föstudagur, 2. maí 2008

Hjólahól


Þeir voru að minna á það í gær að hjólin væru komin á göturnar – mótorhjólin. Smart auglýsing í tíví og hópakstur hjá þeim líka.


Hann minnti mig á auglýsinguna títuprjónshausinn í baksýnisspeglinum mínum áðan. Ég kom akandi úr Kópavogi í átt að Garðabæ. Leit í spegilinn og sá hann byrtast, títuprjónshausinn sem stækkaði með ógnarhraða og kom upp að mér á andartaksbroti.
Svo hvarf han úr speglinum en þaut framhjá mér með sándi sem Steven Spielberg væri stoltur af að framkalla með öllu sínu THXi á nokkrum vikum. Mér fannst þetta soldið töff.

Á leiðinni inn í Garðabæ og út úr honum hinumegin mættum við, ég og undanfarinn minn, nokkrum hjólamönnum sem óku í gagnstæða átt. Allir lyftu þeir hendi í kveðjuskyni og Undanfari heilsaði á móti. Þetta var hófleg kveðja, vinstri hönd var rétt lyft af stýri, mesta lagi 50 sentimetra. Svona – sæll félagi. Staðfesting á því að þeir væru í sama liði, hluti af því að tilheyra. Mér fannst þetta töff og heilsaði líka. Áður en við komum inn í Hafnarfjörð hafði ég heilsað fjórum mótorhjólagörpum. Þeir heilsuðu ekki, sáu mig sjálfsagt ekki. Ég er ekki einn af þeim.

Ég skil þessa tilfinningu vel, frelsið. Að eiga hjól, finna vindinn taka í og kraftinn. En ég tilheyri annarskonar liði. Ég er reyndar með kenningu um að fjölskyldumenn eins og ég eigi ekki að fá sér hjól. Bæði er það að ég hef einhverja hugmynd um að slysatíðni sé há og þeir sem eigi fyrir fjölskyldu að sjá skuli ekki taka slíka áhættu. Og svo er það hitt.

Ímyndin mín af hjólamanni er einhvernveginn eins og af nútímakúreka. Hann beislar gæðinginn, sjálfstæður og heldur inn í sólarlagið með vindinn í hárinu – einn. Kenningin er raunar sú, að fjölskyldumenn sem kaupa sér hjól – hjóli oftar en ekki út úr sambandinu. Þeir aka á brott og fara að tilheyra öðru. Síðan við Ármann pípari töluðum okkur inn á þessa kenningu fyrir sex árum (kannski til að sætta okkur við það fá okkur ekki hjól) hef ég safnað mörgum dæmum um það að hugsanlega getur hún staðist.

Veit ekki um það. Veit bara að á morgun beisla ég fjölskylduvæna skutbílinn og ek norður í land þar sem prinsessan á heimilinu og mamma hennar eru búnar að vera í faðmi stórfjölskyldunnar í þrjá daga. Og þegar við hittumst læt ég ekki duga að lyfta vinstri hendi um hálfan meter. Við höfum annan hátt á, við að tjá hverjum við tilheyrum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er flottur pistill hjá þér, ég er reyndar í "hinu liðinu", lét drauminn rætast og keypti hjól í fyrra. Takk fyrir góða áminningu, maður má ekki hjóla frá sér fjölskylduna.

Góðar stundir.

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur pistill . Ég ferðaðist um suður-mið og norðurríki BNA sl. sumar. Á einum stað þar sem ég gisti, í Suður Dakóta - þarna sem forseta andlitin eru hoggin út úr granítklettum. Þá var þar hátíð mótorhjólafólks allstaða að úr BNA um 100 þús. hjól. Já ég fékk það mjög á tilfinninguna að menningin við þetta væri framhald kúrekanna - hegðunin var svipuð.