fimmtudagur, 22. janúar 2009

Félagsleg hugsun forsætisráðherra



Geir Haarde opinberaði með fáheyrðum hætti félagslega hugsun sína í Íslandi í dag, í gær. Þulan spurði Geir hvort ekki væri rétt að fella niður hluta af skuldum heimilanna.


Og Geir svaraði með annarri spurning; Hvað á þá að gera fyrir þá sem ekkert skulda?

Með þessu gefur forsætisráðherrann í skyn að óréttlæti felist í því að aðstoða fólk sem er að missa heimili sín. Hægt væri að segja að þetta sé arfavitlaus afstaða en við svari Geirs eru til tvö málefnaleg svör.

Í öðru lagi má benda á að félagslegar aðgerðir mismuna alltaf fólki. Þannig er það að þegar fólk missir vinnuna þá fær það bætur vegna atvinnuleysis en þeir sem halda sinni vinnu fá engar bætur en þurfa þó að púla allan daginn. Þetta er mismunun en ekki óréttlátt. Þetta er einkenni samfélaga – þegar fólk vinnur saman að einhverju leggur það hvort öðru lið.

En í fyrsta lagi má benda á að ríkisstjórnin hefur þegar staðið að ranglátri og mismunandi aðgerð sem á enga sína líka í seinni tíð.

Þegar bankahrunið varð ákvað hún að greiða út allar innistæður Íslendinga í íslenskum bönkum.

Þessi ákvörðun hafði ekki bara þá afleiðingu að þjóðin þarf nú að taka á sig gríðarlegar álögur vegna innistæðna erlendra borgara í íslenskum bönkum erlendis, því stjórnvöld mega ekki mismuna borgurum evrópska efnahagssvæðisins, hún var líka óréttlát gagnvart skuldurum.

Ríkisstjórnin ákvað að verja allar innistæður sama hversu háar þær voru. Hafi Hannes Smárason átt 30 miljarða í íslenskum banka fékk hann þá greidda út. Í stað þess að láta það þak sem var fyrir í lögum halda og aðstoða einstaklinga félagslega með sérlögum sem fóru illa út úr hruni bankana – kaus ríkisstjórnin að tryggja fjármagnseigendur alla.

Ríkisstjórn Geirs hefur því þegar aðstoðað þá sem áttu peninga. Hún fór inn í eignasafnið en vill ekki nálægt skuldasafninu koma, það er óréttlæti. Þeir sem skulda eru nú að missa heimili sín. Þannig er félagshyggja þessarar ríkisstjórnar og þessvegna verður hún að fara. Hún skilur ekki hlutverk sitt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr. Þetta er málið í hnotskurn ! Það er ekki flóknara en það.
Hallgrímur Gröndal

Björn Jónasson sagði...

Vel framsett. Í stjórnmálin með þig.

Unknown sagði...

Mjög góður punktur og ekki má gleyma því að þeir sem ekkert skulda er fólk sem gat keypt húsnæði á verði sem ekki jaðraði við geðveiki.
Miklir skuldarar eru gjarnan hálfri kynslóð yngri, þurftu (og fengu) mikið fé að láni, til að kaupa fáránlega dýrar íbúðir (án þess að verið sé að tala um íburð). Samt "borgaði þetta sig" þar sem afborgun lána var lægri en leiga fyrir samsvarandi húsnæði. Á að láta fólk þetta fólk gjalda sérstaklega fyrir ástandið? Það var hvorteð er leiksoppar þessa fáránlega kerfis sem stjórnvöld bjuggu til.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill og ég er sammála þér.
Soffía.