fimmtudagur, 10. janúar 2013

Glerveggir um íslenska leikskóla


Ég hlustaði á viðtalið við Halla formann leikskólakennara í dag um vantraust sem karlkyns leikskólakennurum í Danmörku er sýnt með því að byggja leikskóla með glerveggjum svo hægt sé að fylgjast með störfum þeirra.

Eins og kom fram hjá formanninum hafa þessar aðferðir ekki verið tíðkaðar hér á landi, en þar með er ekki öll sagan sögð.

Íslenskt samfélag þarf ekki að bregðast við með sama hætti og Danir af því hér eru karlmenn einangraðir frá þessum starfsvettvangi með öðrum hætti. Því er þannig háttað að karlmenn eru helst ekki ráðnir til starfa í leikskólum á Íslandi. Þeir eru svo fáir að það telst til algjörra undantekninga ef karlmenn eru að störfum í íslenskum leikskólum.

Í samhengi við jafnréttismál og feminisma er auðvitað skemmtilegt að tala um að á Íslandi séu reistir glerveggir í táknrænum skilningi. Það hefur stundum verið sagt að þegar konur klífa upp metorðastigann í karlasamfélagi, rekist þær fljótlega upp undir glerþakið, þær geta komist eitthvað áfram en svo rekast þær gjarnan á ósýnilegar hindranir sem hefta þær. Að sama skapi má halda því fram að reistir hafi verið glerveggir um íslenska leikskóla til að halda þeim vettvangi eingöngu fyrir konur.

Þegar ég útskrifaðist sem leikskólakennari fyrir aldarfjórðungi var hlutfall karlmanna á þessum vettvangi einungis rúmt prósent. Núna 25 árum síðar hefur nánast engin þróun orðið og hlutfall karlamanna sem starfa með börnum er rétt á þriðja prósentið.

Ég hef stundum bent á að jöfnu hlutfalli kynja í starfsmannahópi leikskóla verði með þessum hraða náð árið 2512.

Það merkilega við þetta allt er að það virðist öllum finnast þetta allt í lagi. Það er engin umræða um þetta ástand og það eru engar raunhæfar tillögur settar í framkvæmd til að breyta þessu ástandi, en á sama tíma eru sett lög til að jafna hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja af því það er svo mikilvægt.

Er það bara fínt mál að á 21. öldinni alist börn á Íslandi upp við það að eingöngu konur sinni börnum, annist þau og mennti?
Er það eðlilegt að drengir taki það inn í uppeldi sínu að það sé ekki rétt að gera ráð fyrir kennslu sem framtíðarstarfsvettvangi?

Ég þekki ekki til nema þriggja leikskóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem stjórnendur hafa sérstaklega horft til þess að ráða karlmenn jafnt sem konur til starfa undanfarin ár. Og hvað kemur í ljós? Niðurstaða stjórnenda í þessum skólum er sú að það er ekkert vandamál að fá karlmenn til starfa og hlutfall þeirra er að jafnaði um 30% af starfsmannahópnum - eða tífalt yfir landsmeðaltali.

Þegar þetta er haft í huga er rökrétt að álykta að um starfsvettvang kvenna í leikskólum séu reistir ósýnilegir glerveggir.

Á Íslandi eru 260 kvenkyns leikskólakennarar sem gegna skólastjórastöðu á sama tíma er einn karlkyns leikskólakennari í því hlutverki. Hvernig væri umræðan ef þessu væri öfugt farið? Eru kynjagleraugun eineygð?