þriðjudagur, 31. mars 2009

Eru samtök kennara dáin?



Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verður kennsla í 2.-4. bekk grunnskóla skert um eina kennslustund á dag.


Alls gerir það skerðingu á námi barna um rúmar 15 vikur, eða eina önn á þessum þremur árum að því er Sóley Tómasdóttir segir.

Undanfarið hef ég heyrt kennara tala um það sín á milli með mikilli óánægju að þetta stæði til en ég trúði þessu ekki. Ég stóð í þeirri meiningu að samtök kennara létu svona hugmyndir ekki gerjast án þess að spyrna við fótum.

Stjórnmálamönnum verður ekki einum kennt um svona glórulausar aðgerðir ef enginn reynir að hafa vit fyrir þeim. Til hvers er Kennarasamband Íslands? Hvað er eiginlega að gerast að Laufásvegi 81?

Þar er brýnast í fréttum umsóknir um styrki, umfjöllun um siðareglur, ráðstefna um þjóðfélagsfræði og námskeið um útiskóla.

Útiskóli er kannski málið hjá kennarasamtökunum – og kennsla á vergangi.


7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er sérkennilegt að kenna kennurum um þetta. Eins og þú bendir á er þetta í umræðu meðal þeirra. Ég þekki ekki þetta með þessa tíma, en það er nú frekar aumt að beina spjótum sínum í þessa átt. Hvar eru foreldrar þessara barna? Er ekki verið að minnka þjónustuna við börnin? Hvar er forgangsröðun borgarinnar? Hvernig ætlar hún að komast upp með að skerða þessa tíma og um leið að standa vörð um grunnþjónustuna og störfin? Mér finnst miklu eðlilegra að spyrja þessa aðila.
Ég les Eyjuna reglulega og pistlana þína oft. Þú virðist vera með kennara á heilanum. Varstu ekki að hnýta í framhaldsskólakennara félagið um daginn eða var það leiskólinn?

Ágúst Borgþór sagði...

Þú varst líklega búinn að heyra um efnahagshrunið? Það er svo margt sem þarf að skera niður sem kallað verður "glórulaust". Við lifum ekki á venjulegum tímum. Menn eru varla að gera þetta af því þeir telja það vera góða hugmynd.

Unknown sagði...

O.K. strákar ég sé að þetta er alveg rétt hjá ykkur. Það er auðvitað allt í lagi að sveitarfélag sem ætlar ekki að skerða grunnþjónustu taki klukkutíma á dag af þeirri takmörkuðu kennslu sem yngstu börnin fá.

Það er líka mjög eðlilegt að samtök kennara tjái sig ekkert um þetta og bara út í hött að gagnrýna þau fyrir að þegja - um allt.

Skil samt ekki þetta: "Menn eru varla að gera þetta af því þeir telja það vera góða hugmynd." Nú?

Nafnlaus sagði...

Eru börnin munaðarlaus?

Fanný sagði...

Þessi stund sem nú er tekin af er umframstund - ekki hluti af viðmiðunarstundakrá barna í 2.- 4. bekk. Þessi stund var hugsuð sem aðstoð við heimanám en hefur sk. heimildum þróast út í alm. kennslu og má deilda um réttmæti þess. Það voru aðeins 2 - 3 sveitarfélög sem tóku hana upp á sínum tíma enda aðeins um auka þjónustu að ræða. Þetta vita fulltrúar VG vel og spurningin er hvort bæjarfulltrúar þeira vítt og breitt um landið hafi þá "snuðað" nemendur um þessa stund árum saman? Nú er verið að leita allra leiða við að hagræða og spara án þess að skerða lögboðna grunnþjónustu og því hefur hún verið afnumin. Ég er viss um að ef við í skólunum, samtök foreldra, samtök kennara eða borgarfulltrúar hefðu séð aðra leið betri til hagræðingar, án þess að ganga á lögboðinn rétt nemenda, hefði það verið gert.

Ágúst Borgþór sagði...

"Skil samt ekki þetta: "Menn eru varla að gera þetta af því þeir telja það vera góða hugmynd." Nú?"


Einmitt. Þú varst þá ekki búinn að heyra um efnahagshrunið. Þú varst þá líklega ekki búinn að heyra um 150 milljarða kr. halla á Ríkissjóði á þessu ári.

Unknown sagði...

Takk Fanný þetta er upplýsandi komment frá þér.
Það er e.t.v. of fast að orði kveðið hjá mér að kalla þetta glórulaust athæfi.

Gott hefði nú verið að umræða og upplýsingar um þetta hefði farið fram áður en ákvörðunin var tilkynnt. KÍ vefurinn hefði e.t.v. getað fjallað um þessa hugmynd.