föstudagur, 3. apríl 2009

Um stelpur sem vinna og hinarSverrir kollegi minn benti mér á föstudagspistil eftir Halla samstarfsmann sinn.


Ég tek mér það bessaleyfi (hvur er þessi Bessi?) að birta hér seinustu þrjá málsgreinarnar í pistli Halla (ekki er hægt að linka beint á pistilinn en hann er á síðu undir hnappnum "Hraun" sem er undir hnappnum "Deildir").

"Í fataklefanum hef ég stundum sagt að nú sé keppni í því hver sé fyrst/ur að klæða sig út. Þetta er ekkert úthugsað hjá mér heldur eingöngu leið til að hvetja börnin til að halda sér við efnið og klæða sig sjálf án hjálpar. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri reglulega bara stundum þegar að það er einhver galsi í mér. Bæði stelpur og strákar flýta sér sem þau mest geta. Allir vilja vera fyrstir. Þegar að einhver er fyrstur setja hinir sér önnur markmið. Vera nr 2, 3, 4, 5. Vera fyrstur af strákunum, fyrst af stelpunum, fyrstur í sjóræningjahóp, fyrst/ur í fiðrildahóp, fyrst/ur í fuglahóp. Strákarnir hafa hingað til tekið sigrum og ósigrum af jafnaðageði. Hinsvegar tók ég eftir því um daginn að ein stelpan virtist hægja á sér þegar að ég sagði að það væri keppni. Það var eins og hún vildi ekki vera fyrst. Ég fór að kanna málið og komst að því að í hvert sinn sem að einhver hjá stelpunum var fyrst vildu hinar ekki leika við hana úti. Ég ræddi við þær og við leystum málið. Hvort að þetta er einangrað atvik eða ekki skal ég ekkert segja til um en þetta er allvegana vert frekari skoðunar.

Skemmst er að minnast svipaðs atviks er gerðist meðal fótboltakvenna í efstu deild á Íslandi. Atvikið var opinbert og var mikið rætt um það. Margrét Lára Viðarsdóttir hafði skarað framúr allt sumarið. Var lang markahæst og hafði að mati allra fagmanna verið besti leikmaður Íslandsmótsins. Hinsvegar á lokahófi KSI tóku leikmenn í efstudeild kvenna sig saman og ákváðu að sniðganga hana í kjöri á besta leikmanni Landsbankadeildar kvenna. Eina ástæðan var að hún hafði skarað of mikið framúr. Sérstakt.

Hvort að þetta eru bara einagruð atvik og hægt væri að draga fram mörg svipuð atvik sem tengjast strákum treysti ég mér ekki til að dæma um. Hinsvegar er þetta umhugsunarvert."

9 ummæli:

Kari Kristinsson sagði...

Það má kannski benda á í þessu sambandi að nýlegar rannsóknir í hagfræði sýna að konur leggja sig minna fram í keppni en karlar. Sérlega athyglisverð niðurstaða sem ég veit að verið er að skoða nánar.

Hægt er að fá greinina á heimasíðu Ury Gneezy (via google).

Gneezy, U., and A. Rustichini “Gender and competition at a young age,” American Economic Review Papers and Proceedings, May 2004, 377-381.

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hversu mikið er til í því en ég las fyrir nokkru síðan um hegðun humra sem eru settir í suðupott.

Karlkyns humrar sameinast um að mynda nokkurs konar stiga til að koma sem flestum upp úr pottinum. Af þeim ástæðum þarf iðulega að festa lokið á pottinn þegar verið er að sjóða karlkyns humra.

Þegar um kvenkyns humra er að ræða þá er hægt að sleppa því að hafa lok því þær keppast við að slá hvor aðra í burtu þannig að engin komist upp úr.

Nafnlaus sagði...

Ég held að þetta sé að mörgu leyti sannleikur sem á ekki við eingöngu um stúlkur heldur einnig konur.
Á meðal kvenna má engin skara fram úr, þá er hún markvisst dregin niður með orðum eða gjörðum.
Hvernig breytir maður þessu?
Kv
Magga Gauja

Nafnlaus sagði...

Eins og strákar vilja þær vinna en eru tapsárari og unna sigurvegaranum ekki sigursins.

Þú tókst dæmi úr fótboltanum.

Ég skal taka annað úr fegurðarsamkeppnunum.

Þar eru stelpurnar allar svo ,,obboslea góðar vinkonur" þangað til ein þeirra vinnur.

Eftir það eru þær sem ekki unnu alveg obboslea góðar vinkonur en vilja ekki lengur leika við þá sem vann.

Nafnlaus sagði...

Sæll frændi. -- Bessi þessi er bersi = björn; slíkir taka sér stundum leyfi án þess að spyrja. Sennilega karlbjörn. :) // Mörður Árnason

Nafnlaus sagði...

Getur verið að konur séu þroskaðri samfélagslega?

Heiðar St. sagði...

Held að það sé rétt hjá þessum aðila sem segir að konur séu komnar lengra í samfélagsþroska.

Það hefur hins vegar sína ókosti, t.a.m. þegar þær keppa sín á milli.

Unknown sagði...

Þetta er landlægt hérna úti, hvort sem um karla eða konur er að ræða: http://en.wikipedia.org/wiki/Jante_Law

Nafnlaus sagði...

Þetta gildir kannski í fórbolta, hjá humrum og á leikskóla. Hinsvegar er hegðunin með allt öðrum hætti í stjórnmálum. Þar gengur leikurinn oftar en ekki út að passa upp á það að strákurinn verði ekki fyrstur, það eru fjölmargar stelpur sem hafa það eina markmið. Strákurinn má ekki vera fyrstur, því þá er einhver stelpan fyrst. Þá gildir einu hvort hún hefur þekkingu og þor í stjórnmálum. Kannski kvennhumrarnir geti lært þetta ef þær lenda í sama potti og karlhumrarnir, þ.e. að sameinast um að koma einni upp úr pottinum, jafnvel þó að vatnið sé ekkert hinu megin og dauðinn vís.