sunnudagur, 10. maí 2009

Glaður í dagÉg get ekki annað en verið smá glaður í dag. Það er jafn eðlilegt að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Vinstri Grænum, eins og það var óeðlilegt af flokknum að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum fyrir tveimur árum.


Heimilin í landinu eru þó áberandi fjarri í öllu tali Steingríms og Jóhönnu. En það er smá sjéns á að nýir tímar séu framundan. Þetta stendur m.a. í hundraðdaga plani ríkisstjórnarinnar:

• Endurmat á aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna.
• Frumvarp um persónukjör lagt fram á Alþingi.
• Frumvarp lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010.
• Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.

Frumvörpin verður að afgreiða fyrir lok sumarþings og stjórnin fær ekki hundrað daga til að endurmeta aðgerðaáætlun vegna skuldavanda heimilanna. Mér heyrist hljóðið vera þannig í fólki.

En semsagt til hamingju Ísland – svona smá – í dag að minnsta kosti.


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að þú sért glaður í dag. Það er ég líka.

Mér finnst tónninn hjá þér (og fleirum) vera samt undarlegur.

Þú talar um að aðgerðir fyrir heimilin og fleira sem á og þarf að gera. Gott mál.

Mér finnst samt sem almenningur, stór hluti allavega, sé ekki að átta sig á þeirri staðreynd að það er afar takmarkað hægt að gera eins og staðan er í dag.

Það er eins og fólk haldi að það sé hægt bara að þurrka út skuldir með einföldu pennastriki og spóla til baka fyrir kreppu.

Skuldastaða heimilanna verður ekki löguð þannig og það getur ENGIN ríkisstjórn gert í raun; tekið við svona búi og látið eins og allt sé eins og það var.

Það er kallað afneitun og það er alveg sama hvað fólk mun æpa sig hást og steypa mörgum ríkisstjórnum með t.d. búsáhaldabyltingum.

Það sem þarf að gera er fyrst og síðast að hjálpa þeim sem standa verst og stóðu ekki í neyslulántökum og standa ekki undir eigin rekstri.

Hinir, sá hluti, sem t.d. var að gamble-a með krónuna gegn erlendri mynt með bæði húsnæðis-og bílalánum verður ekki bjargað eða hjálpað því við getum það einfaldlega ekki. Það að taka lán í annarri mynt en menn þiggja laun sín er glapræði.

Það fer ENGIN þjóð eða einstaklingur í gegnum kreppu líkt og þá sem við glímum við nema finna til og á eigin skinni. Ríkið getur ekki komið þar inn og á ekki að gera það heldur.

Aðalatriðið:
Það eru ALLIR að tapa þessa dagana á ástandinu og það þarf að hjálpa þeim sem ná ekki endum saman og eru verst stæðir.

Hinir sem standa illa sökum mikilla lántöku og reist hafa sér hurðarás um öxl verða að bjarga sér sjálfir eins og alltaf hefur verið. Þeirri staðreynd verður ekki breytt sama hver á í hlut.

Unknown sagði...

Kæri nafnlaus þetta er ágætt blogg hjá þér. En mér finnst skrítið að þér finnist tónninn undarlegur.

Þú segir: “Aðalatriðið: Það eru ALLIR að tapa þessa dagana...”
En það er ekki rétt. Innstæðueigendur í bönkum töpuðu ekki. Ríkistjórnin setti hundruði milljarða í að borga öllum allt sem þeir áttu inni á reikningi. Ef Hannes Smárason átti tugi milljarða inni á bók fékk hann þá alla, hverja krónu. Og það þurfti ekki einusinni lagasetningu til að fara í þessar aðgerðir. Ráðherrar lýstu því bara yfir að svona ætti þetta að vera – þvert á lög.

Það er einnig talað um að skilja illa stödd fyrirtæki eftir í “Bad bank” og sjá til hvort þau komast af, það er ekki vandamál en einhverra hluta vegna er ekki hægt að fara þannig með lánasöfn heimilanna.

Vísitöluútreikningurinn er heimatilbúið verkfæri. Vístalan var greinilega röng í þenslunni og byggð á fölskum forsendum. Það finnst sumum réttlátt að færa vístöluna aftur til upphafs árs 2008 og deila þannig skaðanum milli lántaka og lánveitanda.

Það hefur líka heyrst að erlendar lánastofnanir sem lánuðu bönkum hér til að endurlána á Íslandi hafi afskrifað útlán sín í stórum stíl í kjölfar falls bankanna. Samt þurfa heimilin sem fengu lánað að borga upp í topp á háum vöxtum og á geðveikri vísitölutryggingu.

Ísland er eitt þriggja landa í heiminum með vísitölutryggingu, landsmenn létu hana yfir sig ganga af því launin áttu að vera vísitölutryggð líka. Á meðan við höfum vístölutryggingu lána og hæstu vexti í heimi bregðast aðrar þjóðir við með vaxtalækkunum svo sumstaðar eru vextir orðnir neikvæðir.

Eins og Jóhanna sagði úti í Norræna í dag – Stjórnarsáttmálinn er um það að ná samkomulagi um þjóðarsátt.

Í þeirri sátt á að felast, launakjararýrnun, rýrnun á fasteignverðmætum, rýrnun á verðmæti krónunnar, verðhækkanir, atvinnuleysi, niðurskurður í velferðarþjónustu – heilbrigðiskerfi og menntakefi, skattahækkanir og vafalaust eitthvað fleirra. En ekki rýrnun á fasteignaveðlánum - þau eru tryggð með náttúrulögmálum.

En þetta skiptir í sjálfu sér ekki máli. Engu máli skiptir þó ég sé að misskilja rosalega og það sé náttúrulögmál að ekki sé hægt að endurreikna ruglaða lánskjaravístölu. Því þegar fasteignaverð er fallið langt undir verðmæti lána hættir fólk að borga – og fer.

Og vel að merkja – það er náttúrulögmál – að þegar fólkið fer fellur kerfið saman.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta Hörður!

Við breytum ekki leikreglunum eftir á, það er ljóst.

Ég skil vel gagnrýni þína og hún á fyllilega rétt á sér. Annað ekki.

Þú segir m.a.:
"Í þeirri sátt á að felast, launakjararýrnun, rýrnun á fasteignverðmætum, rýrnun á verðmæti krónunnar, verðhækkanir, atvinnuleysi, niðurskurður í velferðarþjónustu – heilbrigðiskerfi og menntakefi, skattahækkanir og vafalaust eitthvað fleirra. En ekki rýrnun á fasteignaveðlánum - þau eru tryggð með náttúrulögmálum."

Allt sem þú nefnir þarna er eðililegt að gerist þegar hrun verður. Krónan var vandamálið og er enn til staðar og ekki vitað hvernig við losnum við þann myllustein.
Í kreppu og samdrætti dragast allir þessir þættir saman; það er lögmál þegar menn hafa lifað langt um efni fram í langan tíma.

Það er óhjákvæmilegt.

Fasteignaveðlánin sem eru vandamál eru einungis þau sem voru tekin í erlendri mynt. Fólk sem gerði það var að stunda brask og veðja á þegar ofmetna krónu. (ég veit að bankarnir mæltu með þessu en það þýðir ekki að fólk þurfi að samþykkja slíkt). Þau eru ekkert merkilegri en bílalánin sem fólk var að taka ofan á allt saman.

Stór hluti þjóðarinnar hagaði sér fáránlega og ábyrgðarlaust. Ath: alls ekki allir samt og þeim sem það gerðu EKKI á að hjálpa.

Þeir sem komu sér í þetta sjálfir og voru að gamble-a með krónuna og erlend lán þurfa bjarga sér sjálfir.

Þú talar um að fólk fari héðan. Já, vissulega fer hluti af fólkinu, ca. 4-6 % eins og Stefán Ólafsson telur líklegt. Ég tek alveg fullkomlega undir skoðun hans á 20% niðurfellingu skulda gangi ekki upp fjárhagslega né siðferðislega.

Kerfið mun standa það af sér þó að ýmsir þeir verst stöddu flýji skuldir sínar og fari úr landi.

Líklega er bara best fyrir alla að þeir fari.

Þetta er sárt en satt. Eftir gervigóðæri þá kemur sársauki, mikill sársauki. Svo kemur betri tíð og réttlátara samfélag.

Ekkert kvikk-fix í boði, engar patentlausnir sama hverjir stjórna landinu. Menn geta gólað og gólað en batinn verður enginn fyrr en menn fara takast rauhæft á við vandann.

Fórnarlömb kreppunnar verða mörg og misábyrg.

Unknown sagði...

Takk líka Nafnlaus.

Þú segir:
“Fasteignaveðlánin sem eru vandamál eru einungis þau sem voru tekin í erlendri mynt....”

Ég veit ekki alveg hvað þú átt við. Fyrir hvern eru vísitölutryggð veðlán ekki vandamál?

Við sem ekki vildum gambla og tókum hefðbundin fasteignalán gerðum það ekki eingöngu á grundvelli þess samkomulags sem skráð var á skuldabréfið sem við skrifuðum undir.

Við gerðum að á þeirri forsendu að verðbógumarkmið Seðlabanka væru raunhæf og staðinn yrði vörður um þau.

Við tókum þessi lán vegna þess að stjórnvöld setja reglur sem tryggja grundvallar öryggi.

Við tókum þessi lán á grundvelli þess að lánastofnanirnar myndu vernda þær forsendur sem lánið var veitt á en ekki taka stöðu gegn lántakendum og veðja gegn krónunni.

Samkomulag um allar þessar forsendur eru brostið og það er ekki bara brostið – það var svikið.

Venjulegt vísitölutryggt fasteignalán upp á 25 milljónir hefur undanfarið hækkað um 500 þúsund á mánuði. Vístöluhækkun undangengins mánaðar er tekinn og henni er dreift á gjalddagana sem eftir eru og væntanlegir vextir límdir ofan á. Hálf miljón í hækkun, takk.

Þó ég skilji að allir þurfi að súpa seiðið af kreppunni og taka á sig allt sem er “eðlilegt að gerist þegar hrun verður” eins og launakjararýrnun, rýrnun á fasteignverðmætum, rýrnun á verðmæti krónunnar, verðhækkanir, atvinnuleysi, niðurskurður í velferðarþjónustu – heilbrigðiskerfi og menntakefi, skattahækkanir og vafalaust eitthvað fleira þá skil ég ekki hvernig venjulegar fjölskyldur eiga að bera það og líka hálfrar miljón króna mánaðarlega hækkun á láninu sínu.


Sannarlega vona ég að það náist sátt í samfélaginu því ég trúi því að það þurfi samstillt átak til að fara í gegnum þessar hörmungar. En ég efast um að “aðilar vinnumarkaðarins” fari með sáttaumboð fyrir almenning í dag.

Og ég efast um að það sé hægt að bjóða fólki upp á díl um ekki neitt nema samkeppnisfært Ísland árið 2020, þegar á það eru lögð björg sem það getur ekki staðið undir um leið og það upplifir að allir mikilvægustu sáttmálar samfélagsins hafi verið brotnir á því.

En um þetta ætlaði ég ekki að fárast í dag, heldur gleðjast – því það er tilefni til þess.