mánudagur, 31. mars 2008

Bensínmótmælabull


Þau eru út í hött þessi mótmæli vörubílstjóra gegn bensínverði.


Í fyrsta lagi bitna mótmælin á almenningi sem hefur ekkert með verðlagningu á bensíni að gera.

Í öðru lagi er óljóst hvers vörubílstjórar krefjast. Á ríkið t.d. að lækka bensíngjald? Álögur ríkisins hafa ekki hækkað undanfarið, þær eru bundnar við fasta krónutölu. Á að skerða tekjur ríkissjóðs svo olíufurstar geti haldið áfram að græða jafn mikið? Tekjulækkun ríkissjóðs bitnar á þjónustu við almenning – t.d. vegagerð.

Í þriðja lagi er engin ástæða til að bensín, sá ónáttúruvæni orkugjafi, sé ódýrara hér en í löndunum í kring um okkur.

Í fjórða lagi er flest annað að á Íslandi en bensínverð. T. d. vísitölubinding lána, ofurtollar á matvæli, hár virðisaukaskattur á öllu sem launamenn kaupa, hár tekjuskattur, stimpilgjöld og gjaldmiðill sem heldur okkur í þrælsböndum fjármálastofnana sem okra á okkur.

Í fimmta lagi gætum við verslað þetta bensín án þess að kveinka okkur ef þetta ástand væri ekki svona eins og t.d. Danir gera, sem borga meira fyrir bensínið en við.

Og svo segjast vörubílstjórar njóta gífurlegs stuðnings almennings. Hvílíkt bull.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rétt hjá þér að ríkið rukki fasta krónutölu á hvern seldan líter af olíu en ríkið rukkar (auðvitað) líka vask af allri seldi olíu, 24.5%.

Þar af leiðandi fær ríkið meira um leið og olíuverð hækkar.

Unknown sagði...

Já hr. nafnlaus. Eigum við þá ekki að mótmæla háum virðisaukaskatti?

Nafnlaus sagði...

Ég er til.

Mótmæli fyrir utan alþingishúsið kl 13 á morgun, rétt fyrir næsta þingfund.

Nafnlaus sagði...

það liggur nú bara mjög skýrt fyrir hverju þeir eru að mótmæla. Þeir eru aðalega að mótmæla því að þeir séu þvingaðir til þess að fara eftir evrópustöðluðum hvíldarlögum meðan ríkið fær undanþágu til þess að útvega þeim hvíldaraðstöðuna, einnig eru þeir að mótmæla því að þurfa að borga ca. 15 krónu veggjald á hvern kílómeter og síðan á að leggja á þá 20 króna umhverfisgjald á hvern kílómeter.
Þeir vilja hvíldarlögin út, vilja fá að keyra á litaðri olíu, eða þá láta afnema þessi aukagjöld á þá.
Þú hlýtur nú að sjá það að það er ekkert grín að reka bíl sem þú ert kannski að keyra á milli reykjarvíkur og egilsstaða 5 sinnum í viku, ökutækið eyðir 0,5 l á kílómetrann, og þarft að borga 35 kr. aukalega á hvern kílómeter.
sem gera ca. 110 kr á kílómeter.

Unknown sagði...

Óboj Dáni. Og ég sem hélt þeir væru að mótmæla bensínverði af því fréttirnar sögðu það. Þá eru þeir að reyna að komast undan sameiginlegum öryggisreglum Evrópusambandsins, með því að beita almenning ofbeldi, af því það er ekkert grín að reka trukk. Eins og það er ekkert grín að reka sjoppu, banka eða blaðaútgáfu í dag. Ég sé ekki annað en málstaðurinn versni við þessa upplýsingu. En hafðu þökk fyrir Dáni.

Sverrir sagði...

Alveg er ég sammála því að þetta er bull en þó á aðeins öðrum forsendum. Almennt eru þessir bílstjórar að mótmæla sínum eigin viðskiptamistökum og vanþekkingu í samningagerð. Í fyrsta lagi væri hægðarleikur fyrir þá að hafa inni olíuverðstengdan kostnaðarlið í verksamningum. Í öðru lagi segir þessi hvíldartími í raun til um hámarks vinnutíma á viku. Er það eitthvað öðruvísi en hjá öðrum? Það er amk enginn með meira en 168 tíma vinnuviku. Af hverju ekki að verðleggja vinnustundirnar hærra í stað þess að vilja sífellt vinna meira? Auðvitað verður ríkið að standa við sinn hluta samkomulagsins við gerð hvíldarstaða en það er fráleitt að hér séu einhverjar sérstakar aðstæður t.d. vegna langra ferða og þröngra vega. Ferðin frá Mílanó til London (algeng flutningsleið) er mjög löng, teppt og víða þröngir vegir.

Nafnlaus sagði...

sverrir það er ekki rétt hjá þér, þessi hvíldartími segir ekki bara til um það hvað þeir meiga vinna í viku. Bílstjórar mega bara keyra í einhverja 3-4 tíma og þurfa svo að taka sér 45 mínútna kvíld. Ökuritinn sér síðan hvort hann hafi tekið sína pásu eða ekki og ef þeir taka ekki þessa 45 mínútna pásu sína þá fá þeir sekt og punkt í ökuferilsskrá. Það er engin aðstaða fyrir þessa menn ef þeir eru að keyra á landsbyggðinni til að stoppa. Síðan er það með vörubílstjóra í vegavinnu, þeir mega ekki keyra nema 8 tíma á dag og ekki nema 6 daga vikunnar. Þó þeir séu á lokuðu vinnusvæði. Kannski er það pínu hart að loka vegum. en það er ekki mitt að segja hvort það sé rétt eða rangt.

til Sverris. Það eru engar reglur til sem segja um hvað hinn vinnandi maður megi vinna lengi. En ef hann fær minni en 11 tíma hvíld þá á hann rétt að fá að taka þann tíma út sem frí daginn eftir eða fá borgað yfirvinnukaup daginn eftir.