fimmtudagur, 1. maí 2008

Þjóðarsátt úr réttri átt


Ingibjörg Sólrún var að biðja um þjóðarsátt í dag. Frábært. Við erum samherjar þó ég hafi aldrei vanist því að kalla hana Sollu og aldrei vanist því almennilega heldur, þegar hún er við stjórnvölinn.


En ég er til í sátt. Ég yrði svaka sáttur ef skorið yrði á vísitölubindingu lána, krónunni yrði skipt út fyrir alvöru gjaldmiðil, stimpilgjöld yrðu aflögð og tekjuskattur væri lækkaður eða afnuminn eins og sýnt hefur verið fram á að hægt er að gera. Ég yrði svo sáttur að á móti væri ég til í að lækka launin mín. T.d. um tvo launaflokka eða svo.

Ekki væri verra ef farið væri í þá táknrænu aðgerða að lagfæra eftirlaunalögjöf ráðamanna. Þá væri einstaklingurinn ég, svo sáttur að það mætti hreinlega kalla það þjóðarsátt. En til þess að ná þeirri þjóðarsátt þurfa þeir sem sitja við stjórnvölinn að hafa eitthvað frumkvæði – gera eitthvað til að sætta fólk.

Svoleiðis frumkvæði hefur forystusveit kennara og launanefnd sveitarfélaga sýnt með óvæntum hætti. Það er óvænt og ánægjulegt þegar kennarar ná góðum samningi. Og það er gleðilegt þegar það gerist snirtilega og hávaðalaust. Allt of oft hafa skapast róstur í kring um kjarabaráttu kennara sem hefur ekki skilað þeim velvilja eða sáttri þjóð.

Nú hefur þetta tekist vel hjá kennurum undir öruggri handleiðslu Ólafs Loftssonar formanns Félags grunnskólakennara. Kannski er kominn í Ólafi verðandi formaður Kennarasambandsins, hver veit.

Hvað um það, ég mæli með Ólafi Loftssyni í þjóðarsáttina og auðvitað Ingibjörgu.


Engin ummæli: