þriðjudagur, 17. mars 2009

Tryggvi er betri en enginnTryggvi Þór Herbertsson virðist vera meiri herramaður en flestir sem náð hafa langt í pólitík og það var ágætt að hlusta á hann rökræða í Kastljósinu í gær. Hugmyndir hans um að nýta þau verðmæti sem búið er að ákveða að afskrifa inni í gömlu bönkunum virtist einföld og verð skoðunar.


Það er því óvænt að sjá í dag að tillögur hans eru bara afgreiddar með skætingi.

Tryggvi sagði í gær að fegurðin í tillögum sínum væri að það væri nú þegar búið að ákveða þessar afskriftir, tillögurnar um prósentulækkun allra skulda kosti því ekki neitt til viðbótar.

Þessu hefur ekki verið mótmælt með rökum en okkar ágæti viðskiptaráðherra segir að það sé illa farið með verðmæti ríkisins að nota þau með þeim hætti að sumum sem ekki þurfi hjálp verði hjálpað.

Það er óþarfi að tíunda eða endurtaka það sem Steingrímur og Jóhanna sögðu um tillögur Tryggva – það voru ekki rök.

Það getur vel verið að leiðin sem Tryggvi stakk upp á sé ekki sú besta og hann lýsti því reyndar ítrekað yfir í Kastljósinu að hann sé fús til að skoða aðrar hugmyndir sem menn telja betri – en þær hugmyndir koma bara ekki fram.

Það er augljóst að eitthvað verður að gera fyrir heimilin í landinu. Seinasta ríkisstjórn fór inn í eignasöfn landsmanna þegar hún varði allar innistæður í bankakerfinu. Við sem höfum reynt að eignast húsaskjól eigum að njóta sama réttar, en ríkisstjórn Jóhönnu stillir sér upp við hlið þeirrar fyrri og gerir ekkert.

Það dugir ekki að tala stöðugt um að ýmislegt sé í undirbúningi, heimila svo fólki að taka út hluta af séreignalífeyrissparnaði og lengja í snörunni með lánalengingu. Fólk er ekki fífl, þetta eru plástrar sem laga ekkert.

Fjölskyldufólk horfir nú upp á húsnæði sitt verða stöðugt verðminna en skuldirnar hækka með ógeðslegum hraða. Bráðum kemur að því að fólk sér að það er engin glóra að halda áfram að borga. Til hvers að setja peninga í eignir sem tapast hvort eð er?

Þegar almenningur fer að bregðast þannig við verður Ísland gjaldþrota.

Þeir sem henda skætingi í Tryggva verða því að koma með einhverjar raunhæfar hugmyndir sjálfir, ella eru það þeir sem bera ábyrgð á væntanlegu þjóðargjaldþroti.


5 ummæli:

Unknown sagði...

Síðan hvenær kom þessi tillaga frá Tryggva...
Það munu eflaust margir reyna að eigna sér þessa tillögu, en gleymum ekki hverjir riðu á vaðið og komu með tillöur um aðgerðir í þágu heimilana og fyrirtækjana í landinu. Framsókn

Það er sama hvaðan gott kemur og stuðningur Tryggva við tillöguna um 20% afskrift lána er vel þeginn.

Nafnlaus sagði...

Þessi tillaga Tryggva er glettilega lík tillögu sem ég setti fram fyrir nokkrum vikum á blogginu mínu. ÉG nefni það fyrst í færslu 7. febrúar að hægt sé að nota þá 954 milljarða sem Nýi Kaupþing hefur fært á afskriftarreikning til að færa niður skuldir heimilanna og fyrirtækja (sjá Heggur sá er hlífa skyldi - Nýi Kaupþingbanki í ham http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/797492/). Næst fjalla ég um þessa leið í færslunni Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar (http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/799788/) frá 10.2. Önnur færsla er frá 13.2. nokkuð samhljóða þeirri síðustu. 25. febrúar lýsi ég nákvæmlega sömu leið og Tryggvi gerir í færslunni Það er víst hægt að færa lánin niður (http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/813115/) með nánari skýringu hér Svona á að fara að þessu (http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/818387/) nokkrum dögum síðar (3.3.). Ég gæti bætt inn fleiri færslum en læt þetta duga.

Nafnlaus sagði...

Eg held einmitt að Tryggvi hafi "stolið" hugmyndinni, en hún er ekki verri fyrir það.

Tryggvi sagði í Kastljósi eitthvað á þessa leið: "Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra aðgerða." Grein undir þeirri fyrirsögn eftir Einar Árnason, hagfræðing BSRB, birtist einmitt í fréttabréfi SFR í janúar. Þar segir meðal annars:

"Fasteignaverð hefur hrapað, enginn markaður er fyrir hendi. Hann [Helgi Bragason, lánastjóri hjá KB banka] nefndi að betra væri að horfast í augu við staðreyndirnar strax. Það væri betra en að fólk gefist upp og geri sig gjaldþrota. Við viljum halda fólki á Íslandi. Ef fólk hefur greiðslugetu og greiðsluvilja er betra að afskrifa hluta af skuldum heldur en að lánveitandinn sitji uppi með verðlitlar og illseljanlegar eigur. Þarna þyrfti aðkomu stjórnvalda um mótun gagnsærra reglna og lagasetningar."

Svo mikið er víst.

http://www.strv.is/files/Jan%20frétt-prent%20_626123093.pdf

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Það skiptir ekki máli hver átti hugmyndina fyrst. Sama hvaðan gott kemur.
Mér fannst þessi hugmynd arfavitlaus þegar ég heyrði hana fyrst en þegar ég áttaði mig á að þetta væri sama tillagan og að breyta lánskjaravísitölunni til baka til þess tíma fyrir hrun, þá var þetta ekki svo vitlaust.
En komi fram betri tillaga þá er ég tilbúinn að skoða það, en ég hef ekki séð neinar tillögur frá ríkisstjórninni sem jafna tillögur Tryggva.

Nafnlaus sagði...

Tillagan er glötuð, og þetta er ekki skætingur.

Það er hreinlega bull að hún kosti ekki neitt!

Ég skulda nýju bönkunum tugi milljóna (ekki marga þó) og er borgunarmaður fyrir því. Sama á við um stóran hluta landsmanna og fyrirtækja.
Það skiptir bara engu máli hvaða bókhaldsfléttur er búið að gera í bönkunum, það að aflétta skuldum af þeim sem geta staðið við skuldbindingar sínar kostar.
Það að aflétta skuldum af minnihlutanum sem getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum er hinnsvegar mjög mikilvægt þjóðþrifamál og þarf ekki að kosta bankana mikið. En að gefa öllum jafn mikið hvort sem þeir eru í vandræðum eða ekki er dýrt.

Ég vil líka bæta því við að þeir sem fá þessa 20% skuldaafléttingu þurfa að borga af því tekjuskatt!
Alveg sama hvort það er gert með því að breyta höfuðstólnum eða færa aftur vísitöluna.