fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Strákarnir í verkalýðshreyfingunni



Þeir eru að tala saman strákarnir í verkalýðsfélögunum.


Þeir hittust reyndar hjá ríkisstjórninni helgina áður en bankarnir hrundu. Og eftir það gerði ríkisstjórnin leynisamning við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Eftir japl og jaml var upplýst um leynisamninginn mörgum vikum síðar en þá reyndist bráðnauðsynlegt að bera hann undir hið niðurlægða Alþingi.

Í samningnum kom fram að; "Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi". Þetta er ekki hægt að skilja með neinum öðrum hætti en verkalýðshreyfingin hafi gert samkomulag við ríkisvaldið um hvernig næstu samningum verði háttað. Ella er verið að blekkja alþjóðasjóðinn.

Skömmu eftir að verkalýðsleiðtogarnir funduðu með ríkisstjórninni greindi a.m.k. einn þeirra frá því að “ASÍ hafi lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að standa við gerða kjarasamninga til ársins 2010, þ.e. að nýta sér ekki uppsagnarákvæði samningsins að því gefnu að aðrir launþegar semji á svipuðum nótum við sína viðsemjendur.”

Þessa yfirlýsingu er reyndar ekki að finna á vef ASÍ svo reikna má með að forystumenn þar hafi lýst þessu yfir við forystumenn í öðrum launþegasamtökum – og kannski ríkisstjórnina sína.

Á vef ASÍ er reyndar yfirlýsing landsfundar samtakanna um að til að tryggja stöðugleika sé; “…afar mikilvægt að lækka vexti eins hratt og mögulegt er” en eftir þá yfirlýsingu voru vextir einmitt hækkaðir um 50% úr 12 í 18. Það vill til að verkalýðsleiðtogar eru auðvaldi hollir og virðast ætla að standa við sinn hlut af samkomulaginu. Þessir góðu menn.

Nú eru þeir semsagt að spjalla saman strákarnir og bjóða okkur upp á þetta sjónarspil um að þeir geti hugsanlega náð samkomulagi um það sem þeir munu segja okkur næstu daga að nauðsynlegt sé að ná samkomulagi um. Kröfugerð í kjarasamningum með litlum sem engum kjarabótum.

Í gær kom frá þeim yfirlýsing þar sem þeir lýsa eindregnum vilja að hefja sameiginlega viðræður við viðsemjendur sína um þróun kjaramála á komandi misserum.

Þetta eru mennirnir sem eru svo hrifnir af verðtryggingu lána. Þetta eru mennirnir sem krefjast þess að vísitölutryggingu lána verði við haldið. Þetta eru mennirinir sem vilja ekki að sjóðirnir tapi á niðurfellingu (jafnvel ekki tímabundinni) vísitölutryggingar.

Dettur einhverjum í hug að þeir muni, fyrir hönd launafólksins sem þeir eiga að vernda, óska eftir verðtryggingu launa?

Þetta eru mennirnir sem með þátttöku sinni í stjórnum fjármálastofnana og hegðun sinni á hlutabréfamarkaði hafa aukið á þensluna og falsað raunverulegt gengi gjaldmiðilsins. Þessir menn munu nú fara fram á hóflegar kjarabætur og þeim virðist finnast sjálfsagt að launafólk borgi brúsann fyrir óráðsíuna.

Gylfi Arnbjörnsson æðsti prestur alþýðu á Íslandi var í forsvari fyrir sérfræðinganefnd ríkisstjórnarinnar sem lagði það til að verðtrygging lána héldist en boðið væri upp á greiðslujöfnunarleið sem er þó dýrari kostur fyrir skuldara heldur en að breyta engu. Þannig getur maður hugsað sér að gráðugir innheimtulögfræðingar hagi sér – ekki verkalýðsleiðtogar.

Eftir Gylfa þessum höfðu sjónvarpsfréttir í gær að nauðsynlegt væri núna að menn snéru bökum saman.

Sorry Gylfi en það er ekki hægt að ráðleggja neinum að snúa óvörðum afturendanum að ykkur.


4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að minnsta kosti má hrósa ASÍ fyrir þetta:

"Auk uppstokkunar í stjórnkerfinu krafðist ASÍ að þingmenn og ráðherrar deili kjörum með öðrum þegar kemur að lífeyrisréttindum. „Í nýbirtum tillögum á að minnka sérkjörin en viðhalda þeim engu að síður," segir Gylfi. „Þessu verður einfaldlega að linna og það strax. Stjórnvöld þurfa að leiðrétta þetta ef þau ætla sér að ná sátt í þessu landi.""

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Rosa er þetta flott blogg hjá þér, sammála hverju orði. Var á fundi hjá VR í gær þar sem trúnaðarmenn í félaginu skrifuðu nær allir undir stuðning við núverandi formann til áframhaldandi starfa. Ástæðan hjá þeim sem ég spurði: Hann er svo frambærilegur!

Það er eins og við Íslendingar séum að biðja um að fá að snúa afturendanum í þetta fólk eins og þú orðaðir svo skemmtilega.

Enda hefðu hlutir aldrei geta farið eins og þeir hafa farið ef við hefðum verið bara pínu ponsu gagnrýnin og vakandi.

Nafnlaus sagði...

Jamm. Þetta er góður texti. Einhverra hluta vegna er ég ekki svo viss um að það sé búið að ákveða fyrirfram hvað skuli gert og það sé leyndó. Það má snúa þessu við og spyrja, hvað er hægt að gera annað í stöðunni en aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið í skyn?
Leyndó

Unknown sagði...

"...hvað er hægt að gera annað í stöðunni en aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið í skyn?"

Það er hægt að segja alþýðu fólks að verðtryggingar verði krafist á laun þeirra. Að jafnræðis verði gætt milli skuldara og fjármagnseigenda.