sunnudagur, 6. desember 2009
Tættir ostendar
Ég er að flytja bókskáp og kemur þá í ljós Sparibókin sem gefin var út af Landsbankanum 2003.
Þar er sparnaðarráð nr. 037:
Tættu niður ostenda og frystu. Notaðu þá síðan í gratín.
Takk fyrir þetta elsku Landsbanki, við eigum þér margar skuldir að gjalda.
laugardagur, 28. nóvember 2009
Köttum þetta af krökkunum
Ríkisstjórnin hefur fallið frá áformum sínum um að skerða greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Í staðinn verður foreldrum gert að geyma einn mánuð orlofsins þar til síðar. Síðar - hvað er það? Er það þegar kreppan er liðin hjá?
Semsagt - í stað þess að lækka greiðslur til foreldra eru foreldarnir teknir frá börnunum mánuði fyrr.
Sparnaður ríkisins verður sá sami – börnin blæða á línuna.
Eru ekki allir hagsmunahópar ánægðir með það?
mánudagur, 2. nóvember 2009
Er þetta sjálfstæði?
Menn hafa svolítið verið að súpa hveljur yfir því að Lilja Mósesdóttir segist ekki ætla að styðja Icesavefrumvarp ef það kemur óbreytt til afgreiðslu Alþingis. Ég hlustaði á hana í Silfri Egils og mér fannst mun merkilegri yfirlýsingin hennar um að erlendir kröfuhafar bankanna komi í veg fyrir að hægt sé að afskrifa skuldir heimilanna.
Ég hef ekki heyrt það staðfest áður að erlendir kröfuhafar séu sá kraftur sem enginn mannlegur máttur fær ráðið við og því sé ekki hægt að afskrifa skuldir heimilanna.
Mér finnst það raunar umhugsunarvert að nú er lagt kapp á að erlendir kröfuhafar bankanna yfirtaki þá. Þar með eignast þessir nafnlausu kröfuhafar allt bankakerfið, en fá jafnframt eignarhald á skuldum heimilanna og þar að auki eignarhald á helming íslenskra fyrirtækja en þau heyra nú undir eignarhaldsfélög bankanna.
Ég hef ekkert á móti útlendingum, ég held raunar að ekki væri betra að allt hagkerfið væri komið í hendur innlendra kröfuhafa bankanna. En ég sé ekki að hægt sé að halda því fram að þjóðin sé sjálfstæð þegar bankakerfið, heimilin og fyrirtækin í landinu eru öll komin á einhverjar nafnlausar hendur erlendra kröfuhafa bankanna. Er hægt að tala um lýðræði við slíkt skipulag?
Er ekki bara betra að send bréf til Norge eða DK og óska eftir vinveittri yfirtöku lýðræðisríkis, sem kann að hugsa um hagsmuni þegnanna?
laugardagur, 31. október 2009
Fé án hirðis
miðvikudagur, 28. október 2009
Maður fólksins og maður fólksins
þriðjudagur, 27. október 2009
Fastir liðir eins og venjulega...
mánudagur, 26. október 2009
Andans stórmenni og Árni Páll
Ég var í hátíðarsal M.H. 1982 þegar Þursar héldu útgáfutónleika vegna plötunnar Gæti eins verið. Egill Ólafsson var í góðu stuði og lét vaða á súðum milli laga, sagði frá tilurð þeirra og meiningu.
Áður en Þursar fluttu lagið Pínulítill kall, sem þá hafði ekki heyrst fyrr opinberlega, lét hann þess getið að það væri tileinkað Vilmundi Gylfasyni.
Ég hef hrósað Árna Páli fyrir ræðuna sem hann hélt hjá ASÍ um daginn, hún var góð. En hann þarf að vinna meira til að eiga skilið samjöfnuð við það andans stórmenni sem Egill samdi lagið um.
sunnudagur, 25. október 2009
Hans Rosling og meðferð gagna
Það var minnst á Rosling í Silfrinu í dag sem frumkvöðul í framsetningu gagna. Í þessum bráðskemmtilega fyrirlestri má t.d. fá skilning á hvað barneignastefna stjórnvalda í Kína hefur gert fyrir velferð í landinu.
laugardagur, 24. október 2009
Kvenfyrirlitning
Ég horfði á hluta Kastljóssins í gær. Þar voru einhverjir strákar í einhverri hljómsveit sem ég man ekki hvað heitir að ræða við Simma eða þarna hann hinn og kynna eitthvað ball eða svoleiðis. Allt gott og blessað listin þarf sitt plögg.
Nem strákarnir í bandinu voru búnir að klæða einn gaurinn upp sem stelpu og hún var nú höfð fremur vitgrönn stúlkan sú. Ljóskan hafði orðið lengst af, því strákarnir höfðu lítið til málanna að leggja og brandarinn í málinu átti að greinilega aðallega að ganga út á að svona ljóskur hefðu ekki áhuga á öðru en sofa hjá strákunum eða komast a.m.k. í náin kynni við þá. Toppi náði grínið þegar ljóskan fór að faðma og strjúka honum Simma eða þarna honum hinum.
Mér finnst þetta frekar mikil kvenfyrirlitning sko.
föstudagur, 23. október 2009
Töggur
Þegar Alþýðusambandið og vinnuveitendasambandið fallast í faðma og halda sömu ræðuna stendur Árni Páll allt í einu upp og fer að tala röddu almennings
Það er orðið óskaplega þreytt að hlusta á forystumann svokallaðs alþýðusambands taka einhvern “Guðmund Joð” á línuna í fjölmiðlum, tala digurbarkalega og hóta stríði á vinnumarkaði ef ekki verði brugðist við hið snarasta... Svo verður ekki neitt úr neinu, samið um ekki neitt yfir kleinum. Ef til vill er næst á dagskrá hvíldarinnlögn á sólarstönd í Flórída hjá gasprarnum eins og forðum í boði Hafskips og Berta. Sjónarspil
En þá stormar fram félagsmálaráðherrann sem legið hefur undir ámæli fyrir að vera hægrisinnaður og talar eins og maður með meiningu.
“Markaðurinn er góður þjónn en afleitur herra. Það eru sígild sannindi þótt þau hafi gleymst í lestarferð Eimreiðarhópsins undanfarin 20 ár....
... Við munum ekki endurreisa jafn stóran mannvirkjageira og við höfðum og við þurfum að finna þeim mikla fjölda sem vann við sölu- og markaðsstörf í bóluhagkerfinu greiða leið til annarra starfa. Við ætlum ekki að endurreisa gærdaginn...
... Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum...”
Það eru töggur til! Ætti ekki að vera erfitt að vera í ríksstjórn með VG, var Árni kannski að tilkynna það?
fimmtudagur, 22. október 2009
Betra líf
Ég hef ekki farið inn á mbl.is síðan nýr ritstjóri var ráðinn að Mogga. Ég finn að ég get vel lifað án þess og er ekki frá því að líf mitt hafa batnað síðan þá.
Ég hef reyndar ekki nefnt þennan mann sem var ráðinn á nafn síðan í vor og það hefur góð áhrif á blóðþrýstinginn.
Mér er sagt að sumum ritstjórum finnist lítið til bloggs og bloggara koma. Það er í góðu lagi, mér finnst ekki ástæða til að vitna til sumra dagblaða eins og þau séu eitthvað merkilegri en eldhúsrúlla. Þannig er oft líkt á komið með fólki og áhugaleysi þess hvert á öðru, getur bætt lífsgæði þess.
miðvikudagur, 21. október 2009
Alda Hrönn er æðisleg
Ég dáist að henni Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra á suðurnesjum. Alt frá því mansalsmálið komst fyrst í fréttirnar hefur hún ekki stigið feilspor, virðist einkar vel inni í málaflokknum og svör hennar bera vott um yfirvegun og yfirsýn.
Ég hef á tilfinningunni að árangur lögreglunnar í þessu máli sé einkum vegna þess hve Alda Hrönn var vakandi yfir því sem þarna var að gerast, en það er auðvitað bara tilfinning sem ég hef af því að aðstoðarlögreglustjórinn er svo traustvekjandi.
Mér finnst Alda æðisleg.
miðvikudagur, 23. september 2009
Hálfar fréttir
Ég er orðin svolítið þreyttur á þessum hálfu fréttum alltaf. Á mánudag var ágæt frétt á forsíðu Fréttablaðsins um að húsnæðislán landsmanna verði öll færð til Íbúðalanasjóðs. Og hvað?
Það vantaði alve seinni hlutann á fréttina. Hverju skiptir það fyrir fólk sem beðið hefur eftir leiðréttingu á óréttlátum verðbótafærslum? Hvað á að gera þegar lánin eru komin til Íbúðalánasjóðs?
Það er alltaf eitthvað óljóst og um það bil að koma og í pípunum - en út úr þeim kemur ekki neitt af viti og fréttamenn gera ekki nógu stífa kröfu um svör?
Þannig var þetta fyrir framan ráðherrabústaðinn í kvöld. “Jú við vorum að ræða við aðila vinnumarkaðarins um það sem við höfum á prjónunum” sem var auðvitað sérstaklega mikilvægt af því það sem hefur verið lofað að gera hefur ekki verið efnt.
Ríkisstjórnin er með eitthvað á prjónunum fyrir mánaðamót og ræðir það á lokuðum fundi með aðilum vinnumarkaðar en þarf ekki að segja þjóðinni neitt. Aðilar vinnumarkaðar eru í besta falli umboðslausir hafandi verið í stjórnum fyrirtækja sem stofnuð voru á Tortola. Rísisstjórnin ræðir við þessa umboðsmenn en þarf ekki að segja þjóðinni neitt og fréttamenn gera ekki tilraun til að ganga á eftir svörunum.
Hálfar fréttir um óljós plön er ekki það sem þarf núna.
þriðjudagur, 22. september 2009
Má tala?
Ég sá að Milos Forman lýsti því yfir í Kastljósi í gær að mikilvægustu stjórnarskrártryggðu réttindi í lýðfrjálsu landi væru málsfrelsið.
Ég, sem er venjulegur íslendingur og nota bæði debet og kretitkort, hef ekki þorað að tjá mig hér seinustu mánuði. Nær þá bankaleyndin ekki yfir mig? Má tala?
fimmtudagur, 3. september 2009
sunnudagur, 2. ágúst 2009
Hvað veit Kristinn?
Lögbann Kaupþings virðist ekki snúast um gögn sem þegar er búið birta á netinu.
Af hverju var eingöngu sett lögbann á umfjöllun RÚV um “yfirvofandi birtingar á fréttum um lántakendur Kaupþings”? Hvað veit Kristinn Hrafnsson fréttamaður sem hinir miðlarnir vita ekki?
Í frétt sinni í fyrradag vitnaði Kristinn í þrígang til heimilda sinna, sem eru aðrar en gögnin sem lekið var á Wikileaks
“Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að í kjölfar lánafundarins 25. September hafi farið af stað miklar fjármagnsfærslur innan Kaupþingssamstæðunnar. Þessar tilfærslur vöktu illan grun hjá breska Fjármálaeftirlitinu....”
“Heimildir fréttastofu herma að háum fjárhæðum, hafi á þessum skamma tíma, verið varið í ný lán...”
“Fréttastofan mun á næstu dögum fjalla frekar um upplýsingar sem fram koma í þessum gögnum....”
Hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar að Kaupþing kýs að fórna sér á altari almenningsálitsins fremur en láta þær koma fram?
Augljóst virðist vera að það eru ekki þau gögn sem allir hafa nú aðgang að og eru íslenskaðar á bloggsíðum.
Hvað er það sem við megum alls ekki vita?
fimmtudagur, 16. júlí 2009
N1 merkisdagur...
Mín vegna hefði þetta mátt vera DBS, LSD, STP eða BSRB ég er svo rosalega langþreyttur á þessu þvargi.
Mín pólitíska afstaða felst í því þessa dagana að ég er að reyna að rækta garðinn minn.
Og svo brýni ég ljáinn, það þarf örugglega bráðum að fara að slá.
sunnudagur, 5. júlí 2009
Þúsundkallarnir búnir
Það er af sem áður var þegar á fimmta tug starfsmanna Reykjavíkurborgar voru með 900 þúsund krónur í kaup – eða er það ekki?
A.m.k. treystu samningamenn borgarinnar sér ekki til að gera samning við BSRB sem er samskonar og samningurinn sem BSRB gerði við ríkið.
Í samningnum við ríkið eru ekki gríðarlegar launahækkanir, síður en svo. Þeir sem eru með 205 þúsund í kaup fá t.d. tæplega hálfs prósent hækkun. Alls eitt þúsund krónur á mánuði.
Kannski er það bara rökrétt afstaða hjá Reykjavíkurborg að það taki því ekki að semja um svona.
föstudagur, 3. júlí 2009
Að hengja upp þvottinn fyrir mömmu
Prinsessan sem er orðin fjögurra ára óskaði eftir heimild til að hjóla fram og aftur gangstéttina við götuna okkar.
Ég veitti leyfið og lét þess getið að ég yrði inni í garðinum á meðan að hengja upp þvottinn.
“Fyrir mömmu?” sagði barnið þá og meinti svo innilega að það væri nú fallegt af mér að hjálpa mömmu svona.
Ég veit ekki hvaðan slíkar hugmyndir flögra inn í höfuð þessarar ungu sálar en trúi því að þær eigi ekki rætur í verkaskiptingu á heimilinu.
Kannski væri verkefni að vinna hér í bæjarfélaginu fyrir jafnréttisnefnd ef hún væri til. En hún er ekki lengur til, hún var lögð niður á síðasta bæjarstjórnarfundi og þó fulltrúa Vinstri grænna gæfist gott tækifæri til að forða því, þá þáði hann það ekki.
Þannig er það nú.
mánudagur, 29. júní 2009
Um bið eftir ættleiðingum
Í tilefni af fréttaflutningi um bið eftir ættleiðingum sendir ég sem formaður félagsins Íslensk ættleiðing frá mér eftirfarandi tilkynningu í morgun:
Samkvæmt tölum frá Unesco er 8,4% allra barna í heiminum munaðarlaus og yfirgefin. Meðan ástandið er þannig fækkar ættleiðingum til Íslands um tvo þriðju.
Eftir dómsmálaráðherra er haft að vandamálið sé ekki séríslenskt.
Það er ekki allskostar rétt að vandinn sé samskonar á Íslandi og í öðrum löndum. Íslensk ættleiðing hefur óskað eftir því við ráðuneytið, í samstarfi við önnur félög á ættleiðingavettvangi, að innlendum hindrunum sé rutt úr vegi en þær hindranir felast í innlendum lögum, reglugerðum og vinnulagi.
Á meðan biðtími eftir ættleiðingum erlendis frá lengist, eru aldurstakmörk þannig á Íslandi að þrjátíu hjón sem eru á biðlista eftir ættleiðingu munu falla út af listunum á næstunni.
Íslenskar reglur koma í veg fyrir að fólk geti verið á biðlista eftir ættleiðingu í fleiri en einu landi.
Samskipti við erlend ríki eru kostnaðarsöm og íslensk ættleiðingarfélög eru afar lítil og fjárvana. Ef stjórnvöld hafa áhuga á að heimilislaus börn eignist íslenskar fjölskyldur þurfa þau að leggja mun meira til ættleiðingamála en þau gera nú.
Til að ættleiðingafélög geti myndað sambönd við tengiliði í erlendum ríkjum þarf miðstjórnarvald á Íslandi að mynda tengsl um ættleiðingar við miðstjórnarvald í viðkomandi erlendu ríki. Því miður virðist framleiðni í Dómsmálaráðuneytinu vera lítil og starfsemin hægvirk.
Sumt af því sem þarf að lagfæra á Íslandi stendur upp á ráðherra að breyta með einfaldri ákvörðun, Alþingi hefur falið ráðherra það vald. Flestar þær ákvarðanir sem þarf að taka hafa engan kostnað í för með sér.
Á meðan 143 milljónir barna í heiminum eru munaðarlaus og yfirgefin stendur til þess brýn nauðsyn að ryðja innlendum hindrunum fyrir ættleiðingum úr vegi. Sumum kann jafnvel að finnast það ásættanlegt að kostnaður ríkisins aukist eitthvað út af því.
laugardagur, 20. júní 2009
Ósæmilegt af landlækni
Landlæknir sendi frá sér merkilegt plagg þann 15. Júní síðastliðinn. Plaggið er ekki einungis merkilegt fyrir þær sakir að það er ekki til birtingar á heimasíðu landlæknisembættisins heldur á síðu þeirra sem lögleyfa vilja kanbisnotkun á Íslandi, kannabis.net.
Plaggið er merkilegt fyrir það að landlæknir klæðir umfjöllun sína í faglegan búning vitnar til fjölda fræðimanna og tilgreinir langan lista heimilda en um leið notar hann ritsmíð sína til að vega að kollega sínum, öðrum lækni, með ómaklegum og órökstuddum hætti.
Tilefni skrifa landlæknis er að Ólafur Skorrdal, kunnur baráttumaður fyrir lögleyfingu kanabisnotkunar, ritaði landlækni opið bréf í mars og gerði athugasemdir vegna frétta mbl.is af tölfræði og staðhæfingum SÁÁ.
Landlæknir hefur greinilega lagt á sig mikla vinnu við að setja saman svar til Ólafs, lesið margar rannsóknir og fræðirit sem hann grundvallar skoðanir sínar á og er það vel. Með þessu sýnir landlæknir að hann gerir ekki mannamun og allir eiga skilið faglega afgreiðslu hjá embættinu. Það er ekki langt síðna menn í stöðu Ólafs Skorrdal hefðu verið afgreiddir sem rugludallar eða dópistar. Sá tími er sem betur fer liðinn.
Vegna þess hve svar landlæknis er ítarlegt og rökstutt er líka alvarlegra þegar hann fer yfir strikið og vegur að forstöðulækni SÁÁ með órökstuddum dylgjum.
Í öðrum kafla ritsmíðar sinnar tekur landlæknir til umfjöllunar þá fullyrðingu Ólafs Skorrdals að “Yfirlýsingar yfirlæknis Vogs, Þórarins Tyrfingssonar, eru alls ekki studdar neinum vísindalegum rökum, heldur notar hann einungis tölfræði SÁÁ/Vogs, sem, hið minnsta, er lituð fjárhagshagsmunum hans sjálfs...”
Í svari sínu lætur landlæknir undir höfuð leggjast að geta þessa að þau vísindi sem læknisfræðin byggir almennt á notast við aðferðir megindlegrar aðferafræði og eru því ekkert nema tölfræði og góðir siðir, en umkvörtun Ólafs fjallar einmitt um að siðferði forstöðulæknis SÁÁ sé litað af fjárhagslegum hagsmunum hans og tölfræði hans sé ekki vísindi.
Í stað þess að lýsa því yfir að tölfræði SÁÁ sé hafin yfir vafa segir landlæknir að hann hafi ekki efast um hana og tekur að því búnu undir gagnrýni Ólafs um siðferði Þórarins Tyrfingssonar með aðferðum sem ekki eru sæmandi fagmanni, kollega eða embættismanni í stöðu landlæknis.
Landlæknir segir “Óvenjulegt er að formaður samtakanna er jafnframt yfirlæknir, sem setur hann í aðra aðstöðu en flesta aðra yfirlækna. Umræðan um SÁÁ er oft tengd fjárhagsvanda samtakanna og ekki óeðlilegt að yfirlæknirinn sem formaður samtakanna þurfi að beita sér í þeim efnum. Þetta samtvinnaða hlutverk hefur bæði kosti og galla. Þórarinn hefur mikla reynslu af meðferð fíkla og hefur unnið mikið og gott starf á því sviði. Reynsla hans vegur þungt, en stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”
Með þessum málflutningi blandar landlæknir saman tveimur aðskildum málum, annarsvegar umræðu um fjármögnun sjúkrastarfsemi SÁÁ og hinsvegar framlagi samtakanna til vísindanna.
Það eru nýmæli í sjálfu sér ef landlækni finnst félög sem þurfa fjármagn til starfsemi sinnar verða með einhverjum hætti ótrúverðug og spyrja má í kjölfar þessara vangaveltna landlæknis hvort rétt sé að hafa fyrirvara á því sem Krabbameinsfélagið og Hjartavernd leggja til umræðu um krabbamein og hjartasjúkdóma svo nefnd séu dæmi um tvö félög sem stunda öflugar fjáraflanir til starfsemi sinnar.
Það sem er þó alvarlegt og hlýtur að vera ámælisvert er að þegar ummæli landlæknis eru lesin í samhengi við umkvörtunarefni Ólafs eru vísindastörf SÁÁ dregin í efa og það er gert með einkar ómálefnalegum hætti.
“...stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”
Landlæknir tíundar ekki heimildir fyrir þessum ummælum sem hann hefur stundum heyrt. Ekki er ljóst hvort hann heyrði þessi ummæli stundum í heita pottinum í sundlaugunum eða á einhverjum viðmóta stað en víst er að ekki er hægt að finna nein ummæli í þessa veru með leitarvélum internetsins.
Landlæknir er yfirvald, sérfræðingur á sínu sviði og verður því að teljast traust heimild. Hvort sem fótur er fyrir því eða ekki að ofangreind gagnrýni hafi einhvern tíma átt sér stað eða stundum heyrst, er hún nú staðreynd - og hún er frá landlækni komin. Héðan í frá má efast um öll vísindastörf SÁÁ með þeim fyrirvara að landlæknir hafi haldið því fram (að aðrir hafi haldið því fram) að óljóst sé hvort stofnunin sé að upplýsa um læknisfræði eða stunda óróður.
Það er óþarfi að kynna Þórarinn Tyrfingsson fyrir landsmönnum. Í tæpan aldarfjórðung hefur honum verið trúað fyrir forystuhlutverki hjá SÁÁ og þeir sem til þekkja eru sannfærðir um að samtökin og sjúkrastofnanir þeirra væru ekki til í dag ef Þórarins hefði ekki notið við.
Vegna framsýni Þórarins og atorku hefur verið haldið utan um sjúklingabókhald SÁÁ með þeim hætti að nú er þar til gagnasafn sem er einstakt í sinni röð í heiminum. Þetta vita þeir vísindamenn sem gerst þekkja til vímuefnarannsókna í heiminum og eru áfjáðir í samstarf við Þórarinn Tyrfingsson og SÁÁ.
Tvö undanfarin ár hafa sendiboðar frá National institutes of health og Nida - National Institute on Drug Abuse í bandríkjunum komið gagngert til Íslands til að vinna að samstarfi með SÁÁ. Þessar stofnanir leggja til um 85% af öllu fjármagni sem rennur til vímuefnarannsókna í heiminum og þær starfa undir gríðarlega ströngum faglegum og siðferðilegum stöðlum.
Fyrir tæpu ári kom hingað Dr. Nora Volkow en tímaritið Time útnefndi hana nýlega eina af 100 áhrifamestu einstaklingum í heiminum. Nora sem er forstjóri Nida sagði í þessari heimsókn að íslenskir vísindamenn geti lagt mikið af mörkum í því augnamiði NIDA að bæta meðferðarúrræði vímuefnaneytenda og skilja betur hvernig og af hverju fólk ánetjast fíkniefnum. Hér á landi sé einstakt tækifæri til að fylgjast með hvaða áhrif meðferð hefur á fólk og einnig hefur hún hrifist af þeim gagnagrunnum sem Íslendingar búa yfir.
Þetta fólk treystir tölfræði Þórarins Tyrfingssonar og gögnum SÁÁ en íslenski landlæknirinn sér ástæðu til að hampa því að einhversstaðar hafi hann stundum heyrt að Þórarinn stundi áróður.
Edit 21.06.09 kl: 15:17
Ég hef fengið ábendingu um að eftir að ég leitaði að svari landlæknis á heimasíðu embættisins hefur efnið verið sett þar inn. Það má finna hér.
Ég bið einnig landlækni, Matthías Halldórsson, afsökunar á fyrirsögninni “Ósæmilegur landlæknir” það eru e.t.v. stór orð af einstöku tilefni. Ég hef leiðrétt fyrirsögnina.
miðvikudagur, 17. júní 2009
Guðrún Jóns og Guðrún Jóns og Guðrún Jóns og fálkaorður
Þeir sem vilja fá fálkaorðu virðst eiga mikinn sjéns ef þeir heita Guðrún Jónsdóttir. Undanfarin fjögur ár hafa eftirtaldar Guðrúnar Jónsdætur fengið fálkaorður:
2006: Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Reykjavík, riddarakross, fyrir störf að velferð og réttindum kvenna
2007: Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi, Selfossi, riddarakross fyrir frumherjastörf í félagsráðgjöf og framlag til réttindabaráttu
2009: Guðrún Jónsdóttir bóndi, Arnbjargarlæk, riddarakross fyrir störf á vettvangi félags- og velferðarmála.
Auk þessara Guðrúna hafa þessar Guðrúnar líka fengið fálkaorðu á þessari öld:
Guðrún Margrét Páldóttir, Guðrún Nielsen, Guðrún Agnarsdóttir og Guðrún Kvaran
Til hamingju Guðrúnar.
föstudagur, 12. júní 2009
Framkvæmdastjóri og mannréttindafrömuður
Þannig hófust fréttir klukkan 17 á RÚV.
“Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flokksins....”
Ekki þurfti að taka fram hvaða flokk er um að ræða og líklega hefur texti þular verið skrifaður með stóru F og L
Nú er Jóndi semsagt orðinn framkvæmdastjóri FLokksins.
En þetta toppar þó ekki yfirlýsingu vikunnar,sem er frá mannréttindafrömuðinum Andrési. Hún er svona:
“Ég virði rétt fólks til að standa utan fésbókar.”
Gott hjá þér Andrés!
Kannski er það hugmynd að stofna fésbókarsíðu stuðningsmanna við rétt þeirra sem vilja standa utan fésbókar. Ha?
miðvikudagur, 10. júní 2009
Strax
Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verði kynntar á föstudag, þar sem engu verður undan vikið, nema við fáum jafnframt fréttir af því að þeir sem hafa komið okkur í þennan skít verði eltir uppi.
Þess vegna er ekki annað hægt en fara að tillögum Evu Joly strax.
Þetta er sannarleg flott tímasetning hjá henni.
þriðjudagur, 9. júní 2009
Við borgum ekki... við borgum ekki...
Þó við borgum nú samt, er hægt að veltast um af hlátri ef maður borgar fyrir að sjá Við borgum ekki, við borgum ekki eftir anarkistann og Nóbelsverðlaunahafann Dario Fo.
Ég tek undir með gagnrýnanda Íslands sem sagði: Það er dauður maður sem ekki hlær að Darío Fo.
Við borgum ekki er óborganleg skemmtum og ekki spillir fyrir að það er sett upp af fyrirtæki sem heitir Nýja Ísland en hét Enron fyrir hrun og kreppu.
föstudagur, 5. júní 2009
Allt í góðu...
...þó ég hafi ekki bloggað í tíu daga er ég ekki að skilja.
Ég er hamingjusamur glaður og frjáls og mun ekki segja hnjóðsyrði um ríkisstjórnina næstu 74 dag.
þriðjudagur, 26. maí 2009
Dæmigerður leikskóli
Ég hélt í dag fyrirlestur á Námsstefnu um jafnrétti í skólum sem haldin var í tilefni af uppskeru verkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum sem Jafnréttisstofa, Félagsmálaráðuneytið og stærstu sveitarfélögin standa að.
Þar sýndi ég mynd af dæmigerðum starfsmannahópi í leikskóla. Hann er svona:
föstudagur, 22. maí 2009
fimmtudagur, 21. maí 2009
Þróun íslenskrar tungu
Ég veit ekki hvort Gunnari I Birgissyni finnst það dæmi um “algera málefnafátækt“ eða mikinn húmor sem Samfylkingarmaður hér Hafnarfirði skaut að mér.
Hann sagði að hinum geðþekka bæjarstjóra hafi tekist að gefa orðinu dótturfélag alveg nýja merkingu.
sunnudagur, 10. maí 2009
Glaður í dag
Ég get ekki annað en verið smá glaður í dag. Það er jafn eðlilegt að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Vinstri Grænum, eins og það var óeðlilegt af flokknum að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum fyrir tveimur árum.
Heimilin í landinu eru þó áberandi fjarri í öllu tali Steingríms og Jóhönnu. En það er smá sjéns á að nýir tímar séu framundan. Þetta stendur m.a. í hundraðdaga plani ríkisstjórnarinnar:
• Endurmat á aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna.
• Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi.
• Frumvarp lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010.
• Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.
Frumvörpin verður að afgreiða fyrir lok sumarþings og stjórnin fær ekki hundrað daga til að endurmeta aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna. Mér heyrist hljóðið vera þannig í fólki.
En semsagt til hamingju Ísland – svona smá – í dag að minnsta kosti.
föstudagur, 8. maí 2009
Sjónarspil A.S.Í.
Það er frekar óvænt að A.S.Í. hvetji fólk til þátttöku í mótmælum eins og þeir tóku upp á í dag. Ánægjulegt ef einhver í húsakynnum þeirra er að rumska og kannski að fatta að þeir fá ekki greidd laun fyrir gönguferð í garðinum.
Uppvakning A.S.Í. er þó ekki sérlega trúverðug. Það þarf eitthvað meira að koma til svo ég sannfærist um að hugur fylgi máli.
Hinn fyrsta maí þegar fundarstjóri verkalýðsfélaganna bauð fundargestum á Austurvelli að hlýja sér á heiti kakói sem ASÍ borgaði Rauðakrossinum fyrir að skenkja, varð félaga mínum á orði að það hefði nú kannski verið meira vit í því að þetta hefði verið á boðstólum í vetur þegar það var raunverulega kalt og við stóðum dögum saman með pönnurnar okkar á þessum sama stað. En þá var fjarvera ASÍ áberandi.
Eftir að fundarstjóri bauð kakóið hóf Gylfi Arnbjörnsson formaður A.S.Í. upp raust sína og fundargestir púuðu. Þá kviknaði kannski eitthvert ljós hjá A.S.Í. - hver veit?
Nokkrum dögum síðar fara svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins á fund ríkisstjórnarinnar og að þeim fundi loknum segir Gylfi á tröppum stjórnarráðsins í skammartón að þetta gangi nú ekki lengur, það þurfi að taka á vanda heimilanna. Þetta væri auðvitað fagnaðarefni ef það væri nógu djúpt tekið í árinni og það væri einhver meining á bakvið það.
En það má efast um að alvöruþunginn sé einlægur.
Í fyrsta lagi gerði Gylfi ekki kröfu um að stjórnvöld gerðu neitt sérstakt til viðbótar við það sem þau hafa þegar ákveðið. Honum virtist semsagt nægja að það yrði efnt til auglýsingaherferðar um gagnslaus úrræðin og fimmtíu ráðgjafar yrðu ráðnir.
Í öðru lagi kom það forsætisráðherra á óvart að Gylfi hefði verið með einhverja gagnrýni og sagði að á fundinum sjálfum hefði farið mjög vel á með ríkisstjórninni og “aðilum vinnumarkaðarins”
Það er því ekki að ástæðulausu að hvatning A.S.Í. í dag, sé álitin ótrúverðug og hjáróma.
A.S.Í. hefur staðið á móti því að vísitala neysluverðs verði skrúfuð aftur til upphafs ársins 2008. A.S.Í. stóð með hendur í vösum þegar almenningur hélt með krókloppnum hnefum á pottum og pönnum og ruddi vanhæfri ríkisstjórn úr vegi. Og A.S.Í. hefur ekki gert neinar kröfur á stjórnvöld um að heimilin í landinu njóti sömu verndar eigna sinna og fjármagnseigendur, sem áttu innistæður í bönkum, hafa fengið.
Enda er A.S.Í. aðili vinnumarkaðar - fremur en félag vinnandi fólks.
föstudagur, 1. maí 2009
Ekkiþjóðin baulaði á forseta ASÍ
Skrúðganga verkalýðsfélaga kom inn á Austurvöll undir klingjandi dixielanditónum lúðrasveitar. Þetta var einhverskonar kjötkveðjuhátíðarstemming. Þangað til formaður ASÍ tók til máls.
Fólkið sem Kjartan Gunnarsson myndi örugglega kalla skríl púaði og barði potta. Hver getur líka skilið svona yfirlýsingu:
“...aðilar vinnumarkaðarins... vilja semja um forsendur varanlegs stöðugleika”
Kannski vantar fólkinu verkalýðsforingja. Kannski vill það að verkalýðsfélögin standi með heimilunum í landinu en ætlist ekki til að almenningur borgi einn fyrir gróðærið og græðgina.
En hverjum er ekki sama? Það var örugglega ekki þjóðin sem baulaði á Gylfa.
Öreigar annarra landa sameinist
Langt er síðan að íslensk þjóð hefur lifað aðra eins samdráttartíma og nú. Haldið verður upp á daginn með hátíðadagskrá og kaffisamsætum samkvæmt Rúv.
Engar fréttir eru um kröfur í kröfugöngunum og hafa reyndar ekki verið síðan verkalýðsforingjar sömdu um að hætta verkalýðsbaráttu í þjóðarsáttinni 1990.
Þó er búist við mótmælum erlendis.
föstudagur, 24. apríl 2009
Af sérgáfuskorti
Einu sinni skrifaði Jón Múli
“Ég viðurkenni að flestir heilbrigðir menn gætu með nokkurnveginn áþekkum árangri lagt fyrir sig skurðgröft, steypuvinnu, vélritun, matreiðslu, lögfræði og læknisstörf, en um list er öðru máli að gegna, þar koma til greina sérgáfur, sem mönnum eru í blóð bornar.”
Þetta rifjaðist upp við að horfa á íslenska Ædolið.
þriðjudagur, 21. apríl 2009
Sjónarhorn Gylfa
Gylfi Zoega er hagfræðingur og prófessor. Hann var ráðinn prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 og kennir þar bæði í grunn- og framhaldsnámi. Auk þess gegnir hann stöðu gestaprófessors við Birkbeck College, University of London.
Hér talar hann á mannamáli um ástæður kreppunnar og horfur. Það er eins og hann skilji umhverfið sem hefur tekið svo stórkostulegum stakkaskiptum að undanförnu. Þessvegna er hann traustvekjandi. Það er gott að hlusta á hann.
laugardagur, 18. apríl 2009
Níðingsverk
Andrés kallar Ahahópinn skítadreifara Valhallar. Mér finnst það vel til fundið. Meðfylgjandi mynd og texti er af vefnum þeirra og ég man ekki eftir að hafa séð neitt lákúrulegra í Íslenskri kosningabaráttu.
Þetta eru makalausar dylgjur og aðdróttanir. Og það að klína orðinu spilling í fyrirsögn á myndina er auðvitað bara níð.
þriðjudagur, 14. apríl 2009
Niðurlæging og hroki
Ég veit ekki af hverju fólk var að súpa hveljur yfir styrkjum frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka. Það er ekki eins og það sé einhver ný hugmynd að fyrirtæki setji stórfé í sjóði Sjálfstæðisflokksins.
Það er miklu merkilegra að stjórnmálamenn hafa sjálfir komið því þannig fyrir að nú þurfa hvorki þeir sjálfir eða sendisveinar þeirra að eltast við styrki frá fólki sem á peningana sjálft, þeir eru sóttir í sjóði þjóðarinnar. Og vel að merkja, þeir sem hyggja á ný framboð fá ekki neitt.
Samkvæmt tölum Stöðvar tvö í kvöld fengu stjórnmálaflokkarnir á fimmta hundrað milljóna árið 2007, úr sjóðum ríkisins. Það eru tæpir tveir milljarðar á kjörtímabili. Eftir árið 2006 þarf nefnilega ekki að betla – það er bara tekið.
Þessir þokkapiltar standa nú niðri á æðislega æruverðugu Alþingi og tala gegn stjórnlagaþingi. Það þykir ekki bara bruðl að stjórnlagaþing kosti nokkur hundruð milljónir. Hrokinn er svo mikill að það er talin stórkostuleg niðurlæging fyrir Alþingi að þjóðin geti valið einhverja aðra en fulltrúa flokkanna til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá.
Eitt erum við að minnsta kosti sammála um. Niðurlæging Alþingis kemur ekki utan frá.
sunnudagur, 12. apríl 2009
Þannig virkar lýðræðið
Ég var að taka af síðunni minni þennan link á síðuna nyttlydveldi.is þar sem er undirskriftasöfnun með áskorun um stjórnlagaþing. Undirskriftir þar eru nú orðnar 7601 og hefur nánast ekkert fjölgað í tvo mánuði.
Á nokkrum vikum hafa 9749 skrifað undir áskorun á Fésbókrasíðu um að Nói og Síríus framleiði aftur Strumpapáskaegg.
Þabblaþannig sko.
laugardagur, 11. apríl 2009
Vilmundur 1982 og valdakerfi flokkanna
Mikið er ég þakklátur þeim sem nenna að hafa fyrir því að gera efni á borð við þetta aðgengilegt á youtube og annarstaðar á netinu.
föstudagur, 10. apríl 2009
Endurgreiðsla styrkja með verðbótum?
Eins og Silja Bára bendir á var eitt sinn bannað að hlægja á föstudaginn langa, það er því vel til fundið hjá þingflokki sjálfstæðismanna að koma saman í dag.
Allir góðir sjálfstæðismenn vita að ekki er hægt að afnema verðtrygginguna hún er það lögmál sem allir íslendingar þurfa að búa við og ekki til umræðu að afnema hana.
Í desember 2006 stóð vístala neysluverðs í 266 stigum, nú er hún komin í 334.
Sá sem tekur við styrk í desember 2006 og ætlar sér raunverulega að endurgreið hann, hlýtur því að greiða styrkinn á veðlagi dagsins í dag og e.t.v. með vöxtum líka.
Fimmtíu og fimm milljónir í desember 2006 eru með verðbótum sextíu og níu milljónir í dag.
Hóflegir vextir eins og þeir gerðust bestir þetta tímabil eru um fimm milljónir. Á þess 55 millur eru þá ekki reiknaðir vextir á verðbótaþáttinn sem þó er það réttlæti sem fjölskyldur í landinu búa almennt við. Og kannski væri viðeigandi að greiða dráttarvexti á illa fengið fé.
74 millur eða 55 - hvað verður endurgreitt af nýrri (af því hún er svo rosalega ný) forystu Sjálfstæðisflokksins?
mánudagur, 6. apríl 2009
laugardagur, 4. apríl 2009
Det snurrar i min skalle
Eftir að hafa skoðað framlag Sjálsftæðisflokksins hjá Bryndísi Ísfold(u?) fléttaði ég mig áfram um óravíddir YouTub(u) þar til ég lenti á verðlaunavídjéóinu Det snurrar min skalle.
Þetta er sérlega skemmtilegt lag, þarna syngur einhver sænskur Valgeir Guðjónsson melódíu sína ofan á takti sem gæti verið frá Mána bróður mínum. Vídjéóið er perla - þó það toppi ekki framlag Sjálfstæðismanna.
föstudagur, 3. apríl 2009
Um stelpur sem vinna og hinar
Sverrir kollegi minn benti mér á föstudagspistil eftir Halla samstarfsmann sinn.
Ég tek mér það bessaleyfi (hvur er þessi Bessi?) að birta hér seinustu þrjá málsgreinarnar í pistli Halla (ekki er hægt að linka beint á pistilinn en hann er á síðu undir hnappnum "Hraun" sem er undir hnappnum "Deildir").
"Í fataklefanum hef ég stundum sagt að nú sé keppni í því hver sé fyrst/ur að klæða sig út. Þetta er ekkert úthugsað hjá mér heldur eingöngu leið til að hvetja börnin til að halda sér við efnið og klæða sig sjálf án hjálpar. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri reglulega bara stundum þegar að það er einhver galsi í mér. Bæði stelpur og strákar flýta sér sem þau mest geta. Allir vilja vera fyrstir. Þegar að einhver er fyrstur setja hinir sér önnur markmið. Vera nr 2, 3, 4, 5. Vera fyrstur af strákunum, fyrst af stelpunum, fyrstur í sjóræningjahóp, fyrst/ur í fiðrildahóp, fyrst/ur í fuglahóp. Strákarnir hafa hingað til tekið sigrum og ósigrum af jafnaðageði. Hinsvegar tók ég eftir því um daginn að ein stelpan virtist hægja á sér þegar að ég sagði að það væri keppni. Það var eins og hún vildi ekki vera fyrst. Ég fór að kanna málið og komst að því að í hvert sinn sem að einhver hjá stelpunum var fyrst vildu hinar ekki leika við hana úti. Ég ræddi við þær og við leystum málið. Hvort að þetta er einangrað atvik eða ekki skal ég ekkert segja til um en þetta er allvegana vert frekari skoðunar.
Skemmst er að minnast svipaðs atviks er gerðist meðal fótboltakvenna í efstu deild á Íslandi. Atvikið var opinbert og var mikið rætt um það. Margrét Lára Viðarsdóttir hafði skarað framúr allt sumarið. Var lang markahæst og hafði að mati allra fagmanna verið besti leikmaður Íslandsmótsins. Hinsvegar á lokahófi KSI tóku leikmenn í efstudeild kvenna sig saman og ákváðu að sniðganga hana í kjöri á besta leikmanni Landsbankadeildar kvenna. Eina ástæðan var að hún hafði skarað of mikið framúr. Sérstakt.
Hvort að þetta eru bara einagruð atvik og hægt væri að draga fram mörg svipuð atvik sem tengjast strákum treysti ég mér ekki til að dæma um. Hinsvegar er þetta umhugsunarvert."
þriðjudagur, 31. mars 2009
Eru samtök kennara dáin?
Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verður kennsla í 2.-4. bekk grunnskóla skert um eina kennslustund á dag.
Alls gerir það skerðingu á námi barna um rúmar 15 vikur, eða eina önn á þessum þremur árum að því er Sóley Tómasdóttir segir.
Undanfarið hef ég heyrt kennara tala um það sín á milli með mikilli óánægju að þetta stæði til en ég trúði þessu ekki. Ég stóð í þeirri meiningu að samtök kennara létu svona hugmyndir ekki gerjast án þess að spyrna við fótum.
Stjórnmálamönnum verður ekki einum kennt um svona glórulausar aðgerðir ef enginn reynir að hafa vit fyrir þeim. Til hvers er Kennarasamband Íslands? Hvað er eiginlega að gerast að Laufásvegi 81?
Þar er brýnast í fréttum umsóknir um styrki, umfjöllun um siðareglur, ráðstefna um þjóðfélagsfræði og námskeið um útiskóla.
Útiskóli er kannski málið hjá kennarasamtökunum – og kennsla á vergangi.
laugardagur, 28. mars 2009
Merkilegt
þriðjudagur, 24. mars 2009
Ef ég hefði ekki sett fé í séreignasjóðinn
Ég hef lagt fé í séreignalífeyrissjóð sem var í vörslu Spron í átján mánuði á seinustu tveimur árum. Þegar Spron fór á hausinn og sjóðurinn var frystur nú um helgina stóð sjóðurinn í 245.355 krónum.
Ef ég hefði ekki lagt fé í þennan séreignalífeyrissjóð hefði ég ekki notið framlags frá atvinnurekanda sem nemur um þriðjungi af upphæðinni sem ég lagði inn. Ef ég hefði einungis ávaxtað framlagið mitt, en ekki vinnuveitandans, á verðtryggðri bók með lágum vöxtum ætti ég um 330.000 krónur.
Sem sagt ef ég hefði ávaxtað þriðjungi lægri upphæð ætti ég samt um þriðjungi meira í sparnaði. Það fé væri aðgengilegt og að fullu tryggt af Íslenska ríkinu.
Og svo vakna spurningarnar um almenna lífeyrissjóði. Ef staðan er svona í séreignasjóðunum, hver er raunveruleg staða almennra lífeyrissjóða?
Áfram lækkar greiðsluviljavísitala heimilisins.
Sérstakt séreignabull
Ég er einn af þeim sem greitt hefur í séreignalífeyrissjóð sem rekinn var af Sproni heitnu. Nú er búið að frysta sjóðina og engar upplýsingar að hafa um hvort innistæður þar eru tryggðar.
Það sem verra er, ég get ekki hætt að greiða í sjóðinn sem nú er haldið í frosti af Fjármálaeftirliti. Til að launagreiðandinn megi hætta að taka af laununum mínu og leggja inn í frosinn sjóðinn þarf ég að segja upp dílnum við bankann og bankinn að senda launagreiðandanum uppsögn. Það er ekki hægt.
Sjóðurinn er frosinn, bankinn er dáinn en peningarnir mínir fara samt þangað. Þessi séreign er alveg sér á báti.
mánudagur, 23. mars 2009
Fatta ekki Steingrím - er það slæmt?
Getur einhver skýrt út fyrir mér því ég er svo illa að mér í tungutaki hagfræði og endurskoðunar hvað Steingrímur á við?
Klukkan 12.30 segir Steingrímur J Sigfússon í Silfri Egils að ekkert hafi verið afskrifað hjá sparisjóðunum.
Klukkan 19:05 segir Steingrímur J Sigfússon í Sjónvarpsféttum að þegar hafi verið afskrifaðir 150 til 180 milljarðar vegna Sparisjóða í gegnum endurfjármögnun Seðlabankans.
Þetta er örugglega eitthvert gegnsætt og augljóst innvígðum gruflurum, en nú mig ekki skilja baun – var hann að afskrifa 180 milljarða í dag? Eða er hann að tala um sitt hvorn hlutinn? Afskriftir vegna sparisjóðanna annarsvegar og afskriftir vegna sparisjóðanna hinnsvegar.
Er einhver sem kann pólitísku og íslensku líka sem vill skýra þetta fyrir oss?
sunnudagur, 22. mars 2009
Greiðsluviljavísitalan fellur
Lög um útgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði sem samþykkt voru fyrir viku eru ekki komin til framkvæmda þegar séreignalífeyrissparnaður í vörslu Spron er frystur.
Fréttir af frystingunni eru óljósar. Hvað mun hún hugsanlega vara lengi? Munu eigendur sparnaðar í séreignasjóðum Spron fá greitt út úr sjóðunum eins og aðrir? Tryggir einhver þessar innistæður?
Og upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins segir að sjóðirnir séu frystir því annars væri hugsanlegt að á þá verði gert áhlaup? Er þetta sannfærandi? Um útgreiðslur úr þessum sjóðum gilda verulegar takamarkanir. Hvernig er hægt að gera áhlaup á séreignalífeyrissjóð? Er hugsanlegt að aðrir séreignalífeyrissjóðir verði fyrir áhlaupum? Er þetta kerfi svona veiklað?
Nú þurfa fjölmiðlar að leggja okkur áhyggjufullum “eigendum” séreignalífeyrissparnaðar lið og fá svör við þessum spurningum. Við getum ekki sótt okkur nánari upplýsingar sjálf en nánari upplýsingar til fjölmiðla, eins og það er orðað á vef Fjármálaeftirlits, veitir Sigurður G. Valgeirsson, síminn hjá Sigurði er 840-3861 og hann hefur netfangið sgv@fme.is
Þessar óljósu fréttir hafa veruleg neikvæð áhrif á greiðsluviljavísitölu heimilisins, hún féll um fimmtíu stig eða eitthvað - en það má kannski laga með betri upplýsingum.
þriðjudagur, 17. mars 2009
Tryggvi er betri en enginn
Tryggvi Þór Herbertsson virðist vera meiri herramaður en flestir sem náð hafa langt í pólitík og það var ágætt að hlusta á hann rökræða í Kastljósinu í gær. Hugmyndir hans um að nýta þau verðmæti sem búið er að ákveða að afskrifa inni í gömlu bönkunum virtist einföld og verð skoðunar.
Það er því óvænt að sjá í dag að tillögur hans eru bara afgreiddar með skætingi.
Tryggvi sagði í gær að fegurðin í tillögum sínum væri að það væri nú þegar búið að ákveða þessar afskriftir, tillögurnar um prósentulækkun allra skulda kosti því ekki neitt til viðbótar.
Þessu hefur ekki verið mótmælt með rökum en okkar ágæti viðskiptaráðherra segir að það sé illa farið með verðmæti ríkisins að nota þau með þeim hætti að sumum sem ekki þurfi hjálp verði hjálpað.
Það er óþarfi að tíunda eða endurtaka það sem Steingrímur og Jóhanna sögðu um tillögur Tryggva – það voru ekki rök.
Það getur vel verið að leiðin sem Tryggvi stakk upp á sé ekki sú besta og hann lýsti því reyndar ítrekað yfir í Kastljósinu að hann sé fús til að skoða aðrar hugmyndir sem menn telja betri – en þær hugmyndir koma bara ekki fram.
Það er augljóst að eitthvað verður að gera fyrir heimilin í landinu. Seinasta ríkisstjórn fór inn í eignasöfn landsmanna þegar hún varði allar innistæður í bankakerfinu. Við sem höfum reynt að eignast húsaskjól eigum að njóta sama réttar, en ríkisstjórn Jóhönnu stillir sér upp við hlið þeirrar fyrri og gerir ekkert.
Það dugir ekki að tala stöðugt um að ýmislegt sé í undirbúningi, heimila svo fólki að taka út hluta af séreignalífeyrissparnaði og lengja í snörunni með lánalengingu. Fólk er ekki fífl, þetta eru plástrar sem laga ekkert.
Fjölskyldufólk horfir nú upp á húsnæði sitt verða stöðugt verðminna en skuldirnar hækka með ógeðslegum hraða. Bráðum kemur að því að fólk sér að það er engin glóra að halda áfram að borga. Til hvers að setja peninga í eignir sem tapast hvort eð er?
Þegar almenningur fer að bregðast þannig við verður Ísland gjaldþrota.
Þeir sem henda skætingi í Tryggva verða því að koma með einhverjar raunhæfar hugmyndir sjálfir, ella eru það þeir sem bera ábyrgð á væntanlegu þjóðargjaldþroti.
mánudagur, 16. mars 2009
Löglegt barnaníð
Það er merkilegt úrræðaleysi samfélagsins þegar ofbeldi gagnvart börnum er annarsvegar.
Ef þetta er þannig að starfsmaður á leikskóla hefur lamið barn í þrígang í vitna viðurvist, eins og fréttir greina frá, ætti vinnuveitandinn að hafa þá reisn að láta starfsmanninn hætta strax og bera svo skaðan af hugsanlegri ólögmætri uppsögn.
Það er óþolandi að foreldrum barnsins sé boðið upp á að það sé flutt í annan skóla en starfsmaðurinn haldi störfum sínum áfram á sama stað. Fyrir hvern er leikskólinn?
Fréttastofur taka líka þá afstöðu að gefa ekki upp í hvaða skóla barnið var lamið. Þá liggja 1500 ófaglærðir starfsmenn undir grun – þægilegt.
Í víðfrægum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því í fyrra hlaut karlmaður sem flengdi börn kærustu sinnar ítrekað ekki refsingu fyrir, enda segir í barnaverndarlögum að slíkt ofbeldi sé heimilt ef börnin hljóta ekki varanlegan skaða af.
Skaði sem varir getur verið sálrænn. Nú er ástandið þannig að lítið barn þorir ekki í leikskólann sinn af því þar hefur það verið lamið þar ítrekað af fullorðinni manneskju. Vill ekki einhver fara að vinna vinnuna sína í þessu máli?
laugardagur, 14. mars 2009
Nýtt ráðherraefni Samfylkingar
Afrakstur prófkjöra dagsins hefur leitt í ljós að Lúðvík Geirsson er nýtt ráðherraefni Samfylkingarinnar í suðvestur kjördæmi.
Eins og kemur fram í fréttum varð Lúðvík í þriðja sæti á listanum, sama sæti og Þórunn Sveinbjarnardóttir vermdi í seinustu kosningum.
Annars er Árni Páll vel kominn að fyrsta sætinu, hann lagði mikla vinnu í kosningabaráttunna og hafði her manna í vinnu. Til hamingju með árangurinn strákar.
fimmtudagur, 12. mars 2009
Frjálst og óháð
Ég sé að menn eru hver um annan þveran að upplýsa um viðskiptatengsl sín og í blaðinu í dag sá ég að einn blaðamaður hefur tíundað laun sín fyrir sjónvarpsþáttagerð og bloggskrif.
Ég hef nú aldrei litið á bloggið mitt sem blaðamennsku heldur frekar svona sem dagbók um skoðanir mína og einkarekna áróðursvél þegar því er að skipta.
Mér er þó ljúft að taka fram að ég hef aldrei fengið krónu greidda fyrir að blogga en auðvitað má líta svo á að það séu fríðindi að hafa bloggið sitt á fríu vefsvæði, en þau fríðindi eru ekki sérstök, allir eiga kost á því. Mér var þó fyrir stuttu boðið í bíó af því ég blogga á Eyjunni en ég þáði ekki boðið.
Allt þetta sjálfstæði mitt kemur þó ekki í veg fyrir að menn reyni að hafa áhrif á skrif mín. En það er allt önnur saga, ég verða vonandi áfram frjálslegur og óhás.
miðvikudagur, 11. mars 2009
mánudagur, 9. mars 2009
VR félagar kjósið breytingar
Nú standa yfir kosningar í stjórnar- og formannskjöri í VR. Kosningunni lýkur á hádegi á miðvikudag.
Í Silfri Egils í gær kom Ragnar Þór Ingólfsson og talaði um lífeyrissjóðina. Þar kom meðal annars fram það kostar öll iðgjöld frá 149 félagsmönnum að greiða laun stjórnarformanns í Lífeyrissjóði Verslunarmanna.
Ég skal endurtaka og umorða þetta: Átján þúsund króna iðgjald frá eitt hundrað fjörtíu og níu félagsmönnum er notað til að greiða laun stjórnarformannsins í lífeyrissjóðnum og forstjórabílinn hans.
Ragnar Þór var í útvarpi í dag og skoraði á félagsmenn í VR að kjósa breytingar.
Viðtalið við Ragnar má sjá hér á léttum vef Láru Hönnu. Eitt af því sem ragnar hefur skoðað er rekstrarkostnaður við lífeyrissjóði. Hann hefur m.a. komist að því að það kostar tvo miljarða að reka sex sjóði.
VR félagar hafa meiri völd en aðrir borgarar á Íslandi í dag, þeir geta kosið um breytingar.
Það er allt um kosningarnar á vr.is