sunnudagur, 30. mars 2008

Byr fleginn á Barnalandi

Þær hafa flestar munninn fyrir neðan nefið stelpurnar á Barnalandi sem núna heitir er.is. Í dag hafa komið til umræðu ofsóknir sparisjóðsins Byrs gegn konum.

Bregður þá svo við að mannauðsstjóri Byrs tekur til varna með fullu samþykki yfirmanna sinna að því er hún segir.
Skemmst er frá því að greina að mannauðsstjórinn (hver býr til svona orð) fer frekar halloka í viðureign sinni við Barnalandskellur.

Eftir að mannauðsstjórinn hefur vikið sé undan að svara hver er meðalaldur kvennanna sem sagt var upp og hve mörgum karlmönnum hefur verið sagt upp á sama tíma gefur ein barnalandsstúlkan út þennan dóm:

Þær spurningar sem ég spurði þig eru mjög almennar. Það eina sem þú vilt tjá þig um hérna er hvað þið eruð í rauninni góð.

Ef þið væruð svona "góð" þá gætirðu hæglega svarað spurningunum mínum. Ég var ekki að biðja um neinar trúnaðarupplýsingar heldur almennar upplýsingar. Ástæðan fyrir því að þú vilt ekki svara þessu er af því að það kemur illa út fyrir ykkur.

Mér fannst þetta lélegt hjá ykkur en eftir að hafa lesið þín svör hérna þá finnst mér þetta skítlélegt hjá ykkur.

Ég get lofað þér því að ég mun aldrei og þá meina ég aldrei stunda viðskipti við ykkur og ég vona að fólk sýni samstöðu gegn svona vinnubrögðum með því að færa viðskipti sín annað.

Skrifin um Byr hafa staðið á Barnalandi síðan klukkan tvö í dag og innleggin eru komin vel á annað hundraðið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var að hugsa um að færa viðskipti mín og fyrirtækisins yfir til Byrs en ég er hættur við.