mánudagur, 29. júní 2009

Um bið eftir ættleiðingum



Í tilefni af fréttaflutningi um bið eftir ættleiðingum sendir ég sem formaður félagsins Íslensk ættleiðing frá mér eftirfarandi tilkynningu í morgun:


Samkvæmt tölum frá Unesco er 8,4% allra barna í heiminum munaðarlaus og yfirgefin. Meðan ástandið er þannig fækkar ættleiðingum til Íslands um tvo þriðju.

Eftir dómsmálaráðherra er haft að vandamálið sé ekki séríslenskt.

Það er ekki allskostar rétt að vandinn sé samskonar á Íslandi og í öðrum löndum. Íslensk ættleiðing hefur óskað eftir því við ráðuneytið, í samstarfi við önnur félög á ættleiðingavettvangi, að innlendum hindrunum sé rutt úr vegi en þær hindranir felast í innlendum lögum, reglugerðum og vinnulagi.

Á meðan biðtími eftir ættleiðingum erlendis frá lengist, eru aldurstakmörk þannig á Íslandi að þrjátíu hjón sem eru á biðlista eftir ættleiðingu munu falla út af listunum á næstunni.

Íslenskar reglur koma í veg fyrir að fólk geti verið á biðlista eftir ættleiðingu í fleiri en einu landi.

Samskipti við erlend ríki eru kostnaðarsöm og íslensk ættleiðingarfélög eru afar lítil og fjárvana. Ef stjórnvöld hafa áhuga á að heimilislaus börn eignist íslenskar fjölskyldur þurfa þau að leggja mun meira til ættleiðingamála en þau gera nú.

Til að ættleiðingafélög geti myndað sambönd við tengiliði í erlendum ríkjum þarf miðstjórnarvald á Íslandi að mynda tengsl um ættleiðingar við miðstjórnarvald í viðkomandi erlendu ríki. Því miður virðist framleiðni í Dómsmálaráðuneytinu vera lítil og starfsemin hægvirk.

Sumt af því sem þarf að lagfæra á Íslandi stendur upp á ráðherra að breyta með einfaldri ákvörðun, Alþingi hefur falið ráðherra það vald. Flestar þær ákvarðanir sem þarf að taka hafa engan kostnað í för með sér.

Á meðan 143 milljónir barna í heiminum eru munaðarlaus og yfirgefin stendur til þess brýn nauðsyn að ryðja innlendum hindrunum fyrir ættleiðingum úr vegi. Sumum kann jafnvel að finnast það ásættanlegt að kostnaður ríkisins aukist eitthvað út af því.