fimmtudagur, 14. febrúar 2008

ASÍ móðgar kennara


Urgur er nú meðal kennara vegna umsagna um frumvörp til laga um grunnskóla, leikskóla og menntun og ráðningu leikskólakennara.


Reykjavíkurborg, Samband Íslenskra Sveitarfélaga og ASÍ hafa öll skilað umsögnum um frumvarp um menntun og ráðningu leikskólakennara sem hugnast þessum stéttum illa.

Kennarastéttirnar standa saman að stuðningi við þessi frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og þau eru í raun hluti af samkomulagi kennarasamtakanna við ráðherrann um styttingu framhaldsskólans.

Það er einkum athugasemdir ASÍ við frumvörpin sem móðgar kennara. Þar er lagt til að í stað þess að lengja og efla leikskólakennaranám þá verði það stytt. Ófaglært starfsfólk geti sótt einhverskonar námskeið og öðlast þannig leikskólakennararéttindi. Því er haldið fram að færa megi “gild rök” fyrir því að þetta “auki gæði og faglegan metnað í leikskólum”

Ef þessar hugmyndir fá hljómgrunn, er nánast öruggt að mikil ólga verður kring um næstu kjarasamninga kennara sem standa fyrir dyrum í haust.

Engin ummæli: