mánudagur, 16. mars 2009

Löglegt barnaníð



Það er merkilegt úrræðaleysi samfélagsins þegar ofbeldi gagnvart börnum er annarsvegar.


Ef þetta er þannig að starfsmaður á leikskóla hefur lamið barn í þrígang í vitna viðurvist, eins og fréttir greina frá, ætti vinnuveitandinn að hafa þá reisn að láta starfsmanninn hætta strax og bera svo skaðan af hugsanlegri ólögmætri uppsögn.

Það er óþolandi að foreldrum barnsins sé boðið upp á að það sé flutt í annan skóla en starfsmaðurinn haldi störfum sínum áfram á sama stað. Fyrir hvern er leikskólinn?

Fréttastofur taka líka þá afstöðu að gefa ekki upp í hvaða skóla barnið var lamið. Þá liggja 1500 ófaglærðir starfsmenn undir grun – þægilegt.

Í víðfrægum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því í fyrra hlaut karlmaður sem flengdi börn kærustu sinnar ítrekað ekki refsingu fyrir, enda segir í barnaverndarlögum að slíkt ofbeldi sé heimilt ef börnin hljóta ekki varanlegan skaða af.

Skaði sem varir getur verið sálrænn. Nú er ástandið þannig að lítið barn þorir ekki í leikskólann sinn af því þar hefur það verið lamið þar ítrekað af fullorðinni manneskju. Vill ekki einhver fara að vinna vinnuna sína í þessu máli?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála.

Þessi einstaklingur er ekki starfi sínu vaxinn.

Barnið á að njóta vafans og og starfsmanninn á að fjarlægja.