laugardagur, 24. maí 2008

Til hamingju Ísland


Í dag var flugdagur og svo er líka bíllaus dagur, eða öllu heldur bíllaust kvöld. Það sést aldrei bíll á götunum þegar Júróvisíon er í sjónvarpinu. Svo var afmæli í dag.


Það voru ekki mörg kaffihúsin í Reykjavík þegar ég var strákur, eiginlega bara þrjú sem ég vissi af.

Á árunum ´65 til ´70 fórum við bræðurnir vikulega á bíó með pabba og toppuðum svo daginn með því að kíkja á kaffihús

Það var helst að víð færum á Laugaveg 28, sem var eiginlega kaffitería. Skammturinn var alltaf eins, súkkulaði með rjóma og rúnnstykki með smjöri og osti. Um sali, sem voru tveir, sigldu þéttvaxnar þjónustukonur á ljósbrúnum nælonsloppum fyrir innan skjannahvítar blúndubriddaðar svuntur sem hvelfdust yfir barminn þannig að þær urðu áþekkar briggskipum í bíómynd. Þær söfnuðu saman leirtaui á bakka sem þær stungu inn um lúgu á veggnum, væntanlega inn í eldhús.

Mér fannst æðislegt þetta gat á veggnum, en er enn þann dag í dag fyrirmunað að skilja hvar þær fiskuðu upp allt þetta leirtau til að stinga í gatið, því það var yfirleitt ekki margt um manninn á Laugavegi 28. Einn gestur var þó alltaf þar, gráhærður síðskeggjaður öldungur sem las á útlensk blöð. Fyrrverandi fjármálaráðgjafi ríkisstjórnar Ísland og seinna sagði Jón Baldvin hann gáfaðasta mann landsins.

Ef okkur líkaði ekki selskapurinn á Laugavegi 28 snerum við stundum við og fórum á Fjarkann, sem var hvorki fugl né fiskur. Ekkert stabílt þar og hann varð fórnarlamb grillhúsamenningarinnar skömmu síðar. Þórarinn gerði Fjarkann eilífan í ljóðinu um Rósu sem heldur heim af vaktinni, styttir sér leið í gegnum Ísafoldarhúsið og sér að dönsku blöðin eru komin. Ég brenndi mig illa á súkkulaðinu í Fjarkanum, sem reyndist svo vera kakó en ekki súkkulað.

Á Mokka fórum við sjaldnar en það var alltaf upplifun, en reykurinn hentaði okkur ekki. Þegar ég var unglingur bar ég lotningu gagnvart Mokka og man eftir að hafa hlustað á speki Dags Sigurðarsonar á næsta borði. Dagur var, eins og margir sem koma á Mokka, þeirrar gerðar sem eftirminnileg er.

Guðmund hitti ég áratugum seinna í níræðisafmæli systur hans. Það varð úr þegar veisluhaldi lauk að ég æki honum og Guðnýju konu hans heim. Hann var glæsilegt séntilmenni, hrokalaus en tígulegur. Ég man vel eftir samræðunum á leið okkur gegnum Hlíðarnar og niður á Skólavörðustíg.

Hann hefur verið um áttrætt en hafði allt á tæru og vissi nokk um nýbyggingarnar við Skógarhlíð. Og svo sagði hann mér hvað þetta væri sniðugt með internetið, það væri nefnilega vefmyndavél í Hallgrímskirkju og strákurinn sinn sem væri úti í Frakklandi gæti séð hvort það væri snjór á Skólavörðustígnum eða ekki.

Það fór vel á með okkur og ég aftók auðvitað með öllu að þiggja borgun fyrir farið sem honum þótti við hæfi að bjóða í lok ferðar. Þá tók höfðinginn upp veski sitt, dróg úr því skrautprentað kort, sótti penna með skrúfuðu loki í innri vasa jakkans og ritaði nafnið sitt undir kortið. Þetta var ávísun á kaffi og veitingar fyrir tvo á Mokka.

Ég leysti ekki út þetta gullfallega kort og á það ennþá. Þó að kaffið og veitingarnar væru á Mokka er kortið meira virði en svo. Það er minning um genginn sjentilmann og vísbending um að eitthvað sé til í okkar samfélagi sem er lífseigara en yfirborðsmennskan. Þannig er Mokka líka - og það er merkilegt í landi þar sem ekkert nema Júróvisíon fær okkur til að leggja bílana til hliðar.

Engin ummæli: