þriðjudagur, 27. janúar 2009

Spilling, subbuskapur og svínarí


Þetta voru hræðilegar upplýsingar sem fyrrverandi Kompásfréttamaður lét þjóðinni í té í Kastljósi áðan. Á þriðja hundrað miljarða voru lánaðar út úr Kaupþingi rétt fyrir hrun bankans til góðvinar Kaupþingsmanna, fyrrverandi viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs og eiganda viðskiptaveldis sem var á fallandi fæti.


Á þriðja hundrað miljarða voru lánaðar þessum enska stjórnarmanni í Exista með litlum eða engum veðum og allt vistað á bankareikningum í skattaparadísum í einhverjum suðurhafseyjum.

Lánin voru á fárra vitorði en þó borin undir lánanefnd stjórnar.

Af þessu tilefni vil ég rifja upp þetta úr bloggi mínu fyrir þremur dögum um væntanlegan Fjárfestingarsjóð Íslands:

“75 miljarðar af eigum lífeyrissjóðanna – og þeir þurfa allir að skuldbinda sig til þátttöku – eiga að renna í þennan sjóð sem sérstaklega á “...að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett…”

Þetta eru eru lífeyrissjóðir landsmanna að bralla, með fulltingi verkalýðsforystunnar, sjóðirnir sem ekki mega við því að verðtrygging lána verði fryst því þá skaðast niðurstöðutölur efnahagsreikninga. Sjóðirnir sem ekki þola að vísitölubindingin verði stöðvuð um nokkra hríð eiga nú sjötíu og fimm miljarða fyrir fjárhagslega illa sett fyrirtæki….

…ASÍ, sem er að dikta þetta fjárhættuspil upp með atvinnurekendum, hefur Gunnar Pál Pálsson í sinni miðstjórn. Við eigum að treysta þessu fólki sem setti Gunnar sem formann VR inn í stjórn Kaupþings, þar sem staðið var að hverjum siðlausum gjörningnum á fætur öðrum. Getur ekki bróðir emírsins af Katar bara aðstoðað illa sett fyrirtæki á Íslandi?”

Ég veit ekki hve lengi fréttir af spillingu, subbuskap og svínaríi geta versnað. En hitt veit ég að ef verkalýðsfélögin reka ekki Gunnar Pál af höndum sér eru þau að heykjast á nauðsynlegri tiltekt og hreingerningu, sem er sama athæfi og varð ríkisstjórninni að falli.


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þvílíkt og annað eins.
Ætlar ósköpunum aldrei að linna.

Hver trúir því að þessi vinur hafi fengið þetta fé að láni?

Var hann ekki bara frontman í peningaþvætti?

Var þetta ekki bara leið íslenskra auðmanna til að ná peningum úr landi?

Hörður J. Oddfríðarson sagði...

Sammála þér nafni. Það er kominn tími til að setja glæpahyskið út úr lífeyrissjóðunum. Það er löngu ljóst að Gunnar Páll og hans nótar hafa ekki valið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna þegar þeir hafa veirð að leika sér með stóru strákunum í stjórnum fyrirtækjanna.

Nafnlaus sagði...

Það er náttúrulega alveg út úr kú að fulltrúar SA skuli sitja í stjórnum lífeyirssjóðanna og hafa þar alltaf jafn marga fulltrúa og launþegar, sem EIGA sjóðina. Þetta er hluti umsaminna launakjara okkar, verkafólks í landinu. Við erum að láta tiltekinn hluta þeirra í sjóð, til að hafa framfærslu þegar okkur er fleygt út af vinnumarkaðnum. Stjórnarseta fulltrúa SA í sjóðunum er jafn fráleit, eins og að þeir myndu vilja hafa hönd í bagga með hvernig við ráðstöfum launum okkar að öðru leyti. Þeir eru með stjórnarsetum sínum að taka hluta launa okkar til baka með "fjárfestingum" sjóðanna í siðspilltum fyrirtækjum og fjárhættuspili þeirra.