laugardagur, 3. maí 2008

Um fylgistap


Guðfríður Lilja, hin glaðbeitta skákkona, hélt því fram í Kastljósi í gær að mælt fylgistap Samfylkingar réðist af því að meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar sé félagshyggjufólk (og þar með óánægt). Þetta er vitlaus niðurstaða hjá Guðfríði.


Sennilega er það þó rétt að meirihluti kjósendanna séu félagshyggjumenn. En í mælingu Gallup kom einmitt mjög skýrt fram að Jóhanna Sigurðardóttir er sá ráðherra sem nýtur mest stuðnings og eins og ráðherrann Jóhanna benti á í fréttum í gær hefur engin ríkisstjórn gert jafn mikið á jafn stuttum tíma í félagslegum úrbótum og sú sem Jóhanna situr í.

Óánægja okkar stafar af öðru.

Á sama tíma og ráðherravaldið sýnist öflugt og snöggt í höndum Sjálfstæðismanna eru vopnin deig og slíðruð eða töpuð í búðum Samfylkingar. Þar er viðkvæðið ég get ekki, ég má ekki eða ég ætla – seinna.

Menntamálaráðherrann hefur lagt fram viðamikil lagafrumvörp um leikskóla, grunnskóla og menntun kennara. Hún hefur fagstéttirnar með sér, slær ekkert af og kemur viðamiklum stefnumálum þar með í framkvæmd. Guðlaugur er að gera uppstokkun í heilbrigðiskerfinu, ræður og rekur og þarf ekki að svara neinum til um það hvert hann er að fara. Og ekki er fyrr kominn upp kvittur um fjármálavanda í lögregluembætti Suðurnesja en dómsmálaráðherrann skellir á borðið frumvarpi til að taka á vandanum.

Á meðan sjáum við Samfylkingarfólk ráðherrana okkar í einhverskonar flumbrugangi og ráðaleysi. Samgönguráðherrann getur ekki tjáð sig um skoðanir sínar, eins og á Sundabraut, af því að hann þarf kannski að úrskurða um þau mál seinna. Umhverfisráðherrann getur svo bara tjáð sig um skoðanir sínar - en getur ekki úrskurðað. Hefur greinilega engin völd og engin áhrif. Okkur finnst því blasa við að nú bætist við þrjú álver og olíuhreinsistöð á sjálfum Vestfjörðum.

Við sem héldum að við værum að kjósa flokk sem kæmi á styrkjum til framhaldsnáms eins og tíðkast almennt í vestrænum ríkjum, heyrum nú málpípu Sjálfstæðismanna leggja inn hugmyndir um skólagjöld og ráðherra Samfylkingar vill bara skoða málið jákvæður og fordómalaus. Skamm, Össur. Og ég ætla ekkert að minnast á það að ekki má betur sjá en Ingibjörg sé að koma á fót her. Ég minnsit ekki á það.

Það er af þessum sökum, Guðfríður, sem fylgi kvarnast af flokknum mínum núna. Ekki út af því sem Jóhanna hefur þó verið að framkvæma.

Og sýnist nú lítið eftir annað en halda bara kúlinu.

Engin ummæli: