 9. júní 2009

Við borgum ekki... við borgum ekki...


Þó við borgum nú samt, er hægt að veltast um af hlátri ef maður borgar fyrir að sjá Við borgum ekki, við borgum ekki eftir anarkistann og Nóbelsverðlaunahafann Dario Fo.


Ég tek undir með gagnrýnanda Íslands sem sagði: Það er dauður maður sem ekki hlær að Darío Fo.

Við borgum ekki er óborganleg skemmtum og ekki spillir fyrir að það er sett upp af fyrirtæki sem heitir Nýja Ísland en hét Enron fyrir hrun og kreppu.

föstudagur, 5. júní 2009

Allt í góðu...


...þó ég hafi ekki bloggað í tíu daga er ég ekki að skilja.


Ég er hamingjusamur glaður og frjáls og mun ekki segja hnjóðsyrði um ríkisstjórnina næstu 74 dag.