þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Skipbrot einkarekinnar heilbrigðisþjónustu
Eins og kunnugt er, tóku sjálfstæðismenn við ráðuneyti heilbrigðismála þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð. Það var gengið rösklega til verks og á undrastuttum tíma voru samþykkt ný Lög um heilbrigðisþjónustu, ný Lög um landlækni, ný Lög um almannatryggingar, ný Lög um sjúkratryggingar og felld voru úr gildi Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.
Með þessum lagabreytingum var m.a. stjórnsýslan straumlínulöguð í þá veru að auðveldara er að koma fyrir einkarekstri í heilbrigðisþjónustu á Íslandi á kostnað ríkisins. Margir gætu haldið að þetta væri hluti af trúboði frjálshyggjumanna um frelsi einstaklingsins og markaðarins en aðrir fengu það á tilfinninguna að einhverjir ætluðu að skara eld að eigin köku og um það spratt nokkur umræða í vor.
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu þarf ekki að vera af hinu slæma. Um það eru ágæt dæmi á Íslandi að einkaaðilar hafi sinnt nær eingöngu ákveðnum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og gert það með ágætum. Dæmin sem eru skýrust og þekktust eru SÁÁ og Stígamót. SÁÁ hefur um þriggja áratuga skeið sinnt lögboðinni heilbrigðisþjónustu fyrir áfengissjúka og Stígamót sinna sálgæslu og meðferð fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis.
Í báðum þessum stofnunum er ómetanleg sérfræðiþekking og fagmennska með þeim hætti að vakið hefur athygli víða um heim. Forsvarsmenn þessara stofnana Þórarinn Tyrfingsson hjá SÁÁ og Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum eru heimskunn í sínum málaflokkum og eftirsóttir talsmenn út um allar álfur.
Félögin hafa verið fjármögnuð mestan part af ríki enda veita þau þjónustu sem ríkið yrði annars að veita lögum samkvæmt. En sveitarfélög og einkafyrirtæki hafa lagt rekstrinum drjúgt til á síðustu árum.
Nú kreppir hins vegar að, sveitarfélög draga í land, kostunaraðilar draga að sér hendurnar eða hverfa af sjónarsviðinu og ríkið hefur minna á milli sinna visnu handa. Við bæði Stígamótum og SÁÁ blasir gríðarlegur samdráttur og niðurskurður á nauðsynlegri grunnþjónustu fyrir almenning.
Þessi væntanlegi niðurskurður er sárgrætilegri en ella vegna þess að það liggur fyrir að þegar kreppir að eykst áfengisneysla og harmar hennar vegna og kynferðisofbeldi eykst líka á krepputímum. Þetta hefur verið sýnt fram á og því augljóst að nú þarf að efla Stígamót og SÁÁ.
Við þessum einkareknu heilbrigðisfélögum blasir hinsvegar skipbrot starfseminnar við.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Þetta eru skelfilegar fréttir, og ég svo sannarlega vona að hjá þessu verði komist, þ.e.a.s að starfsemi þessara frábæru staða verði ekki skert. Því einmitt á svona erfiðum tímum hjá mörgum þurfum við á þessari starfsemi að halda. Vona að hinir mjög svo bissý ráðamenn þjóðarinnar gleymi þessum stöðum ekki í allri ringulreiðinni og gefi sig alla í að styrkja þá.
Og síðast þegar ég gáði þá hétu þetta mandarínur, en ekki epli... semsagt mandarínuaugu. En getur verið að það sé kallað öðru nafni á þínu heimili :)
"Og síðast þegar ég gáði þá hétu þetta mandarínur, en ekki epli... semsagt mandarínuaugu"
Fílarðu ekki anarkíið í þessu Bryndís Ruth?
Jú jú... hef nú alltaf verið dulítill anarkisti í mér, og er það að aukast þessa dagana :)
En mér finnst samt epli vond...
...og húmorinn sem fylgdi þessu er mun mikilvægari en hvor ávöxturinn þetta er, því húmor er það sem við þurfum og þú átt alltaf nóg af.
Læt ég hér fylgja með skemmtilegt kvót sem mér finnst passa:
The worst thing in this world, next to anarchy, is government.
"Henry Ward Beecher"
og...
Power tends to corrupt and absolute power corrupts absolutely.
"Lord Acton"
Skrifa ummæli