þriðjudagur, 13. janúar 2009

Geðveik kona, gáfuleg forysta og ráðalausir ráðherrarÉg ákvað að far í Bónus í snjókomunni eftir vinnu og kaupa í matinn áður en ég færi á kynningarfund hjá Kennarasambandinu um hlutverk þess í kreppu.


Þegar ég stóð sjö þúsund krónum fátækari fyrir utan bílinn og var að stinga þessum tveimur innkaupapokum í aftursætið stöðvaði kona um sextugt fyrir framan mig og hvæsti á mig.

“Ég fer ekki í Bónus” og svo hélt hún áfram í gargandi raddstyrk “Réttarholtsgengið sem var hér brjótandi rúður er allt þarna inni” og skömmu síðar með meðaumkun í röddinni “Það er ekki nema von að greyið hann Jón Ásgeir sé að verða gjaldþrota, undirheimarnir grafa undan honum”

Ég horfði í forundran á konuna sem hélt á troðnum innkaupapoka úr Bónus. Hún strunsaði burt og ég hugsaði með mér að þetta hefði Fía í sveitinni kallað undurfurðulegt.

Undrin og furðurnar voru hinsvegar á fimmtíu manna fundi Kennarasambands Íslands. Þar var drjúgur tími tekinn í að skýra út fyrir fundarmönnum hvað kreppa er með barnasögu um Grýlu og Kreppu. Fundarmönnum var sagt að verðbólga hefði áhrif á verðtryggingu með þeim hætti að hækka lánin þeirra. Ég er mjög þakklátur fyrir þessar upplýsingar – ég hef nefnilega alltaf verið hálfviti.

Þetta samband verkalýðsfélaga kennara er skoðanalaust, það er ekki í menningu þess að hafa skoðanir sögðu þau.

Að vísu var fróðlegt að heyra frásögn af upplifunum forystunnar af fundum í ráðherrabústaðnum helgina fyrir bankahrun. Kjökrandi og ráðalausir stjórnarherrar virtust gjörsamlega búnir að missa tökin og vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Þessu hafa verkalýðsfélögin þagað yfir fram að þessu en Kennarasambandið fór strax í kjölfarið í samráð við ASÍ, sem er í allt annarri stöðu með félagsmenn á vinnumarkaði, um að semja um ekki neitt í kjarasamningum til tveggja ára.

Kannski var geðveika konan fyrir utan Bónus ekki geðveik, kannski er tilveran öll rugluð en ekki hún.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að kennaraforystan sé einhver máttlausasta og skrítnasta forysta sem fyrirfinnst hér á landi og þó miklu víðar væri leitað. Sorry þín vegna ef þú ert kennari. Og svo sannarlega Sorry fyrir menntun barna okkar og velferðar.

pjotr sagði...

Ég efast nú um að "klikkunin" sé vart meiri hjá kennarasambandinu en VR. Var í því félagi í áratugi og hef ekki beðið þess bætur enn.
Ég hef lengi verið þeirra skoðunnar að "geðveikur" maður, sem ætti að vista á viðeigandi stofnun, hafi stjórnað þessu samfélagi, leynt og ljóst, um langt skeið. Nú virðist sem þessi "geðveiki" sé smtandi og í stað þess að kalla menn inn á teppið, sé bara hringt og varað við, svo eitthvað sé nefnt. Hef sagt það áður og segi það enn; samstarf við Sjálfstæðisflokkinn kallar allt það versta fram í Samfylkingunni. - GEÐVEIKT :)