sunnudagur, 31. ágúst 2008
Nokkrar raddir, píp, Nike og Bourdieu á einkaklínik
Setti nýja Nike bakpokann minn á stól í móttökunni á einkalínikinni og snéri mér að glervörðu afgreiðsluborðinu. Enginn í afgreiðslunni en bjölluhnappur með skilaboðum um að ef afgreiðslu vantaði bæri að hringja. Ég hringdi.
Kona í grænum stuttermajakka kom og áður en hún bauð góðan dag sagðist ég vera að koma í aðgerð. Já til Guðmundar sagði hún, svo sneri hún sér við og gekk á brott um leið og hún sagði; ég ætla að láta þau vita að þú sért kominn.
Ég settist við hliðina á Nike pokanum og tók upp úr honum nýfengið rit. Almenningsálitið er ekki til eftir Pierre Bourdieu. Var að lesa um þá gagnrýni Bourdieu á skólakerfið að það breyti félagslegum forréttindum í einstaklingsverðleika samkvæmt goðsögninni um að slíkir nemendur séu einfaldlega vel gefnir, þegar önnur kona í grænum stuttermajakka kom í afgreiðsluna og bauð mér góðan dag.
Er það Hörður sagði hún. Til Guðmundar sagði hún. Klukkan tíu þrjátíu sagði hún og ég jáaði inn á milli. Heyrðu, þú mátt bara gjöra svo vel sagði hún. Svo stóð hún upp og kom framfyrir afgreiðsluborðið, staðnæmdist við nokkra skó á gólfinu og sagðist ætla að biðja mig um að skilja skóna eftir hérna frammi.
Ég setti Bourdieu í Nikeinn, fór úr skónum og hélt inn á eftir konunni með Nike-inn í hendinni. Við héldum inn í herbergi sem hólfað var niður með tjöldum. Heyrðu þú setur fötin þín í þessa körfu sagði hún. Ferð í þennan jakka og hefur tölurnar á bakinu sagði hún - og þessa sokka sagði hún. Þú heldur nærfötunum þínum sagði hún. Hvað áttu við með að ég haldi nærfötunum, sagði ég. Áttu við að ég eigi að vera í nærfötunum mínum, sagði ég. Hún leit á mig eitt andartak og sagði svo, ef þú ert í bol og svoleiðis getur þú verið í honum. Þú þarft ekki að hneppa jakkanum sagði hún. Svo dró hún tjöldin fyrir og fór.
Ég setti Nike-inn í körfuna, afvopnaðist úri, hring gleraugum og síma, allt fór í Nike. Svo afklæddist ég, fór í jakkann hvítan og grófan og hafði tölurnar á bakinu. Hvítir mjúkir sokkar fóru á fætur mér. Eftir nokkra stund lagðist ég upp á bekkin, horfði á tjöldin í kring um mig og hlustaði.
Heyrðu Helga ég skal ganga frá þessu farðu og fáðu þér eitthvað sagði kvenmannsrödd. Hvar eru þau stödd sagði kvenmannsrödd. Þau eru að koma með rúmið fram sagði hin röddin. Ég ætla þá að setja húfuna á mig sagði fyrri röddin.
Ég heyrði hurð opnast og sá móta fyrir skuggum gegnum tjöldin. Rúmi var greinilega rennt inn á svæðið á móts við mig. Karlmannsrödd sagði jæja Ragnar þú ert að vakna, þetta er búið, það gekk vel. Ég heyrði djúpan andardrátt. Nokkrar manneskjur böksuðu greinilega kring um rúmið. Svo hófst píp ---- píp ---- píp --- eins og í bíómynd.
Nú er víst mjög hagstætt að skipta litlu húsnæði upp í stærra á Flórída segir kvenmannsrödd. Já er það segir karlmannsrödd. Já en maður þarf að eiga eitthvað í því, segir kvenmannsröddin og bætir við, þegar kreppan er búin ætla ég að fá mér stærra. Þú átt að gera það meðan kreppan er, segir karlmannsröddin. Já ég ætla að eiga það með dóttur minni segir konan.
Ragnar, sagði karlmannsröddin, aðgerðin er búin. Það gekk vel. Píp --- píp --- píp. Hvernig líður þér sagði karlmannsröddin. Þá heyrist uml. Þú ert að vakna, þetta er búið, það gekk vel. Píp --- píp --- píp.
Tjaldinu við hliðin á mér var rennt til hliðar. Klara, sagði karlmannsrödd. Já, sagði kvenmannsrödd. Sæl ég heiti Rúnar og er svæfingalæknir tekur þú einhver lyf, sagði karlmannsröddin. Rödd Klöru sagði eitthvað sem hljómaði eins og lyfjanafn og karlmannsröddin sagði, hefur þú lengi verið sykursjúk. Nei sagði rödd Klöru.
Nýr skuggi bættist í hópinn og ný rödd sagði, Jæja Klara hvort var þetta hægri eða vinstri. Vinstri sagði Klara. Hefur þú verið opireruð á hægri sagði nýja röddin. Ég skil þig ekki, sagði rödd Klöru, opireruð. Nei ég skil sagði nýja röddin. Það sem þú þarft að passa Klara sagði röddin, er að passa að þú fáir ekki bjúg eftir aðgerðina. Þú þarft að lyfta hendinni svona og kreppa. Eins og í Hitlerskveðju sagði rödd Rúnars. Ég er einmitt nýbúinn að lesa bók um Auschwitz sagði Klörurödd.
Komdu bara með okkur, sagði nýja röddin. Skuggarnir þokuðust fram og rödd Rúnars sagði, þú verður orðin góð fyrir jólabókaflóðið. Nei nú er ég hætt sagði Klörurödd. Já ertu hætt sagði Rúnarsrödd. Af skuggunum að merkja er Klara mjög lágvaxin.
Þetta er löng bið hugsaði ég. Píp --- píp sagði tækið frammi. Ég get eins reynt að sofa hugsaði ég og lagði mig á hliðina. Svo rumska ég og heyri mjög lítið í pípinu. Er ekki allt í lagi segir karlmannsrödd í hólfinu á móti mér. Jú ég lækkaði bara í þessu er það ekki allt í lagi segir kvenmannsrödd. Jú ég steingleymdi því bara segir karlmannsröddin. Hvernig hefur hann það segir hún svo. Hann er nokkuð fölur segir kvenmannsröddin.
Fótatak fjölda skóa berst í átt að mér og hópur fólks sem talar frönsku staðnæmist hinumegin við tjaldið mitt. Einhverjir heilsast á ensku og karlmannsrödd segir. Her ví hef seventín veitinrúms, ví hef oll ðí gases and konteiners át sæds and ví haf tú opereisjonsrúms só vi kan dú anoðer opereisjon after fæv minets. Jess jess segir fólkið á frönsku. Ég get klipið þau í rassinn hugsa ég.
Tjaldinu er rennt frá hólfinu sem ég er í og karlmaður í grænum stuttermajakka með hárnet kynnir sig sem Rúnar svæfingalækni. Tekur þú nokkur lyf segir Rúnar. Bara ibuprofen segi ég, en ekkert seinustu viku. Afhverju tekur þú ibufen segir hann. Bar við verkjum segi ég, en ekki samkvæmt læknisráði. Ég skil segir hann. Komdu með mér segir hann.
Við göngum inn í bjart herbergi. Á miðju gólfinu er bekkur. Leggstu þarna upp á segir hann. Með höfuðið þarna segir hann og bendir á koddann. Beggja vegna á bekknum eru hillur sem standa út frá honum, þær eru fyri handleggina á mér. Rúnar herti ól að hægri handlegg mínum. Nú kemur svolítill sársauki sagði hann og ég fann að ég var stunginn. Nú dæli ég inn í þig róandi, sagði hann.
Mér finnst ég rugga hugsa ég. En mér er sama hugsa ég. Kona tók um hinn handlegg minn og bar á hann eitthvert kalt efni. Hvað er þetta sagði ég. Þetta er allskonar blanda sagði hún. Já bara svona kokteill sagði ég og hugsaði að hún vissi sennilega ekki hvað þetta væri. Svo var grænu taui vöðlað upp við höfuðið á mér svo ég missti útsýni yfir það sem fram fór vinstra megin við mig.
Rosalega er mér kalt á hendinni hugsaði ég og mér finnst ég koma út úr þoku. Mér er þó nokk sama um það hugsaði ég. Það er einhver reytingur af fólki við hliðina á mér og ég spyr hvort aðgerðin sé byrjuð. Já hér er allt á fullu segir karlmannsrödd. Þetta er mjög vel blóðtæmt segir röddin. Mér finnst hún ekki vera að ávarpa mig. Já er það segir rödd Rúnars.
Hvernig hefur þú það segir karlmannsrödd við mig. Ég hef það dásamlegt segi ég. Það er ekki algengt að fólk sé svona jákvætt segir röddin. Ég hugsa að afstaða fólks sé alltaf spurning um val en ég kem því ekki í orð. En mér er sama þó ég geti ekki orðað það hugsa ég, þeir þurfa ekkert að vita það.
Hvaða lyf fékk ég segi ég. Það er leyndarmál segir karlmannsrödd. Hvað segir þú að það heiti segi ég. Það heitir fenebleble segir röddin þá. Við þurfum einhverntímann að prófa þetta sjálfir segir karlmannsrödd. Svo við vitum hvað fólk er að tala um við okkur segir hún. Það er líklega ekki löglegt hugsa ég, en ég kem því ekki í orð.
Þegar ég var úti í Lundi segir karlmannsrödd, þá prófaði ég þetta. Það voru svona sjálfvirkar græjur og ég stillti bara græjuna og prófaði þetta. Ég er feginn að hann er ekki hjartalæknir hugsaði ég, það er ekki hægt að prófa allt, en ég kom því ekki í orð. Mér er sama hugsaði ég.
Færðu þig nú varlega hérna yfir á bekkin segir einhver. Ég mjaka mér af bekknum yfir í rúm sem leggur þegar af stað fram í tjaldaða hólfið. Ég heyri þungann andardrátt úr hólfinu á móti mér. Ég fæ klemmu á fingur og slanga er tekin úr nefinu á mér og kunnuglegt píp --- píp hefst við höfðagaflinn. Ég hverf í þokuna.
Út úr þokunni kemur kona með lítinn bikar með töflum og vatnsglas. Veistu hvaða lyf þetta eru segi ég. Bara verkjastillandi segir konan. Veistu hvað þau heita segi ég. Þetta eru þrjár paratabs og bólgueyðandi segir hún. Svo losar hún klemmuna af fingrinum. Pípið hættir, ég tek pillurnar og drekk vatnið. Það er dásamlegt að fá vatn segi ég, ég hef ekkert fengið síðan í gærkveldi. Já það er það segir hún.
Skömmu síðar kemur hún aftur og býður kaffi. Já takk segi ég og mjólk útí. Hún færir mér kaffi í hvítu haldalausu plastmáli og tvær kexkökur. Homblest með súkkulaði. Kexið og kaffið leggur hún á pappírshandþurrku. Eftir kaffi og kex hugsa ég mér að ég svo vakandi að ráð sé að lesa og teigi mig í Bourdieu úr Nike-inum.
Yfirstéttin er í aðstöðu til að gera borðhald sitt og lífshætti að “listaverki”; áherslan er ekki síður á formið en tilganginn; á það hvernig hann er framreiddur og borðaður fremur en á það hvort hann er mettandi; á formlegar kurteisisvenjur sem jafnframt einkenna samkomur borgarastéttarinnar opinberlega, t.d. á tónleikum þar sem flutt er sígild tónlist. Með þessum hætti greinir yfirstéttin sig skýrlega frá lágstéttinni, les ég.
Hvernig hefur þú það segir kvenmannsrödd í hólfinu á móti. Það heyrist uml og pípið er ennþá í gangi hjá Ragnari. Heitir hann ekki annars Ragnar hugsa ég. Viltu djús Ragnar, segir kvenmannsröddin. Uml. Jú það er gott fyrir þig að fá svolítið djús þú ert svo fölur segir hún. Hann ber sig vel en er ansi fölur segir hún. Og önnur rödd segir já.
Eftir skamma stund kemur ein kona til, í grænum stuttermajakka og býður meira kaffi. Já takk segi ég, með mjólk takk. Fiftí fiftí segir hún og er þegar komin hinumegin á við tjaldið. Nei ekki svo mikið segi ég og hugsa að hún hafi skopskyn. Hér er kaffið herra minn segir hún og leggur frá sér plastmál með kaffi og tvær kexkökur á pappírshandþurrku. Gjörðu svo vel herra minn segir hún. Þakka þér fyrir segi ég og sé að það er of lítil mjólk í kaffinu.
Jæja þú vilt fara heim segir læknir sem stendur við hlið mér með blokk í hendi. Þú verður slæmur næstu daga ég ætla að skrifa upp á verkjastillandi. Hverju ætlar þú að ávísa mér segi ég. Bara parkódíni segir hann. Svo segir hann að vonandi geti ég farið að vinna þegar saumarnir hafi verið teknir úr mér. Hvenær er það segi ég. Það er allt á blaði frammi, það er allt tilbúið, þú færð það bara þegar þú borgar, segir hann. Svo hverfur hann.
Kona í grænum stuttermajakka kemur og segir að ég megi bara klæða mig ef ég vilji. Það er fínt segi ég, ég vil það. Við skulum bara ganga frá greiðslunni hér segir hún. Já segi ég. Var ekki búið að segja þér að þú þarft að borga segir hún. Jú segi ég og það er fullt af peningum og svo endurgreiðir Tryggingastofnun mér allt nema 21 þúsund segi ég. Já einmitt segir hún, ég ætla að ná í uppgjörið.
Ég sest upp. Ég er óstöðugur. Ég tek símann úr Nike-inum og hringi heim og bið um að verða sóttur. Konan kemur með þrjá reikninga. Ertu búinn að hringja heim segir hún. Já segi ég og rétti henni kretidkortið. Þakka þér fyrir herra minn segir hún og fer með kortið. Hún kemur aftur og ég undirrita sjötíu þúsund króna úttekt. Þakka þér fyrir herra minn segir hún og segir að ég megi bíða hér þar til ég verði sóttur.
Ég klæði mig. Set upp hring, gleraugu og úr á hægri hendi. Svo sveifla ég Nikeinum með þeirri hraustu hendi á bak mér. Ég geng fram. Ertu bara kominn fram herra minn segir konan sem þá er kominn í afgreiðsluna. Já ég er hér segi ég og skelli Nike-inum í stól. Honum til sitt hvorar handar situr öldungur með brostin augu og hörkuleg kona sem starir á tímarit. Það tekur því ekki að heilsa hugsa ég, þau eru ekki hér. Gangi þér vel herra minn segir konan í afgreiðslunni.
Ég fer í skóna og sest. Í Nikeinum á ég fulla flösku af sódavatni. Ég er undirbúinn hugsa ég, og teiga dropann. Tek upp heimspekilega félagsfræði Bourdieu og les.
Konur hafa, eins og lágstéttirnar, tilhneigingu til að líta svo á að undirsátastaða þeirra sé á einhvern hátt náttúruleg. Áratuga tilvist þeirra sem undirsáta samfélagsins ýtir undir það að í habitus þeirra innrætist ójafnræði kynjanna og þar með (van)mat þeirra á framtíðar tækifærum sínum innan samfélagsins.
Nú eru tvær konur í afgreiðslunni og sú þriðja kemur þar til viðbótar. Hún stillir sér upp með bakið í glerið. Það er óþarfi að heilsa hugsa ég, við erum ekki hér. Nú er sá ungi orðinn eins og blautur hundaskítur sem legið hefur úti heilan vetur segir hún, og púlsinn kominn upp í hundrað og áttatíu. Verðum við ekki að gera eitthvað. Henni er svarað með júi og þær fara allar.
Kona í grænum stuttermajakka kemur inn í afgreiðsluna og tekur upp símtól. Eftir stutta stund segir hún, hvar ertu, þetta er Kristín hérna , hvar ertu. Já. Heyrðu sá ungi er ekki góður, hann er ansi fölur, kaldsveittur og púsinn mjög hár. Jú gerðu það.
Ég fer á salernið. Það dropar stanslaust úr þeirri nösinni sem slangan var í. Ég þerra nefrennslið með hvítri pappírshandþurrku. Það kemur maður í píparafötum inn á salernið, það stendur Tengi á bakinu á honum. Hann lokar að sér hjá klósettskálinni og skömmu síðar má heyra að það bunar vel hjá honum. Ég tek aðra pappírshandþurrku og þerra dropa af efri vörinni.
Ég geng fram og í átt að útidyrunum. Á móti mér kemur maður á hnjásíðum svörtum rykfrakka. Hann virðist á hraðferð og er kunnuglegur. Sæll segir hann. Sæll segi ég. Sennilega er þetta svæfingalæknirinn hugsa ég, er þó ekki viss, ég hef bara séð hann með hárnet áður. Ég fer út og vindurinn tekur í mig og regndropar skella á andlitinu. Þetta er gott hugsa ég.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Fínt blogg.
Kv., Ari
Skrifa ummæli