laugardagur, 23. febrúar 2008

Miðbæjarskóli, börn og jafnrétti


Ég sat á námskeiði í gær í Miðbæjarskólanum. Þetta er fallegt hús og þar er gott að vera. En mér fannst það svolítið skrítið að sitja í íþróttasalnum gamla í heilan dag, þegar mér varð hugsað til þess að í þetta hús gekk pabbi minn í skóla fyrir sjötíu árum. Svolítið undarlegt að hugsa til þess að þarna fór fram stór hluti af hans daglega lífi í átta ár.


Það var líka svolítið skrítið að vera á þessu námskeiði. Auk mín voru þar sextíu aðstoðarskólastjórar á leikskólum í Reykjavík. Allt saman konur.

Það er auðvitað margt sem hefur breyst í starfi leikskólanna undanfarin ár. En í öðru hefur ríkt stöðnun. Þegar ég kom fyrst inn á leikskóla fyrir 25 árum unnu þar konur og þar stjórnuðu konur. Þannig er það ennþá.

Þá var mér stundum sagt að það væri nú ekki viðeigandi að karlmenn væru of mikið í kvennmannsstörfum. Í dag eru 3% starfsmanna leikskólanna karlar. Um 1% af aðstoðarskólastjórum og um 0,5% af skólastjórum leikskóla eru karlkyns. Ég hélt satt að segja að þróunin hefði verið örlítið hraðari seinustu árin.

Umræða um skort á konum í stjórnunarstörfum og í pólitík hefur yfirgnæft alla jafnréttisumræðu á Íslandi. Umræðan er gamaldags og karllæg, eins og það heitir á feminísku, því hún hefur snúist um það hverjir eiga að hafa ímynduð völd.

Mikill meirihluti leikskólanemenda er átta klukkustundir eða lengur í leikskólanum daglega. Þar eru þeir aldir upp af konum nær eingöngu. Hvaða áhrif ætli það hafi á viðhorf þeirra til frambúðar? Hvaða rétt eiga þessi börn til að umgangast fólk af báðum kynjum? Vegur sá réttur minna en réttur kvenna til að sitja í stjórnum fyrirtækja? Eða er ekki eins gaman að ræða um þau réttindi?

Þetta umhugsunarefni mitt var ekki á dagskrá námskeiðsins í Gamla Miðbæjarskólanum í gær. En þar lærði ég samt ýmislegt nytsamlegt og það verður gaman að koma aftur í þetta merkilega hús. Miðbæjarskólinn er eitt af fallegustu húsum í Reykjavík, setur svip sinn á miðbæinn og vitnar um stórhug og metnað í menntunarmálum. Öll verk stjórnmálamanna og skólafólks ættu að vitna um slíkan metnað.

Engin ummæli: