föstudagur, 28. mars 2008

Er hann bróðir þinn dáinn?


Ég man vel eftir þessum degi fyrir þrjátíu árum. Ég var að vinna í hljómplötufyrirtækinu sem ég ólst upp í þegar síminn hringdi í bítið. Það var kærastan mín sem var í símanum, stödd í símaklefa á Lækjartorgi og var mikið niðri fyrir.


Hún hafði farið í erindum Framkvæmdastofnunar Ríkisins eftir ritföngum í Pennann við Hafnarstræti og þar heyrði hún á hávært tal afgreiðslukvenna sem töluðu fjálglega um það að hann "Villi Vill" hefði dáið um nóttina. Hann hefði ekið á tré úti í Lúxemborg. “Ég trúi þessu varla enn” hafði hún eftir annarri afgreiðslukonunni. Ég trúði þessu ekki heldur.

Seinna um morguninn kom útgefandinn í kompaníið sitt og það var fremur þungt yfir honum. Hann sagði mér að snemma um morguninn hefðu þau hjónin verið ræst með símhringingu. Í símanum var maður sem kynnti sig sem blaðamann á Dagblaðinu og svo hefði hann spurt Ellýu umbúðalaust hvort það væri rétt að bróðir hennar væri dáinn.

Við fundum enga sárabót í því að plöturnar hans Vilhjálms fóru að seljast betur eftir þetta, en það er ánægjulegt að hann höfðar til fólks enn þann dag í dag.

Engin ummæli: