sunnudagur, 18. maí 2008

DREKKTU!


ÁTVR, áfengis og tóbakseinkasala ríkisins stendur sig vel. Þeir selja vín. Þeir standa sig svo vel að þegar lagt var fram fáránlegt frumvarp á Alþingi í haust um að selja áfengi í matvöruverslunum, voru sterkustu rök talsmanna frumvarpsins að það myndi engu breyta, ÁTVR væri svo víða og áfengi svo aðgengilegt nú þegar.


Frumvarpið fer ekki úr nefnd á þessu þingi. Allir málsmetandi sérfræðingar og stofnanir mótmæltu því, að hjáróma hagsmunarödd Félags stórkaupmanna undanskilinni. ÁTVR mun því annast áfengissöluna enn um sinn.

Nú hafa Vínbúðirnar, sem eru vörumerki ÁTVR, hrundið af stað einhverskonar forvarnarherferð. Tilgangurinn vafalaust einlægur. Á vef Vínbúðanna stendur:

“Vínbúðirnar hafa nú sett í loftið nýja auglýsingaherferð þar sem lykilsetningin er: Láttu ekki vín breyta þér í svín, drekktu eins og manneskja. Markmiðið er að minna fólk á að umgangast áfengi af ábyrgðartilfinningu og sóma.

Bent er á að þegar fólk drekkur of mikið gerir það stundum hluti sem það annars gerir ekki. Til þess að koma þessari hugmynd til skila er fólk sem hegðar sér ósæmilega við aðstæður sem almenningur þekkir og mislíkar sýnt með svínsandlit. Auglýsingarnar eiga að höfða á áhrifaríkan hátt til þeirra sem eru orðnir þreyttir á drykkjulátum en einnig að vera þörf ábending til þeirra sem fyrir þeim standa.”

Gott og blessað, sérstaklega ef einhver heldur að svona auglýsingar geti fengið þá sem drekka of mikið til að hugsa sinn gang. Það er bara þessi hluti áminningarinnar sem stingur einhversstaðar í mig;
“…drekktu eins og manneskja.”

Í fyrsta lagi læðist að mér sá grunur að þarna sé í raun verið að auglýsa áfengi. Segja fólki að drekka. Að því sé ýjað að til sé einhver sósíal drykkja sem er kúltiveruð og fín, einhver miðjarðarhafsdrykkjumenning, sem dómsmálaráðherra gerði lítið úr í haust í eftirminnilegri færslu. En ÁTVR sé að hvetja til slíkrar drykkju.

En burt séð frá þeirri hugmynd minni, sem vel kann að vera óþarfa paranoja, þá verður því ekki á móti mælt að Vínbúðirnar segja fólki að drekka og það í auglýsingu í landi þar sem áfengisauglýsingar eru bannaðar.

Það má reikna með því að frumvarp um sölu áfengis í matvörubúðum verði lagt fyrir aftur. Þá munu talsmenn aukins aðgengis að áfengi aftur grípa til hvaða vopna sem þeim hentar. Mun þá ekki þessi hvatning Vínbúðanna reynast vatn á millu kölska?







5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta frábær auglýsing. Spáði nú ekki hvort hún hefði hvetjandi áhrif á fólk. Hún hafði góð áhrif á mig, fallegt lag fullt trega spilað í bakgrunn. Ég hugsaði bara: „áfengi er böl.“

Hörður Svavarsson sagði...

Já auglýsingin er flott, vel gerð og nokkuð fyndin.

Nafnlaus sagði...

Þessi auglýsing er bæði peningasóun og kjaftæði.
Í fyrsta lagi er alveg rétt sem ýjað er að í færslunni að svona auglýsing mun engin áhrif hafa á fólk sem drekkur mikið í einu eða lætur áfengi auðveldlega breita mati sínu á hvað er "viðeigandi".
Í öðru lagi eru svín einu búdýrin, sem ég þekki til, sem hafa sérstakan stað í sínum heimkynnum (stíum) sem ættlaður er til þvag- og saurláts.
Þessi auglýsing er því ekki aðeins tilgangslaus heldur einnig gegnósa af rökleisu.

Svín hafa löngum verið táknmynd fyrir subb og viðurstygð, það er ekki á rökum reist og því segi ég: "frelsum svínin undan þessari staðalmynd sem þau hafa svo lengi þurft að húka undir!"

Nafnlaus sagði...

Hárrétt athugað.

Þetta er augljós áfengisauglýsing þar sem fólk er hvatt til að drekka. Alveg sama þótt um leið sé hvatt til þess að drekka í hófi.f

Auglýsingin hlýtur að verða kærð.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

þessi auglýsing er fyrst og fremst fordómar gagnvart svínum, hvers eiga veslings svínin að gjalda, þau geta ekki svarað f. sig ómálga dýrin, þau hegða sér ekkert illa, bara éta og hafa gaman að lífinu, velta sér upp úr drullu einstaka sinnum *rýt*