þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Ný gjöld og fateignagjöld hækka við lækkun

Það er ekki óregla sem hefur komið þeim í kröggur. Það blæddi inn á heilann þegar hann var ríflega fimmtugur og skammtímaminni truflaðist og skipulagsgáfa er mjög takmörkuð.

Hann sækir þjónustu í Hlíðabæ, dagdeild fyrir minnisskerta og hún hefur ekki getað verið að fullu á vinnumarkaði undanfarin ár. Örorkubætur er stærsti tekjustofninn þeirra.

Hlíðabær er rekinn af Rauðakrossinum og SÍBS og fær læknisþjónustu frá Landspítala. Nú var verið að setja daggjöld á þjónustuþega Hlíðabæjar, 18.000 krónur á mánuði.

Þau eru eins og aðrir að borga af íbúð, lítilli tveggja herbergja og fasteignagjöldin voru að hækka. Það finnst þeim skrítið því Óli og Villi sögðust vera að lækka þau. Í fyrra voru fasteignagjöldin 10.700 á mánuði, núna 12.000.

Þau eru viss um að Villi vill gera eitthvað fyrir gamla fólkið og sjúklingana og ekki er Óli verri, það er góðmennska í svipnum. Þeim finnst það hljóti að vera þannig að borgin muni leggja Hlíðabæ lið og daggjöldin, sem verulega munar um í heimilisbókhaldinu, verði afnumin.

Þeir höfðu jú efni á að kaupa þessi hús á Laugaveginum fyrir nærri þúsund miljónir.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef þetta fólk er raunverulega til og þú þekkir þau, getur þú beint þeim á að ríflega var bætt við afslætti af fasteignagjöld með nýja meirihlutanum, til tekjulágra aldraðra og öryrkja. "Vinir" þínir falla undir tvo af þremur afsláttarflokkum og get því haft samband við þjónustumiðstöð í sínu hverfi.

Hörður Svavarsson sagði...

Takk fyrir þetta "Nafnlaus"
"Þetta fólk" sem er tengt mér er að sjálfsögðu til og aðstæður þess eru allt of raunverulegar.

Ég hef þegar sagt þeim frá "ríflegum" afslætti sem nýji meirihlutinn hefur hlutast til um. Nú munu þau snúa sér til félagsþjónustunnar sem ekki hefur getað aðstoðað þau áður.

Eftir stendur að fasteignagjöld hækka almennt við lækkunina og minnisskaðaðir og fjölskyldur þeirra sæta auknum álögum.