laugardagur, 24. janúar 2009

Fjárfestingasjóður Íslands - HalelújaJæja á að fara að gambla með eigur lífeyrissjóðanna eina ferðina enn.


Það eru að sjálfsögðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sem undir einni sæng eins og elskendur á vornóttu eru að koma undir þessu fyrirbæri: Fjárfestingarsjóður Íslands.

75 miljarðar af eigum lífeyrissjóðanna – og þeir þurfa allir að skuldbinda sig til þátttöku – eiga að renna í þennan sjóð sem sérstaklega á “...að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru fjárhagslega illa sett…”

Þetta eru eru lífeyrissjóðir landsmanna að bralla, með fulltingi verkalýðsforystunnar, sjóðirnir sem ekki mega við því að verðtrygging lána verði fryst því þá skaðast niðurstöðutölur efnahagsreikninga. Sjóðirnir sem ekki þola að vísitölubindingin verði stöðvuð um nokkra hríð eiga nú sjötíu og fimm miljarða fyrir fjárhagslega illa sett fyrirtæki.

Þarna eru lífeyrissjóðir fólksins á sama róli og Illugi Gunnarsson sem vill ekki stjórnarskipti strax því það þarf að huga að hag fyrirtækja.

Má minna þetta lið á að í 17 ár hefur fyrst og fremst og eingöngu verið hugsað um hag fyrirtækja. Það var hugsað svo vel um fyrirtækin og svigrúm þeirra, að þjóðin er að gjaldþrotum komin.

ASÍ, sem er að dikta þetta fjárhættuspil upp með atvinnurekendum, hefur Gunnar Pál Pálsson í sinni miðstjórn. Við eigum að treysta þessu fólki sem setti Gunnar sem formann VR inn í stjórn Kaupþings, þar sem staðið var að hverjum siðlausum gjörningnum á fætur öðrum. Getur ekki bróðir emírsins af Katar bara aðstoðað illa sett fyrirtæki á Íslandi?

Hvernig væri nú að hætta að aðstoða fyrirtæki og leggja fólki lið?

Hvernig væri að færa auðlindir þjóðarinnar til fólksins?

Fólk fer kannski þangað þar sem er betra að vera ef illa sett fyrirtæki rúlla, en ef auðlindir landsins verða færðar til fólksins, þá kemur fólkið aftur til landsins.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hrikalegt ef satt reynist,ef setja á líeyrissparnað almennings í hendurnar á mafíum einsog samtökum atvinnulífsins sem er undir stjórn vilhjálms egilssonar sem hefur nú ekki beint verið talinn besti vinur litla mannsins,og margoft sýnt sig að hann kann ekkert með annara manna fé að fara.guð hjálpi lífeyrisþegum landsins.

Unknown sagði...

Efið er ekki til staðar nafnlaus. Þetta er rétt, það er bæði linkað í frétt fra SA í blogginu og það var búinn til lagalegur grundvöllur fyrir þetta á Alþingi í árslok.